Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 janúar 2004

NorðurljósHeitast í umræðunni
Risi varð til á íslenskum fjölmiðlamarkaði í gærkvöld er fjölmiðlafyrirtækin Norðurljós og Frétt sameinuðust formlega. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í Smárabíóí í dag. Þrjú fyrirtæki verða rekin undir merkjum Norðurljósa frá og með 1. febrúar; Íslenska útvarpsfélagið, Frétt og Skífan. Norðurljós verður móðurfélag þessara fyrirtækja, sem verða rekin áfram í sitt hvoru lagi, en undir sameiginlegri stjórn í Norðurljósum. Fram kom á fyrrgreindum fundi að fyrirtækið hefði samið við alla lánardrottna og langtímaskuldir félagsins hefðu lækkað úr 7,5 miljarði króna, í 5,7. Hlutafé fyrirtækisins eftir sameininguna eru um 3 milljarðar króna. Stærsti hluthafinn í Norðurljósum er Baugur Group, sem á rúmlega 30%. Eignarhaldsfélagið Grjóti, er tengist Baugi, Feng og fleirum aðilum, á rúmlega 16%, eignarhaldsfélagið Fons á 11,6%, það félag tengist Pálma Haraldssyni. Hömlur er tengist Landsbankanum á 7,5%, og Kaldbakur 5,6% hlut. Aðrir hluthafar eiga tæp 18% til samans. Skarphéðinn Berg Steinarsson verður áfram stjórnarformaður Norðurljósa. Aðrir í stjórn fyrirtækisins eru Pálmi Haraldsson varaformaður, en aðrir stjórnarmenn eru Kristinn Bjarnason, Halldór Jóhannsson, og Gunnar Smári Egilsson. Sigurður G. Guðjónsson verður áfram forstjóri Norðurljósa. Gunnar Smári Egilsson verður áfram útgáfustjóri Fréttar og Ragnar Birgisson verður framkvæmdastjóri Skífunnar. Fyrirtækið rekur fimm sjónvarpsstöðvar, fimm útvarpsstöðvar og tvenn dagblöð. Skífan rekur hljómplötuútgáfu og verslanir í eigin nafni auk þess sem nú bætist við. Eftir sameininguna hafa verslanir á vegum Norðurljósa yfirburði í sölu geisladiska með tónlist og tölvuleikja hér á landi eða 80% hlutdeild. Þessi samruni er því tilkynningaskyldur til Samkeppnisstofnunar.

Sigríður Árnadóttir fréttastjóriÁ sama blaðamannafundi var tilkynnt formlega um miklar skipulagsbreytingar hjá Norðurljósum, einkum innan Íslenska útvarpsfélagsins, sjónvarpsrekstri Norðurljósa. Sigríður Árnadóttir varafréttastjóri á Fréttastofu Ríkisútvarpsins, hefur verið ráðin sem fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar, og tekur við starfinu 1. febrúar nk. Hún tekur við starfinu af Karli Garðarssyni, sem verið hefur fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar frá árinu 2000. Karl tekur um mánaðarmótin við nýju starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Íslenska útvarpsfélagsins. Ennfremur hefur Páll Magnússon verið ráðinn framkvæmdastjóri dagskrársviðs Norðurljósa. Hann var fréttastjóri Stöðvar 2 1986-1990, útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-1994 og fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000. Hann hefur undanfarin ár starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu sem framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir fréttamaður, verður varafréttastjóri við hlið Þórs Jónssonar. Marinó Guðmundsson verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslenska útvarpsfélagsins og Skífunnar. Þetta eru miklar breytingar. Stórtíðindi hljóta að teljast að Sigríður fari til starfa hjá Stöð 2. Hún hefur verið fréttamaður Útvarpsins í rúmlega 20 ár og verið varafréttastjóri þess í rúman áratug. Hún sótti um stöðu fréttastjóra Sjónvarpsins árið 2002, en hlaut hana ekki.

Færeyski fáninnSeinustu vikuna hafa staðið yfir stjórnarmyndunarviðræður í Færeyjum, en þingkosningar voru þar 20. janúar. Umboð til stjórnarmyndunar fékk Johannes Eidesgaard formaður Jafnarmannaflokksins. Lisbeth Petersen sem var formaður Sambandsflokksins, stærsta flokks landsins, sagði af sér í kjölfar kosninganna, vegna fylgistaps flokksins, er verið hefur í stjórnarandstöðu seinustu ár. Stjórnarmyndunarviðræður hófust á milli Jafnaðarmannaflokksins, Sambandsflokksins og Fólkaflokks Anfinns Kallsbergs lögmanns. Í gær var lokið við að semja stjórnarsáttmálann og hafið að ræða skiptingu embætta. Fólkaflokkurinn hefur barist fyrir því að Anfinn verði áfram lögmaður. Hafa hinir flokkarnir ekki séð sér fært að fallast á að svo verði. Óvíst er því hver endanleg skipting embætta í stjórninni verður eða hvort Anfinn verður í stjórninni, vegna andstöðu annarra flokka. Mikið er þó til þess að vinna að þessi stjórnarmyndun gangi eftir svo Þjóðveldisflokkur Högna Hoydal verði í stjórnarandstöðu næstu árin.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtast á frelsinu góðir pistlar Atla Rafns og Kidda. Í sínum pistli fjallar Atli um RÚV og samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Orðrétt segir hann: "Skynsamlegst væri að ríkið hætti fjölmiðlarekstri og gæfi einstaklingum raunverulegt svigrúm og tækifæri á að starfa á þessum markaði. Andstæðingar þessarar leiðar benda hins vegar gjarnan á að ekki sé rétt að ríkið hætti fjölmiðlarekstri því ríkið þurfi að tryggja aðgang allra landsmanna að þjónustunni og einnig að ríkinu beri að tryggja faglega og hlutlausa umræðu í landinu. Það er ekki stjórnmálamanna að ákveða hvaða þjónustu einstaklingarnir kjósa að kaupa, né heldur hvaða upplýsingar þeir velja gegnum fjölmiðla. Ríkið á ekki að ákveða hvað hver einstaklingur má eiga og hvað ekki. Slíkar takmarkanir myndu fremur endurspegla vilja stjórnmálamanna og embættismanna eftirlitsstofnanna en fólksins í landinu. Kiddi fjallar í sínum pistli um frelsi í menntamálum og segir orðrétt: "Lausnin er aukið frelsi kennara til þess að móta námið að þörfum hvers og eins nemenda. Aukinn fjölbreytileiki og brotthvarf frá ofuráherslu á kjarnafögin þrjú: ensku, íslensku og stærðfræði; og í kjölfarið viðurkenning á öðrum greindum, hugsunarháttum og hæfileikum. Aukin áhersla á sjálfstæða og gagnrýna hugsun í stað mötunar á staðreyndum. Frjáls hugsun kemur með auknu frelsi í menntamálum." Ennfremur birtist umfjöllun um góðan pistil Einars K. Guðfinnssonar þingflokksformanns.

