Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 júní 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson rauf þögnina á föstudag með viðtali við DV (nema hvað), útvarpsviðtali ásamt öðrum frambjóðendum og viðtali við Fréttablaðið og DV á laugardag og ennfremur viðtali við Morgunblaðið á sunnudegi. Þótti mér fróðlegt að heyra útvarpsviðtalið og lesa blaðaviðtölin þar sem ég var staddur í sumarfríi á Austurlandi um helgina. Það er vissulega jákvætt að forseti tjái sig loks um mál málanna og þá atburði sem gerst hafa eftir ákvörðun hans um að synja lögum frá Alþingi. Það var löngu kominn tími til að hann gerði það og hafði ég t.d. margoft bent á mikilvægi þess á vefum mínum að hann myndi stíga fram og tjá sig í fjölmiðlum. Eini gallinn á gjöf Njarðar í þessu máli er sá að forsetinn rökstyður enn ekki ákvörðun sína, hann tjáir sig ekki efnislega um ástæður þess að hann rauf 60 ára gamla hefð um hlutleysi forseta og ákvað að breyta eðli forsetaembættisins og stöðu þess. Ekkert liggur enn fyrir um þessi atriði og forseti hyggst ekki reyna með nokkrum hætti að tjá þá hlið mála fyrir forsetakosningarnar á laugardag. Í kvöld var forseti í yfirheyrslu á Stöð 2 og þar reyndi hann að snúa enn og aftur út úr staðreyndum málsins og virðist telja að almenningur sé orðinn minnislaus um tengsl forsvarsmanna framboðs hans við Norðurljós. Þykir mér miður að forseti hafi enn ekki náð að koma saman rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. 5 dagar eru til forsetakosninga, sú ákvörðun mín að skila auðu í kosningunum stendur óbreytt og ég sé ekki að neitt breyti henni. Þessir þrír frambjóðendur eru ekki vænlegir að mínu mati til setu á þessum stóli og ég mun ekki styðja neinn þeirra. Hvet ég alla til að skila auðu í kosningunum. Það væru mikilvæg skilaboð til forseta Íslands á þessari stundu, að mínu mati þau táknrænustu, að fólk skilaði auðu í kosningunum.

Hæstiréttur ÍslandsPétur Kr. Hafstein tilkynnti á laugardag að hann myndi láta af störfum sem hæstaréttardómari 1. október nk. Þessi ákvörðun Péturs kom verulega á óvart, enda hann aðeins 55 ára gamall og á því nokkuð eftir í að ná eftirlaunaaldri í Hæstarétti, er almennt miðað við 65 ára aldurinn. Hefur Pétur í hyggju að snúa sér að sagnfræðinámi við Háskólann og einbeita sér að því að koma sér upp heimili að Rangárvöllum og flytja þangað í fyllingu tímans. Kynntist ég Pétri talsvert árið 1996 er hann bauð sig fram til embættis forseta Íslands, en ég vann þá á kosningaskrifstofu hans hér á Akureyri. Var gaman að taka þátt í þeim kosningaslag og ennfremur að kynnast Pétri og fjölskyldu hans þá. Miklar breytingar blasa við í Hæstarétti á næstu árum, enda tveir dómarar komnir á aldur, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason og styttist í að Garðar Gíslason nái eftirlaunaaldri. Það blasir því við að allavega þrjár dómarastöður losna bráðlega.

