Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 janúar 2003

Rúrik Haraldsson látinn - in memoriam
Einn af svipmestu leikurum Íslendinga á 20. öld er fallinn frá. Rúrik Haraldsson er látinn 77 ára að aldri. Rúrik var einn af risunum í íslensku leikhúslifi og verður minnst fyrir túlkun sína á sterkum og svipmiklum karakterum. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja árið 1945 og stundaði nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1945 til 1946 og nám við Central School of Dramatic Art and Speech Training at Albert Hall í Lundúnum árin 1947 til 1950. Rúrik lék fjölda hlutverka á sviði og einnig í fjölmörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann fékk m.a. menningarverðlaun Þjóðleikhússins 1960 og 1968 og listamannalaun Menningarsjóðs 1960. Þá hlaut hann Silfurlampann, verðlaun Félags íslenskra leikdómara, fyrir aðalhlutverkið í leikritinu Gjaldið eftir Arthur Miller árið 1970. Hann fékk heiðurslaun listamanna, skv. ákvörðun Alþingis, frá árinu 2001. Síðasta hlutverk hans var í kvikmyndinni Stella í framboði þar sem hann lék Leó Löve. Eftirminnilegar eru t.d. frammistöður hans í kvikmyndunum Börn náttúrunnar, Ungfrúin góða og húsið, Kristnihald undir jökli, Bíódagar, Karlakórinn Hekla, Regína og sjónvarpsmyndum Steinbarn, Sigla himinfley, Uppreisn á Ísafirði, Nonni og Manni, Draugasaga. Ennfremur má ekki gleyma fjölda leiksigra hans á sviði LR og Þjóðleikhússins. Leikárið 1997-1998 fór Rúrik á kostum í leikriti Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Fjórum hjörtum ásamt félögum sínum þeim Bessa Bjarnasyni, Árna Tryggvasyni og Gunnari Eyjólfssyni og var sýningin færð í sjónvarpsbúning árið 1999. Það var síðasta hlutverk Rúriks á leiksviði. Hann var meistari íslensks leikhúss á seinni hluta 20. aldar og verður minnst fyrir fágaðan leik, hljómfagra rödd og svipmikinn persónuleika.

Fundur um efnahags- og atvinnumál
Í gærkvöldi efndi Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi til fundar um efnahags- og atvinnumál á Hótel KEA . Framsögumenn voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Halldór Blöndal forseti Alþingis og Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri var fundarstjóri. Í grein á heimasíðu flokksins hér í kjördæminu segir Helgi Vilberg ritstjóri, svo frá fundinum. "Fjármálaráðherra gerði í framsöguerindi sínu grein fyrir styrkri stöðu ríkissjóðs og taldi efnahagskerfið vel í stakk búið til að takast á við stór verkefni á borð við Kárahnjúkavirkjun. Með því að búa fyrirtækjum hagstæðara rekstrarumhverfi væri verið að styrkja íslenskt atvinnulíf og örva nýsköpun. Það væri mikilvægt þegar atvinnuleysi mældist um 3%, sem væri meira en Íslendingar sættu sig við. Þrátt fyrir það væri bjart framundan í atvinnu- og efnahagsmálum. Halldór Blöndal kom víða við í erindi sínu. Hann fjallaði um atvinnulíf í Eyjafirði og gerði grein fyrir mikilvægustu atvinnufyrirtækjum svæðisins. Hann lagði áherslu á mikilvægi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Háskólans á Akureyri fyrir framtíðarþróun Eyjafjarðarsvæðisins. Samgöngumál voru honum ofarlega í huga og ræddi hann þau frá mismunandi sjónarhornum. Hann taldi m.a. möguleika á að taka upp áætlunarflug milli Akureyrar og Egilsstaða. Arnbjörg Sveinsdóttir taldi veruleg sóknarfæri vera fyrir fyrirtæki á Akureyri í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir á Austurlandi. Að undanförnu hefði hún átt kost á að heimsækja fyrirtæki hér og kynnast starfsemi þeirra með því að ræða við starfsfólkið. Hún kvaðst fullviss um að áhrifa virkjunarframkvæmdanna mundi gæta hér á þessu svæði. Síðan nefndi hún dæmi um framsýni forsvarsmanna nokkurra norðlenskra fyrirtækja sem þegar hefðu lagt grunn að atvinnustarfsemi fyrir austan."