Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 maí 2003

Vika til kosninga - spennandi barátta
Í dag er vika til alþingiskosninga á Íslandi. Seinustu daga hefur verið mikið líf verið í kosningabaráttunni hér í Norðausturkjördæmi og mikið um að vera. Á þriðjudag var skyrfundur með framhaldsskólanemum þar sem Tómas Ingi og Sigríður ræddu við nemendur og kynntu stefnu okkar og svöruðu þeim spurningum sem nemendur höfðu fram að færa, var sá fundur mjög gagnlegur. Á fimmtudagskvöld stóðum við ungir sjálfstæðismenn hér á Akureyri fyrir stjórnmálaumræðum á Kaffi Akureyri með ungum frambjóðendum, skoruðum þá á hólm. Mættu fulltrúar allra flokka nema Samfylkingarinnar til fundarins, þeir afboðuðu þátttöku sína. Voru þarna Hilmar Gunnlaugsson frá Sjálfstæðisflokknum, Brynjar S. Sigurðsson fyrir Frjálslynda flokkinn, Hlynur Hallsson fyrir VG, Birkir Jón Jónsson fyrir Framsókn og Halldór Brynjar Halldórsson frá Nýju afli. Var þessi fundur langur en gagnlegur og flestir sáttir við hann. Það að Samfylkingin hafi ekki sent fulltrúa af sinni hálfu á fundinn segir meira en mörg orð um unga frambjóðendur á lista þeirra hér. Í gær vorum við svo á fullu að vinna í utankjörfundarkosningunni, en við höfum rætt við nemendur héðan sem eru fyrir sunnan, sjómenn, fólk erlendis og marga fleiri. Framundan er lokaspretturinn, seinasta vikan og mikilvægt að vel verði unnið þá og tryggt að boðskapur okkar fólks nái til kjósenda áður en þeir taka ákvörðun um hverjum skal treysta fyrir stjórnartaumunum næstu 4 árin.