Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 febrúar 2004

George W. Bush og Laura Welch BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði í gær ríkisstjóra Repúblikanaflokksins á fundi með þeim í Washington. Í ræðunni réðst hann á andstæðinga sína í Demókrataflokknum, sem sækjast eftir útnefningu flokksins vegna forsetakosninganna 2. nóvember nk. Sagði Bush í ræðunni að þeir væru talsmenn hærri skatta og hefðu ómarkvissa stefnu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Um demókratana í framboði sagði forsetinn: "an interesting group with diverse opinions -- for tax cuts and against them; for NAFTA and against NAFTA; for the Patriot Act and against the Patriot Act; in favor of liberating Iraq and opposed to it." Einnig kom fram: "They now agree that the world is better off with Saddam [Hussein] out of power. They just didn't support removing Saddam from power. Maybe they were hoping he'd lose the next Iraqi election." Forsetinn sagði að andstæðingar sínir hefðu ekki mikið fram að færa til sigurs í stríðinu eða til að efla efnahagslífið. Hann sagði að það eina sem heyrðist úr herbúðum demókrata væri gamalkunnur biturleiki og reiði manna sem hafa tapað nokkrum kosningum í röð. Bush forseti hyggst hefja kosningabaráttu sína með öflugri auglýsingaherferð 4. mars nk, tveim dögum eftir ofurþriðjudaginn svokallaða.

Charlize TheronBandarísku SAG-kvikmyndaverðlaunin voru afhent á sunnudagskvöld. Þau eru hátíð Samtaka kvikmyndaleikara í Bandaríkjunum. Charlize Theron var valin leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Monster, og bendir nú flest orðið til að hún hljóti óskarinn á sunnudag fyrir leik sinn. Johnny Depp fékk verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl. Val Depp kom á óvart en Sean Penn hafði verið álitinn sigurstranglegur fyrir hlutverk sitt í Mystic River og ennfremur Bill Murray fyrir Lost in Translation. Kvikmynd Peter Jackson, LOTR: Return of the King, sigraði í vali um bestu kvikmyndina og var Peter Jackson valinn leikstjóri ársins. Tim Robbins og Renée Zellweger voru valin sem bestu leikarar í aukahlutverki, hann fyrir Mystic River og hún fyrir Cold Mountain. Leikarinn Karl Malden hlaut heiðursverðlaun SAG að þessu sinni. Hafa SAG verðlaunin lengi þótt góð vísbending um verðlaunaveitingar á Óskarsverðlaunahátíðinni og hafa þau styrkst á tíu árum sem ein helstu kvikmyndaverðlaun samtímans.

Davíð Oddsson forsætisráðherraDavíð Oddsson forsætisráðherra, kom í opinbera heimsókn til Úkraínu síðdegis í gær. Með ráðherranum í ferðinni eru Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri, Illugi Gunnarsson aðstoðarmaður ráðherrans, og Albert Jónsson sérfræðingur ráðuneytisins í utanríkismálum, auk sendinefndar athafnamanna úr viðskiptalífinu. Í dag átti Davíð fund með Viktor Yanukovych forsætisráðherra Úkraínu, undirrituðu þeir tvíhliða samning milli landanna og héldu sameiginlegan blaðamannafund. Ennfremur hitti Davíð, Kostyantyn Hryschchenko utanríkisráðherra. Davíð heimsótti einnig þjóðþing Úkraínu og átti fund með þingforsetanum, Volodymyr Lytvyn. Í hádeginu hitti hann borgarstjórann í Kiev, Olexandr Omelchenko, og síðdegis átti hann fund með Leonid Kuchma forseta Úkraínu. Heimsókn Davíðs til Úkraínu, lýkur á morgun.

