Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 janúar 2005

George Walker Bush og Laura Welch BushHeitast í umræðunni
George Walker Bush forseti Bandaríkjanna, sór í gær embættiseið og hefur því hafið seinna kjörtímabil sitt í embætti. Embættistakan var að venju stórglæsileg og mjög til hennar vandað að öllu leyti. Eins og ég sagði frá í gær var undirbúningur fyrir hana að hefjast þegar ég var í Washington í októbermánuði og var mjög merkilegt að sjá að þá þegar væri vinna hafin við uppsetningu pallana fyrir utan þinghúsið og fleira sem tengdist þessu. Þessi stutta athöfn skiptir Bandaríkjamenn miklu, enda er embættistaka forseta mikilvæg fyrir landið í heild sinni og stjórnskipan þess. William Rehnquist forseti Hæstaréttar, stjórnaði embættistökunni og setti forsetann inn í embætti að nýju. Var þetta í fyrsta skipti í þrjá mánuði sem Rehnquist kom fram opinberlega, en hann hefur verið í veikindaleyfi síðan í október er hann greindist með krabbamein í skjaldkirti. Var Rehnquist mjög veiklulegur við athöfnina og augljóst að hann hefur látið mjög á sjá vegna veikinda sinna. Er almennt talið nær öruggt að hann láti af embætti síðar á þessu ári. Hafa aðeins tveir forsetar Hæstaréttar orðið eldri í embætti en hann, en hann varð áttræður í fyrra. Bendir flest til þess að annaðhvort muni Antonin Scalia eða Clarence Thomas taka við stjórn réttarins, en báðir eru tryggir repúblikanar. Skipan Thomas yrði söguleg, enda yrði hann fyrsti blökkumaðurinn á forsetastóli. Sú skipan yrði jafnframt umdeild, enda var mjög deilt um skipan hans í réttinn árið 1991 vegna máls Anitu Hill sem sakaði hann um kynferðislega áreitni, í vitnisburði í staðfestingarferli hans fyrir öldungadeildinni eins og sögulegt varð.

Í ræðu sinni að embættistökunni lokinni sagði Bush forseti að mikilvægt væri að halda áfram stríðinu gegn hryðjuverkaöflum í heiminum, og lýsti hann því yfir að til að tryggja frelsi í heimalandinu yrði sífellt mikilvægara að afla frelsinu fylgis í öðrum löndum. Forsetinn nefndi Írak ekki á nafn í ræðunni og notaði aldrei orðið hryðjuverk heldur. Orðrétt sagði hann að svo lengi sem heilu heimshlutarnir væru undirlagðir af óánægju og harðræði myndi steðja ógn að Bandaríkjunum. Rás atburða og heilbrigð skynsemi leiddi Bandaríkjamenn einungis að einni niðurstöðu, og hún væri með þeim hætti að þeirra eigin frelsi væri sífellt meira komið undir því að frelsi ríkti meðal annarra þjóða. Var frelsið og lýðræði megininntak ræðunnar og mikilvægi þess að standa vörð um það. Er það mjög gott inntak og ættu flestir ef ekki allir friðelskandi menn að geta tekið undir mikilvægi þess að frelsi og lýðræði sé allsstaðar við lýði. Var mjög merkilegt að heyra viðbrögð vinstrimanna við ræðu forsetans. Demókratar sögðu eftir embættistökuna að ljóst væri af þessu að forsetinn væri að leggja drög að innrás í tvö af öxulveldunum frægu, Íran og N-Kóreu. Hræðsluáróður demókrata er alkunnur og er vart undarlegur ef litið er á pólitíska stöðu þeirra. Flokkurinn er að mestu í pólitískri eyðimörk og hlaut herfilega útreið í seinustu þingkosningum, svo ekki sé nú talað um forsetakjörið. Þeir sem eru andsnúnir hinum réttkjörna forseta Bandaríkjanna og ríkisstjórn hans eiga ekki að láta hatur sitt á persónu forsetans blinda sér sýn í því sem framundan er. Öll eigum við að geta verið sammála um að frelsi einstaklings og lýðræðisþróun sé mikilvæg. Ef við getum ekki sameinast um þessi hugtök er illa komið fyrir fólki almennt. Einræði og ógnarstjórnir eiga aldrei að verða sjálfsagður hlutur. Að embættistökunni lokinni snæddi forsetinn með gestum við athöfnina í þinghúsinu og að því loknu héldu forsetahjónin í hin fjölmörgu boð sem skipulögð höfðu verið víðsvegar um borgina. Hæst þeirra bar hinn frægi Commander-in-Chief dansleikur. Þar tóku forsetahjónin sporið og dönsuðu inn í nóttina að loknum ánægjudegi í lífi þeirra.

