Heitast í umræðunni
Klukkan 12:00 á hádegi í dag var þriggja mínútna þögn í aðildarríkjum Evrópusambandsins til að minnast fórnarlamba náttúruhamfaranna í Asíu á öðrum degi jóla. Víða var flaggað í hálfa stöng, gert var hlé á sjónvarpsútsendingum og kirkjuklukkum var hringt. Sérstaklega var mikil sorg í Svíþjóð en fjöldi Svía fórst í hamförunum. Að minnsta kosti 14.000 Svíar voru um jólin í löndunum þar sem hamfarirnar riðu yfir. 52 hafa nú fundist látnir. 1.903 er enn saknað skv. opinberum tölum. Um heim allan er nú safnað til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf í Asíu. Alls hafa nú tæplega 160.000 manns látist í þessum náttúruhamförum og því ljóst að um er að ræða mannskæðustu náttúruhamfarir í marga áratugi. Fjölmargir stjórnmálamenn hafa farið til Asíu til að skoða hamfarasvæðin og hafa t.d. Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagt þangað leið sína. Í vikunni hvöttu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og fyrrum forsetarnir George H. W. Bush og Bill Clinton Bandaríkjamenn til að gefa fé til söfnunar vegna hamfaranna í Asíu. Komu forsetarnir saman á mánudag til að rita nöfn sín í minningabók um þá sem létust, í indverska sendiráðinu í Washington.
Tilkynnt var á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í byrjun vikunnar að Bush eldri og Clinton myndi verða falið það verkefni að stjórna átaki þar sem Bandaríkjamenn og bandarísk fyrirtæki væru hvött til að gefa fé til söfnunarinnar með einkaframlögum. Bush forseti hafði verið gagnrýndur fyrir að bíða með að rjúfa jólaleyfi sitt í Crawford í Texas, þar til þremur dögum eftir hamfarirnar en fyrst þá kom hann fram í fjölmiðlum og tjáði sig um þær. Þá voru önnur ríki mun fljótari að senda háar fjárhæðir til hjálparstarfsins. Japönsk stjórnvöld hafa gefið mest eða 500 milljónir dollara en bandarísk stjórnvöld hafa gefið 350 milljónir. Bush forseti hefur nú gefið andvirði 10.000 dollara, sem er um 620.000 íslenskar krónur, úr eigin vasa til hjálparstarfsins í SA-Asíu. Eins og fyrr segir er Powell utanríkisráðherra, staddur á flóðasvæðunum og hefur verið þar sem fulltrúi bandarískra stjórnvalda ásamt bróður forsetans, Jeb Bush. Verður þetta væntanlega eitt af seinustu embættisverkum ráðherrans en hann lætur af embætti fimmtudaginn 20. janúar nk. við upphaf seinna kjörtímabils forsetans. Fór Powell í þyrlu um þau svæði sem verst urðu úti í jarðskjálftanum og flóðbylgjunni. Sagðist hann aldrei hafa séð neitt þessu líkt og hefði þó upplifað margt: tekið þátt í stríðsátökum og fylgst með hjálparaðgerðum, meðal annars í kjölfar fellibylja og skýstróka. Á morgun mun Powell sitja ásamt fleiri embættismönnum og t.d. Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, ráðstefnu um hjálparstarf á flóðasvæðunum. Enginn Íslendingur fórst í þessum hamförum sem betur fer, og fjöldi Norðmanna sem talið var að hefðu látist, hefur minnkað mjög seinustu daga.
