Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 janúar 2004

Anna Lindh (1957-2003)Heitast í umræðunni
Mijailo Mijailovic játaði við yfirheyrslur í gærkvöldi að hafa myrt Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar. Lindh varð fyrir árás hans í NK-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi 10. september sl. og lést morguninn eftir af sárum sínum. Var hann handtekinn seinnipart septembermánaðar eftir mikla leit, en áður hafði rangur maður verið sakaður um verknaðinn. Kom fram í viðtali við Peter Althin lögmann Mijailovic, að ástæðan fyrir morðinu hafi ekki verið pólitísk heldur hafi verið um tilviljanakenndan verknað að ræða. Gert er ráð fyrir að formleg ákæra á hendur Mijailovic verði þingfest 12. janúar og réttarhöld yfir honum hefist 14. janúar. Sannanir lögreglu gegn honum þóttu orðnar mjög sannfærandi og líklegt að hann hafi játað til að hljóta mildari dóm. Svíum er létt, eftir að þessar fréttir bárust. Áður höfðu margir talið að morðgátan myndi ekki leysast og vísuðu til morðsins á Olof Palme forsætisráðherra, 1986. Thomas Bodströn dómsmálaráðherra landsins, sagði í dag að sænska þjóðin þyrfti á því að halda að þessu máli lyki með fullnægjandi hætti og játningin ætti að leiða til þess að Svíar sættu sig betur við niðurstöðu alls málsins. Verði Mijailovic fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér allt frá 10 ára til lífstíðarfangelsi.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherraValgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, skýrir frá því í pistli á heimasíðu sinni að hún ætli að skipa nefnd sem fjalla muni um umhverfi íslensks viðskiptalífs. Nefndinni er einna helst ætlað að leggja á ráðin um hvernig bregðast skuli við aukinni samþjöppun. Fram kemur í pistlinum að ráðherrann telji áhöld um hvort íslenskt viðskiptalíf njóti nægilega mikils trausts. Telur hún að vegna breytinga sem orðið hafi í viðskiptum á seinustu árum sé nauðsynlegt að skipa þessa nefnd. Það sé mjög mikilvægt að það sé bæði skilvirkt og njóti trausts. Hún vill ekki kveða upp úr um það hvort nauðsynlegt að setja lög gegn hringamyndun hér á landi. Það að þessi nefnd sé sett á bendir til þess að ráðherrann sé þeirrar skoðunar að lagasetning sé nauðsynleg. Hún segir Framsóknarflokkinn ekki hafa markað sér stefnu í þessum efnum og reyndar séu mismunandi áherslur um Samkeppnisstofnun milli stjórnarflokkanna.

SmárabíóTilkynnt var í gær að Norðurljós sem rekur Stöð 2, Sýn, Smárabíó og Regnbogann, hafi tryggt sér réttinn að tveimur næstu kvikmyndum frá Sögn ehf í eigu Baltasars Kormáks stjórnarmanns í Norðurljósum, og ennfremur réttinn að Stuðmannamyndinni Í takt við tímann. Myndirnar frá Sögn eru DÍS og Mýrin eftir skáldsögu Arnaldar Indriðasonar. Áætlað er að Dís verði frumsýnd um páskaleytið, en hinar tvær síðari hluta árs. Allar eru þessar myndir mjög áhugaverðar, enda Mýrin ein besta skáldsaga seinustu ára á Íslandi og DÍS ennfremur metsölubók sem flestir kannast við. Báðar þessar myndir ættu að verða vinsælar í bíó, ef allt gengur upp. Framhald hinnar einstöku Með allt á hreinu, er svo mjög athyglisvert dæmi. Hvort Stuðmönnum gengur að toppa fyrri verk verður spennandi að fylgjast með.

