Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 desember 2004

Jólakveðja 2004Jólahugleiðingar
Ég vona að lesendur vefsins hafi haft það gott yfir jólin og hafi notið hátíðarinnar. Jólin hjá mér voru mjög hefðbundin og að mestu mjög lík því sem hefur verið í gegnum árin. Eins og vel hefur komið fram í fréttum var stórhríð og gekk á með miklum snjóbyl á aðfangadag og jóladag hér norðanlands, og því var lítið ferðaveður þessa daga og mikil ófærð eftir því sem leið á, áður en veðrinu slotaði hér í gær. Þrátt fyrir þennan veðurofsa og kuldann í veðrinu var haldið í fastar hefðir aðfangadagsins hjá minni fjölskyldu. Á aðfangadag var þrátt fyrir leiðindaveður farið í kirkjugarðinn til að vitja leiða látinna ættingja og ástvina og farið á eftir í kaffi til ömmu minnar. Þetta er hefð sem hefur verið í minni föðurfjölskyldu til fjölda ára og er fastur partur af aðfangadeginum. Kuldatíð og vont veður geta ekki komið í veg fyrir að farið sé í kirkjugarðinn til að vitja leiða þeirra sem hafa kvatt þessa jarðvist, enda mikilvægt að helga þeim hluta af hugsunum sínum. Þetta hefur alla tíð verið mikilvægt hjá okkur í fjölskyldunni. Ég get ekki haldið gleðileg jól nema að hafa sinnt þessu.

Um kvöldið eftir að hafa borðan góðan mat og tekið upp pakka og lesið þau fjölmörgu jólakort sem mér bárust var farið í miðnæturmessu í Akureyrarkirkju, kirkjuna mína. Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir predikaði. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar organista. Ég hef ávallt farið í kirkju á jólum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að fara í messu og eiga þar notalega stund. Aðfangadagskvöld og upphaf jólanætur er sú stund um jól sem ég tel helgasta. Því er réttast að fara í messu þá. Vetrarveðrið breytti ekki heldur þessari hefð og þrátt fyrir kuldann og vont veður mætti nokkur fjöldi í kirkjuna og átti þar góða stund. Eftir athöfnina var haldið heim í Þórunnarstræti og var þá færð um bæinn tekin nokkuð að þyngjast. Að morgni jóladags var að mestu orðið ófært í bænum eftir vont veður um nóttina. Ekki var þó mikill snjór í bænum, en veðurhæðin var mikil og það rak því í skafla og safnaðist í snjóakistur. Aflýsa þurfti hátíðarmessum í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju á jóladag. Stórhríðinni slotaði eftir hádegið á jóladag og fallegt jólaveður tók loks við. Mokaðar voru þá helstu umferðargötur bæjarins. Þessa daga var því bara haft það rólegt, notið kyrrðar hátíðarinnar og slappað af.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í síðasta sunnudagspistli ársins 2004 sem birtist á vef mínum í gær, annan dag jóla, fjallaði ég um jólahátíðina, hér á Akureyri, og fór ennfremur yfir þær bækur sem ég hef litið í yfir hátíðirnar. Hef ég gegnum tíðina haft mikla ánægju af lestri góðra bóka. Fékk ég fjölmargar góðar bækur í jólagjöf, bæði ævisögur og skáldsögur. Söluhæsta bókin fyrir þessi jól var Kleifarvatn, eftir meistara íslenskra spennusagna, Arnald Indriðason. Seldist hún í metupplagi en rúmlega 23.000 eintök höfðu selst af bókinni skömmu fyrir jól. Las ég bókina nokkru fyrir jól og varð heillaður af henni. Þetta er svo sannarlega spennusagnabók á heimsmælikvarða, að mínu mati er þetta besta bók Arnaldar. Ánægjulegt er að Arnaldur hefur nú loks hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hefur hann verið sniðgenginn seinustu ár, þrátt fyrir hvert meistaraverkið á eftir öðru. Nú er loks komið að því að hann fái tilnefningu og vona ég að hann fái verðlaunin, enda hiklaust um að ræða skáldsögu ársins. Í jólagjöf fékk ég tvær stórar og miklar ævisögur nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness. Eru bæði ritin einkar vönduð og vel úr garði gerð og mikil vinna greinilega verið lögð í þær.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Halldór Guðmundsson eiga mikið hrós skilið fyrir góð efnistök og áhugaverð í bókum sínum um skáldið. Kiljan, bók Hannesar Hólmsteins, er virkilega skemmtileg lesning og var mjög gaman að sökkva sér í hana að morgni jóladags og lesa hana að mestu leyti á jóladeginum. Hannes dregur í umfjöllun sinni saman mikinn og góðan fróðleik um skáldið. Bókin er heilsteyptari og ítarlegri en fyrsta bókin, sem fjallaði um bernskuár skáldsins og mótunarár hans, en hún var vissulega einnig mjög vönduð og umfangsmikil. Er það helst vegna þess að fjallað er um mikil hitamál á ferli skáldsins og mikinn umbrotatíma stjórnmálalega sem Halldór tengdist og Hannes býr yfir umtalsverðri þekkingu á. Bókin spannar 16 ár, sem er vissulega ekki langt tímabil á tæplega aldaræviskeiði skáldsins, en þessi ár voru stór og mikil á ferli Laxness og er hrein unun að sitja og lesa bókina og fara yfir allan þann fróðleik sem Hannes hefur tekið saman. Þessi bók er óneitanlega paradís fyrir þá sem unna sögunni, verkum Laxness og vandaðri frásögn.

