Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 febrúar 2003

Málefnasnauð Samfylking - Gróa á Leiti mætt til leiks
Eins og flestir vita er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, aftur komin á vettvang landsmálanna, eftir níu ára fjarveru. Hún hélt fyrstu alvöru ræðu sína sem forystuefni jafnaðarmanna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Borgarnesi, 9. febrúar sl. Bjuggust margir við að þar færi hún yfir helstu málefni flokksins og sín sem leiðtoga í komandi kosningabaráttu. Hætt er við að þeim sem áttu von á ítarlegri ræðu um stefnu flokksins og framtíðarsýn hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Hvergi er hægt að sjá í ræðunni að leiðtogaefni Samfylkingarinnar hafi málefnalega víðsýni eða ætli að vera boðberi einhverra sérstaka málefna í baráttunni. Ræða hennar einkenndist í senn af rakalausum dylgjum og gróusögum sem settar voru fram til að koma því inn hjá þjóðinni að stjórnvöld væru gerspillt og þau færu illa með vald sitt. Var einkennilegt að forystumanneskja í pólitík mætti í landsmálin stefnulaus og greinilega full af persónulegu hatri í garð forsætisráðherrans. Það er greinilegt að prímus mótor hennar í baráttunni mun vera andstyggð hennar á Sjálfstæðisflokknum og leiðtoga hans. Samfylkingin stendur enda mjög veikum fótum málefnalega séð og hefur engin málefni til að kynda kosningavél sína áfram. Þar er hræðsluáróður drifkrafturinn í aðdraganda kosninganna. Þessar ásakanir leiðtogaefnis Samfylkingarinnar eru með öllu órökstuddar og settar fram sem einskonar gróusögur sem almenningur á að taka sem sannleik. Með þessu vegur leiðtogaefnið gróflega að starfsheiðri lögreglumanna og starfsfólks embættis Skattrannsóknarstjóra. Það er með ólíkindum að forystumanneskja í pólitík sem vill láta taka sig alvarlega mæti á vettvang landsmála með gróusögur sem helsta bakgrunn boðskaps síns. Eðlilegra hefði verið að hún hefði tilkynnt þjóðinni áherslur sínar og stefnu í komandi kosningum og opnað hið fræga Pandórubox sitt. Það er helst hægt að skilja á ræðu hennar í Borgarnesi að málefnaleg staða hennar sé mjög veik og þar séu engin málefni til að tala um. Það er kannski skiljanlegt ef litið er á stöðu mála. Það eru engar forsendur fyrir breytingum. Hverjum myndi detta í hug að skipta út skipstjóra sem hefði verið fengsælli en nokkur annar á miðunum í 12 ár bara vegna þess að það þurfi að breyta. Sennilega engum heilvita manni. Fjalla ítarlega um þetta í pistli á heimasíðu Heimdallar í dag.

Góðir pistlar á frelsi.is
Í vikunni hafa birst á frelsi.is margir góðir pistlar. Í byrjun vikunnar fjölluðu Ragnar og Hafsteinn Þór um valkostina í komandi kosningum í ítarlegri grein sem ég hef áður fjallað um hér. Á þriðjudag fjallaði frændi minn, Atli Rafn Björnsson gjaldkeri Heimdallar um skattalækkunarhugmyndir forsætisráðherra og varaði við að menn kysu yfir sig skattahækkunardrottninguna Ingibjörgu Sólrúnu. Á miðvikudaginn fjallaði Kristinn Már Ársælsson um traust á stjórnmálamönnum og spurði einfaldlega; Hverjum getum við treyst? Í gær var svo Þorbjörn Þórðarson stjórnarmaður í Heimdalli með góða grein um kenningar Person, Tabellini og fleiri manna um það hversu skynsamir kjósendur séu og að þeir telji sig geta séð fyrir efnahagsstefnu stjórnvalda og þróun helstu efnahagsstærða. Bendir Tobbi réttilega á að sú útkoma myndi verða okkur hægrimönnum mjög til góða við þessar kosningar. Nú þegar tæpir þrír mánuðir eru til kosninga er ljóst að við sem skrifum á frelsinu erum farin að búa okkur undir beitta kosningabaráttu og spennandi. Það er greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og munum verða virk í komandi átökum.