Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 maí 2004

Nýr fáni ÍraksHeitast í umræðunni
Fjölmiðlar um allan heim hafa seinustu daga fjallað ítarlega um hrottalegar pyntingar sem íraskir stríðsfangar hafa sætt af hálfu hernámsliðsins í Írak. Ítarleg umfjöllun var um málið í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes II á CBS á miðvikudagskvöld. Í þættinum voru sýndar myndir sem teknar voru í Abu Ghaib-fangelsinu skammt frá Bagdad í fyrra, þar sem bandarískir og breskir hermenn sjást pynta og auðmýkja stríðsfanga með ýmsum hætti. Rannsókn mun hafa hafist á málinu í janúar, í kjölfar þess að hermaður gaf sig fram og afhenti myndirnar og tjáði sig um ofbeldið við fangana. 17 hermenn munu hafa sætt rannsókn, 10 þeirra fyrir glæpsamlegt athæfi gegn föngum og munu 6 þeirra hafa verið ákærðir í síðasta mánuði. Hershöfðingi og sex lægra settir hermenn eiga nú yfir höfði sér herréttarhöld vegna málsins. Skelfilegt er að lesa ítarlega um atriði málsins, enda um að ræða alveg hryllilega meðferð á föngum í þessum fyrrum alræmdu fangabúðum Saddams Husseins. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hafa fordæmt harðlega meðferð hermannanna á stríðsföngum í Írak og krafist þess að tekið verði á þessu og hinir seku sæti ábyrgð vegna verka sinna. Skelfilegt er að sjá hvernig farið er með fanga þarna og nauðsynlegt að þeim verði refsað sem svona gera.

Þáttaskil hjá ESBÍ dag verða þáttaskil í sögu Evrópusambandsins er 10 ný lönd verða formlega aðildarríki að sambandinu. Um er að ræða lönd í M-Evrópu og við Miðjarðarhafið. Þau lönd sem ganga í sambandið nú eru: Tékkland, Kýpur, Eistland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía og Slóvenía. Áður hafa flest þessi lönd gengið í Atlantshafsbandalagið og eru vissulega söguleg tímamót að þessi gömlu einræðisríki kommúnismans séu komin í varnarbandalag annarra Evrópuþjóða og fari nú í Evrópusambandið. Fyrir eru í Evrópusambandinu alls 15 lönd: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð og Bretland. Samhliða þessum breytingum er fyrirhugað að komi til sögunnar stjórnarskrá Evrópusambandsins. Stefnt er að því að samkomulag náist um stjórnarskrána um miðjan júní og hún taki gildi í kjölfar þess síðar á árinu. Bendi ég á pistil minn um Evrópumál sem birtist 23. apríl sl. á frelsi.is.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherraGreinaskrif
Í gær birtist á heimasíðu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, athyglisverður pistill um stefnumótun stjórnvalda um stafrænt útvarp og sjónvarp og vinnu á vegum samgönguráðuneytis við undirbúning þess. Orðrétt segir í pistlinum: "Í okkar stóra dreifbýla landi skiptir það miklu máli að vel takist til með uppbyggingu dreifikerfis útvarps og sjónvarps. Liður í því að bæta stöðu fjölmiðlanna er að hið opinbera hlutist til um skynsamlega stefnu í þeim efnum um leið og starfsumhverfi fjölmiðlanna er markað skýrum línum í löggjöf. Allmiklar umræður hafa orðið hér á landi um innleiðingu stafræns hljóðvarps og sjónvarps. Talið er að stafrænt sjónvarp bjóði upp á marga kosti umfram núverandi kerfi. Þessir eru helst nefndir: Aukin flutningsgeta hverrar rásar og betri nýting í dreifi- og flutningskerfum, betri nýting á tíðnisviðum, betri mynd- og hljóðgæði, lægri kostnaður við dreifingu, auðveldari samruni við önnur fjarskiptakerfi og meiri möguleikar að því er varðar upplýsingasamfélagið, auðveldari innkoma nýrra efnisframleiðanda á markaðinn og auknir möguleikar á gagnvirkni, auknir möguleikar á færanlegu sjónvarpi innanhúss og/eða þráðlausri móttöku. Íslensk stjórnvöld verða að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki þau vilja leggja uppbyggingu stafræns sjónvarps lið." Fróðlegur pistill.

Secret WindowSjónvarpsgláp - bíóferð
Horfði venju samkvæmt á fréttatímana. Leit svo á upptöku af Íslandi í dag, þar voru Ingvi Hrafn og Stefán Jón að ræða t.d. fjölmiðlamálið. Margt athyglisvert kom þar fram. Horfðum svo á Vini, alltaf sama fjörið hjá þeim. Fórum í bíó laust eftir 10 og horfðum á kvikmyndina Secret Window með Johnny Depp. Magnaður spennutryllir, sem ég hvet alla til að sjá. Er heim kom var litið á upptöku af American Idol á Stöð 2. Að þessu sinni voru sungin latínó lög sem Gloria Estefan hefur sungið. Þátttakendurnir stóðu sig misvel. Langbest að þessu sinni voru Diana De Garmo og Fantasia Barrino, ekki spurning. Slakastir voru eins og síðast þeir John Stevens og George Huff. Undarlegt er hversu Huff gengur illa núna, en hann var einn af betri keppendunum lengi vel en hefur dalast seinustu tvær vikur. Eftir stendur að kvenþáttakendurnir bera af og mun ein þeirra vonandi vinna keppnina, helst Fantasia að mínu mati, hún er alveg mögnuð. John var að þessu sinni sendur heim, og ætti það ekki að koma neinum á óvart. Eftir að hafa litið á þáttinn horfðum við á endursýningu á Grumpier Old Men á Skjá einum. Lemmon og Matthau alltaf frábærir.

Dagurinn í dag
1923 Alþýðusambandið heldur í fyrsta skipti formlega upp á baráttudag verkalýðsins
1936 Maístjarnan, þekkt kvæði Halldórs Kiljans Laxness birtist í Rauða fánanum
1945 Tilkynnt formlega um dauða Adolf Hitler - tíðindunum fagnað um allan heim
1961 Fidel Castro bannar kosningar á Kúbu - einræðisstjórn hans hefur setið frá 1959
1994 Brasilíski formúlukappinn Ayrton Senna deyr í slysi á San Marino brautinni á Ítalíu

Snjallyrði dagsins
Ó hve létt er þitt skóhljóð
og hve lengi ég beið þín
það er vorhret á glugga
napur vindur sem hvín
en ég veit eina stjörnu
eina stjörnu sem skín
og nú loks ertu komin
þú ert komin til mín.
Halldór Kiljan Laxness skáld (Maístjarnan)