Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 febrúar 2005

Bill ClintonHeitast í umræðunni
Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, var í gær útnefndur af Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, til að hafa yfirumsjón með uppbyggingarstarfi stofnunarinnar vegna hamfaranna við Indlandshaf á öðrum degi jóla. Mun hlutverk Clintons einkum verða að liðka fyrir samningum á milli yfirvalda og uppreisnarmanna í Indónesíu og á Sri Lanka. Mun Clinton verða sérstakur erindreki Annan og stofnunarinnar á svæðinu. Clinton er ætlað að sinna þessu verkefni eins lengi og þörf er á og mun ekki sinna öðru þann tíma. Tekur við þessu hlutverki formlega í næsta mánuði. Hefur hann komið nálægt þessu verkefni áður, en hann var skipaður af George W. Bush forseta Bandaríkjanna, til að vinna að fjáröflun vegna hamfaranna ásamt George H. W. Bush forvera sínum á forsetastóli. Hefur þessi skipan mála gefið þeim orðrómi að Clinton muni sækjast eftir embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, er Annan lætur af embætti í árslok 2006, byr undir báða vængi. Hefur þessi umræða verið lengi til staðar en margir telja að Annan vilji að Clinton taki við af sér.

Var þess ekki lengi að bíða að viðbrögð kæmu við þessari skipan mála. Jesse Helms fyrrum öldungadeildarþingmaður, sendi frá sér bréf þar sem hann harmar þessa skipan mála. Er hann mjög ósáttur við að Clinton sé fenginn í þetta verkefni og varar sterklega við því að Clinton verði eftirmaður Annans í embætti og verði áberandi í starfi stofnunarinnar. Er þetta í fyrsta skipti sem Helms verður áberandi í kastljósi fjölmiðla, frá því að hann vék af þingi í janúar 2003, eftir að hafa setið þar í þrjá áratugi og verið mjög valdamikill og leiðandi í hópi íhaldssamra hægrimanna í þinginu. Helms hefur lengi haft illan bifur á Clinton og litlir kærleikar þeirra á milli. Er þar einkum vísað til siðferðislegra mistaka Clintons í embætti, sem öllum eru kunnar. Fór það ekki leynt meðan Clinton sat á forsetastóli og Helms var áberandi í forystu voldugra þingnefnda. Í bréfinu sem Helms ritaði segir svo: "I'm sure you might agree that putting a left-wing, undisciplined and ethically challenged former President of the United States into a position of such power would be a tragic mistake". Er þar að finna harkalega árás að skipan Clintons og minnist hann þar á tilraunir valdamikilla demókrata til að búa í haginn fyrir Clinton sem framkvæmdastjóraefni fyrir SÞ. Nefnir hann þar að öldungadeildarþingmennirnir Hillary Rodham Clinton (eiginkona forsetans fyrrverandi), John Kerry og Edward Kennedy og fleiri róttækir vinstrimenn, eins og hann kallar þá í bréfinu, hafi reynt af krafti að búa í haginn fyrir Clinton í þessa stöðu og hvetur hann Bush forseta, til að sporna gegn því. Helms minnir því hressilega á sig og skýtur um leið föstum skotum að Clinton og forystumönnum demókrata í þinginu um leið.

Jóhannes Páll páfi IIJóhannes Páll páfi II var lagður inn á Gemelli-sjúkrahúsið í Róm í gærkvöld, en hefur þó ekki verið sagður í lífshættu. Mun hann vera með flensu og hafa fundið fyrir öndunarerfiðleikum vegna vatnsmyndunar og sýkingar í lungum. Er þetta almennur fylgikvilli þess er eldra og veikbyggðara fólk fær kvefpestir. Hann er þó ekki á gjörgæsludeild, en er sagður veikburða og hafa þurft á læknisumönnun að halda. Páfi hefur verið mjög veikbyggður seinustu ár, eins og vel er kunnugt. Þjáist hann af ýmsum sjúkdómum, eftir því sem heimildir herma. Nægir þar að nefna Parkinsons-veiki og liðagigt auk öldrunarsjúkdóma, sem er almennur fylgikvilli hjá fólki á þessum aldri. Jóhannes Páll II páfi verður 85 ára í maí. Hann hefur nú setið á páfastól í tæp 27 ár, frá 16. október 1978. Sat hann lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar hafa setið lengur en hann, þeir Pius IX og St. Peter.

