Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 febrúar 2003

Forystumannaráðstefna SUS 2003 í dag
Í dag, kl. 13:00, verður í Valhöll, forystumannaráðstefna SUS 2003. Kosningabaráttan vegna komandi alþingiskosninga, laugardaginn 10. maí 2003, er að hefjast af fullum krafti og því mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn hittist og ræði málin í upphafi baráttunnar og stilli saman strengi sína. Vönduð dagskrá er á ráðstefnunni og margar athyglisverð erindi og góðir ræðumenn. Eftir setningu Ingva Hrafns Óskarssonar formanns SUS, mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður, fjalla um Íslenska stjórnsýslu. Haraldur Johannessen hagfræðingur, talar um efnahagsmál. Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ, flytur erindi um menntamál, og Ásta Möller alþingismaður, um heilbrigðismál. Sigurður Kári Kristjánsson verðandi alþingismaður, fjallar um Ísland og Evrópusambandið. Að lokum mun Hafsteinn Þór Hauksson 1. varaformaður SUS fjalla um störf nefndar innan flokksins um alþingiskosningarnar í vor og áherslur ungra sjálfstæðismanna vegna þeirra. Að því loknu má búast við miklu spjalli um komandi kosningabaráttu og rætt um það sem hæst ber. Um kvöldið býður Heimdallur svo í fagnað. Framundan er skemmtileg ráðstefna og skemmtilegar pælingar um kosningabaráttuna framundan. Að sjálfsögðu skelli ég mér á ráðstefnuna og flýg með tíuvélinni suður í dag.

Umfjöllun um bloggara í Fréttablaðinu
Í dag birtist í Fréttablaðinu umfjöllun um bloggara og bloggmenninguna sem grasserar nú um stundir. Er ég einn af fimm bloggurum sem segja frá sinni hlið á þessu og áhugamálum sem fram koma í skrifunum. Eins og gestir síðunnar taka eftir eru stjórnmál veigamikill þáttur skrifa minna hér, enda hef ég mikinn áhuga á þeim. Einnig skrifa ég oft um kvikmyndir og svo fljóta inn á milli daglegar pælingar. Aðallega eru þetta þó stjórnmálaskoðanir mínar sem birtast hér. Frá því ég byrjaði að pára þetta í október 2002, hef ég fengið marga pósta og spjalla við marga sem fylgjast með þessum skrifum. Er gríðarlega gaman að því, enda alltaf áhugavert að skiptast á skoðunum við annað fólk. Tók þá ákvörðun í upphafi að kalla þetta Pælingar Stebba svona til að undirstrika að ég hér væru léttar pælingar um allt mögulegt og skoðanir settar fram af miklum krafti. Greinilegt að einhverjir hafa á þessu áhuga, enda hefur fjöldi heimsókna aukist mjög og gaman að sjá teljarann staðfesta það að fylgst er með þessu. Var í fyrstu ekkert alltof hrifinn af þessu tjáningarformi og þrjóskaðist lengi vel við að byrja, þó margir þeirra sem ég þekki hefðu byrjað og hvatt mig til að byrja á þessu. Byrjaði svo í október og síðan er ég "óstöðvandi", eins og einn félagi minn sagði. Ætla að halda þessu áfram og hlakka til að tjá mig hérna í kosningabaráttunni, sem verður lífleg ef fram fer sem horfir. Það var gaman að tjá sig um bloggskrifin þegar eftir því var leitað og skemmtilegt að vera í þessum góða hópi eðalbloggara sem þar tjáir sig.