Bobby FischerEins og frægt varð undir lok seinasta árs ákváðu íslensk stjórnvöld að veita Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, dvalarleyfi hér á landi en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Japan frá því um miðjan júlímánuð. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, en þar á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að hafa brotið viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad árið 1992. Síðan hefur Fischer verið á flótta og ekki farið til Bandaríkjanna. Seinasta mánuðinn höfðu japönsk yfirvöld melt stöðuna og velt fyrir sér næstu skrefum, hvort framselja skyldi Fischer til Íslands. Á fimmtudag tilkynnti dómari í Japan að Fischer myndi ekki verða fluttur til Íslands að óbreyttu. Hann fengi aðeins að fara þangað ef skákmeistarinn hlyti íslenskan ríkisborgararétt. Í kjölfar þessa skrifaði Fischer bréf til Alþingis og bað formlega um íslenskan ríkisborgararétt. Fischer stenst ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer.

Lýsti ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styddu við bakið á Fischer og myndu aðstoða hann við það að koma fótunum undir sig og líf sitt aftur, með því að veita honum dvalarleyfi hér. Ég er hinsvegar algjörlega andsnúinn því að honum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með þeim hætti sem um er rætt. Ég er almennt séð ekki mjög hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Fyrir eru mjög góðar reglur um veitingu hans og þurfa að vera mjög gild rök fyrir því að veita undanþágu. Ég sé ekki þörfina á að veita honum ríkisborgararétt umfram reglurnar sem fyrir hendi eru, en hann stenst þau ekki eins og fyrr er sagt. Er ómögulegt að mínu mati að afgreiða þetta sem einangraðan hlut, og án þess að skapa þá fordæmi fyrir fleiri að sækja um slíkt og fá ríkisborgararétt með sama hætti. Ég er því mjög andsnúinn því að Íslendingar aðstoði Fischer umfram það sem gert var með því rausnarlega boði að veita honum landvistarleyfi. Það er rétt að aðstoða skákmeistarann með öllum mögulegum hætti og það sem stenst lög almennt, en aðstoð við hann verður að vera fær á efnislegum og málefnalegum forsendum, ekki með tilfinningarökum einvörðungu. Afstaða mín persónulega til málsins er því alveg skýr.

Húmorinn
President Bush is being criticized because his inaugural celebration cost $40 million. When asked about it, the president said, 'Sorry, but my daughters insisted on an open bar.'

Security is a big issue this year. So the Secret Service announced that people attending President Bush's inaugural ceremony will not be allowed to bring coolers or alcoholic beverages. In other words, the Bush twins will not be going.
Conan O'Brien

News from Washington -- Condoleezza Rice ... says there are no plans to invade North Korea, which can only mean one thing - they don't have any oil.

So everything is being done to assure a smooth passage. I'm starting to worry about President Bush again, when he was told that Condoleezza Rice had been confirmed today he said 'I didn't even know she was Catholic.

Washington DC is on high alert for this week's inaugural event for President Bush. Anti-aircraft missals have been deployed near the capitol. F-16's are patrolling around the clock and every bartender in town is on strict orders -- do not serve the Bush twins.
Craig Ferguson

It was so cold that for the inauguration they may need to use jumper cables to start both the president's limo and Dick Cheney.

