Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 janúar 2005

Össur SkarphéðinssonHeitast í umræðunni
Formannsslagur milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar er hafinn í Samfylkingunni. Ekki er hægt að segja að það komi á óvart að þau berjist um embættið. Það hefur blasað við í tvö ár, eða allt frá því að Ingibjörg fór í misheppnað varaþingmannsframboð og missti yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum frá sér eftir klúðurslega framgöngu vegna ákvörðunar um framboð til þings sem leiddi til þess að hún missti trúnað samstarfsmanna sinna í R-listanum og varð að segja af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík. 26. ágúst 2003 lýsti Ingibjörg Sólrún yfir framboði sínu til varaformennsku í flokknum og kynnti jafnframt þá ákvörðun sína að stefna að framboði til formennsku á flokksþingi 2005. Í stað þess að leggja þegar til við að ná fullum völdum í flokknum beið hún álengdar, varð varaformaður hans og stefndi að formannsframboði síðar. Össur varð formaður flokksins áfram og hefur ekki sýnt á sér neitt fararsnið þegar kemur að næsta flokksþingi, hann ætlar ekki að víkja af stóli til að tryggja Ingibjörgu forystusess innan hans, umfram það sem varð í alþingiskosningunum 2003.

Allt frá því Ingibjörg varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði formaður Samfylkingarinnar. Eftir að taka fimmta sætið á framboðslista flokksins í RN, varð hún jafnframt forsætisráðherraefni flokksins. Hún var andlit flokksins í allri kosningabaráttunni og stefnan var sett á þrennt; koma ISG á þing, gera Samfylkinguna að stærsta flokk landsins og fella ríkisstjórnina. Ekkert af þessu gekk eftir. Ingibjörg Sólrún var valdalaus eftir kosningar og náði ekki kjöri á þing, var varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi. Martröð hvers þess sem vill vera í forystu í landsmálapólitík. Formaður flokksins tók skýrt fram daginn eftir kosningar að hann færi fram til formennsku á ný. Forsætisráðherraefnið var slegið af í beinni sjónvarpsútsendingu og formaður Samfylkingarinnar, bauð formanni Framsóknarflokksins forsætið ef til samstjórnar flokkanna kæmi. Svo fór ekki, stjórnarsamstarfið var áfram við völd og Samfylkingin áhrifalaus í landsmálapólitíkinni. Ekkert að því sem stefnt var að gekk eftir. Segja má að niðurstaða mála eftir kosningar hafi verið Össuri áfall en Ingibjörgu meiriháttar áfall. Staða Össurar var þó sterkari en Ingibjargar sem hefur allt síðan mátt lifa við algjört valdatómarúm.

Ingibjörg Sólrún GísladóttirStaða Ingibjargar eftir kosningarnar var því ekki öfundsverð, afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg telur það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir fram til formennsku. Þetta er barátta um völd og áhrif og ekkert er gefið eftir. Skiljanlegt er að Ingibjörg vilji leggja í þetta núna, svona áður en hún fuðrar endanlega upp pólitískt. Hefur rýrnað svo pólitískt á tæpu ári að með ólíkindum í raun er. Sést bara á allri fjölmiðlaumfjöllun með ISG að staða hennar er allt önnur en var lengi vel, skiljanlega. En hún hefur sjálf spilað svona úr sínum spilum. Hvort þeirra vinni verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með, en eflaust verður þetta mikill kattaslagur, bæði eru að berjast fyrir pólitísku lífi sínu á komandi árum. Allt er lagt í sölurnar greinilega. Sést það bara á framkomu öflugs Samfylkingarfólks í fjölmiðlum. Allt verður lagt í þetta, enda eru báðir þessir stjórnmálamenn að berjast fyrir pólitísku lífi sínu.

Þemað fyrir slaginn var kynnt af hálfu stuðningsmanna Ingibjargar fyrst í Kastljósi í gærkvöldi er einn helsti pólitíski málsvari hennar, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og varaþingmaður, var gestur Kastljóssins. Verður það byggt á því mati að Össur sé ekki leiðtogi og erfitt sé að sjá hann fyrir sér í forsætisráðherrastóli. Össur og hans fólk mun leggja upp með það þema að Össur hafi styrkt flokkinn, byrjað með hann í sögulegu lágmarki og byggt hann upp og engin þörf sé á að skipta um hest í miðri á, engra breytinga sé í raun þörf. Athygli vakti þó einkum í dag fróðleg ummæli Þórunnar Sveinbjarnardóttur að nauðsynlegt sé að vanda öll vinnubrögð innan flokksins og allt innra starf þurfi að bæta. Segir hún nauðsynlegt að skipta um forystu í flokknum. Deilur eru þegar hafnar um ummæli Kristrúnar í Kastljósinu í gær og hefur Björgvin G. Sigurðsson einn helsti pólitíski málsvari Össurar, sagt að ummæli Kristrúnar séu misskilningur eða ekki sanngjarnt að tjá sig með þessum hætti um formanninn og verk hans. Við hefur blasað að þetta uppgjör milli Össurar og Ingibjargar sé vandræðalegt fyrir Samfylkinguna og þá sem þar starfa. Sést það best í því að uppgjörinu er flýtt til að því ljúki sem fyrst. En það er þó fyllilega ljóst að slagurinn verður mjög harkalegur og ljóst að það sem tapar mun draga sig til baka frá forystu flokksins og láta hinu sviðsljósið eftir. Hvort sem mun vinna er ljóst að mikið uppgjör blasir við.

