Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 apríl 2004

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson leit um öxl yfir níu ára tímabil á stóli utanríkisráðherra í ræðu á Alþingi er hann flutti þingmönnum skýrslu um utanríkismál. Lætur hann af embætti í september og tekur þá við sem forsætisráðherra. Urðu umræður um hana á þingi í mestallan dag. Sagði Halldór í ræðunni að stöðugleika og öryggi í heiminum væri ekki ógnað af stórveldi, heldur öfgamönnum sem engu eirði. Er það mat utanríkisráðherra að hert barátta gegn hryðjuverkaógn og illgjörðum hermdarverkamanna skipti sköpum. Fram kom í ræðunni að ríkisstjórnin hefði ákveðið á fundi sínum í morgun að auka framlög til þróunarmála úr 0,19% af vergri þjóðarframleiðslu í 0,35% á árunum 2008 til 2009. Sagði ráðherra að staða Íslands á alþjóðavettvangi hefði gjörbreyst á þeim 9 árum sem hann hafi verið í forystu fyrir mótun og framkvæmd íslenskrar utanríkisstefnu. Umsvif Íslendinga erlendis hafi tekið stakkaskiptum og mikill árangur orðið í viðskiptum. Sagði ráðherra ennfremur að starfshópur hefði verið skipaður til að skila tillögum um hagræðingu í utanríkisþjónustunni. Ætlunin er að ná fram sem mestri hagræðingu með tilfærslu starfsmanna og fjármuna innan ráðuneytis og sendiskrifstofa. Halldór sagði mikla samstöðu hafa ríkt milli stjórnarflokkanna og einnig sagði hann að breytingar á skipan ríkisstjórnarinnar myndu ekki hafa í för með sér breytingar á stjórnarsáttmálanum, utanríkisstefnan yrði óbreytt í grundvallaratriðum. Samstaða hafi verið mikil milli stjórnarflokkanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaðurTólf þingmenn úr þremur flokkum lögðu í dag fram á Alþingi, frumvarp sem gerir ráð fyrir því að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt verði aflögð. Miðað er þannig við að sterkt áfengi hafi meiri vínandastyrk en 22%. Flutningsmenn frumvarpsins telja, að taka þurfi til skoðunar áfengisgjald sem lagt er á allt áfengi, t.d. með því að lækka áfengisgjald í þremur áföngum, um allt að 50%, fram til ársins 2007. Guðlaugur Þór Þórðarson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og meðflutningsmenn hans koma úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu. Í greinargerð með frumvarpinu segir, að á undanförnum árum og áratugum hafi hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið sé að einstaklingar og fyrirtæki geti stundað viðkomandi starfsemi betur eða í það minnsta ekki verr. Nú sé svo komið að til algerra undantekninga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Þó er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sjái eitt um sölu sterks áfengis en verði áfram heimilt að dreifa öllu áfengi í heildsölu og smásölu.

Gettu beturMikil umræða hefur verið um úrslitaviðureign Verzlunarskólans og Borgarholtsskóla í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, sem var í Smáralind á föstudagskvöld. Verzlunarskólinn hafði sigur í bráðabana. Gerðar hafa verið athugasemdir við tvær spurningar: annars vegar um stöðu konsertmeistara í Sinfóníuhljómsveit Íslands og í hvaða borg Sing Sing fangelsið í Bandaríkjunum er. Svörin við spurningunum eru fyrsti fiðluleikari og New York. Stefán Pálsson dómari keppninnar og höfundur spurninga, segir engan vafa leika á að spurningar sem og svörin væru rétt. Spurt hefði verðu um stöðu konsertmeistara en ekki hljóðfærið og varðandi fangelsið, gildi hið sama og með flugvelli í mörgum borgum; þeir séu taldir innan borganna, þótt þeir séu venjulega rétt fyrir utan þær. Lífleg umræða hefur verið á netinu um þetta mál, t.d. á heimasíðu eins í liði Borgarholtsskóla. Vinur minn, Stefán Einar Stefánsson, sem var einn aðstandenda Verzló-liðsins og var í því seinustu ár, hefur skrifað talsvert um þetta mál á heimasíðu sinni.