Helga Lára HauksdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag birtist pistill Helgu Láru um skólagjöld og umræðu um þau seinustu vikur. Orðrétt segir hún: "Um síðustu áramót tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við embætti menntamálaráðherra. Strax í upphafi sýndi hún það hugrekki að taka upp umræðu um skólagjöld í HÍ. Hún tjáði þá skoðun sína að gera þyrfti heildstæða úttekt á fjárhag háskólans og í kjölfarið mætti skoða möguleika á útfærslum á skólagjöldum. Hún lagði mikla áherslu á að Háskóli Íslands stæðist ítrustu kröfur um gæði háskólamenntunar. Þá væri það mikilvægt að hafa í huga að þegar og ef skólagjöld yrðu tekin upp hefðu þau ekki áhrif á jafnrétti fólks til náms. Það er gömul saga og ný að það sem er ókeypis er oft ekki metið sem skyldi. Í þessu sambandi er umhugsunarefni að brottfall nemenda úr Háskóla Íslands er mun meira en í háskólum sem krefjast skólagjalda. Er hugsanlegt að nemendur sem greiða skólagjöld taki nám sitt að einhverju marki alvarlegar, en þeir sem ekki þurfa að reiða fram fé til að stunda nám? Á það t.d. sinn þátt í að algengt er að um helmingur nemenda falla á 1. ári í mörgum deildum HÍ?" Góð skrif hjá Helgu Láru.

The Royal TenenbaumsRæðuskrif - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á það venjulega, fréttir, dægurmálaþætti og bæjarmálafréttirnar á Aksjón, fór ég í tölvuna að vinna að ræðu sem ég á að flytja um sendiráðin á fundi utanríkismálanefndar SUS á föstudag, en ég á sæti í henni og hef undanfarið fjallað mikið um málefni sendiráðanna á vettvangi SUS. Eftir góða törn við vinnslu ræðunnar fór ég að horfa á kvikmyndina The Royal Tenenbaums. Sennilega eiga fáar fjölskyldur við jafnmörg og fjölbreytt vandamál að stríða og Tennenbaum-fjölskyldan. Fjölskyldufaðirinn Royal var vægast sagt ótillitsamt foreldri og yfirgaf börnin sín þrjú áður en þau uxu úr grasi. Móðir þeirra ól þau upp til að verða að snillingum. Það tókst sæmilega en því miður hafði uppeldið, sérstaklega tillitsleysi Royals, þær aukaverkanir að öll eiga þau við einhvers konar taugavandamál að stríða. Raunar hefur hvert og eitt þeirra lokað sig af í eigin heimi strax frá unga aldri. Sagan gerist þegar börnin eru öll í kringum þrítugt. Royal hefur komist að því að konan hans ætlar kannski að giftast aftur og ákveður hann að reyna að stöðva það. Verður sú endurkoma kostuleg þar sem móttökurnar sem hann fær frá fjölskyldunni sem hefur ekki séð hann í mörg ár eru vægast sagt blendnar. Gene Hackman fer á kostum í hlutverki fjölskylduföðurins og ennfremur eiga Anjelica Huston, Ben Stiller, Owen Wilson, Danny Glover og Bill Murray góðan leik. Mögnuð gamanmynd.

KastljósDægurmálaspjallið
Í gærkvöldi var rætt í Íslandi í dag mikið um greinargerð með nýjum hugmyndum um skipulag í miðborg Reykjavíkur, sem kynntar voru á fundi sem Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur hélt. Ræddu Jóhanna og Þórhallur hugmyndir um skipulag miðborgarinnar við Margréti Harðardóttur arkitekt hjá Studio Granda, sem vann að útfærslu hugmyndanna, og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur formann skipulagsnefndar. Í Kastljósinu ræddu Kristján og Sigmar við Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann, og Karl Th. Birgisson, um forsetaembættið. Flest bendir nú til að forseti gefi kost á sér til endurkjörs og hann fái mótframboð frá tveim aðilum og því kosningar í vor. Þetta embætti verður sífellt tilgangslausara og reyndar svo lítilfjörlegt að forseti Íslands fer í frí þegar mikilvægu afmæli í sögu þjóðarinnar er fagnað.

Dagurinn í dag
* 1630 Skálholtsstaður brann til kaldra kola - mikið af verðmætum munum brunnu
* 1924 20 þingmenn stofnuðu Íhaldsflokkinn - önnur tveggja stoða Sjálfstæðisflokksins 1929
* 1924 Líkneskið af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson, á Arnarhóli í Reykjavík, afhjúpað
* 1981 Karl Bretaprins og lafði Díana Spencer, tilkynna um trúlofun sína - giftust síðar sama ár
* 1991 Minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson rektor og skáld, afhjúpaður í Innri Njarðvík

Snjallyrði dagsins
Ernest Hemingway once wrote, "The world is a fine place and worth fighting for." I agree with the second part.
William Somerset í Seven