Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 september 2004

AkureyriHeitast í umræðunni
Tilkynnt var seinnipartinn í gær um sameiningu Burðaráss og Kaldbaks. Sameinast þau undir merkjum Burðaráss, en Burðarás greiðir fyrir bréfin í Kaldbaki með því að auka hlutafé um u.þ.b. 20%. Samherji og Baugur eiga eftir viðskiptin bæði um 5% hlut hvort í Burðarási. Þorsteinn Már Baldvinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Jón Ásgeir Jóhannesson sameinast með þessu í fjárfestingarfélagi sem hyggst að mestu leyti fjárfesta erlendis. Sviptingarnar urðu miklar á rúmum hálftíma eftir að tilkynnt var um sameiningu þessara tveggja fjárfestingarfélaga. Kaupfélag Eyfirðinga, seldi öll sín hlutabréf í Kaldbaki, en eignarhlutur þess í því var 27%. Kaupandi bréfanna var Kaldbakur. KEA fær í sinn hlut 3,7 milljarða króna og er bókfærður hagnaður alls um 2,5 milljarðar króna. KEA keypti strax 10% hlut í Samherja sem kostaði um 2 milljarða króna. KEA fær í staðinn 1,7 milljarða króna. Þessar sviptingar marka mikil þáttaskil á Akureyri. Kaldbakur, sem var stofnað sem fjárfestingarfélag KEA, er ekki lengur til. Með því má segja að stór hluti umsvifa KEA í gegnum Kaldbak sem staðið hafa með stórveldi KEA í fjölda áratuga, hafi liðið undir lok. Nýtt stórveldi á því margar eignir hér í bænum, t.d. stóran hluta í Samherja. Með því að Burðarás verði stærsti hluthafinn í Samherja má búast við að Eimskip taki við flutningum á vegum Samherja, en áður hafði Samherji leigt flutningaskip til að koma afurðum sínum til Evrópu og með því sniðgengið Eimskip. Ekki má gleyma að Burðarás (Eimskip) átti þar til fyrr á þessu ári Útgerðarfélag Akureyringa, sem nú heitir Brim. Það er því ljóst að miklar sviptingar hafa átt sér stað í viðskiptalífinu hér á Akureyri með viðskiptum gærdagsins.

KennslaVerkfall kennara hefur nú staðið í rúma fjóra sólarhringa. Enginn sáttatónn er í samninganefndum kennara og sveitarfélaga. Fundi var slitið í gærmorgun eftir stuttar viðræður. Of mikið ber á milli samninganefndanna að mati Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara, til að rætt verði saman á næstu dögum og hefur næsti samningafundur ekki verið boðaður fyrr en fimmtudaginn 30. september nk. Það er því ljóst að verkfall kennara mun verða langt og líklegast mun líða á löngu áður en nemendur geta haldið á ný í skólann og notið þeirrar menntunar sem þeir eiga rétt á. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna kom saman í gærkvöld og samþykkti ályktun um verkfall grunnskólakennara. Í henni segir svo: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna harmar að grunnskólakennarar hafi farið í verkfall. Eðlilegra væri ef kennarar myndu taka skref í faglega átt í kjaradeilu sinni og hefja umræðu um mat á hæfni og dugnaði hvers og eins kennara. Slíkt er mun vænlegra til árangurs en karp um kennsluskyldu og frítíma. SUS hvetur sveitafélög og kennara að íhuga breytt fyrirkomulag samninga og einkaframkvæmd í rekstri skólastofnana sem stuðlar að fjölbreyttara og litríkara skólastarfi. Samband ungra sjálfstæðismanna telur verkfallsvopnið vera úrelt tæki í kjarabaráttu. Verkfall kennara bitnar fyrst og fremst á þeim er síst skyldi, skólabörnum. Verkföll eru leifar gamalla tíma úr úreltri kjarabaráttu og notkun þess setur í þessu tilfelli heila stétt á lægri stall. Verkfallið dregur um leið úr áhuga ungs fólks á kennarastarfinu. Sérstaklega harmar SUS hörð viðbrögð forystu kennarasambandsins við jákæðu frumkvæði fyrirtækja að bjóða börnum gæslu á vinnutíma foreldra sem er fráleitt að kalla verkfallsbrot." Gat ég ekki setið fundinn vegna aðalfundar Varðar, sem haldinn var á sama tíma. Þessi ályktun er hinsvegar mjög góð og kraftmikil. Líst mér vel á hana.