Allt rennur þetta ljúflega saman og fullyrði ég að þetta er ein vandaðasta, ítarlegasta og áhugaverðasta ævisaga sem ég hef lesið og bíð ég því mjög spenntur næstu jóla og útgáfu þriðja og seinasta hlutans sem mun fjalla um seinustu 50 æviár skáldsins, frægðarárin hans mestu, 1948-1998. Hef ég nú hafið lestur á riti Halldórs Guðmundssonar um skáldið. Er frásögn hans mjög skemmtileg og farið á heillandi hátt yfir æviferil Halldórs, hefur bókin hlotið verðskuldaða tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna og mun að öllum líkindum hljóta verðlaunin í sínum flokki. Halldór hefur í gegnum tíðina stúderað mjög ritferil og ævi nafna síns og gerði um hann þrjá vandaða heimildarþætti fyrir Ríkissjónvarpið sem sýndir voru í kjölfar andláts skáldsins í febrúar 1998 og fór þar vel yfir æviferil hans. Er frásögn Halldórs mjög fróðleg og umfjöllun hans mjög áhugaverð. Í samanburði við rit Hannesar, er þó athyglisvert að Halldór fer mun hraðar yfir, skautar yfir mikilvæga þætti sem Hannes víkur að og tekur mjög ítarlega fyrir og tengjast óbeinni þátttöku Halldórs í stjórnmálum. Af því leiðir að bók Halldórs er mun minna pólitísks eðlis og fjallar meira um rithöfundinn Laxness og áhrif hans á íslenskt skáldsagnarlíf á 20. öld og áhrif hans hér innanlands á samtíð sína og komandi kynslóðir.

Eru báðar bækurnar mjög áhugaverðar og er óhætt að fullyrða að ég hafi orðið margs vísari um feril Laxness eftir að hafa lesið bók Hannesar og lesið hluta bókar Halldórs og held áfram að lesa hana af miklum áhuga. Framundan er lestur fleiri bóka sem ég fékk í gjöf og eru í senn bæði áhugaverðar og spennandi. Fyrsta ber að telja forsætisráðherrabókina, æviágrip ráðherra og forsætisráðherra Íslands í 100 ára sögu heimastjórnar á Íslandi, 1904-2004. Endar bókin á ítarlegum kafla Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, um Davíð Oddsson forsætisráðherra, 1991-2004. Hef ég aðeins lesið þann kafla núna og hlakka til að kynna mér betur aðra hluta bókarinnar. Við tekur svo lestur á vandaðri bók Matthíasar Johannessen, Málsvörn og minningar. Fékk ég nokkrar skáldsögur í gjöf, t.d. Sakleysingjana eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur, 11 mínútur eftir Paulo Coelho, Baróninn eftir Þórarinn Eldjárn, Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson og Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson. Ekki veit ég hvenær ég kemst yfir allar þessar bækur til fulls, en ljóst er að mikill lestur er framundan og áhugaverður. Nú um helstu jóladagana hef ég helgað mig lestri á ævisögunum um Halldór Laxness, en það er ljóst að góð bókajól verða á mínu heimili.

Dagurinn í dag
1977 Breski leikarinn Sir Charles Chaplin jarðsunginn í Sviss - hann lést á jóladag, 88 ára að aldri
1979 Sovétríkin ná völdum í Afganistan og stjórnvöldum landsins var steypt af stóli. Leiddi það til blóðugra átaka, hörmunga og borgarastyrjaldar sem stóðu í landinu í rúma tvo áratugi með hléum
1985 Lík bandaríska náttúrufræðingsins Dian Fossey, finnst í Rwanda. Dian sem var 53 ára, var myrt
1986 Snorri Hjartarson skáld og bókavörður, lést, áttræður að aldri. Snorri var eitt lisfengasta skáld landsins og hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981, fyrir bókina Hauströkkrið yfir mér
1988 Fyrsta bílnúmerið í nýju fastnúmerakerfi landsins, HP 741, var sett á bifreið dómsmálaráðherra

Snjallyrði dagsins
Ef ég sé þig
- þá er það ímyndun
Ef ég heyri í þér
- þá er það draumur
Ef ég hugsa um þig
- verður það minning

Þú kveiktir í mér, en vaktir tilfinningatár,
er þú kvaddir mig á fögrum sumardegi.
Sársaukinn verður alltaf nístingssár
en minningin fylgir mér á dimmri nóttu sem björtum degi.
Stefán Friðrik Stefánsson (Minningin) 1999