Í brennidepliDægurmálaspjallið
Síðasta sunnudagskvöld var á dagskrá Sjónvarpsins, fréttaskýringarþátturinn Í brennidepli, í umsjón Páls Benediktssonar fréttamanns. Þátturinn er á dagskrá mánaðarlega og fjallað í hverjum þætti um þrjú mál. Missti ég af síðasta þætti á sunnudag vegna ýmissa anna og leit því á hann í gær á vef RÚV. Virkilega góður þáttur rétt eins og hinir tveir fyrri. Að þessu sinni var fjallað um umfang og eignir Bónusfjölskyldunnar, hugsanlegt eldgos í Kötlu sem jarðfræðingar telja að muni gjósa innan næstu fimm ára, og um bráðaofnæmi í börnum. Allt saman áhugavert efni, sérstaklega það fyrstnefnda en á einkar skemmtilegan hátt var almenningi sýnt umfang eigna Baugs Group og fóru þeir Páll og Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar Verslunar, vel yfir fyrirtækið og eignir þess. Í Kastljósi gærkvöldsins fóru Birgir Ármannsson alþingismaður, og Kristrún Heimisdóttir varaþingmaður, yfir breska pólitík. Mikið hefur verið rætt um hana í þessari viku vegna Hutton skýrslunnar og kosningar á þingi um skólagjaldahugmyndir Verkmannaflokksins, en litlu munaði að stjórnarmeirihlutinn félli í því máli. Skemmtilegt spjall var við Birgi og Kristrúnu, sem bæði hafa lengi fylgst með breskri pólitík.

Life is Beautiful (La Vita e Bella)Kvikmyndir
Eftir Kastljósið hélt ég á fund, sem stóð fram eftir kvöldi. Er heim kom var skellt sér í að horfa á eina góða kvikmynd. Litum á hið indæla ítalska meistaraverk, La Vita e Bella. Hér segir af Guido Orefici, fátækum ungum manni sem hefur þann hæfileika að geta gert alla káta í kringum sig. Hann hittir draumadísina sína, Doru, oft og mörgum sinnum í gegnum eintómar tilviljanir en hún er trúlofuð hreint óþolandi leiðindaskarfi og á brátt að giftast honum. Honum tekst loks að vinna hjarta hennar og þau giftast. Þar með er farið yfir nokkur ár í lífi þeirra og næst er við sjáum þau hafa nokkur ár liðið og hafa þau þá eignast son sem er 6-7 ára. Þetta er undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og þar sem Guido er gyðingur er hann sendur ásamt syni sínum í útrýmingarbúðir nasista og er konan hans einnig send þangað. Honum tekst að telja drengnum trú um að þetta sé allt saman leikur og ef þeir fái nógu mörg stig með því að taka þátt í leiknum fái þeir að launum alvöru skriðdreka. Honum tekst þetta upp alllengi, eða allt þar til að stríðinu lýkur. Meðan á þessu stendur verður hann að fela son sinn svo hann verði ekki líflátinn af nasistum á meðan hann heldur áfram að segja honum að þetta sé bara einn leikur. Þessi litla en stórbrotna perla er hiklaust ein besta kvikmyndin sem gerð var á árinu 1998, og hlaut verðskuldaðan heiður að launum. Ítalski grínistinn Roberto Benigni fer hér á kostum í hlutverki lífs síns, hann hlaut verðskuldað óskarinn fyrir leik sinn. Flestir ættu að geta notið boðskaparins sem hún boðar. Það er að lífið er tvímælalaust DÁSAMLEGT!!

Vefur dagsins
Kauphöll Íslands hf. er skipulegur verðbréfamarkaður þar sem opinber skráning verðbréfa fer fram, svo og viðskipti með þau. Þrjár tegundir verðbréfa eru skráðar; hlutabréf, skuldabréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða. Bendi í dag á frábæra heimasíðu Kauphallarinnar.

Snjallyrði dagsins
Here's looking at you, kid!
Rick Blaine í Casablanca