Stefán Friðrik Stefánsson formaður VarðarAðalfundur Varðar
Aðalfundur Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var haldinn á Hótel KEA í gærkvöldi. Fundurinn fór mjög vel fram og var fjörugur á köflum. Í upphafi fundar flutti Guðmundur Egill Erlendsson fráfarandi formaður, skýrslu stjórnar og Birgir Örn Tómasson fráfarandi gjaldkeri félagsins, gerði grein fyrir fjármálum þess. Varð nokkur umræða á fundinum um stjórnmálaástandið og helstu málefnin sem varða kjördæmið og Akureyrarbæ og stjórnmálaályktun samþykkt. Ennfremur voru á fundinum samþykkt ný lög félagsins. Að því loknu var komið að stjórnarkjöri. Var ég kjörinn formaður Varðar, næsta starfsárið. Með mér í stjórn munu sitja á næsta starfsári, þeir Bergur Þorri Benjamínsson og Sindri Alexandersson. Varamenn í stjórn voru kjörnir Sigurgeir Valsson og Atli Hafþórsson. Ég hef á seinustu árum reynt af fremsta megni að tjá mig um hitamál samtímans og taka þátt af krafti í stjórnmálum. Ég mun sem formaður Varðar, leitast við að stýra félaginu af krafti og mun kappkosta að vera traustur talsmaður ungra sjálfstæðismanna bæði hér og fyrir allt kjördæmið, sem stjórnarmaður í SUS. Þrjú atriði verða höfuðmarkmið mín: leggja mikla áherslu á að virkja ungt fólk til virkrar þátttöku í stjórnmálum, kynna hugsjónir sjálfstæðismanna bæði sem lúta að auknu frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipta, og síðast en ekki síst að rödd ungliðanna verði virk. Ég er nú sem ávallt fyrr tilbúinn til að leggja mig allan fram í þessu starfi, áhuginn á að láta gott af mér leiða knýr mig áfram.

Don't be economic girlie-men - nýr bolur frá SUS!

Dagurinn í dag
1957 Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna, sendir þjóðvarðlið Bandaríkjanna til Little Rock í Arkansas, til að tryggja að blökkubörn komist til skóla. Fólk mótmælti því að börn, svört á hörund, gengi í sama skóla og hvít börn. Deilunni lauk með því að börnin komust í skólann, daginn eftir
1966 Menntaskólinn við Hamrahlíð settur fyrsta sinni. Guðmundur Arnlaugsson var fyrsti rektor MH
1988 Kanadíski spretthlauparinn Ben Johnson vann gullverðlaun í 100 m. hlaupi á Ólympíuleikunum í Seoul í S-Kóreu - hann missti verðlaunin eftir að kom í ljós í lyfjaprófi að hann hafði notað ólögleg efni. Hann var sendur heim í refsingarskyni og var dæmdur í tveggja ára keppnisbann og sviptur keppnisréttindum ævilangt eftir að hann féll á lyfjaprófi 1993 - Carl Lewis hlaut gullið 1988
1991 Hljómsveitin Nirvana gefur út plötu sína, Nevermind - markaði þáttaskil í tónlistarsögunni
1993 Samtök iðnaðarins voru stofnuð í Reykjavík - samtökin tóku við hlutverki alls sex iðnfélaga

Snjallyrði dagsins
If you think you can win, you can win. Faith is necessary to victory.
William Hazlitt (1778-1830)