Helga ÁrnadóttirSvona er frelsið í dag
Í gær birtist góður pistill Helgu um álagningarskrár. Orðrétt segir: "Greint var frá því í Morgunblaðinu að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hyggist leggja fram frumvarp, sem mun leiða til þess að opinber birting álagningar- og skattskráa verði lögð af nái frumvarpið fram að ganga. Þetta eru ánægjuleg tíðindi, enda er birting álagningar- og skattskráa bæði óþörf og óeðlileg. Birtingin er gjarnan rökstudd með því að hún skapi aðhald gegn skattsvikum. Með því er átt við að fólk geti lagt leið sína á skrifstofu skattstjóra, flett í gegnum álagningarskrárnar, leitað upplýsinga um álagningu nágranna, vinnufélaga og annarra kunningja og látið vita ef það rekst á eitthvað grunsamlegt. Sú hugmynd er að mínu mati ekki geðfelld, og ennfremur óþörf þar sem reyndin er sú að sjaldgæft er að birtingin skili skattstjóra ábendingum um skattsvik. Ekki má gleyma að það er hlutverk skattstjóra og hans starfsfólks að tryggja að fólk telji rétt fram til skatts og grípa til aðgerða ef grunur vaknar um að svo sé ekki." Ennfremur eru á frelsinu pistlar eftir Pawel og Stefán Ottó. Að auki skal bent á góða umfjöllun um áfengisfrumvarpið.

Meet the ParentsBæjarmálafundur - kvikmyndir
Eftir að hafa horft á kvöldfréttirnar fór ég upp í Kaupang á bæjarmálafund þar sem helstu málefni bæjarins voru rædd við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa. Er það alltaf gert annaðhvert mánudagskvöld, kvöldið fyrir bæjarstjórnarfund. Voru ýmis mál til umræðu, m.a. skipan í nefndir fyrir flokkinn. Mun ég nú taka sæti í nefnd fyrir bæinn að hálfu flokksins ásamt fleiri aðilum, samhliða breytingum á nefndaskipan. Var fundurinn gagnlegur og góður. Að honum loknum hélt ég heim og horfðum við á kvikmyndina Meet the Parents. Segir af hjúkrunarfræðingnum Gaylord Focker (sem vill endilega láta kalla sig Greg!). Hann hefur í hyggju að biðja unnustu sína, Pam Byrnes, um að giftast sér. Þegar hún segir honum að faðir hennar ætlist til þess að verða spurður um hönd hennar ákveður hann að nota tækifærið er hann og Pam fara í helgarferð til foreldranna til að verða viðstödd giftingu systur hennar, til að biðja hann um samþykki föðurins á ráðahagnum. En þegar á hólminn er komið breytast aðstæður verulega. Jack er vægast sagt lítið um Greg gefið og gerir sífellt lítið úr honum, starfi hans og eftirnafni hans! Auk þess dásamar hann fyrrum kærasta Pam og gerir Greg þannig enn erfiðar fyrir. Þar sem Greg er staðráðinn í að fá samþykki hans reynir hann að sýna sínar allra bestu hliðar til að komast í mjúkinn hjá föðurnum og móðurinni. Allar þær aðgerðir misheppnast herfilega (vægast sagt) og koma honum í sprenghlægilegar aðstæður. Framundan er hræðilegasta helgin í lífi Gregs og ekki batnar ástandið er hann kemst að því að Jack er fyrrum CIA-leyniþjónustumaður sem lumar á lygamæli í kjallaranum, en það er bara byrjunin á ógleymanlegri helgi sem verður stöðugt verri og verri.....Hin besta skemmtun, mjög góð gamanmynd.

Dagurinn í dag
1941 Lengsti þorskur veiddur við Ísland - mældist 181 sentimetri
1959 Sir David Niven hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Seperate Tables
1968 Óeirðir um öll Bandaríkin í kjölfar morðsins á Dr. Martin Luther King
1996 Fyrsta apótekið opnar eftir að frelsi var veitt í lyfsölu - Apótek Suðurnesja
2000 Vatneyrardómurinn - Hæstiréttur dæmdi útgerð Vatneyrar fyrir veiðar án aflaheimilda

Dagurinn í gær
1940 Hægri umferð samþykkt á þingi - kom þó ekki til framkvæmda fyrr en 1968
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, biðst lausnar og hættir í stjórnmálum
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ - aftur sýndur 1994 og 2004
1986 Flugslys varð í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi - fimm fórust og tveir komust af
1994 Kurt Cobain söngvari hljómsveitarinnar Nirvana, sviptir sig lífi

Snjallyrði dagsins
Nothing is so permanent as a temporary government program.
Milton Friedman