Í áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags fjallaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, um stöðu fjölskyldunnar í nútímanum. Einkum varð honum tíðrætt um gildi fjölskyldunnar og mikilvægi hinna sönnu fjölskyldugilda, hvort þau hefðu breyst og hvað væri ef svo væri til ráða til varnar því að fjölskyldugildin létu undan fyrir breytingum. Tilkynnti hann að ákveðið hefði verið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar. Verð ég að viðurkenna að ég fann mikinn samhljóm með mínum skoðunum og hans. Það er eðlilegt að ræða þessi mál, enda á ekkert að skipta okkur meira máli en gildi fjölskyldunnar og mikilvægt er að halda vel utan um heilbrigt fjölskyldulíf og styrkja undirstöður hennar, með því styrkjum við allt sem okkur er og á ávallt að vera kærast. Án traustra fjölskyldugilda er lífið allt litlausara og verra. Halda verður vörð um þessi gildi af krafti. Á nýársdag lýsti Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, yfir svipaðri skoðun í predikun í Dómkirkjunni. Var ég sammála mati þeirra beggja á þessu máli. Einhvern veginn taldi ég er þessi orð þeirra féllu um áramótin að sátt gæti náðst um þessi eðlilegu atriði og enginn myndi mótmæla þeim. En það var greinilega mikil bjartsýni ef marka má umræðuna sem svo hefur verið í fjölmiðlum.
Ekki var liðinn langur tími af nýju ári er Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar, tjáði sig í fjölmiðlum og undraðist greinilega mjög þessi ummæli forsætisráðherra og biskups. Spurði hún í sjónvarpsviðtali hvort ráðamenn þjóðarinnar vildu með þessu að konur færu aftur inn á heimilin til að hugsa um börnin. Sagði hún í fyrrnefndu viðtali orðrétt að í orðum forsætisráðherrans glitti í íhaldssama bandaríska fjölskyldustefnu. Spurning væri því að hennar mati hvort undirliggjandi væri að konur ættu hreinlega að fara aftur inn á heimilin og hætta að mennta sig. Kom fram að mati Guðrúnar að málflutningur forsætisráðherra og biskups væri fyrst og fremst til þess fallinn að ala á samviskubiti foreldra. Það væri með þessu verið að segja einstæðum mæðrum og fólki sem þurfi að vinna mikið til að ná endum saman að það fari betur á því að annast börnin sín. Málflutningur hennar kom mér og eflaust fleirum mjög á óvart. Ekkert sögðu ráðamenn í fyrrnefndum áramótahugleiðingum, sem komust nærri þessu mati sem Guðrún kom fram með og hún taldi sig hafa séð og heyrt af ávörpum þeirra. Það er óneitanlega kostulegt ef ekki má velta upp stöðu fjölskyldunnar og hvernig hún standi í nútímanum, nema að kvenréttindakonur fyrri ára rísi upp á afturlappirnar og telji að sér og konum almennt ráðist. Sjálfsagt er og eðlilegt tel ég að ræða þessi mál opinskátt. Sú vinna mun fara fram í vinnuhópi forsætisráðherra um þetta mál og algjör óþarfi að umpólast þó ráðamenn geri þetta að umræðuefni eins og eðlilegt er við áramót. Tal kvenréttindakvenna eins og þingmanns Samfylkingarinnar virkar því sem undarlegt hjóm og allt að því fljótfærni með tilliti af þessu. En það er annars margt sem Samfylkingarþingmenn nota til að reyna að koma sér í fjölmiðlana.
Pétur W. Kristjánsson - in memoriam
Pétur Wigelund Kristjánsson tónlistarmaður, lést langt um aldur fram þann 3. september 2004. Óhætt er að fullyrða að Pétur hafi á löngum ferli sínum í tónlistinni helgað sig henni algjörlega. Hann var tónlistarmaður af guðs náð. Hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann byrjaði í hljómsveitinni Pops sem bassaleikari. Síðar varð Pétur helsti forystumaður í fjölda hljómsveita, nægir þar að nefna Paradís, Pelíkan, Náttúru, Svanfríði og Start. Seinustu árin hafði Pétur helgað sig útgáfu tónlistar og sölu á vandaðri tónlist, fór hann um landið með tónlistarmarkað sinn og seldi góða tónlist. Var Pétur hafsjór af fróðleik um tónlist og margir sem leituðu til hans og keyptu af honum tónlist. Kynntist ég Pétri í gegnum tónlistina, fór jafnan á tónlistarmarkaði hans og keypti af honum tónlist og mat alltaf mikils gríðarlega þekkingu hans á tónlist. Hef ég alla tíð haft mikinn áhuga á góðri tónlist og var því hreint óviðjafnanlegt að leita til hans og versla af honum góða geisladiska.
