Anfinn Kallsberg lögmaður Færeyja, afhenti seinnipart vikunnar, forseta lögþings Færeyja bréf þar sem hann biðst lausnar fyrir stjórn sína og boðar til lögþingskosninga 20. janúar nk. Ástæður þess að kosningar eru boðaðar eru að Høgni Hoydal skrifaði Kallsberg bréf fyrir hönd Þjóðveldisflokksins, þar sem segir að Fólkaflokkur Kallsbergs hafi ekki orðið við kröfu sem Þjóðveldisflokkurinn setti fram um að annaðhvort hreinsaði Kallsberg sig af ásökunum um fjármálamisferli, sem fram koma í nýrri bók, eða biðji færeysku þjóðina afsökunar. Er reyndar greinilegt að þjóðveldismenn standa að þessari bók og ýta upp máli sem lauk fyrir mörgum árum. Leiddi þetta allt til þess að flokkur Hoydals taldi sig ekki hafa lengur traust á Kallsberg sem lögmanni. Var það tillaga hans að nýr lögmaður yrði skipaður. Kallsberg brást við bréfinu með því að rjúfa þing og vísa fulltrúum Þjóðveldisflokksins úr landsstjórninni. Að færeysku landsstjórninni standa nú þrír flokkar, Fólkaflokkurinn og tveir smærri flokkar, Miðflokkurinn og Sjálfstýriflokkurinn. Hafa tveir síðastnefndu flokkarnir lýst yfir trausti á lögmanninn og störf hans. Þessi niðurstaða er áfall fyrir færeyska sjálfstæðissinna. Skoðanakannanir í Færeyjum sýna að þeir flokkar sem eru andsnúnir sjálfstæði Færeyja hafa meirihluta ef kosið yrði nú. Óskandi er að Færeyingar kjósi áfram Kallsberg og Fólkaflokkinn til forystu í færeyskum stjórnmálum og standi vörð um baráttu sína fyrir sjálfstæði.


Mögnuð stemmning var í gærkvöldi í Smáralindinni á fyrsta úrslitakvöldi í Idol - stjörnuleit og gaman að fylgjast með þessu. Fram að þessu hefur þetta verið spennandi að fylgjast með, en var enn skemmtilegra og meira gaman að horfa á. Nú er þetta í beinni útsendingu en áberandi hefur verið seinustu vikur að þetta hefur verið tekið upp fyrirfram en úrslitin sýnd hinsvegar beint. Nú er allt dæmið hinsvegar í beinni og verður alla föstudaga fram til 16. janúar er úrslitin verða kynnt formlega. Dómararnir Bubbi, Sigga og Þorvaldur stóðu sig með miklum sóma að vanda. Gestadómari verður framvegis í þáttunum í Smáralindinni. Fyrsti gestadómarinn var Björgvin Halldórsson. Hann þarf vart að kynna enda ein goðsagna íslenskrar tónlistarsögu 20. aldarinnar. Keppendurnir stóðu sig misvel, þótti flestallir komast vel frá sínu. Mér þóttu Anna Katrín, Ardís Ólöf; Karl og Rannveig standa sig áberandi best. Þau Jóhanna Vala og Helgi Rafn stóðu sig afleitlega og áttu bæði skilið að fá að taka pokann sinn. Óskiljanlegt er að Sessý var hinsvegar send heim, en hún átti góða frammistöðu er hún söng Vetrarsólina. Það var með ólíkindum að landsmenn hafi sent hana burt en ekki Helga Rafn sem átti mjög dapra frammistöðu. Verður gaman að fylgjast með þætti nr. 2 úr Smáralindinni eftir viku.

Eftir magnaðan þátt af Idol var haldið á vídeóleiguna og leigt sér spólu. Ákváðum við að taka hina mögnuðu Identity. Þetta er spennutryllir sem kemur verulega á óvart. Bæði traustur og grípandi þriller í senn. Edward (John Cusack) verður fyrir því óhappi að keyra á óvarinn vegfaranda á fáförnum vegi og vegna slæmrar færðar komast þau ekki á sjúkrahús. Eitt óhappið rekur annað, sem leiðir til þess að ferðalöngunum er nauðugur sá kostur að gista á ódýru vegahóteli, þar sem þau hitta aðra seinheppna ferðalanga, sem sitja þar fastir af ýmsum ástæðum. Í kjölfarið fer fjöldamorðingi á kreik og algerlega ómögulegt virðist vera að hafa hendur í hári hans. Hafin er gríðarlega spennandi atburðarás sem brátt snýst um líf eða dauða. Enginn er óhultur. Kvikmynd sem fangar athygli áhorfandans allt frá fyrstu mínútu og heldur henni óskiptri allt þar til yfir lýkur. Segja má að fyrri hlutinn einkennist af svörtum húmor, eftir það tekur spennan yfirhöndina. Endalokin eru algjörlega ófyrirsjáanleg, og erfitt um að spá hver fléttan er fyrr en í blálokin. Hvet alla til að sjá hana. Horfði á þessa góðu mynd í bíó í sumar með vinum mínum, Haffa og Hjölla. Það verður enginn svikinn af þessum magnaða þriller.
Vefur dagsins
Oft kemur fyrir að manni vantar í skyndi símanúmer einhvers þegar þarf að hringja í viðkomandi. Oftar en ekki leita ég þá á simaskra.is. Þar er auðvelt að finna númer þeirra sem ná þarf á. Góður vefur sem ég nota mikið.
Snjallyrði dagsins
Life's a box of chocolates, Forrest. You never know what you're gonna get.
Frú Gump (úr kvikmyndinni Forrest Gump, frá 1994)
<< Heim