Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, lagði í síðustu viku fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um eignarhlut ríkisins í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Óhætt er að fullyrða að svarið komi á óvart og sé í senn bæði sláandi og ótrúlegt. Ríkið á eignarhlut í rétt um 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ríkissjóður átti í alls 24 fyrirtækjum 1. desember 2004. Ríkisstofnanir í A-hluta eiga frá 0,9 prósent til 100% í 29 fyrirtæjum. Fyrirtæki Byggðastofnunar eru alls 78 talsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á alls 64. 11 fyrirtæki voru í eigu annarra ríkisfyrirtækja. Þessar upplýsingar eru með ólíkindum. Tek ég heilshugar undir mat Sigga Kára sem fram hefur komið í fjölmiðlum seinustu daga um að ríkið sé alltof fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi. Það er enginn vafi á því að mikilvægt sé að sameina Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Byggðastofnun. Það er óneitanlega skondið að ÁTVR á 20 prósenta eignarhlut í Endurvinnslunni! Þetta gengur ekki og þarf að stokka allt dæmið upp, með mjög afgerandi hætti. Ef marka má svar fjármálaráðherra á ríkið hlut í félögum sem reka upplýsinga- og tæknifyrirtæki, hótel, baðhús, fiskiðju, fiskeldi, flugskóla, endurvinnslu, saumastofur, sjávarútvegsvinnslu, og svona mætti lengi telja.
Þetta er ólíðandi og er með ólíkindum að fjármálaráðherra hafi ekki stokkað þetta meira upp en raun ber vitni. Það þarf að fara betur yfir þetta dæmi og leita eftir því hvers vegna ríkið sé bæði sé stórtækt og ótrúlega áberandi í beinum fyrirtækjafjárfestingum. Til dæmis er merkilegt að ríkissjóður á 54% í baðfélagi Mývatnssveitar, 22,4% í Barra hf. 17,8% í Endurvinnslunni (sem ÁTVR á 20% í nota bene), 42,2% í Flugskóla Íslands og 100% í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Er þetta bara stutt dæmi. Hvet ég alla til að kynna sér ítarlega niðurstöður svarsins við fyrirspurninni frá Sigga Kára. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft fjármálaráðuneytið nú í tæp 14 ár samfellt. Er þessi niðurstaða ekki ásættanleg fyrir okkur sjálfstæðismenn og vinna þarf að því að stokka stöðu þessara mála upp með markvissum hætti. Fara þarf betur yfir stöðu mála og leitast við að leita leiða til að haga málum með öðrum hætti. Er mikilvægt að fjármálaráðherra fari vel yfir þessi mál og leitist við að vinna málin með öðrum brag. Er hér komið verðugt verkefni fyrir fjármálaráðherra til að vinna úr og nokkuð umhugsunarefni í leiðinni fyrir hann. Það verður flestum (vonandi öllum) ljóst þegar litið er yfir þessar niðurstöður að þetta gengur ekki upp. Það er ótækt að ríkið eigi hlut í hótelum, saumastofum, fiskeldi og fleiru því sem of langt væri upp að telja. Er það mikil lexía eflaust fyrir alla að renna yfir listann og fara yfir þetta. Vel má vera að Framsóknarflokkurinn og tengslin við hann hafi magnað upp þessa lista eða leitt til þess að á þeirra vegum sé staðið í hinu og þessu sem ríkið á ekki að koma nærri. Ekki skal ég fullyrða að svo sé, en sá grunur læðist óneitanlega að manni. Ekki þarf að fræða fólk um hvernig Framsókn hefur unnið til fjölda ára í styrkjaleppasjóðum og tengdum málum. En það er ótækt að Sjálfstæðisflokkurinn viðhaldi svona kerfi og þetta verður að taka allt í gegn.
Þingkosningar voru haldnar í Írak í gær. Voru þær sögulegar umfram allt að því leyti að þær voru fyrstu fjölflokkaþingkosningar í landinu í 51 ár, eða frá árinu 1954. Ánægjulegasta niðurstaðan við kosningarnar og ferli þeirra var óneitanlega að uppreisnarmönnum í Írak mistókst að koma í veg fyrir þær og þá lýðræðisþróun sem hún markaði. Kjörsókn fór yfir 60%, og varð því mun meiri en búist hafði verið við hjá bjartsýnustu mönnum. Ástæða er til að gleðjast með þá niðurstöðu umfram allt, að hægt var að halda kosningarnar eins og til hafði staðið, þrátt fyrir hótanir hryðjuverkaafla um að reyna að eyðileggja þær og lýðræðisstarfið í kringum þær með öllum tiltækum ráðum. Það er gleðiefni að þeim mistókst að skaða kosningarnar og lýðræðisferlið í landinu. Var mjög gott fyrir allt framhald málsins hversu vel tókst til. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flutti ávarp í Hvíta húsinu í gærkvöldi og tjáði þar ánægju bandarískra stjórnvalda með hversu vel hefði til tekist í kosningunum. Sagði hann að niðurstöðurnar sýndu með kraftmiklum hætti að Írakar hefðu hafnað andlýðræðislegri hugmyndafræði hryðjuverkamanna.
