Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 janúar 2003

Ný kjördæmaskipan - spennandi þingkosningar
Framundan eru sögulegar kosningar til Alþingis. Laugardaginn 10. maí 2003 verður í fyrsta skipti kosið eftir kjördæmaskipan þeirri sem samþykkt var á Alþingi árið 2000. Kjördæmin verða sex í stað þeirra átta sem kosið hefur verið í allt frá árinu 1959. Ég fer yfir breytingarnar í ítarlegum pistli á heimasíðu Heimdallar í dag. Eftir að hafa kynnt sér þetta ítarlega, allar breytingar og uppstokkun sem fylgir kjördæmalögunum nýju er alveg ljóst að komandi þingkosningar verða gríðarlega spennandi, enda verið að kjósa í nýjum kjördæmum og við blasa breyttar forsendur um allt land. Verður athyglisvert að fylgjast með því hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á fylgi flokkanna á landsvísu, hvort kvenþingmönnum muni fjölga og einnig verður mjög fróðlegt hversu lengi þessi kjördæmaskipan endist og hvort hún muni verða jafnlengi við lýði og hin fyrri. Þetta verða semsagt athyglisverðar kosningar og ekkert gefið í komandi slag. Við tekur spennandi kosningabarátta í nýjum kjördæmum.

Þingkosningar í Ísrael
Í dag ganga Ísraelar að kjörborðinu og bendir flest til þess að kjörsókn verði dræm. Alls eru það 4,7 milljón Ísraela sem hafa kosningarétt, 27 flokkar bjóða fram í kosningunum. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, og Likudflokkurinn munu vinna stórsigur í kosningunum ef marka má seinustu skoðanakannanirnar sem birtar voru í gær. Samkvæmt þeim mun Likudflokkurinn fá 32 til 33 þingsæti, Verkamannaflokkurinn 18 til 19 þingsæti og miðjuflokkurinn Shinui 15 til 16 þingsæti. Sharon gæti því í raun átt völ á að mynda stjórn með 65 til 68 sæta meirihluta með flokkum harðlínumanna og trúaðra annars vegar eða Verkamannaflokknum og Shinui hinsvegar falli Verkamannaflokkurinn frá heiti sínu um að ganga ekki til liðs við Sharon eftir kosningarnar. Þrátt fyrir að kannanir bendi til stórsigurs forsætisráðherrans óttast margir stuðningsmenn hann að sigurinn verði mun minni en útlit er fyrir þar sem góð staða í skoðanakönnunum muni draga úr kosningaþáttöku stuðningsmanna hans. Eins og fyrr segir er raunin sú að lítil kosningaþátttaka er staðreynd og því gæti allt gerst. Útgönguspár verða birtar þegar kjörstöðum lokar klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma. Gert er ráð fyrir að allar meginlínur verði skýrar í nótt eða í fyrramálið.