Alla setti hljóða þegar fregnaðist af veikindum Péturs og síðar af ótímabæru andláti hans. Það var eflaust eins með mig og alla aðra sem eitthvað höfðu kynnst Pétri og rætt við hann að það var óraunverulegt að þessi kraftmikli og áberandi maður í íslensku tónlistarlífi á seinustu áratugum væri farinn með svo snöggum hætti. Það kom vel í ljós við andlát Péturs að hann hafði eignast marga vini og kunningja í gegnum störf sín í tónlistinni. Er mjög ánægjulegt að heyra af því að félagar hans í tónlistargeiranum ætli nú að minnast þessa mikla höfðingja með þeim einum hætti sem honum hefði eflaust sjálfum líkað: með vönduðum rokktónleikum. Pétur var rokkari af guðs náð og engum Íslendingi auðnaðist betur að syngja t.d. smellinn ódauðlega Wild Thing. Tónleikarnir verða haldnir á Broadway á morgun og hefjast kl. 22:00, mun allur ágóði þeirra renna í minningarsjóð sem stofnaður hefur verið í nafni Péturs. Kynnar verða hinir landsþekktu fjölmiðlamenn: Þorgeir Ástvaldsson, Hermann Gunnarsson og Gunnlaugur Helgason. Fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita kemur þar fram. Í tilefni tónleikanna og til þess að heiðra minningu Péturs kom hljómsveitin Start saman í fyrsta skipti í 22 ár og tók upp lag til minningar um Pétur, sem heitir einfaldlega Paradís. Er það instrumental-lag, táknrænt og flott lag sem hæfir vel þegar minnst er þessa mikla merkismanns.
Saga dagsins
1874 Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var staðfest af Danakonungi - hún tók gildi 1. ágúst sama ár
1895 Alfred Dreyfus yfirmaður í franska hernum, sakfelldur um landráð - dæmdur til vistar á Djöflaey
1946 Kvikmynd um lýðveldishátíðina 17. júní 1944 var frumsýnd í Reykjavík. Var fyrsta kvikmyndin sem tekin var hér á Íslandi og var í nútímagæðum þess tíma: með tónum, tali og eðlileg litaskilyrði
1968 Alexander Dubcek kjörinn leiðtogi kommúnista í Tékkóslóvakíu - kjör hans leiddi til mikilla breytinga í valdakerfi landsins og innan flokksins. Þótti of frjálslyndur og var síðar komið frá völdum
1994 Tip O'Neill fyrrum forseti bandarísku fulltrúadeildarinnar, lést, 81 árs að aldri. Tip O'Neill sat í fulltrúadeildinni í 34 ár og var forseti hennar í 10 ár, 1977-1987, lengst allra sem hafa setið í forsæti
Snjallyrðið
Hér sit ég einn og sakna þín.
Með sorg í hjarta drekk ég vín.
Og mánaljósið líkfölt skín
á legubekkinn minn.
Og aleinn sit ég þar í þetta sinn.
Hve ást þín mig á örmum bar.
Hve innileg vor gleði var,
er saman tvö við sátum þar,
svo saklaus, góð og hrein,
sem fuglar tveir, er syngja á sömu grein.
Og alltaf skal ég að því dást,
að enn skuli mitt hjarta þjást
af sömu þrá og sömu ást,
þótt sértu farin burt,
þótt sértu farin fyrir löngu burt.
Hún þykir fágæt þessi dyggð.
Ég þekki enga slíka tryggð.