President Bush gave a speech honoring the life of Martin Luther King today. And then he said, Mr. King hosts my favorite CNN show.

Bush says being re-elected, he doesn't have the same pressure as the first time. He said he wants to enjoy himself in the Oval Office this time. Not as much as Clinton enjoyed himself.

According to the New York Post both Al Gore and John Kerry are planning on running for president in 2008. Gore and Kerry - again experts say it is to early to say who would loose bigger.

President Bush told the reporter that he saw his re-election as the approval by the American people to continue the war in Iraq. Kind of like how Clinton thought his re-election meant the American people wanted him to continue cheating on Hillary.
Jay Leno

Áhugavert efni
Umfjöllun um dóm Hæstaréttar
Davíðs Stefánssonar skálds minnst á Vef-Þjóðviljanum
SUS hvetur Þorgerði Katrínu til að leggja fram frumvarp
Frelsisdeildin heldur áfram á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna
Stóryrðaskrif Jónasar Kristjánssonar tekin í gegn - pistill Vef-Þjóðviljans

Saga dagsins
1886 Bergur Thorberg landshöfðingi, lést, 57 ára að aldri - hann hafði verið landshöfðingi í fjögur ár en var áður amtmaður. Eftirmaður Bergs varð Magnús Stephensen - var hann seinasti landshöfðinginn
1918 Mesta frost í Reykjavík til þessa, -24°C, mældist þennan dag. Miklir kuldar voru snemma ársins um allt land og hefur síðan mjög almennt verið talað um frostaveturinn mikla til að lýsa kuldanum þá
1924 Vladimir Lenin leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, lést, 53 ára að aldri. Lenín hafði verið leiðtogi Sovétríkjanna frá 1917 og var pólitískur leiðtogi kommúnista í byltingunni. Eftirmaður hans i embætti varð Josef Stalin. Lík Leníns er smurt dag hvern og hefur verið varðveitt í grafhýsi í Kreml
1959 Kvikmyndaleikstjórinn Cecil B. DeMille lést, 77 ára að aldri, úr hjartasjúkdómi. Hann var einn áhrifamesti leikstjórinn á gullaldardögum Hollywood og var valdamikill í kvikmyndabransanum
1981 Gíslarnir 52 sem haldið var föngnum í sendiráði Bandaríkjanna í Teheran í Íran var sleppt. Þeim var haldið í tæpa 14 mánuði eða allt frá því að uppreisnin gegn Íranskeisara hófst. Eftir embættistöku Ronald Reagan, 20. janúar 1981, náðist samkomulag um lausn þeirra og þeim var loksins veitt frelsi

Snjallyrðið
Ég er friðlausi fuglinn,
sem fæddist með villtri þrá,
sem elskar heiðingjans himin
og hamrafjöllin blá.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem frelsinu mikla ann,
sem hatrið gerði að hetju
og heimskan söng í bann.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem forðast að leita í skjól,
þó kaldan blási um brjóstið,
og bregðist vor og sól.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem flýgur í norðurátt,
er syngjandi svanir líða
suður um heiðið blátt.

Ég er friðlausi fuglinn
sem finnur sinn villta þrótt.
Í hjartanu hálfu er dagur,
en hálfu kolsvört nótt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Friðlausi fuglinn)


Myndir frá embættistöku George Walker Bush
George W. Bush sver embættiseið öðru sinni

George W. Bush sver embættiseið öðru sinni

Bush forseti gleðst með fjölskyldu sinni

Bush forseti flytur ræðu sína

Bush forseti flytur ræðu sína

Forsetinn hallar sér aftur í sæti sínu

Forsetahjónin ganga niður Pennsylvania-breiðstræti

Laura Welch Bush og George Walker Bush

Laura Welch Bush og George Walker Bush dansa á Commander-in-chief dansleiknum í Washington