Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 ágúst 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um valdabaráttuna innan Framsóknarflokksins sem komin er upp á yfirborðið eftir að þingflokkurinn samþykkti þá tillögu formanns flokksins að Siv Friðleifsdóttir missti ráðherrasæti sitt við hrókeringarnar 15. september nk. Eins og ég bendi á er Framsóknarflokkurinn í krísu vegna innbyrðis valdaátaka, nú þegar hann tekur við forsæti ríkisstjórnarinnar. 24 dagar eru nú þar til uppstokkun verður í ríkisstjórninni og Halldór tekur við forystu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að fróðlegt verði að fylgjast með stjórnarsamstarfinu í vetur, við breyttar aðstæður. Ég hef persónulega gagnrýnt Framsóknarflokkinn óhikað í mörgum málum. Ég var mjög ósáttur við að flokkurinn skyldi tefja fyrirfram ákveðnar skattalækkanir í vor og hafi barist gegn öðrum framfaramálum. Nú reynir hinsvegar á hvernig Framsóknarflokkurinn höndlar það að leiða stjórnarsamstarfið og hvort formaður Framsóknarflokksins sé nógu sterkur til að standa undir byrðinni, samhliða óeiningu og valdabaráttu í eigin röðum. Rúmir 70 dagar eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum, baráttan verður sífellt harðari og óvægnari og tekist er harkalegar á en dæmi eru fyrir til fjölda ára í bandarískum stjórnmálum. Seinustu daga hafa frambjóðendurnir tekist harkalega á um sjónvarpsauglýsingar sem ganga á sjónvarpsstöðvum vestanhafs þar sem gert er lítið úr hermennskuafrekum John Kerry í Víetnamstríðinu. Segja má með sanni að baráttan nú sé harðari og óvægnari en var árið 2000 þegar Bush mætti Gore. Sú barátta lauk með dramatískum hætti. Verður athyglisvert að fylgjast með hvert þessi kosningabarátta stefnir, þá rúmu 70 daga sem hún mun standa. Að lokum fjalla ég um umdeilda mynd Michaels Moore, og minni á að hér er ekki um heimildarmynd að ræða, heldur mun frekar einhliða áróðursmynd í takt við pólitíska strauma tengda forsetakosningunum í nóvember.

Michael MooreEinhliða áróðursmynd
Um helgina fór ég í bíó og horfði á hina umdeildu kvikmynd Michael Moore, Fahrenheit 9/11. Þessi mynd hefur vakið mikið umtal um allan heim og var t.d. valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á þessu ári. Moore varð heimsþekktur fyrir mynd sína, Bowling for Columbine, árið 2002, og hlaut hún óskarinn sem besta heimildarmyndin á Óskarsverðlaunahátíðinni í mars 2003. Þar vakti Moore á sér athygli með því að ráðast að George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í þakkarræðu sinni og vakti sterk viðbrögð og var púaður niður. Sú ræða var fyrirboði þess sem væntanlegt var frá honum. Í nýju myndinni fjallar hann á mjög einhliða máta um Bush-stjórnina og verk hennar og tekur staðreyndir úr samhengi og skeytir eigin mati og afstöðu til málanna inn á milli. Sumir aðilar hafa keppst að undanförnu við að kalla þetta heimildarmynd og telja hana unna með markvissum og merkilegum hætti. Ég get ómögulega tekið undir það. Ég hef fylgst með kvikmyndum og kvikmyndagerð með miklum hætti í tæpa tvo áratugi og get ekki með nokkru móti kallað þessa mynd annað en áróðursmynd gerða útfrá einni skoðun, einu hugarfari og samansafni neikvæðra hliða úr einni átt. Það er það jákvæða við heiminn í dag að öllum þeim sem lifa í lýðræðisríkjum er heimilt að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem viðkomandi telja henta sér best. En slíkt tekur maður bara sem pólitíska sýn á pólitískan forystumann. En seint kallast þetta heimildarmynd, heldur flokkast það best undir hatursfullt sjónarhorn pólitísks andstæðings á þjóðarleiðtoga. Útfrá því sjónarhorni er langbest að dæma myndina. En að mínu mati er mikilvægt að kynna sér ólíkar skoðanir og mat fólks á stjórnmálamönnum. Svo er hægt að meta hvernig til tókst og hvernig sú tjáning á skoðunum gekk upp og hvort hún sé vel unnin eður ei.

Dagurinn í dag
1809 Jörundur hundadagakonungur, Jörgen Jörgensen, hrakinn frá völdum á Íslandi
1972 Rhodesíu vísað úr Ólympíuleikunum, fimm dögum fyrir upphaf leikanna í Þýskalandi
1975 Lynette Fromme reynir að ráða Gerald Ford forseta Bandaríkjanna, af dögum
1978 Jomo Kenyatta forseti Kenýa og sjálfstæðishetja landsins, deyr, 89 ára að aldri
2004 Málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch var stolið af Munch safninu í Osló í Noregi

Snjallyrði dagsins
Don't gamble; take all your savings and buy some good stock and hold it till it goes up, then sell it. If it don't go up, don't buy it.
Will Rogers leikari (1879-1935) - snjallyrði Will Rogers