En tíminn læknar hugans gryggð
og hylur gömul sár,
en sumum nægir ekki minna en ár.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Tryggð)
Klukkan 12:00 á hádegi í dag var þriggja mínútna þögn í aðildarríkjum Evrópusambandsins til að minnast fórnarlamba náttúruhamfaranna í Asíu á öðrum degi jóla. Víða var flaggað í hálfa stöng, gert var hlé á sjónvarpsútsendingum og kirkjuklukkum var hringt. Sérstaklega var mikil sorg í Svíþjóð en fjöldi Svía fórst í hamförunum. Að minnsta kosti 14.000 Svíar voru um jólin í löndunum þar sem hamfarirnar riðu yfir. 52 hafa nú fundist látnir. 1.903 er enn saknað skv. opinberum tölum. Um heim allan er nú safnað til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda og til að styrkja hjálparstarf í Asíu. Alls hafa nú tæplega 160.000 manns látist í þessum náttúruhamförum og því ljóst að um er að ræða mannskæðustu náttúruhamfarir í marga áratugi. Fjölmargir stjórnmálamenn hafa farið til Asíu til að skoða hamfarasvæðin og hafa t.d. Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagt þangað leið sína. Í vikunni hvöttu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og fyrrum forsetarnir George H. W. Bush og Bill Clinton Bandaríkjamenn til að gefa fé til söfnunar vegna hamfaranna í Asíu. Komu forsetarnir saman á mánudag til að rita nöfn sín í minningabók um þá sem létust, í indverska sendiráðinu í Washington.
Tilkynnt var á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í byrjun vikunnar að Bush eldri og Clinton myndi verða falið það verkefni að stjórna átaki þar sem Bandaríkjamenn og bandarísk fyrirtæki væru hvött til að gefa fé til söfnunarinnar með einkaframlögum. Bush forseti hafði verið gagnrýndur fyrir að bíða með að rjúfa jólaleyfi sitt í Crawford í Texas, þar til þremur dögum eftir hamfarirnar en fyrst þá kom hann fram í fjölmiðlum og tjáði sig um þær. Þá voru önnur ríki mun fljótari að senda háar fjárhæðir til hjálparstarfsins. Japönsk stjórnvöld hafa gefið mest eða 500 milljónir dollara en bandarísk stjórnvöld hafa gefið 350 milljónir. Bush forseti hefur nú gefið andvirði 10.000 dollara, sem er um 620.000 íslenskar krónur, úr eigin vasa til hjálparstarfsins í SA-Asíu. Eins og fyrr segir er Powell utanríkisráðherra, staddur á flóðasvæðunum og hefur verið þar sem fulltrúi bandarískra stjórnvalda ásamt bróður forsetans, Jeb Bush. Verður þetta væntanlega eitt af seinustu embættisverkum ráðherrans en hann lætur af embætti fimmtudaginn 20. janúar nk. við upphaf seinna kjörtímabils forsetans. Fór Powell í þyrlu um þau svæði sem verst urðu úti í jarðskjálftanum og flóðbylgjunni. Sagðist hann aldrei hafa séð neitt þessu líkt og hefði þó upplifað margt: tekið þátt í stríðsátökum og fylgst með hjálparaðgerðum, meðal annars í kjölfar fellibylja og skýstróka. Á morgun mun Powell sitja ásamt fleiri embættismönnum og t.d. Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, ráðstefnu um hjálparstarf á flóðasvæðunum. Enginn Íslendingur fórst í þessum hamförum sem betur fer, og fjöldi Norðmanna sem talið var að hefðu látist, hefur minnkað mjög seinustu daga.