Pólverjinn Karol Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Páfi hefur haldið fast við stefnu sína þrátt fyrir sífellt hrakandi heilsu. Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli er Jóhannes Páll II umdeildur páfi. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann sé andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann leggist gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann sé gamaldags fulltrúi gamalla tíma og leggist alfarið gegn allri framþróun og sé andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi sé kraftmikill málsvari mannréttinda og styðji "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Þrátt fyrir slæmt heilsufar hyggst Páfi sitja á stóli til dauðadags og vísar á bug að hann víki vegna heilsubrests. Það sé hans sannfæring að aðeins Guð geti bundið enda á það verkefni sitt að þjóna í embætti sínu kaþólsku fólki. Ef marka má stöðu mála má búast við að sífellt styttist í að kardinálarnir verði að velja eftirmann páfa, sem gæti leitt til mikilla valdaátaka.

Punktar dagsins
Ómar Stefánsson, Sigurður Geirdal, Sigurbjörg Vilmundardóttir og Hansína Ásta Björgvinsdóttir

Eins og fram kom í skrifunum í gær eru væringar innan Framsóknarflokksins í Kópavogi. Sást það best af aðalfundi framsóknarkvenna í bænum, en þar var smalað inn fólki úr jafnvel öðrum sveitarfélögum til að steypa sitjandi stjórn af stóli og ná fram nýjum meirihluta til að styrkja Sigurbjörgu Vilmundardóttur inn í stjórn og efla hana í slag gegn öðrum bæjarfulltrúum næst (en hún varð bæjarfulltrúi í stað Sigurðar Geirdal). Sama hefur nú gerst með ungliðafélagið þar. Ef marka má fréttirnar í dag voru harkaleg átök þar í gær, en 63 ungliðar gengu í félagið þar í gær, hvorki meira né minna. Er greinilega mikil valdabarátta í gangi. Birtir Fréttablaðið kostulega lýsingu um það sem fram fór bakvið tjöldin innan flokksins í bænum í gær fyrir aðalfundi ungliðanna, sem var ekki síður dramatískur að upplagi og kvenfélagsfundurinn. Bæjarfulltrúinn Ómar Stefánsson (sem er formaður framsóknarfélagsins í bænum) og varaþingmaðurinn Páll Magnússon (sem fékk konu sína til að stjórna valdataflinu í kvenfélaginu) tókust þar á um áhrif í ungliðafélaginu. Bæjarstjórinn, Hansína Ásta, mætti þar sérstaklega til að ræða málin. Sátt náðist um að deila völdum innan ungliðafélagsins, svo bæði öfl séu sátt, en við blasti að andstæðingar Páls hefðu náð yfirtökum í baráttunni, áður en samið var.

Þessi mikla innansveitarkróníka og valdatafl hjá framsókn snýst um völdin í bæjarstjórnarflokknum. Er eflaust verið að takast á um yfirráð yfir fulltrúaráðinu þar, sem er auðvitað lykill að völdum og áhrifum þar innanborðs, en flestum er kunnugt um valdataflið um bæjarstjórastól Sigurðar Geirdal, eftir að hann lést sviplega undir lok síðasta árs. Sigurður hafði leitt Framsókn í bænum í einn og hálfan áratug og verið afgerandi leiðtogi þar. Benti flest til þess að hann myndi hætta í bæjarmálunum í komandi kosningum en ná að leiða málin til lykta þar með sínum hætti. Svo fór ekki, með andláti hans varð flokkurinn leiðtogalaus og engin sátt um forystumenn t.d. í komandi kosningum og átök bein um bæjarstjórastólinn eftir hans dag. Öll átökin eru komin upp á borðið, nú rúmu ári fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hansína, Una María og Ómar hafa bundist samtökum um að leiða forystuna fyrir næstu kosningar en Páll og Sigurbjörg vilja sækja fram til forystu, gegn þeim. Hætt er við að átök verði mikil innan fulltrúaráðsins í bænum að óbreyttu er nær dregur kosningum. Svo ganga þær sögur hátt að Árni Magnússon stefni að leiðtogastól Sivjar Friðleifsdóttur í Suðvesturkjördæmi, enda sæti hans í Reykjavík norður langt í frá tryggt. Um sé því að ræða mikið valdatafl.

