Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 apríl 2004

Abdel Aziz RantissiHeitast í umræðunni
Abdel Aziz Rantissi sem kjörinn var leiðtogi Hamas-samtakanna, í kjölfar morðsins á Ahmed Yassin 22. mars sl, var myrtur í gærkvöldi í þyrluárás Ísraelshers á bíl hans á Gaza-svæðinu. Rantissi lést af sárum sínum örskömmu eftir að hann var fluttur á sjúkrahús. Alls létust þrír í árásinni, auk Rantissi létust sonur hans og lífvörður, alls særðust fimm manns. Legið hefur fyrir eftir morðið á Yassin, að ísraelsk yfirvöld hafi í hyggju að ráða niðurlögum allra helstu leiðtoga Palestínumanna. Rantissi var einn af stofnendum Hamas-samtakanna og frá upphafi einn af helstu forsvarsmönnum þeirra. Palestínumenn hafa hótað hefndum fyrir Rantissi og hefur morðið á honum verið fordæmt víða um heim í dag. Í samræmi við hefðir palestínumanna fer útför fram innan sólarhrings frá andláti viðkomandi. Þúsundir manna voru við útför hans í Gaza í morgun. Rantissi var 56 ára gamall er hann lést, var læknir að mennt. Fram hefur komið að Hamas hafi skipað nýjan leiðtoga, en nafn hans verður ekki gefið upp af ótta við að hann verði ennfremur ráðinn af dögum. Morðið á Rantissi gerir illt ástand enn verra og mun leiða til öldu árása milli þjóðarbrota. Það er greinilegt að staða mála á þessum slóðum minnir á suðupott.

Jose Luis Rodriguez ZapateroJose Luis Rodriguez Zapatero tók í gær við embætti forsætisráðherra Spánar við athöfn í Zarzuela-höll, setri Jóhanns Karls Spánarkonungs, skammt utan Madrid. Sósíalistaflokkur Zapatero sigraði í þingkosningunum á Spáni fyrir fimm vikum, sunnudaginn 14. mars, þremur dögum eftir sprengjutilræðið sem varð tæplega 200 manns að bana í Madrid. Sósíalistar náðu 164 mönnum á þing, í 350 manna neðrideild þingsins, og vantaði 12 þingmenn upp á að hljóta hreinan meirihluta. Var hann formlega kjörinn forsætisráðherra á spænska þinginu á föstudag, auk þess að hljóta atkvæði, kusu 19 manns úr sex flokkum hann til embættisins, þ.á.m. vinstrabandalag kommúnista og grænna, og þjóðernisflokkum úr héruðum Spánar. Það var slæmt að hryðjuverk íslamskra öfgamanna skyldu hafa áhrif á spænskan almenning og leiða til valdaskiptanna. Það er slæmt að sjá hvernig hryðjuverkamenn höfðu með þessu bein áhrif á stjórnmál í vestrænum heimi. Fyrir kosningar lofaði Zapatero að spænskir hermenn færu frá Írak og tilkynnti hann þegar eftir embættistöku sína, að það verði gert nú þegar. Það er með ólíkindum að spænskir vinstrimenn hlaupi frá hálfnuðu verki í Írak með skottið milli lappanna og verður þeim ekki til framdráttar.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðu seinustu daga um úrskurð kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar hæstaréttardómara, jafnframt er vikið að umræðu um málið í spjallþáttum og á þingi þar sem stjórnarandstaðan var með máttlitlar upphrópanir að ráðherranum. Ennfremur skrifa ég um umdeilt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum og undirskriftasafnanir andstæðinga og stuðningsmanna þess. Í kjölfar þess að umræða um málið varð jafnáberandi og raun bar vitni, ákvað ég að lesa frumvarpið og kynna mér vel alla þætti þess og taka afstöðu til þess útfrá því. Tók ég þá afstöðu að ekkert í frumvarpinu væri það róttækt að það kallaði á að ég tæki afstöðu gegn því. Í frumvarpinu er að mínu mati gengið í sömu átt og verið hefur hjá nágrannaþjóðum okkar og langt í frá yfir strikið í þeim efnum. Samband ungra sjálfstæðismanna var eina ungliðahreyfing stjórnmálaflokka á landsvísu sem tók ekki afstöðu með undirskriftasöfnun andstæðinga frumvarpsins. Var ég mjög sáttur við þá ákvörðun, enda hefði ég ekki tekið afstöðu með þeirri undirskriftasöfnun eða stutt að SUS stæði að henni á nokkurn hátt. Að lokum fjalla ég um varnarmálin, í kjölfar spjalls forseta Bandaríkjanna og forsætisráðherra Íslands um málið í vikunni.

HulkGóð kvöldstund
Áttum gott kvöld í gær. Horfðum eftir kvöldmatinn á þátt Gísla Marteins og Spaugstofuna. Um níuleytið komu móðurbróðir minn, Helgi Seljan og Jóhanna, kona hans, í heimsókn til okkar. Alltaf gaman að hitta Helga og Hönnu, áttum við virkilega gott spjall. Þau voru hér fyrir norðan um helgina, verið var að skíra barnabarnabarn þeirra, en Jóhanna yngri, býr hér á Akureyri. Að sjálfsögðu var farið yfir pólitísk málefni ásamt fleiru í spjallinu. Eftir að þau fóru síðar um kvöldið, litum við á kvikmyndina Hulk. Skemmtilega óhefðbundin hasarmynd sem hittir beint í mark. Fjallar um vísindamanninn Bruce Banner sem í bræðisköstum sínum breytist í hinn græna og tröllvaxna Hulk. Sagan er byggð á verkum Stan Lee sem bjó til teiknimyndapersónuna. Vel leikin og skemmtileg mynd sem er virkilega gaman að horfa á. Eric Bana, Jennifer Connelly, Nick Nolte og Sam Elliott eru flott í aðalhlutverkunum. Áferð myndarinnar er skemmtileg og græni liturinn notaður á mjög áhugaverðan hátt. Klippingar og öll framsetning Hulk er í alla staði lík teiknimyndasögum. Flott mynd.

Dagurinn í dag
1872 Jarðskjálftar ollu stórtjóni á Húsavík - stærstu skjálfarnir voru milli 6 og 7 á Richter
1944 Hermann Jónasson kjörinn formaður Framsóknarflokksins - sat á þeim stóli til ársins 1962
1955 Nóbelsverðlaunahafinn Albert Einstein deyr í New Jersey, 76 ára að aldri
1966 The Sound of Music hlaut óskarinn sem besta kvikmynd ársins 1965
1997 Kona verður í fyrsta skipti deildarforseti í Háskóla Íslands - Helga Kress

Snjallyrði dagsins
The most beautiful thing we can experience is the mysterious. It is the source of all true art and science.
Albert Einstein