Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 ágúst 2003

Leikstjóraumfjöllun - Frank Capra
Í nýjustu leikstjóraumfjöllun minni á kvikmyndir.com fjalla ég um feril meistarans Frank Capra. Hann fæddist í Bisacquino á Sikiley á Ítalíu, 18. maí 1897, en lést í La Quinta í Kaliforníu, 3. september 1991. Hann varð snemma mikill kvikmyndaaðdáandi og kynntist kvikmyndaheiminum að lokum sem handritshöfundur, kvikmyndaframleiðandi og varð einn af virtustu leikstjórum Bandaríkjanna á 20. öld. Ferill hans er einstakur, hann var meistari í góðri kvikmyndagerð á gullaldarárum Hollywood og sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann yfir 50 kvikmyndum og hlaut óskarinn fyrir leikstjórn þrisvar sinnum á fjórða áratugnum, á fjögurra ára tímabili, sem er einstæður árangur. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á bandaríska kvikmyndagerð - hann var einn af þeim sem gerði Hollywood að því kvikmyndastórveldi sem það er í dag. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

Umfjöllun um ESB og ummæli Fischlers á frelsi.is
Seinustu daga hafa tvær góðar greinar birst á frelsi.is, vef Heimdallar. Á mánudag birtist grein Jóns Hákons Halldórssonar ritstjóra frelsi.is og stjórnarmanns í Heimdalli. Þar fjallar hann um ummæli Franz Fischler á fyrirlestri og fyrirspurnartíma í Háskólanum í Reykjavík fyrir skemmstu en hann kom til landsins á dögunum. Að mati Jóns Hákons er "mikilvægt að talsmenn Evrópusambandsins á Íslandi, hvar í flokki sem þeir standa, gæti raunsæis í umræðu um sambandið og mögulega kosti og galla við inngöngu Íslands í það." Í fréttum Ríkissjónvarpsins hafi verið gerð ítarleg grein fyrir máli Fischlers. Hann hafi sagt að gengju Íslendingar í sambandið, myndu þeir þurfa að semja um fiskveiðimál eins og annað. Ennfremur að útilokað væri að Íslendingar héldu fullum yfirráðum yfir 12 - 200 mílna landhelginni. Í dag ritar svo Heiðrún Lind Marteinsdóttir góða grein um sama fyrirlestur og gerir grein fyrir sinni sýn á þetta og skoðunum sínum. Skemmtilegar greinar, sem allir verða að lesa.