Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 ágúst 2003

Umdeild ráðning hæstaréttardómara
Mikið hefur verið fjallað í gær og í dag um ráðningu á hæstaréttardómara, en fyrir skömmu var auglýst laust til umsóknar sæti Haraldar Henrýssonar í Hæstarétti. 8 sóttu um embættið. Hæstiréttur taldi alla umsækjendur um embætti hæstaréttardómara hæfa. Í gær skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Ólaf Börk Þorvaldsson dómsstjóra á Selfossi, í embættið. Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram óánægja nokkurra umsækjenda, þegar Stöð 2 gefur til kynna, að Ólafur Börkur standi höllum fæti vegna þess að hann sé með 2. einkunn á lagaprófi, þá sleppir fréttamaðurinn að geta þess, að fellt var úr lögum um Hæstarétt, sem gerði ráð fyrir, að dómarar hefðu 1. einkunn. Þá er þess að engu getið að Ólafur Börkur hefur meistarapróf í Evrópurétti frá því í fyrra. Hæstiréttur hefur það hlutverk að segja fyrir um hæfi umsækjenda en á ekki að raða þeim eða binda hendur ráðherra á neinn hátt, allar tilraunir réttarins til þess eru marklausar. Ráðherra hefur í dag tjáð sig ítarlega um málið og fyrir liggur vel hans hlið á því.

Íslendingar sigra Færeyinga
Íslenska landsliðið sigraði það færeyska, 2-1, í fimmta riðli undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld í Þórshöfn í Færeyjum. Eiður Smári Guðjohnsen kom Íslendingum yfir á 5. mínútu leiksins, Rógvi Jacobsen jafnaði á 65. mínútu en Pétur Hafliði Marteinsson skoraði sigurmarkið á 71. mínútu. Með sigrinum skutust Íslendingar í toppsæti riðilsins, eru nú komnir með 12 stig, Þjóðverjar eru með 11 og Skotar í því þriðja með 8 stig. Íslendingar eiga tvo leiki eftir í riðlinum, báða á móti Þjóðverjum. Sigurinn var sætur, enda 3 stig sem koma þarna í pottinn, en framundan erfiðir leikir. Áfram Ísland - áfram strákar!

Ólöf 18 ára
Í dag er systurdóttir mín, Ólöf Kristín Jóhannesdóttir, 18 ára gömul. Óska henni innilega til hamingju með daginn - og það að vera loks orðin sjálfráða.