Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 janúar 2005

Sigríður ÁrnadóttirHeitast í umræðunni
Sigríði Árnadóttur fréttastjóra Stöðvar 2 og Bylgjunnar, var sagt upp störfum í gær. Hafði hún þá setið á stóli fréttastjóra í tæpt ár, en hún tók til starfa 1. febrúar 2004, eftir skipulagsbreytingar sem urðu á fréttamiðlum Norðurljósa í kjölfar sameiningar Fréttar ehf. og Íslenska útvarpsfélagsins inn í Norðurljós. Þá lét Karl Garðarsson af störfum eftir tæplega fjögurra ára starf og Sigríður var ráðin til starfa inn í fyrirtækið í hans stað. Er óhætt að fullyrða að fréttir af brotthvarfi Sigríðar hafi komið mörgum á óvart, þó vissulega hafi margir séð í hvað stefndi á fréttastofunni. Í grein Jónínu Benediktsdóttur í Morgunblaðinu á sunnudag sagði hún að Sigríður yrði næsta fórnarlambið hjá fyrirtækinu og nefndi að Gunnar Smári Egilsson forstjóri þess, hefði horn í síðu Sigríðar og þess yrði skamms að bíða að hún myndi verða látin fara. Það varð vissulega stutt bið. Hvet ég fólk til að lesa grein Jónínu í sunnudagsmogganum, merkileg lesning. Mun nú Páll Magnússon sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, taka við fréttastjórastarfinu að nýju. Er þetta í þriðja skiptið sem Páll tekur við þessu starfi. Hann var fyrsti fréttastjóri stöðvarinnar 1986-1990 og var aftur fréttastjóri 1996-2000. Greinilegt er að uppstokkun er framundan hjá Norðurljósum.

Í dag var tilkynnt að ný stjórn Norðurljósa hefði verið kjörin á hluthafafundi félagsins í morgun. Á þeim fundi var staðfestur sá aðskilnaður sem orðið hefur á milli Norðurljósa og hinsvegar Íslenska útvarpsfélagsins og Fréttar en síðarnefndu félögin voru nýlega seld til Og Vodafone. Ríkharð Ottó Ríkharðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Norðurljósa í stað Gunnars Smára Egilssonar. Í stjórn Norðurljósa voru kjörnir Baldur Baldursson formaður, Ríkharð Ottó Ríkharðsson og Árni Hauksson. Staðfest er með þessu að Norðurljós heyra í raun sögunni til. Eignir Norðurljósa hafa verið færðar burt til Og Vodafone. Eftir þar standa skattaskuldir Jóns Ólafssonar og aðrar skuldir frá fyrri tíð. Segja má því að dauðadómur hafi verið kveðinn upp yfir Norðurljósum. Þeir sem til félagsins hafa nú komið við framkvæmdastjórn og setu í stjórn hafa einungis verið ráðnir til að ganga frá fyrirtækinu endanlega og lausum endum, saga þess er í raun öll. Skondið var að fyrir tæpu ári samhliða umræðu um svokallað fjölmiðlafrumvarp að talað var um að það myndi ganga frá Norðurljósum. Nú innan við ári síðar er saga fyrirtækisins í raun öll, þar standa aðeins eftir skattaskuldir og afgangur skulda félagsins frá fyrri tíð, sem nú á að ganga endanlega frá með breytingum á yfirmönnum þar. Merkilegt allt saman og mikill húmor yfir þessu öllu. En fróðlegt verður að sjá hvað taki nú við hjá Íslenska útvarpsfélaginu og Frétt ehf. Við taka nú vangaveltur um hver muni taka við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Ekki síður verður merkilegt að fylgjast með hvað Sigríður fari að gera. Áður en hún söðlaði um og fór til starfa á Stöð 2 var hún fréttamaður Útvarpsins í tæpa tvo áratugi. Staða fréttastjóra útvarps er nú laus, spurning er hvort hún sæki um hana og fari aftur á fyrri slóðir.

Skopmynd af Alfreð (af vefnum badabing.is)Seinustu daga hefur birst á vefsíðu framsóknarmanna í Reykjavík opinská og lifandi umræða um stöðu flokksins í borginni og um framtíð þátttöku flokksins í sameiginlegu framboði meirihlutaflokkanna í Reykjavík, R-listanum. Margt hefur breyst á kjörtímabilinu innan R-listans. Þrír borgarstjórar hafa setið á innan við tveim árum og sá stöðugleiki sem einkenndi R-listann fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 og samhent forysta og einn afgerandi leiðtogi er á bak og burt. Allt frá því að borgarstjóri R-listans í rúm 8 ár ákvað þingframboð hefur R-listinn virkað eins og ósamhent heild, hugsandi um það eitt að halda völdum og semja um að halda völdum. Þetta hefur birst vel og sást síðast best eftir að Þórólfur Árnason sagði af sér embætti og eftirmaður hans var valinn. Nú eru framsóknarmenn greinilega að takast um hvort þeir verði áfram innan R-listans og hvort borgarfulltrúar í nafni flokksins vinni vel og séu vænlegir áfram til framboðs.

