Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 september 2004

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Eins og flestum ætti að vera kunnugt skrifaði ég ítarlegan pistil um utanríkismál á frelsi.is í síðustu viku og fór þar yfir stöðu mála við ráðherraskipti í utanríkisráðuneytinu. Meðal annars var þar vikið að 9 ára utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Minntist ég á að í ráðherratíð Halldórs hefði utanríkisþjónustan bólgnað verulega út. Ráðuneytið hefði fengið 2 og hálfan milljarð á fjárlögum við upphaf ráðherraferils hans en endað með seinustu fjárlögum í 5 og hálfum milljarði, semsagt rúmlega helmingsútþensla í eyðslu á tæpum áratug. Í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í dag fjallar Árni Snævarr um sama mál og ég tók fyrir í pistlinum og kemur með fróðlegar tölur að auki þar. Víkur hann þar að væntanlegu fjárlagafrumvarpi og upplýsir þar um þá mikilvægu staðreynd að framlög ríkisins til utanríkisráðuneytisins munu nema 6 og hálfum milljarði á fjárlögum 2005, þeim síðustu sem unnin eru í ráðherratíð Halldórs. Útgjöld ráðuneytisins munu þar með aukast um einn milljarð miðað við fjárlög þessa árs. Samkvæmt umfjöllun Árna munar mestu um 700 milljóna króna aukningu framlaga til þróunarmála. Hækkun útgjalda til friðargæslu og þróunaraðstoðar skýra einnig töluverðan hluta útgjaldahækkunarinnar. Útgjöld til friðargæslu meira en þrefölduðust, fóru úr 83 milljónum í 311, miðað við bara árið 2003. Þróunaraðstoðin hefur nærri því fjórfaldast frá 2003. Þessar tölur eru sláandi, eftir er þá að minnast á sendiráðin og sendiskrifstofurnar. Rekstrarútgjöld þeirra hafa tvöfaldast í ráðherratíð Halldórs. Er sláandi að fara yfir þetta og ljóst að ég hefði getað farið mun víðar í að telja upp bruðl og vitleysu þá sem viðgengst hefur í utanríkisráðuneytinu, en ég hélt mig eingöngu við sendiráðin. Nóg er nú bruðlið þar, þó hitt bætist ekki við. En tölurnar tala sínu máli. Ég vil hinsvegar þakka öllum þeim sem hafa haft samband vegna pistilsins margumrædda fyrir gott spjall um málið og þakka Árna fyrir að hafa tekið þetta mál föstum tökum í umfjöllun sinni, eftir pistlaskrif mín.

HæstirétturGeir H. Haarde fjármálaráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, en eins og öllum er kunnugt hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, vikið sæti vegna máls Hjördísar Hákonardóttur, sem sótti um stöðu hæstaréttardómara í fyrra og aftur nú. Dómarar í réttinum skiluðu áliti sínu um mat á umsækjendur og töldu allir nema einn að lagaprófessorarnir Eiríkur Tómasson og Stefán Már Stefánsson væru hæfastir umsækjenda. Næst þeim tveim í matinu kemur Hjördís Björk Hákonardóttir en rétturinn gerir ekki greinarmun á Allan Vagni Magnússyni, Eggerti Óskarssyni og Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði séráliti þar sem hann lagði áherslu á afburðaþekkingu Jóns Steinars Gunnlaugssonar á sviði lögfræði. Honum sé ómögulegt að raða Jóni svo aftarlega sem raun ber vitni. Tek ég undir mat Ólafs Barkar. Tel ég að Jón Steinar njóti ekki sannmælis í mati dómaranna. Líst mér vel á að lögmenn hafi nú hafið undirskriftasöfnun til stuðnings Jóni Steinari. Með ólíkindum er að reynsla hans og störf á sviði lögfræði sé svo lítið metin sem raun ber vitni í mati réttarins. Óneitanlega bendir flest til þess að stjórnmálaskoðanir Jóns og tjáning hans á málefnum réttarins hafi frekar áhrif á dómarana en menntun hans og starfsreynsla. Er það óneitanlega miður og því ærin ástæða til að mótmæla álitinu að mínu mati. Það á að meta menn eftir réttum stöðlum, en ekki hentiástæðum þegar umsækjendur eru metnir í tengslum við svo virðulegt embætti. Nauðsynlegt er að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum.

