Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 febrúar 2003

Árásir á Halldór - skítabrögð á þingi
Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með umræðum á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna fyrrv. forstjóra Landssímans. Þar felldi Halldór Blöndal forseti Alþingis, úrskurð sinn vegna kröfu þingmanna Samfylkingarinnar um að fá aðgang að skýrslunni eftir að stjórn fyrirtækisins hafði hafnað því. Úrskurður forseta var byggður á álit Stefáns Más Stefánssonar lögmanns, og því farið eftir lögfræðilegum forsendum. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa hinsvegar ítrekað ráðist að forseta vegna þessa máls og látið hörð orð falla. Er vægt til orða tekið að segja að hér sé um algjöra skítmennsku að ræða hjá þingmönnum þessa flokks og ekki þeim til sóma að ráðast að forseta þingsins með þessum hætti. Í dag tjáði Davíð Oddsson forsætisráðherra, að einsdæmi væri að ráðist væri með svo ómerkilegum hætti að forseta þjóðþings. Eru það orð að sönnu, þess eru fá fordæmi að forseti þjóðþings í lýðræðisríki þurfi að sitja undir slíku skítkasti og ómerkilegheitum. Af þessu öllu er mikill kosningafnykur og ljóst að þingmenn þessa auma flokks ætla að reyna að slá sig til riddara með þessum ómerkingshætti, vonandi er að þeim verði ekki kápan úr því klæðinu.

Fyrirspurn til borgarstjóra - mikilvægt að kanna fjármál RVK
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu á borgarráðsfundi í dag fram fyrirspurn til Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, um það hvort hann ætli að óska eftir úttekt á því hvað hafi valdið mikilli skuldaaukningu hjá Reykjavíkurborg, og hvort hann hyggist beita fyrir sér að snúa af þessari braut skuldaaukningar. Eins og fram hefur komið ítarlega í fjölmiðlum eftir blaðamannafund borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafa hreinar skuldir borgarinnar 11-faldast í stjórnartíð núverandi meirihluta. Þeir benda á að útkomuspá fyrir nýliðið ár geri ráð fyrir tæplega 10 miljarða króna meiri skuldum borgarinnar en stefnt var að í fjárhagsáætlun. Því er mikilvægt að vita hvort Þórólfur ætli sér að grípa í taumana svo þessi þróun haldi ekki áfram. Það er krafa sjálfstæðismanna að gerð sé úttekt á þróun fjármála Reykjavíkurborgar í borgarstjóratíð forvera Þórólfs. Það sé réttasta leiðin til hjálpa honum að horfast í augu við hina ótrúlegu skuldasöfnun borgarinnar undir forystu ISG sem lofaði borgarbúum 1994 að skuldir Reykjavíkurborgar yrðu lækkaðar undir hennar forystu. Það er óskandi að borgarstjóri verði við þessari kröfu.