Í áramótaávarpi sínu að kvöldi gamlársdags fjallaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, um stöðu fjölskyldunnar í nútímanum. Einkum varð honum tíðrætt um gildi fjölskyldunnar og mikilvægi hinna sönnu fjölskyldugilda, hvort þau hefðu breyst og hvað væri ef svo væri til ráða til varnar því að fjölskyldugildin létu undan fyrir breytingum. Tilkynnti hann að ákveðið hefði verið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar. Verð ég að viðurkenna að ég fann mikinn samhljóm með mínum skoðunum og hans. Það er eðlilegt að ræða þessi mál, enda á ekkert að skipta okkur meira máli en gildi fjölskyldunnar og mikilvægt er að halda vel utan um heilbrigt fjölskyldulíf og styrkja undirstöður hennar, með því styrkjum við allt sem okkur er og á ávallt að vera kærast. Án traustra fjölskyldugilda er lífið allt litlausara og verra. Halda verður vörð um þessi gildi af krafti. Á nýársdag lýsti Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, yfir svipaðri skoðun í predikun í Dómkirkjunni. Var ég sammála mati þeirra beggja á þessu máli. Einhvern veginn taldi ég er þessi orð þeirra féllu um áramótin að sátt gæti náðst um þessi eðlilegu atriði og enginn myndi mótmæla þeim. En það var greinilega mikil bjartsýni ef marka má umræðuna sem svo hefur verið í fjölmiðlum.
Ekki var liðinn langur tími af nýju ári er Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar, tjáði sig í fjölmiðlum og undraðist greinilega mjög þessi ummæli forsætisráðherra og biskups. Spurði hún í sjónvarpsviðtali hvort ráðamenn þjóðarinnar vildu með þessu að konur færu aftur inn á heimilin til að hugsa um börnin. Sagði hún í fyrrnefndu viðtali orðrétt að í orðum forsætisráðherrans glitti í íhaldssama bandaríska fjölskyldustefnu. Spurning væri því að hennar mati hvort undirliggjandi væri að konur ættu hreinlega að fara aftur inn á heimilin og hætta að mennta sig. Kom fram að mati Guðrúnar að málflutningur forsætisráðherra og biskups væri fyrst og fremst til þess fallinn að ala á samviskubiti foreldra. Það væri með þessu verið að segja einstæðum mæðrum og fólki sem þurfi að vinna mikið til að ná endum saman að það fari betur á því að annast börnin sín. Málflutningur hennar kom mér og eflaust fleirum mjög á óvart. Ekkert sögðu ráðamenn í fyrrnefndum áramótahugleiðingum, sem komust nærri þessu mati sem Guðrún kom fram með og hún taldi sig hafa séð og heyrt af ávörpum þeirra. Það er óneitanlega kostulegt ef ekki má velta upp stöðu fjölskyldunnar og hvernig hún standi í nútímanum, nema að kvenréttindakonur fyrri ára rísi upp á afturlappirnar og telji að sér og konum almennt ráðist. Sjálfsagt er og eðlilegt tel ég að ræða þessi mál opinskátt. Sú vinna mun fara fram í vinnuhópi forsætisráðherra um þetta mál og algjör óþarfi að umpólast þó ráðamenn geri þetta að umræðuefni eins og eðlilegt er við áramót. Tal kvenréttindakvenna eins og þingmanns Samfylkingarinnar virkar því sem undarlegt hjóm og allt að því fljótfærni með tilliti af þessu. En það er annars margt sem Samfylkingarþingmenn nota til að reyna að koma sér í fjölmiðlana.
Pétur W. Kristjánsson - in memoriam
Pétur Wigelund Kristjánsson tónlistarmaður, lést langt um aldur fram þann 3. september 2004. Óhætt er að fullyrða að Pétur hafi á löngum ferli sínum í tónlistinni helgað sig henni algjörlega. Hann var tónlistarmaður af guðs náð. Hann var aðeins 14 ára gamall þegar hann byrjaði í hljómsveitinni Pops sem bassaleikari. Síðar varð Pétur helsti forystumaður í fjölda hljómsveita, nægir þar að nefna Paradís, Pelíkan, Náttúru, Svanfríði og Start. Seinustu árin hafði Pétur helgað sig útgáfu tónlistar og sölu á vandaðri tónlist, fór hann um landið með tónlistarmarkað sinn og seldi góða tónlist. Var Pétur hafsjór af fróðleik um tónlist og margir sem leituðu til hans og keyptu af honum tónlist. Kynntist ég Pétri í gegnum tónlistina, fór jafnan á tónlistarmarkaði hans og keypti af honum tónlist og mat alltaf mikils gríðarlega þekkingu hans á tónlist. Hef ég alla tíð haft mikinn áhuga á góðri tónlist og var því hreint óviðjafnanlegt að leita til hans og versla af honum góða geisladiska.
