Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 janúar 2004

Pétur Blöndal alþingismaðurHeitast í umræðunni
Hart var tekist á, á fundi efnahags og viðskiptanefndar Alþingis í morgun og stóðu umræður um hæfi Péturs Blöndals formanns nefndarinnar, á þriðju klukkustund. Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu í upphafi fundarins fram tillögu um að Pétur væri vanhæfur til að leiða umræðu nefndarinnar um SPRON málið og bæri að víkja á meðan málið væri til afgreiðslu hjá nefndinni. Í tillögu fulltrúa flokksins var vísað til þess að Pétur hefði beina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu málsins. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar felldi tillöguna. Þá var borin upp tillaga þess að leita álits forsætisnefndar þingsins á því hvort tillaga Samfylkingarinnar væri þingleg, hæfi formannsins til að sitja og eða stýra fundum hvað snertir yfirvofandi sölu sparisjóðanna, almennt um hæfi þingmanna og formanna nefnda og afla upplýsinga um hæfisreglur í þjóðþingum nágrannalanda. Tillagan var samþykkt með átta atkvæðum gegn einu. Þessi tillaga Samfylkingarinnar er stórundarleg. Þingsköp gera ráð fyrir því að formaður sitji fundi nefndarinnar hvað sem á bjátar og álit forseta Alþingis á sambærilegu máli árið 1995 staðfestir það. Er ekki hægt að segja annað en tillaga Samfylkingarinnar litist af heift og skítmennsku. Spurning vaknar við þetta hvort þingmenn Samfylkingarinnar ætli að víkja af fundum þegar málefni kjördæma viðkomandi þingmanna í nefndum koma fyrir á fundum þeirra?

Paul O'NeillUndanfarna daga hefur mikil umræða verið um ummæli Pauls O'Neill fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna um ríkisstjórn landsins. Hann var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta, frá embættistöku forsetans 20. janúar 2001 til miðs desember 2002 er hann var látinn fjúka vegna ágreinings hans og forsetans. Í viðtali við 60 mínútur í gær fór O'Neill háðulegum orðum um forsetann. Hann lýsti ríkisstjórnarfundum sem hálf fáránlegum samkomum þar sem forsetinn átti að hafa verið "eins og blindur maður innan um daufdumba ráðherra". Segir hann að forsetinn hvetji hvorki til skoðanaskipta á fundum né að menn tjái sig á hreinskilinn hátt. Innan skamms kemur út bók sem ráðherrann fyrrverandi hefur skrifað um embættisferil sinn í Washington, en hann þjónaði þremur forsetum á undan George W. Bush, þeim Lyndon Johnson, Richard Nixon og Gerald Ford. Er ekki ólíklegt að manni sem hefur verið látinn fjúka vilji ná fram einhverskonar hefndum og telji viðtal og bók gott tilefni til þess. Spurning er hvort það hjálpi viðkomandi eitthvað á eigin vegferð.

Stytta af Hannesi Hafstein ráðherra við StjórnarráðiðGuðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, afhenti í dag Þjóðmenningarhúsinu til varðveislu skrifborð Hannesar Hafsteins fyrsta ráðherra Íslendinga. Það hefur verið í landbúnaðarráðuneytinu í fjölda ára. Þetta markar upphaf hátíðahalda vegna 100 ára afmælis heimastjórnar hér á landi sem er sunnudaginn 1. febrúar nk. Borðið hefur verið varðveitt í ráðuneytinu frá 1927, fimm árum eftir lát Hannesar. Það var lengi skrifborð ráðuneytisstjóra ráðuneytisins, þeirra Gunnlaugs E. Briem og Sveinbjörns Dagfinnssonar. Hætt var að nota borðið við dagleg störf er landbúnaðarráðuneytið flutti á Rauðarárstíg árið 1986. Halldór Blöndal forseti Alþingis, notaði borðið í landbúnaðarráðherratíð sinni 1991-1995 en síðan var því búinn heiðursstaður við skrifstofu ráðherra. Skrifborð Hannesar Hafsteins hefur verið á þjóðminjaskrá um nærri tveggja áratuga skeið.