Sagði Bush í ræðu sinni að frelsisröddin væri greinileg í þessari niðurstöðu, ekki væri neinn vafi á að heimurinn heyrði frelsisröddina frá Miðausturlöndum. Ráðamenn í Evrópu hafa ennfremur tjáð ánægju sína með niðurstöður kosninganna, að þær skyldu fara fram og hafa gengið svo vel sem við blasir. Öll heimsbyggðin hlýtur að fagna þessum sögulegu þáttaskilum í Írak. Franska dagblaðið Le Figaro tjáir ánægju sína í leiðara í dag. Segir blaðið að Bush forseti, sé helsti sigurvegarinn í kosningunum. Þær hafi skapað aukna möguleika á því að Bandaríkin haldi með herlið sitt á brott frá landinu. Óneitanlega er það svo að Bush hefur náð miklum árangri seinustu vikur. Endurkjör hans styrkti hann auðvitað mjög í sessi en niðurstöður gærdagsins í Írak hefur styrkt stöðu hans í Íraksmálinu og bandamanna hans umtalsvert. Á því leikur enginn vafi. Það er mikill sigur fyrir forsetann að kosningarnar skyldu fara fram í fyrsta lagi, eftir hryðjuverkaárásir og grimmdarleg átök seinustu vikna í Írak. Enginn vafi er á því í mínum huga að niðurstaða mála eftir þessar kosningar er sú að nú sé komið að því að Bandaríkin og bandalagsþjóðirnar hugi að brottflutningi hersins frá landinu og fólk þar taki við forystu mála. Hafa forsendur skapast mjög í þá átt að hægt verði að stíga það stóra skref. Einræðisherrann er á bakvið lás og slá og lýðræðislegar kosningar hafa farið fram. Takmarkinu er að mestu náð.
Flestir vilja flytja til Akureyrar
Í nýrri skýrslu sem IMG Gallup vann kemur fram að fólk í atvinnuleit á höfuðborgarsvæðinu gæti helst hugsað sér að flytja til Akureyrar byðist því þar starf við hæfi. Er mjög fróðlegt að líta yfir niðurstöðurnar í skýrslunni. Þátttakendur voru um 1000 manns og í skýrslunni eru niðurstöður greindar eftir ýmsum bakgrunnsbreytum, t.d. kyni, aldri, hjúskaparstöðu, menntun, búsetu, fjölda barna og núverandi stöðu á atvinnumarkaði. Rúmur fjórðungur þátttakenda segir það koma vel til greina að flytja til annars byggðarkjarna ef því myndi bjóðast þar starf við hæfi. Athyglisverðast er óneitanlega að þessi niðurstaða er óháð því hversu lengi fólk hefur verið að leita að vinnu. Þegar spurt var hvert þessir þátttakendur mundu vilja flytja kváðust þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu helst líta til Akureyrar. Rúmlega fjórðungur þeirra sem leita að starfi nú segist vera að leita að betra starfi en þeir eru í núna. Jafn stórt hlutfall þátttakenda leitar að starfi vegna atvinnuleysis eða ótryggrar atvinnu.
