Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 maí 2003

Baráttukonur á þing
Snarpri kosningabaráttu er að ljúka. Komið er að þeim tímapunkti að fólk gangi að kjörborðinu og velji fulltrúa sína á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabilið. Sjálfstæðisflokkurinn gengur til komandi kosninga stoltur af þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og sannfærður um að ef áfram verður haldið á sömu braut bíði okkar allra enn frekari ávinningur. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þær hafa leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Saman höfum við náð árangri og getum verið bjartsýn á framtíð okkar og Íslands á komandi árum. Varðveitum stöðugleikann á komandi árum. Glutrum ekki árangri undanfarinna ára niður, sköpum ný tækifæri og farsæla framtíð til hagsbóta fyrir alla. Ég hvet kjósendur í Norðausturkjördæmi til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og tryggja með því kjör Arnbjargar Sveinsdóttur og Sigríðar Ingvarsdóttur. Það er mikilvægt að þessar kjarnakonur í baráttusætunum nái kjöri í komandi kosningum. Þær hafa á kjörtímabilinu unnið af krafti að hag almennings í kjördæminu. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til forystu í Norðausturkjördæmi á laugardag tryggjum við að þessar baráttukonur haldi áfram sínum góðu verkum.

Kjósum blátt áfram á laugardaginn. Áfram Ísland!