Kiddi og Stebbi Fr.Svona er frelsið í dag
Í dag birtist fyrsti hluti umfjöllunar minnar og Kidda um nefndafargan ríkisvaldsins. Ákváðum við að taka fyrir þetta efni og fara vel yfir þetta allt saman í nokkrum pistlum. 1. pistillinn fjallar um málið almenns eðlis og yfirferð yfir kerfið og nefndir. Orðrétt segir: "Ríkisvaldið starfrækir um 853 nefndir, ráð og starfshópa (ef miðað er við skráningu á heimasíðum ráðuneytanna). Þegar undirritaðir spurðust fyrir um kostnað einstakra ráðuneyta vegna starfrækslu allra þessara nefnda kom í ljós að litlar sem engar upplýsingar liggja fyrir um þann kostnað. Ennfremur virðast ekki liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um störf þessara nefnda, meðal annars um hvort þær séu allar starfandi eður ei. Þessi ótrúlegi fjöldi nefnda er enn ein sönnunin fyrir því að ríkisvaldið og afskipti þess hafa sífellda tilhneigingu til þess að aukast. Hin ýmsu verkefni sem ríkisvaldið ákveður að framkvæma virðast beinlínis kalla á umfjöllun í nefnd. Sérstaklega eru það þó vinstrimenn sem heimta að farið sé yfir málin í nefnd. Kemur það síst á óvart í ljósi oftrúar þeirra á skrifræði og tækniræði ríkisvaldsins sem og sífelldrar kröfu þeirra um svokallaða nútímalega og faglega málsmeðferð. Sú meðferð er síst eðlileg." Umfjöllunin heldur áfram á næstu dögum og við Kiddi munum fara ítarlega yfir allt þetta dæmi og eins og okkar er háttur ekki hika við að gagnrýna bæði okkar menn og framsóknarmenn í skrifum um hvert ráðuneyti fyrir sig í nefndadæminu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraDægurmálaspjallið
Gærkvöldið fór í sjónvarpsgláp. Eftir kvöldfréttirnar leit ég á skemmtilegt spjall Kristjáns Kristjánssonar við Arnar Jónsson leikara, þar sem rætt var ítarlega um leiklistina og hálfrar aldar langan leikferil Arnars. Hefur hann leikið með hléum allt frá 10 ára aldri. Leiklistaráhugann hefur hann ekki langt að sækja, enda sonur Jóns Kristinssonar leiklistafrömuðar hér á Akureyri og hefur alla tíð verið áberandi í leiklistarlífi með sinn magnaða norðlenska framburð sem mikinn kost í sviðsleik. Seinnipart kvölds horfði ég á spjallþátt Sigmundar Ernis Rúnarssonar, Maður á mann. Gestur hans að þessu sinni var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra. Var víða farið í klukkustundarlöngu spjalli. Líst mér vel á þætti Sigmundar, farið er vel yfir líf og skoðanir viðmælandans og athyglisverð umfjöllun um gestinn. Kom margt fróðlegt fram í þættinum, sem var ennfremur kryddaður með skemmtilegu viðtali við Gunnar Eyjólfsson, föður Þorgerðar og vinkonu hennar, Þórunni Pálsdóttur. Allavega skemmtilegur klukkutími með Sigmundi og Þorgerði.

Woody AllenKvikmyndir
Eftir þáttinn leit ég á magnaða kvikmynd Woody Allen, Husbands and Wives. Myndin var frumsýnd árið 1992 í miðjum fjölmiðlalátum vegna sambúðarslita Allens og Miu Farrow, í kjölfar uppljóstrana um samband hans við fósturdóttur sína, Soon-Yi Previn, dóttur Farrow og André Previn. Fjallar myndin um tvenn hjón sem halda framhjá, sérstaka athygli vekur athyglisvert handritið og sú staðreynd að persóna Allens heldur framhjá eiginkonu sinni (Farrow) með yngri konu. Er þarna komin að mörgu leyti atburðarásin sem leiddi til endaloka sambands þeirra í raun og veru. Þarna fylgjast kvikmyndaunnendur semsagt með atburðarásinni á bakvið tjöldin í einkalífi parsins fræga meðan þau áttu sér stað eftir að myndin var gerð. Var þetta ekki í fyrsta skipti sem leikstjórinn sótti efni mynda sinna í sitt eigið einkalíf. Eins og flestir vita sjálfsagt er t.d. Annie Hall sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og jafnframt sambandsleysi hans við leikkonuna Diane Keaton sem var ástkona hans á þeim tíma sem myndin var gerð, en Diane Keaton heitir einmitt Diane Hall. Mörg fleiri dæmi má nefna um að Allen noti sitt líf sem bakgrunn í handrit sín. Fjallar Allen ítarlega um sambandsslitin við Miu Farrow í sjálfsævisögu sinni The Unruly Life of Woody Allen sem er snilldarvel skrifuð og segir þar á athyglisverðan hátt frá þessu máli. Virkilega góð mynd, en mjög umdeild á sínum tíma.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef Ríkisútvarpsins sem vonandi verður á næstu árum einkavætt. Svo mikið er víst að löngu er kominn tími til.

Snjallyrði dagsins
Sannleikurinn stendur einn en vitleysan þarf stuðning hins opinbera.
Thomas Jefferson forseti Bandaríkjanna (1743-1826)