Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 maí 2004

Ólafur Ragnar GrímssonHeitast í umræðunni
Ítarleg umfjöllun heldur áfram í Tímariti Morgunblaðsins í dag um átta ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Í þessari seinni samantekt Árna Þórarinssonar er vikið að togstreitu sem hefur verið áberandi í umræðunni milli forsetaembættisins og stjórnkerfisins. Sérstaklega milli þess og bæði utanríkis- og forsætisráðuneytis. Þessi togstreita er samkvæmt umfjölluninni sögð opinbert leyndarmál sem enginn sé til í að undir nafni. Haft er eftir stuðningsmönnum forseta að utanríkisráðuneytinu mislíki viðleitni Ólafs Ragnars til að gera forsetaembættið sjálfstæðara en eftir gagnrýnendum hans að sú viðleitni eigi sér engar forsendur. Kemur fram í blaðinu að utanríkisráðuneytið hafi í fyrra gripið inn í og aflýst fundum sem forsetinn hefði skipulagt í Bandaríkjunum með framgangi forsetaskrifstofunnar og í gegnum persónuleg sambönd í Washington með bandarískum embættismönnum og þingmönnum. Mun forsetanum hafa verið settur stóllinn fyrir dyrnar. Er athyglisvert að lesa þessa umfjöllun. Einnig er vikið að pólitískum tengslum Ólafs bæði fyrir og eftir forsetakosningarnar 1996 við forystumenn á vinstrivæng stjórnmálanna. Hvet ég alla til að lesa þessa vönduðu umfjöllun. Sem fyrr stendur Mogginn sig vel í vandaðri blaðamennsku.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ helgarpistli sínum að þessu sinni fjallar Björn ítarlega um álit umboðsmanns Alþingis um skipan hæstaréttardómara. Orðrétt segir hann: "Alltof djúpt er í árina tekið, þegar sagt er, að í því felist sú niðurstaða, að ég hafi gerst brotlegur við lög. Hitt er annað mál, að ég þarf auðvitað að grandskoða álitið og draga mínar ályktanir af því, en eins og sagði í bréfi umboðsmanns, sem ég vitnaði til í upphafi, snýr málið að því, hvort alþingi telji nauðsynlegt að breyta lögum vegna álitsins. Við heimkomu mína frá Washington varð ég þess var, að margir töldu greinilega, að gauragangur í fjölmiðlum og á alþingi vegna álits umboðsmanns hefði gengið lengra en góðu hófi gegndi. Ég hef ekki gefið mér tóm til að kynna mér til hlítar umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum eða á þingi og ætla því ekki að fara í rökræður um það á þeim forsendum. Ég var spurður af Morgunblaðinu, hvað ég segði um kröfu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á alþingi um að ég segði af mér. Í svarinu minnti ég, að Ingibjörg Sólrún hefði aldrei stutt mig til neinna pólitískra starfa og Magnús Þór hefði sagst vilja sprengja mig og Halldór Blöndal, forseta alþingis, í loft upp. Að þau notuðu þetta álit umboðsmanns sem enn nýja átyllu til að krefjast afsagnar minnar, kæmi mér ekki á óvart. Baugsmiðlarnir hafa einnig verið að ýta undir umræður um afsögn mína, sem er svo sem ekkert nýnæmi fyrir mig."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um álit umboðsmanns Alþingis á skipan hæstaréttardómara í ágúst 2003 sem mikið hefur verið í umræðunni að undanförnu og aðför stjórnarandstæðinga að dómsmálaráðherra á þingi að honum fjarstöddum. Lengi má ræða almennt um lög um réttinn og hvernig haga skuli skipan dómara við réttinn. Staða þeirra mála er mjög skýr nú um stundir. Ráðherra hefur veitingarvaldið og ber engin skylda til að fara eftir áliti sitjandi dómara við réttinn. Það er sjálfsagt að taka umræðuna um hvort breyta eigi skipunarferli dómara og hvort önnur nálgun eigi að fara fram við mat á umsækjendum og vali á þeim sem skipaður er í embættið. Enginn vafi leikur hinsvegar á því hver staða mála er í dag, það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og tekur ákvörðunina. Á það bentu Dögg Pálsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson í sjónvarpsviðtali í vikunni að úrskurður umboðsmannsins væri undarlegur í ljósi laga um réttinn.
Ennfremur fjalla ég um afhjúpun á Samfylkingunni í umræðu um bókhald stjórnmálaflokkanna í vikunni og hvernig varaformaður flokksins varð vandræðaleg í sjónvarpsþætti. Að lokum krefst ég þess að stjórnarflokkarnir efni sem fyrst loforð sín í skattamálum.

Naked GunGott laugardagskvöld
Eftir kvöldfréttirnar horfðum við á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þátturinn snerist að þessu sinni að mestu um Eurovision sem verður um næstu helgi. Voru fín viðtöl þarna við fólk sem hafið farið út að Íslands hálfu í keppnina í þau 20 ár sem Ísland hefur verið þátttakandi. Svo fluttu Magnús Eiríksson, Sverrir Stormsker og Eyjólfur Kristjánsson höfundar Eurovision-laganna Gleðibankans, Sókrates og Nínu, lög sín í live-flutningi. Þessi þrjú lög bera að mínu mati af öllum öðrum lögum ásamt All out of Luck, laginu sem auðvitað átti að vinna keppnina árið 1999, en vegna slapps tónlistarsmekks austantjaldsþjóða vann Selma Björnsdóttir ekki þá, þrátt fyrir að vera með besta lagið. Horfðum svo á þátt þar sem lögin sem eru örugg á úrslitakvöldið voru spiluð, sum lög betri en önnur í þeim hópi. Spekingarnir gáfu okkar lagi í ár góða dóma. Eftir þáttinn horfðum við á kvikmyndina Speed, flotta spennumynd með Keanu Reeves, Dennis Hopper og Söndru Bullock, sem verður að mínu mati alltaf betri með árunum. Allavega alltaf frábær. Horfðum svo á hinar mögnuðu kvikmyndir Naked Gun 1 og 2, sem allir lifandi einstaklingar geta hlegið að.

Dagurinn í dag
1593 Skjaldarmerki með afhöfðuðum þorsk með kórónu tekið í notkun - notað til 1903
1855 Friðrik 7. Danakonungur gefur út tilskipun sem lögleiddi fullt prentfrelsi á Íslandi
1955 V-Þýskaland gengur formlega í NATÓ - tíu árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar
1974 Sverrir Hermannsson talar samfellt í rúma fimm tíma á þingi - met í lengd til 1998
1978 Aldo Moro fv. forsætisráðherra Ítalíu, finnst látinn - honum hafði verið rænt skömmu áður

Snjallyrði dagsins
Humor is also a way of saying something serious.
T.S. Eliot ljóðskáld