Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 maí 2003

Áfram Ísland - kosningayfirlýsing Sjálfstæðisflokksins 2003
Sjálfstæðisflokkurinn gengur til komandi kosninga stoltur af þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og sannfærður um að ef áfram verður haldið á sömu braut bíði okkar allra enn frekari ávinningur. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þær hafa leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Jafnframt hefur tekist að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugra atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Þannig hefur verið lagður grunnur að betri kjörum aldraðra og öryrkja, jafnframt því sem framlög til heilbrigðismála, menntunar og rannsókna hafa verið aukin. Sameiginlega höfum við Íslendingar náð miklum árangri. Við getum verið bjartsýn á framtíð Íslands og ætlum að skipa því áfram í fremstu röð. Við verðum að gæta þess að glutra ekki niður því sem áunnist hefur heldur halda áfram að skapa ný tækifæri. Í alþingiskosningunum 10. maí leitum við sjálfstæðismenn eftir umboði þínu til að fá að þjóna landi okkar, landi tækifæranna, áfram.