Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 febrúar 2003

Deiglan 5 ára - stjórnmálamaður ársins 2002 valinn
Sl. laugardag var haldið upp á 5 ára afmæli vefritsins Deiglunnar í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík. Var þar mikið fjölmenni samankomið til að fagna afmæli vefsíðunnar, og leit ég í veisluna eftir forystumannaráðstefnu SUS. Heiðursgestur var Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, en hann varð eins og kunnugt er sextugur á dögunum. Hélt ráðherra ítarlega og góða ræðu og talaði um fjölmiðlun á Netinu og mikilvægi þess og jafnframt öra þróun netskrifa um pólitík á seinustu árum á ýmsum vefsíðum tengdum ólíkum stjórnmálaskoðunum. Að lokinni ræðu ráðherrans flutti Egill Helgason sjónvarpsmaður, ávarp um síðuna og gildi hennar í þjóðfélagsumræðunni seinustu 5 árin. Eins og flestum er kunnugt er Egill einn af brautryðjendum spjallþátta um pólitík eins og við þekkjum þá nú í dag og þáttur hans Silfur Egils, mikilvægur punktur í umræðunni. Að þessu loknu var tilkynnt um val á stjórnmálamanni ársins 2002 og varð Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fyrir valinu. Hann sneri aftur á vettvang sveitarstjórnarmála á síðasta ári er hann tók við leiðtogastól Sjálfstæðisflokksins í bænum af Ellert Eiríkssyni og vann afgerandi sigur eftir að hafa tvívegis beðið ósigur í borgarstjórnarkosningum, fyrir hinni ómálefnalegu Ingibjörgu Sólrúnu. Átti Árni skilið sigurinn í fyrra og ekki síður þessa útnefningu Deiglumanna. Að þessu loknu var boðið upp á veitingar og spjallað saman og er óhætt að segja að pólitík hafi þar verið ofarlega á baugi.

Samfylkingin bakkar í Evrópumálum í kjölfar kannana
Í morgun voru Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson, gestir Jóhönnu og Þórhalls í Íslandi í bítið og þar var farið yfir pólitísk mál seinustu vikna. Í kjölfar kostulegrar Evrópukosningar innan flokksins kom formaður Samfylkingarinnar fram og sagði að þar færi eitt af stærstu kosningamálum 2003; semsagt Evrópumálin. Í morgun bar svo við að sami leiðtogi hefur snúist einn hring í viðbót kringum sjálfan sig, eða svo sýnist mér. Nema hann hafi farið öfugum megin framúr rúminu sínu í morgunsárið. Þá sagði formaðurinn að hann hefði ekki lagt þunga áherslu á vilja sinn til að Ísland gangi inn í Evrópusambandið. Það er alveg greinilegt að hann er annaðhvort minnislaus orðinn maðurinn eða hefur ekki heyrt eins vel frá sjálfum sér og við sem fylgjumst með pólitíkinni allajafnan. Í morgun sagði hann uppúr þurru að Evrópumálin yrðu ekki eitt af höfuð kosningamálunum. Hann telur þetta ekki verða eitt af höfuð kosningamálunum. Þá er sennilega von að einhver með vit í kollinum spyrji sjálfan; hvernig stóð eiginlega á því að Samfylkingin hélt risastóra póstkosningu um málið innan sinna raða fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan og voru í kjölfarið með gapandi munninn í sjónvarpsþáttum og fréttum næstu vikur á eftir að reyna að breiða út þann fagnaðarboðskap sinn að Íslendingar gengju Evrópusambandinu á hönd og predikuðu þessa stórkostlegu niðurstöðu sem kom fram í kosningunni. Formaður Samfylkingarinnar hefur aldrei þótt trúverðugur pólitíkus og því kannski engin frétt að hann snúist enn einn hring. Það skyldi þó ekki vera að Skoðanakannafylkingin láti stjórnast af nýjustu skoðanakönnunum sem sýna lítinn stuðning við ESB-aðild Íslendinga. Það kæmi ekki á óvart, enda forystan oft búin að segja að stefna flokksins yrði mótuð af skoðanakönnunum. Þetta er gleggsta dæmi þess. Fjalla betur um þetta í pistli á heimasíðu Stefnis í dag.