AkureyrarbærAkureyri í öndvegi
Rúmlega 1500 manns komu saman á íbúaþinginu Akureyri í öndvegi sem haldið var í Íþróttahöllinni, sl. laugardag, þann 18. september. Hefur aldrei verið haldið fjölmennara íbúaþing á Íslandi, og þótt víðar væri leitað. Segja má að tíundi hver Akureyringur hafi mætt á staðinn og voru gestir á öllum aldri. Miklar upplýsingar söfnuðust um fjölmörg atriði sem varða miðbæinn og Akureyri almennt. Seinustu daga hefur verið unnið úr upplýsingunum. Niðurstöður þingsins verða kynntar í kvöld kl. 20.00 í Hólum, sal Menntaskólans á Akureyri. Verða þær nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni sem haldin verður svo í kjölfarið. Með þessu þingi var þekking bæjarbúa og áhugamanna um bættan miðbæ virkjuð til að skapa heillandi og kraftmikla framtíðarsýn, okkur öllum hér til heilla. Er þessi vinna og undirbúningur hennar mjög nauðsynleg að öllu leyti til að efla miðbæinn okkar og er lofsvert framtak. Að mínu mati á Ragnar Sverrisson hrós skilið fyrir að hafa ýtt þessu mikla verkefni úr vör og hafa fengið aðra í lið með sér og unnið vel að því að efla hjarta bæjarins okkar, miðbæinn. Án blómlegs og kraftmikils mannlífs er miðbærinn að öllu leyti líf- og þróttlausari. Hef ég sjaldan munað eftir öðrum eins áhuga hins almenna borgara að taka beinan þátt í að móta bæinn sinn og hafi fyrr fengið jafn greiðan aðgang að því að ákveða sjálfur hvað verði gert og fái til þess jafngott tækifæri og hér um ræðir. Er þetta til marks um hið beina íbúalýðræði sem hér er varðandi skipulag bæjarins.

Dagurinn í dag
1957 Árbæjarsafnið í Reykjavík opnað fyrir almenningi - þar er margt sögulegra minja og eldri húsa
1965 Stríðinu milli Indlands og Pakistans um yfirráð yfir Kasmír lýkur eftir að SÞ krefst vopnahlés
1975 Sara Jane Moore reynir að myrða Gerald Ford forseta Bandaríkjanna - tilræðið mistókst
1980 Írak ræðst inn í Íran - leiddi til 8 ára stríðs þessara stórríkja sem lauk með vopnahléi árið 1988
1999 Óskarsverðlaunaleikarinn George C. Scott lést, 72 ára að aldri. Scott var einn af helstu leikurum Bandaríkjanna á 20. öld og hlaut óskarinn 1971 fyrir stórfenglega túlkun á George Patton

Snjallyrði dagsins
Er ekki frá því að ég sé með harðsperrur í kjálkavöðvunum eftir mikið bros undanfarna daga. Guðni sagðist vera uppfullur af hugmyndum um bætta stöðu bænda. Vill sjá miklar innflutningshömlur á erlendar vörur. “Við Íslendingar, sem eigum bestu sauðkind í heimi, erum sjálfum okkur nóg um allt sem við þurfum að eta og drekka”, sagði Guðni. Mikið er nú gott að varaformaður flokksins sé svona sniðugur í landbúnaðarmálum, undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar. Svona mann hafði Dabbi aldrei enda mun það koma á daginn að Dóri stóri er miklu betri forsætisráðherra en Dabbi var nokkurn tímann. Ligga, ligga lái! Dagný hringdi aftur, nennti ekki að tala við hana núna, hún vildi örugglega bara tala meira um Símann og ég sem er ekki enn búinn að læra á símkerfið. Muna: hringja aftur í Denna og fá upplýsingar um símkerfið og spyrja um hvað starfið snýst í meginatriðum.
Dagbókarbrot forsætisráðherra (birt á Deiglunni)