Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 september 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur þónokkuð forskot á keppinaut sinn, John Kerry öldungadeildarþingmann frá Massachusetts, ef marka má nýjustu skoðanakönnun CNN, USA Today og Gallup sem birt var í morgun. Í dag eru 35 dagar, nákvæmlega fimm vikur, þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og kjósa forseta Bandaríkjanna, kjörtímabilið 2005-2009. Samkvæmt fyrrnefndri könnun hefur Bush forseti, 52%, Kerry nýtur fylgis 44% kjósenda og neytendafrömuðurinn Ralph Nader hefur 3%. Svo virðist vera sem munurinn hafi aftur aukist, en í seinustu könnun hafði munurinn minnkað í sex prósent. Þegar nánar er spurt um frambjóðendurna hefur Bush yfirburði á öllum sviðum yfir Kerry. Er greinilegt reyndar að Bush hefur bætt sig verulega hvað varðar afstöðu fólks til baráttunnar gegn hryðjuverkum, Íraksmálsins og utanríkismála almennt. Er ljóst að bandarískir kjósendur treysta betur Bush en Kerry til að leiða Bandaríkin á komandi árum. Þessi könnun kemur á þeim tímapunkti að tveir sólarhringar eru í fyrstu kappræður forsetaefnanna, sem er að segja má seinasta stóra tækifæri þeirra til að koma stefnu sinni og málefnum í kastljós fjölmiðlanna og ná að ræða það af krafti. Segja má að staða Kerrys sé að verða töpuð, nema þá að til komi meiriháttar kraftaverk í kringum kappræðurnar þrjár milli hans og Bush forseta. Kerry hefur úr þessu engu að tapa og ljóst að hann verði beittur í fyrstu kappræðunum og verði þar öllu að beita til að reyna að snúa taflinu við og ná einhverri þeirri stöðu til að berjast gegn forsetanum. Þó er ljóst að sigurlíkur forsetans aukast nú sífellt, ef marka má allar kannanir sem benda til öruggs sigurs hans eftir fimm vikur. Verður fróðlegt að sjá hvernig slagurinn þróast eftir að kappræðurnar hefjast á fimmtudaginn, þar sem Kerry og Bush mætast í umræðum í fyrsta skipti, augliti til auglitis. Búast má við hvössum skotum milli frambjóðendanna í fyrstu kappræðunni.

Tony BlairTony Blair forsætisráðherra Bretlands, hóf formlega kosningabaráttu sína og Verkamannaflokksins, í ítarlegri ræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins í Brighton í dag. Lýsti Blair því yfir í ræðu sinni að það væri markmið flokksins að vinna næstu þingkosningar og vera við stjórnvölinn í Bretlandi áfram, þriðja kjörtímabilið í röð. Sagðist hann myndu sækjast eftir því að leiða flokkinn í gegnum kosningarnar og næstu árin. Það hefur aldrei gerst í sögu flokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Aðeins Margaret Thatcher hefur tekist að leiða breskan stjórnmálaflokk í gegnum þrennar kosningar í röð og sigra þær allar. Það er því ljóst að Blair stefnir að því að jafna met Thatcher og sækist eftir að ná að komast nálægt meti hennar sem þaulsætnasta forsætisráðherra landsins í seinni tíma stjórnmálasögu, en Thatcher sat sem forsætisráðherra í rúm 11 ár, frá 1979-1990. Blair stendur vissulega á krossgötum, nú þegar hann ávarpar flokksmenn sína. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli hans og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Mjög er deilt innan flokksins um afstöðu hans í Íraksmálinu og hefur hún orðið honum fjötur um fót, eins og sást í sveitarstjórnarkosningum í landinu fyrr á árinu. Í ræðunni í dag markaði hann stefnu næstu ára, nái hann að vinna næstu kosningar og fjallaði hann þar að mestu um innanríkismál og velferðarmál sem aðalkosningamál. Með því hyggst hann reyna að beygja umræðunni frá utanríkismálunum og reyna að auka sigurlíkurnar, en skv. skoðanakönnunum eru tveir stærstu flokkar landsins hnífjafnir. Líklegast er að Bretar muni ganga að kjörborðinu þann 5. maí 2005. Dagsetningin er ekki valin af tilviljun (05-05-05).

Bandaríski fáninnVefsíður tengdar forsetakosningunum
Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram 2. nóvember, eins og ég hef svo oft bent á. Á netinu er hægt að nálgast mikið af upplýsingum um kosningarnar, embætti forseta Bandaríkjanna og fleira. Á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur verið birtur ítarlegur listi yfir nokkrar helstu síðurnar. Er rétt að fara yfir nokkra vefi. Ber fyrst að nefna heimasíðu George W. Bush. Þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um framboðið og sjónvarpsauglýsingar sem framboðið hefur látið gera. Á þessari síðu er hægt að nálgast ítarlega stefnuskrá forsetans í öllum helstu málaflokkum. Vefsíða Repúblikanaflokksins er mjög ítarleg og góð. Í lok ágúst og byrjun september héldu repúlikanar flokksþing sitt í New York, heimasíða þingsins er mjög gagnleg. Ekki má svo gleyma ítarlegu myndbandi þar sem tekin eru saman ummæli Kerrys um Íraksmálið. Þegar litið er á demókrata ber fyrst að nefna heimasíðu John Kerry, þar sem finna má allar upplýsingar um stefnumál forsetaframbjóðandans. Demókratar héldu flokksþing sitt í Boston í júlí og er heimasíða þess mjög gagnleg. Vefur Demókrataflokksins er ennfremur ítarlegur. Á þessum vef er svo að finna upplýsingar um allar kappræður sem fram hafa farið milli forsetaframbjóðenda síðan 1960. Á síðunni er hægt að fá endurrit af öllum kappræðunum. Að auki mætti nefna fjölda fréttavefa og upplýsingasíðna, en á þær er frekar bent á í umfjölluninni á vef SUS. Hvet ég alla til að líta á listann og fara á vefina og kynna sér vel málefni þessarar athyglisverðu kosningabaráttu.

Dagurinn í dag
1988 2. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum - hún sat til 1991 með breytingum
1994 Bílaferjan Estonia ferst á Eystrasalti - 854 fórust með ferjunni, flestir Svíar. Þetta var mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasaltið ákváðu að ferjan skyldi algjörlega friðuð og ekki hreyft við neinu
2000 Heimsókn hins umdeilda stjórnmálamanns Ariel Sharon í hina helgu Al-Aqsa mosku, leiðir til mikilla óeirða milli Palestínumanna og Ísraela. Sharon varð forsætisráðherra Ísraels í janúar 2001
2000 Pierre Elliot Trudeau fyrrum forsætisráðherra Kanada, deyr í Toronto, áttræður að aldri. Trudeau var einn fremsti stjórnmálamaður Kanada og var forsætisráðherra 1968-1979 og 1980-1984
2003 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Elia Kazan deyr í New York, 94 ára að aldri. Kazan var einn af umdeildustu leikstjórum 20. aldarinnar og hlaut hann tvívegis óskarsverðlaun fyrir leikstjórn: fyrir Gentleman's Agreement og On the Waterfront. Hann hlaut heiðursóskar fyrir ævistarf sitt 1999

Snjallyrði dagsins
I want to thank the Academy for its courage and generosity. I want to thank you all very much. I think I can just slip away now.
Elia Kazan leikstjóri (1909-2003) (er hann tók við heiðursóskarnum 1999)