Bolurinn góðiSvona er frelsið í dag
Í dag birtist athyglisverður pistill Helgu um eftirlitsstofnun Manneldisráðs. Orðrétt segir hún: "Algengt er að fólk frýji sig ábyrgð af eigin lífstíl. Ef maður fitnar er það aldrei manni sjálfum að kenna. Sökudólgarnir geta verið býsna margir; lélegir einkaþjálfarar, skyndibitastaðir sem vara mann ekki við því að mikil neysla á hamborgurum og pizzum auki hættuna á aukakílóum, auglýsendur sem gera gosdrykki og annað sælgæti svo girnilegt og ómótstæðilegt, skólum fyrir að kenna ekki næringarfræði eða leiðinlegum kennurum fyrir að maður náði ekki að tileinka sér fræðin. Eins fáránlegur og þessi hugsunarháttur kann að virðast þá er hann alls ekki úr takti við pælinguna að baki hinu svokallaða Manneldisráði. Ráðið samanstendur af teymi sérfræðinga sem eiga að sjá um að ákveða og fræða Íslendinga um það hvernig þeir geti tileinkað sér holla og heilsusamlega lífshætti. Það skal gert í samræmi við fögur markmið stjórnmálamanna og að sjálfsögðu fyrir fé skattgreiðenda." Góð ádeila á Manneldisráð. Ennfremur birtist á frelsinu í dag kynning á bol okkar SUS-ara með mynd af Járnfrúnni framan á. Allir að kaupa hann!

Ómar lands og þjóðarÓmar lands og þjóðar
Keypti um daginn disk Ómars Ragnarssonar, Ómar lands og þjóðar. Þar eru skemmtilegar svipmyndir Ómars Ragnarssonar af náttúru landsins. Í þrjá áratugi hefur Ómar verið einna helst þekktur fyrir að kynna landsmönnum gríðarlega fegurð landsins og fært okkur svipmyndir sem eru einstakar. Í gegnum þætti sína hefur hann miðlað einstakri sýn á landið og náttúru þess. Efnið er myndskreytt með fallegum lögum við texta Ómars. Meðal þeirra sem flytja lög eru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Egill Ólafsson, Kristinn Sigmundsson, félagar úr Fóstbræðrum, Bubbi Morthens, Pálmi Gunnarsson, Helga Möller, Bjarni Arason, Ragnar Bjarnason, Berglind Björk Jónasdóttir, Ari Jónsson, Þórunn Lárusdóttir og Ómar sjálfur. Uppúr stendur fallegur texti Ómars við lagið Að sigla inn Eyjafjörðinn, en það syngur Raggi Bjarna meistaralega. Þar sem ég hef miklar taugar til fjarðarins er ljóst að þetta lag stendur uppúr. Magnað efni, skyldueign fyrir alla þá sem vilja kynnast bæði fallegum hliðum flóru landsins og góðri tónlist.

Saving Private RyanKvikmyndir
Þriðjudagskvöldinu var að mestu eytt í að horfa á magnaða stórmynd Steven Spielberg, Saving Private Ryan. Saga myndarinnar er sögð frá sjónarhóli lítillar bandarískrar hersveitar og hefst á landgöngunni á Omaha-ströndinni í Normandí á D-daginn, 6. júní 1944, þar sem um 2.400 bandarískir hermenn og 1.200 Þjóðverjar féllu, en gerist eftir það inni í landinu þar sem nokkrum mönnum hefur verið falið hættulegt sérverkefni. Kapteinn John Miller verður að fara með menn sína inn fyrir víglínuna til að hafa uppi á óbreyttum James Ryan. Skartar í aðalhlutverkum þeim Tom Hanks, Ed Burns, Matt Damon og Tom Sizemore. Einstök mynd sem telst hiklaust vera ein besta mynd 10. áratugarins en fékk engu að síður ekki óskarinn sem besta kvikmynd ársins. Er óskiljanlegt að þessi úrvalsmynd hafi ekki hlotið þau verðlaun. Mögnuð mynd, sem hefur enn sömu áhrif á mig nú og þegar ég sá hana fyrst í bíó fyrir fimm árum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á skemmtilegan bloggvef Mæju, en þar fer skrifar um það sem hún hefur áhuga á að fjalla um. Skemmtilegur vefur.

Snjallyrði dagsins
Ég hef reynt að vera sanngjarn. Það fór mér illa.
Clint Eastwood leikari og leikstjóri.