TogariÍ gær sat ég ráðstefnu SUS um sjávarútvegsmál á Eskifirði. Var virkilega gaman að fræðast meira um þennan málaflokk og voru fróðleg framsöguerindi hjá Illuga Gunnarssyni aðstoðarmanni forsætisráðherra, og Björgólfi Jóhannssyni forstjóra Síldarvinnslunnar og formanni LÍÚ. Voru gagnlegar umræður eftir framsöguerindin og tekist á um hefðbundin efni í sjávarútvegsmálum. Eftir ráðstefnuna var Eskja á Eskifirði heimsótt, og Haukur Björnsson forstjóri, kynnti starfsemi fyrirtækisins og bauð upp á veitingar. Helgin fyrir austan var mjög skemmtileg og gagnleg, sérstaklega hafði ég gaman af því að hitta vini og ættingja fyrir austan. Það er alltaf gaman að fara austur á firði og heilsa upp á fólk þar.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni var pistillinn skrifaður í sumarleyfi á Austfjörðum. Nóg af umfjöllunarefnum á heitu pólitísku sumri. Í pistlinum fjalla ég um þá valdþreytu og forystuleysi sem einkennir borgarstjórnarmeirihluta R-listans og er öllum sýnileg hvort sem um er að ræða stuðningsmenn valdabandalagsins eða andstæðinga þess, minni ég t.d. á stöðu Þórólfs Árnasonar sem fyrirfram er ekki vænleg með tilliti til forystu í bandalaginu. Ennfremur fjalla ég um umræðu um ákvörðun Vigdísar Finnbogadóttur að afhenda ekki leiklistarverðlaun vegna tengsla styrktaraðila þeirra við núverandi forseta samhliða fjölmiðlalögunum og minni ennfremur á mikilvægi þess að forseti sé krafður svara. Ráðist er nú að Vigdísi fyrir að hafa skoðanir og taka þá afstöðu að vilja ekki tengja sig þessu fyrirtæki á þessum tímapunkti að svo greinilegt er að forseti gengur erinda velvildarmanna við ákvarðanatöku. Athygli vekur ennfremur að hinir sjálfskipuðu vinstrisinnuðu spekingar sem gagnrýna að ráðist sé að Ólafi Ragnari Grímssyni í ljósi þess að hann sé forsetinn og ekki sé viðeigandi að yrða á hann eða svara því sem frá honum kemur nema með virðingaglampa og háæruverðugum húrrahrópum, ráðast nú harkalega að forvera hans, Vigdísi Finnbogadóttur og reyna að grafa undan trúverðugleika hennar og þeim sjálfsagða rétti hennar að hafa skoðanir og taka ákvarðanir fyrir sig með þeim hætti sem hún gerði. Að lokum skrifa ég um þá kraftmiklu uppbyggingu sem á sér stað á Austfjörðum samhliða álvers- og virkjunarframkvæmdum.

Áhugavert á Netinu
Gildi umræðna - pistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Mikilvægt að einkavæða Ríkisútvarpið - pistill Snorra Stefánssonar
Heimdallur og jafnréttismál - pistill Maríu Margrétar Jóhannsdóttur
Velkominn aftur í pólitík hr. forseti - grein Atla Rafns Björnssonar
Pétur Kr. Hafstein hættir í Hæstarétti og hyggur á sagnfræðinám
Ólafur Ragnar Grímsson segist ekki verða var við stjórnarfarskreppu
Kjósendum hefur fjölgað um 9,7% frá síðasta forsetakjöri 1996
Jón Steinar Gunnlaugsson íhugar að sækja um dómarastarf hjá Hæstarétti
Javier Solana og Bertie Ahern m.a. nefndir sem forsetaefni hjá ESB
Gloria Arroyo endurkjörin til setu á forsetastóli á Filippseyjum
Dauðarefsing vofir yfir Saddam Hussein fyrrum forseta Íraks
Bill Clinton segir að óþekktir djöflar hafi leitt til framhjáhalds síns
Tony Blair hefur kosningabaráttu fyrir stjórnarskrárkosningu ESB
Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar langt komin
Ólafur Ragnar gerir ekki ráð fyrir því að kjósa um fjölmiðlalögin í ágúst
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, opnar nýjan veg, Dalsbrautina á Akureyri
Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, reiðist í viðtali við BBC
Bók Clintons fær slaka dóma þrátt fyrir afhjúpanir hans um einkalífið
Gott framtak - undirskriftalisti gegn hléum í kvikmyndahúsum
Ray Charles kvaddur hinsta sinni með gleðiríkri minningarathöfn
Mikið fjör á EM í fótbolta 2004 - magnaður leikur (leikur mótsins?)

Dagurinn í dag
1959 Sigurbjörn Einarsson vígður biskup - hann sat til ársins 1981, lengst allra á öldinni
1973 Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, var stofnaður - nær frá Dettifossi niður að Ásbyrgi
1991 Perlan í Öskjuhlíð, útsýnishús Hitaveitu Reykjavíkur, var formlega tekið í notkun
1999 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, kom í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur forsætisráðherra landsins - Keizo Obuchi lést af völdum heilablóðfalls tæpu ári síðar
2000 Síðari Suðurlandsskjálftinn ríður yfir - hann mældist 6,6 stig á Richter, fyrri skjálftinn var 17. júní 2000. Gríðarlegt tjón varð víða á Suðurlandi vegna þessara náttúruhamfara

Snjallyrði dagsins
Remember, always give your best. Never get discouraged. Never be petty. Always remember, others may hate you. But those who hate you don't win unless you hate them. And then you destroy yourself.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)