Bjór

Samkvæmt könnun Gallups er meirihluti þjóðarinnar, rúmlega 59%, hlynnt sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum en andvíg sölu á sterku víni í matvöruverslunum. Aðeins rúmlega 13% þjóðarinnar eru hlynnt sölu á sterku víni í matvöruverslunum. Karlar virðast vera frekar hlynntari sölu áfengis í matvöruverslunum en konur. Um 64% karla eru hlynnt sölu léttvíns og bjórs en þetta hlutfall er 55% meðal kvenna. Samkvæmt könnuninni er einn af hverjum fimm körlum hlynntur sölu á sterku víni í matvöruverslunum, en aðeins 7% kvenna. Eins og fram kemur í niðurstöðum Gallup er mikill stuðningur við málið í hópi yngra fólks. Tæp 80% fólks á aldrinum 18-34 ára eru hlynnt sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum. Þessi niðurstaða er mikið ánægjuefni.

Það hefur lengi verið mikið baráttumál okkar ungra sjálfstæðismanna, sérstaklega mikið baráttumál mitt, að allavega léttvín og bjór fari í matvöruverslanirnar. Persónulega vil ég þó ganga alla leið og stokka upp ÁTVR og leita leiða við að áfengi fari að öllu leyti í matvöruverslanir. Niðurstöður þessarar könnunar koma mér ekki á óvart, enda hef ég ávallt talið að meirihluti fólks vilji geta verslað bjórinn t.d. í matvöruverslunum. Eitthvað virðast þingmenn vera ólíkrar skoðunar um einkaleyfi ÁTVR. Fróðlegt er að skoða á vef SUS svör þingmanna við einföldum spurningum okkar í stjórn SUS. Sumir slá alveg úr og í og geta ekki komið með afstöðu sína en margir eru auðvitað flutningsmenn og ötulir stuðningsmenn þingmáls sem nú er fyrir þinginu, sem ber að fagna. Hvet alla til að skoða þessi svör!

Gandhi

Horfði á hluta bæjarstjórnarfundar eftir dægurmálaþættina. Að því loknu horfði ég á kvikmyndina Gandhi. Sannkallaður kvikmyndarisi sem greinir frá lífi og starfi Mahatma Gandhi og stjórnmálaþróuninni á Indlandi fyrir og eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1948. Rakinn er ferill þessarar frelsishetju Indverja allt frá því að hann byrjar stjórnmálaþáttöku sína, fátækur lögfræðingur í Afríku, og allt þar til að hann verður alþjóðleg friðarhetja fyrir mannúðarskoðanir sínar og friðsamar mótmælaaðferðir allt þar til fullnaðarsigur vinnst. Ben Kingsley fer á kostum í hlutverki frelsishetjunnar og er ótrúlega líkur fyrirmyndinni og er einstaklega heillandi í persónusköpun sinni, hann fékk enda óskarsverðlaunin fyrir sannkallaðan leiksigur sinn, hann hefur aldrei leikið betur á ferli sínum.

Kvikmyndin hreppti alls níu óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmyndin og einnig fyrir einstaklega góða óskarsverðlaunaleikstjórn breska leikstjórans Richards Attenborough, fyrir hið stórkostlega handrit sem vakti mikla athygli, fyrir einstaklega vandaða búninga og stórkostlega myndatöku. Þetta er íburðarmikil og einstaklega vönduð kvikmyndaframleiðsla með mörgum mjög stórbrotnum hópsenum sem veita mikla og heillandi innsýn í merkilega tíma í lífi indversku þjóðarinnar, en líka smærri, ljóðrænni myndir sem gefa ekki síst dýrmæta og fágæta innsýn í líf hins stórmerkilega indverska kennimanns sem féll fyrir morðingjahendi 30. janúar 1948, skömmu áður en draumur hans um sjálfstætt Indland rættist loks. Stórbrotin mynd, verðið endilega að sjá hana ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Richard Nixon forseti

Þessa dagana er ég að lesa bókina RN: The Memoirs of Richard Nixon. Frábær bók sem veitir magnaða innsýn inn í pólitískan feril Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, sem sat í embætti 1969-1974, en varð að segja þá af sér embætti, fyrstur forseta landsins, vegna Watergate-hneykslisins. Er alveg merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans, Watergate og forsetatíð, sem var mjög umdeild. Nixon er merkilegur persónuleiki, það er merkilegast að komast að því í allri umfjöllun um hann hversu ótraustur hann var og allt að því taugaveiklaður og andlega bæklaður. Hann var mikill skapmaður og var fljótur að missa stjórn á sér. Nánustu samstarfsmenn hans lýsa seinasta ári forsetaferils hans sem púðurtunnu fyrir hann persónulega. Hann var orðinn óútreiknanlegur og t.d. James Schlesinger varnarmálaráðherra hans, undir lokin, hélt að hann myndi beita hernum til að halda völdum eftir að þingið samþykkti að ákæra hann fyrir embættisafglöp.