(Segja má að skondið sé að myndin af Össuri er til hægri í uppsetningarkerfi vefsins og af Ingibjörgu til vinstri. Ætli þetta sé ekki lýsandi um frambjóðendurna til formennsku í Samfó, annar horfir til hægri að einhverju leyti en hinn einblínir til vinstri).

Öldungadeildin staðfestir skipan dr. Condi Rice
Second Term - bráðfyndin söngklippa frá JibJab

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraFrumvarp um rýmri afgreiðslutíma verslana
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær, frumvarp um breytingu á lögum um helgidagafrið þannig að verslanir sem uppfylla ákveðin skilyrði megi hafa opið framvegis á formlegum hátíðisdögum og helgidögum. Er þar átt við föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Mun undanþágan ná til matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum þar sem a.m.k. tveir þriðju hlutar veltunnar er sala á drykkjarvörum, matvælum og tóbaki. Er frumvarpið flutt eftir starf nefndar skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, Samtaka verslunar og þjónustu og biskupsstofu. Er þetta einkum gert til að jafna aðstöðu verslana og t.d. bensínstöðva sem opnar eru á helgidögum og eru farnar að selja matvöru í þónokkrum mæli. Ber að fagna þessari ákvörðun dómsmálaráðherra. Margir ungir sjálfstæðismenn hafa ljáð máls á því í ræðu og riti að mikilvægt væri að auka frjálsræði neytenda og verslunarrekenda með því að breyta lögum um helgidagafrið eða fella þau úr gildi.

Með frumvarpi dómsmálaráðherra er að nokkru leyti tekið undir þessi sjónarmið. Því ber að fagna. Ég sem ungur sjálfstæðismaður hef lengi verið talsmaður þess að breyta þessum lögum og rýmka mörkin í þessum efnum. Þegar deilt var um opnun 10-11 á hvítasunnu í júní 2003 skrifaði ég þessi orð á þennan vef: "Þessi forræðishyggja að hafa sumar búðir opnar þessa daga en aðrar ekki er algerlega á eftir sinni samtíð. Enda sjá allir að bensínstöðvar mega selja matvörur á hátíðisdögum en stórmarkaðirnir ekki. Annaðhvort er að leyfa þetta alveg eða hafa allt lokað. Svo einfalt er það. Skondið var að sjá forræðishyggjumanninn Ögmund áðan (í viðtali í Kastljósi það kvöld), reyna að bera á móti þessu, og vilja halda áfram á sömu braut í stjórnmennskunni. Eitt sinn kommi, alltaf kommi greinilega. Allavega búðirnar eiga að vera opnar ef fólk vill vinna og kúnnarnir kaupa, svo einfalt er það í mínum huga. Burt með forræðishyggjuna!" Þessi skrif mín í júní 2003 segja allt sem segja þarf, ég er enn sömu skoðunar og ítreka því ánægju mína með þetta frumvarp og það skref í frelsisátt sem það er.

Sjálfstæðisfélögin á Akureyri minnast Valgerðar Hrólfsdóttur

Áhugavert efni
Stríðsmenn hjartans
Gagnsærri og réttlátari yfirvinnureglur
Af skattaæði R-listans - pistill Bolla Thoroddsen
Sjálfstæðismaðurinn - pistill Arnljóts Bjarka Bergssonar
Fjárfesting í heilbrigðismálum - pistill Höskuldar Marselíussonar

Saga dagsins
1903 Þýski togarinn Friederich Albert strandaði á Skeiðarársandi. Áhöfnin komst öll í land en hraktist síðan um sandinn í tvær vikur og 3 menn fórust. Í kjölfarið var byggt skipbrotsmannaskýli á sandinum
1942 Breskir hermenn lentu í hrakningum í fjallgöngu milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar - átta létust
1966 Indira Gandhi kjörin leiðtogi indverska Kongressflokksins og varð því forsætisráðherra Indlands í stað Lal Bahadur Shastri sem látist hafði skömmu áður. Indira var dóttir Jawaharlal Nehru fyrsta forsætisráðherra Indlands. Varð fyrsti kvenforsætisráðherra Indlands, leiddi stjórnmálalíf landsins í tvo áratugi og var forsætisráðherra 1966-1977 og á ný 1980-1984. Indira var myrt 31. október 1984
1983 Stríðsglæpamaðurinn Klaus Barbie handtekinn í Bólivíu og framseldur til Frakklands - hann hafði farið huldu höfði þar undir nafninu Klaus Altmann frá 1955. Lést úr krabbameini í fangelsi í Lyon 1991
1997 Yasser Arafat forseti Palestínu, snýr aftur eftir 30 ára fjarveru til Hebron, er Ísraelar afhentu Palestínumönnum yfirráð yfir Vesturbakkanum, sem samið var um 1993. Arafat lést 11. nóv. 2004

Snjallyrðið
Komið allir Caprisveinar
komið, sláið um mig hring
meðan ég mitt kveðju kvæði
um Catarinu litlu syng.
Látið hlæja og gráta af gleði
gítara og mandólín.
Catarina, Catarina,
Catarina er stúlkan mín.

En nú verð ég að kveðja Capri
og Catarinu litlu í dag.
Horfa mun ég út til eyjar,
einn, um næsta sólarlag.
Grátið með mér gullnu strengir,
gítarar og mandólín.
Ó, Catarina, Catarina,
Catarina, stúlkan mín.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Capri Catarina)