Talsverðar breytingar hafa átt sér stað frá síðustu mælingu (2001) þegar tæplega helmingur var að leita að betra starfi. Þegar þátttakendur voru beðnir að nefna 1-3 fyrirtæki sem þeir gætu helst hugsað sér að vinna hjá voru fjölmörg fyrirtæki nefnd. KB banki, Íslandsbanki, Icelandair, Actavis, IMG og Landsbankinn voru þau fyrirtæki sem oftast voru nefnd. Spurt var um áhuga þátttakenda á að starfa í ellefu atvinnugreinum. Af þeim greinum sem spurt var um höfðu þátttakendur mestan áhuga á að starfa hjá bönkum, sparisjóðum eða verðbréfafyrirtækjum og hátæknifyrirtækjum. Þar á eftir komu tölvu- eða hugbúnaðarfyrirtæki en minnstan áhuga sýndu þátttakendur á störfum í fiskiðnaðarfyrirtækjum. Þeir sem höfðu áhuga á tiltekinni atvinnugrein svöruðu einnig spurningu um viðhorf sitt til einstakra fyrirtækja innan hennar. Niðurstöðurnar gefa fyrirtækjunum sem spurt var um tækifæri á að bera ímynd sína í augum fólks í atvinnuleit saman við ímynd helstu samkeppnisaðila. Eru þetta ánægjulegar niðurstöður. Er mjög gaman að renna yfir niðurstöðurnar sem fram koma, en ég kynnti mér vel könnunina á vef Gallups. Þetta sýnir okkur vel að Eyjafjarðarsvæðið er í huga fólks mjög ákjósanlegur til búsetu, sem ætti að vera mikið ánægjuefni fyrir okkur öll sem hér búum.
Segja mætti mér að Ingibjörg Sólrún væri enn að jafna sig á því að hafa þurft að sitja heima hjá sér í vesturbænum meðan Össur Skarphéðinsson náði að fljúga norður á laugardag á Krókinn og taka þar bílaleigubíl með Kristjáni Möller og Hermanni Tómassyni varabæjarfulltrúa, til Akureyrar. Össur kom að því er marka má heimildir í bænum þangað sigri hrósandi meðan Ingibjörg varð að gera sér að góðu að missa af fundinum (þar sem fyrsti debatt þeirra átti að vera) og þorrablóti Samfylktra vinstri manna úr gömlum flokkum sem var á KEA um kvöldið. En jæja, Ingibjörg er komin aftur fram á sjónarsvið umræðunnar að einhverju leyti og fær að leysa af Bryndísi Hlöðvers á þingi næstu tvær vikur að minnsta kosti, ef marka má fréttir í dag. Einhvernveginn verða menn að koma sér í fjölmiðlana, sagði einn gárunginn við þessar fréttir. Eflaust eru það orð að sönnu fyrir borgarfulltrúann, varaþingmanninn og formannsframbjóðandann, sem sjaldan hefur virkað pólitískt þreytulegri en þessa dagana.
Svo berst það manni eins og hver önnur héraðseymd milli bæja í netfréttunum, að Guðni Ágústsson sé orðinn starfandi forsætisráðherra í stað Halldórs. Nei, ekki er búið að loka hann inni að ráði spunalækna Framsóknar, hann er víst á faraldsfæti eitthvað. Eftir situr Guðni með hnossið fágæta í höndunum. Geir hefur verið lasinn seinustu vikuna og sama má segja um fleiri ráðherra og þingmenn. Engu að síður gegnir hann störfum sínum að heiman. Davíð fer brátt að koma heim, sem betur fer. En já vonandi að Guðni verði rólegur meðan hann situr í embættinu, svo má reyndar við bæta að forsetinn ferðaglaði er að fara úr landi og stefnir þá í að Guðni verði einn handhafa forsetavalds. Það er ekkert annað.
Saga dagsins
1881 Kirkjan á Núpi í Dýrafirði fauk út á sjó í ofsaveðri - kirkjan var glæný og voru skemmdir miklar
1951 Flugvélin Glitfaxi fórst út af Vatnsleysuströnd og með henni 20 manns - vélin var á leið frá Eyjum til Reykjavíkur er hún fórst. Um er að ræða eitt af mannskæðustu flugslysum íslenskrar flugsögu
1977 Mjólkursamsalan í Reykjavík hætti rekstri mjólkurbúða sinna, allra nema einnar. Ástæðan var sú að matvöruverslunum var leyft að selja mjólkurafurðir. Er mest var, voru mjólkurbúðirnar um 90 alls
1980 Ferðamönnum var heimilað í fyrsta sinni að kaupa tollfrjálsan bjór við komu til landsins - þá var skammturinn tólf flöskur alls. Sala á áfengum bjór var loks leyfð hér á Íslandi frá og með 1. mars 1989
1995 Einar Már Guðmundsson skáld, hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína, Engla alheimsins - sagan var kvikmynduð árið 2000 af Friðrik Þór Friðrikssyni og hlaut hún 6 Edduverðlaun
Snjallyrðið
Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur.
Haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.
Geislar hennar, út um allt,
eitt og sama skrifa
á hagann grænan, hjarnið kalt:
Himneskt er að lifa!
Páll Ólafsson skáld (1827-1905) (Blessuð sólin)
<< Heim