Eftir stendur að hann áorkaði miklu í embættistíð sinni, en mörg merkustu verk hans hafa gleymst vegna Watergate-málsins. Jafnvel þótt Richard M. Nixon hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður 20. aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Margir vita varla enn hver hann var í raun þessi maður sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér, að lokum. Nixon var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Hef ég jafnan dáðst af því hvernig hann kom sér áfram og hélt dampi þrátt fyrir mörg áföll lengst af. Hann varð öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972. Hann stjórnaði landinu í gegnum mikla og erfiða pólitíska tíma og vann sér sess með því. Þessir þættir koma vel fram í bókinni. Hefur verið áhugavert að lesa hana og kynna sér feril hans betur.

Punxsutawney Phil

Svona í blálokin einn fyndinn punktur. 2. febrúar ár hvert á sér stað merkilegur atburður í smábænum Punxsutawney í Philadelphia. Þá er múrmeldýr dregið út úr holu snemma að morgni og með því er spáð fyrir um veðrið út veturinn og vorkomuna. Múrmeldýradagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í bænum í 118 ár. Að þessu sinni sá Phil skugga sinn og því er spáin ekki góð. Samkvæmt gamalli trú þýðir það einfaldlega að vetrarveður verður í að minnsta kosti sex vikur til viðbótar í fylkinu. Þúsundir manna hafa lagt leið sína árlega til bæjarins til að verða vitni að þessum atburði. Mikil stemmning er jafnan og var mikið púað og galað þegar spádómurinn lá fyrir nú. Fólk lifir sig inn í þessa merkilegu seremóníu með merkilegum hætti. Er þetta í 94. skiptið af 118 sem Phil sér skugga sinn. Færri sögum fer af hversu oft rétt hefur verið spáð um veðrið. Þessi siður og athöfn var gerð ódauðleg í hinni frábæru kvikmynd Groundhog Day með Bill Murray árið 1993. Hef lengi fílað þessa mynd og horft á hana margoft. Ætla að horfa á hana í kvöld, skrifa um hana nokkra punkta á morgun.

Saga dagsins
1979 Bassaleikarinn umdeildi Sid Vicious (John Ritchie) úr bandinu Sex Pistols, deyr, 21 árs að aldri
1988 Hjarta og lungu voru grædd í Halldór Halldórsson, fyrstan Íslendinga - aðgerðin tók alls 8 tíma
1990 F. W. de Klerk forseti S-Afríku, tilkynnir að aðskilnaðarstefna stjórnvalda líði formlega undir lok. Með því var Afríska þjóðarráðið, flokkur blökkumanna í landinu, formlega leyft að starfa og föngum stjórnvalda var í kjölfarið sleppt úr varðhaldi. Umdeildasti fangi stjórnvalda, Nelson Mandela, hafði þá setið í fangelsi í tæp 27 ár - honum var formlega sleppt 11. febrúar 1990. Þessar breytingar mörkuðu mikil þáttaskil í landinu. 1994 voru almennar kosningar haldnar og Mandela kjörinn forseti
1990 Þjóðarsáttin - launþegar og atvinnurekendur undirrituðu heildarkjarasamninga sem ætlað var að ná verðbólgunni niður og tryggja atvinnuöryggi. Sögulegt samkomulag sem markaði mikil þáttaskil
1998 Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, opnaður - hefur allt frá upphafi verið vinsælasti fréttavefur landsins. Tugir þúsunda landsmanna fara þangað á hverjum degi til að fylgjast með fréttamiðluninni

Snjallyrðið
Ég kom heim eftir að hafa kvatt þig,
allt í einu fann ég sting í hjartanu mínu,
það var ekki umflúið, ég hafði misst þig,
síðan hef ég reynt að lifa lífinu mínu.

Ekki er alltaf auðvelt að halda áfram göngu,
lífið er ekki alltaf bara ganga á rauðum rósum,
ég hef víða farið og marga hitt á lífsgöngu,
en aldrei gleymist mér mynd þín með brosum.

Erfiðast er að horfa á myndina af þér,
þá hugsa ég um það sem var og varð ekki,
á sama degi ég brosti við þér og grét yfir þér,
hjartað er að ná sér en sárið segir mér, ég gleymi þér ekki.
Stefán Friðrik Stefánsson (Hjartasárið)