Alla setti hljóða þegar fregnaðist af veikindum Péturs og síðar af ótímabæru andláti hans. Það var eflaust eins með mig og alla aðra sem eitthvað höfðu kynnst Pétri og rætt við hann að það var óraunverulegt að þessi kraftmikli og áberandi maður í íslensku tónlistarlífi á seinustu áratugum væri farinn með svo snöggum hætti. Það kom vel í ljós við andlát Péturs að hann hafði eignast marga vini og kunningja í gegnum störf sín í tónlistinni. Er mjög ánægjulegt að heyra af því að félagar hans í tónlistargeiranum ætli nú að minnast þessa mikla höfðingja með þeim einum hætti sem honum hefði eflaust sjálfum líkað: með vönduðum rokktónleikum. Pétur var rokkari af guðs náð og engum Íslendingi auðnaðist betur að syngja t.d. smellinn ódauðlega Wild Thing. Tónleikarnir verða haldnir á Broadway á morgun og hefjast kl. 22:00, mun allur ágóði þeirra renna í minningarsjóð sem stofnaður hefur verið í nafni Péturs. Kynnar verða hinir landsþekktu fjölmiðlamenn: Þorgeir Ástvaldsson, Hermann Gunnarsson og Gunnlaugur Helgason. Fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita kemur þar fram. Í tilefni tónleikanna og til þess að heiðra minningu Péturs kom hljómsveitin Start saman í fyrsta skipti í 22 ár og tók upp lag til minningar um Pétur, sem heitir einfaldlega Paradís. Er það instrumental-lag, táknrænt og flott lag sem hæfir vel þegar minnst er þessa mikla merkismanns.
Saga dagsins
1874 Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var staðfest af Danakonungi - hún tók gildi 1. ágúst sama ár
1895 Alfred Dreyfus yfirmaður í franska hernum, sakfelldur um landráð - dæmdur til vistar á Djöflaey
1946 Kvikmynd um lýðveldishátíðina 17. júní 1944 var frumsýnd í Reykjavík. Var fyrsta kvikmyndin sem tekin var hér á Íslandi og var í nútímagæðum þess tíma: með tónum, tali og eðlileg litaskilyrði
1968 Alexander Dubcek kjörinn leiðtogi kommúnista í Tékkóslóvakíu - kjör hans leiddi til mikilla breytinga í valdakerfi landsins og innan flokksins. Þótti of frjálslyndur og var síðar komið frá völdum
1994 Tip O'Neill fyrrum forseti bandarísku fulltrúadeildarinnar, lést, 81 árs að aldri. Tip O'Neill sat í fulltrúadeildinni í 34 ár og var forseti hennar í 10 ár, 1977-1987, lengst allra sem hafa setið í forsæti
Snjallyrðið
Hér sit ég einn og sakna þín.
Með sorg í hjarta drekk ég vín.
Og mánaljósið líkfölt skín
á legubekkinn minn.
Og aleinn sit ég þar í þetta sinn.
Hve ást þín mig á örmum bar.
Hve innileg vor gleði var,
er saman tvö við sátum þar,
svo saklaus, góð og hrein,
sem fuglar tveir, er syngja á sömu grein.
Og alltaf skal ég að því dást,
að enn skuli mitt hjarta þjást
af sömu þrá og sömu ást,
þótt sértu farin burt,
þótt sértu farin fyrir löngu burt.
Hún þykir fágæt þessi dyggð.
Ég þekki enga slíka tryggð.
En tíminn læknar hugans gryggð
og hylur gömul sár,
en sumum nægir ekki minna en ár.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Tryggð)
<< Heim