Eins og sést hefur í þessum greinum á vef framsóknarmannanna er mjög tekist á um stöðu Alfreðs Þorsteinssonar formanns borgarráðs. Hann er orðinn mjög umdeildur, enn umdeildari en oft áður. Á 10 ára borgarfulltrúaferli Alfreðs hefur hann verið gríðarlega umdeildur og tekist á um verk hans. Allt frá því að hann varð leiðtogi flokksins innan framboðsins fyrir seinustu borgarstjórnarkosningar hefur hann orðið sífellt meira áberandi og segja má að eftir brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar í ársbyrjun 2003 sé hann í raun orðinn forystumaður listans og hefur hreðjatak á öllu sem þar gerist. Sést þetta best á málefnum Orkuveitunnar en fulltrúar flokkanna tveggja með Framsókn innan listans samþykkir allt sem hann gerir í nafni fyrirtækisins sem stjórnarformaður. Nú hefur staða hans veikst svo mjög að deilt er innan Framsóknarflokksins um verk hans og ólgan með störf hans hefur náð á heimavöllinn. Ekki er óeðlilegt að Alfreð sé að tapa tiltrú sinna manna, enda tala verk meirihlutans í OR og spillingin sem þar viðgengst sínu máli og er óverjandi, algjörlega óverjandi.

Arnbjörg SveinsdóttirBjörn Bjarnason dómsmálaráðherraBjörn og Arnbjörg funda í Eyjafirði
Fundaröð þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins: Með hækkandi sól, hélt áfram í Norðausturkjördæmi á sunnudag með fundum á Hótel Héraði á Egilsstöðum og Café Kósý á Reyðarfirði. Þar fluttu framsögur, þau Geir H. Haarde fjármálaráðherra, og alþingismennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundaröðin hélt svo áfram hér í Eyjafirði í gær. Þá héldu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, og Abba, fundi á Dalvík og Ólafsfirði. Fór ég með þeim á fundina. Fundurinn á Dalvík hófst kl. 17:30 og flutti Björn þar ítarlega framsögu og fór yfir mörg mál. Að því loknu kynnti Abba skattalækkanirnar og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum með ítarlegum hætti. Að því loknu voru málin rædd og fundarmenn komu með spurningar til Björns og Öbbu. Gekk fundurinn mjög vel og stóð í tæpa tvo tíma. Að því loknu héldum við til Ólafsfjarðar. Er við komum um hálfáttaleytið í Tjarnarborg beið okkar þar matur, höfðinglegar móttökur eins og jafnan hjá Ólafsfirðingum. Var ánægjulegt fyrir okkur að ræða við sjálfstæðismenn á Ólafsfirði um málin yfir borðhaldinu og fara yfir ýmis mál áður en fundurinn hófst. Hann hófst klukkan 20:00. Var hann eins uppbyggður og fundurinn á Dalvík og gekk mjög vel. Greinilegt var á báðum fundum er kom að fyrirspurnum að málefni Héðinsfjarðarganga og sameiningarmál skipta miklu máli hér út með firði. Var þetta ánægjulegt kvöld og gaman að sækja flokksfélaga heim og ræða málin við þá.

Áhugavert efni
Ávöxtur sósíalismans - pistill Sindra Guðjónssonar
Stjórnskipunarsamráð - pistill Snorra Stefánssonar
Ögmundur og Palestína - pistill Gísla Freys Valdórssonar
Undarlegar rangfærslur um hækkun barnabóta - góður pistill Vef-Þjóðviljans

Saga dagsins
1897 Leikfélag Reykjavíkur stofnað - fyrsta verkið sem sett var þar á svið var danskur gamanleikur
1918 Bjarndýr ganga á land í Núpasveit í Öxarfirði, á frostavetrinum mikla. Næstu daga gengu dýr á
land um allt Norður- og Austurland. Mestu frosthörkur í sögu landsins stóðu þennan vetur hér
1937 Óeirðir brjótast út í verkfalli hjá General Motors í Michigan - lauk með sigri félaganna
1944 Togarinn Max Pemberton ferst út af Snæfellsnesi. Með skipinu fórst öll áhöfnin, alls 29 manns
1989 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, flytur kveðjuræðu sína sem forseti - hann lét af embætti 20. janúar 1989 og hvarf þá af stjórnmálasviðinu, eftir farsælan feril. Reagan forseti lést 5. júní 2004

Snjallyrðið
Fögur er foldin,
heiður er Guðs himinn,
indæl pílagríms ævigöng.
Fram, fram um víða
veröld og gistum
í Paradís með sigursöng.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.
Matthías Jochumsson skáld og prestur (1835-1920) (Fögur er foldin)

Frænka mín, Valgerður Frímann, var jarðsungin í dag. Ég vil hér að lokum í dag þakka Valgerði allt sem hún gerði fyrir mig og fjölskyldu mína. Minning um eftirminnilega konu mun lifa.