Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 janúar 2005

Sameinuðu þjóðirnarHeitast í umræðunni
Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta vakið miklar deilur og er alveg ljóst að ekki er samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Í fréttum um helgina tjáði Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar þingsins, eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Segir hann kostnað við hana getað farið yfir einn milljarð króna þegar allt er talið með. Vill hann að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, dragi umsóknina til baka. Sagði Einar Oddur við sama tækifæri að sér þættu litlar líkur á að Íslendingar myndu ná kosningu. Sagði Einar að utanríkisþjónustan væri nú þegar orðin of dýr og rétt væri að íhuga betur málið áður en lengra væri haldið. Er ég alveg innilega sammála Einari Oddi. Hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur í því.

Eins og sést hefur er nauðsynlegt ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Eins og fram hefur komið að hálfu okkar í stjórn og utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna, og ítrekað í stjórnmálaályktunum sambandsþings í Borgarnesi 2003 og málefnaþings á Selfossi 2004, þykir ungum sjálfstæðismönnum skorta á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Sannast hefur svo ekki verður um villst að utanríkismálin verða sífellt viðameiri málaflokkur og útþensla málaflokksins hafi verið þónokkur. Það er ekki laust við að sú spurning vakni hvort þörf sé fyrir alla þessa miklu yfirbyggingu í utanríkisráðuneytinu í formi sendiráðanna og svo ekki síst þessi kosningabarátta um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Nú er að störfum starfshóp sem skila á tillögum um hagræðingu í utanríkisþjónustunni. Er ætlunin með því að ná fram sem mestri hagræðingu með tilfærslu starfsmanna og fjármuna innan ráðuneytis og sendiskrifstofa. Hefði það átt að hafa gerst fyrir margt löngu. En eftir stendur að taka þarf mál öryggisráðsumsóknarinnar til endurskoðunar og fara betur yfir það og helst hætta við hana að óbreyttu. Fór ég yfir stöðu utanríkismálanna í ítarlegum pistli við ráðherraskiptin í utanríkisráðuneytinu, haustið 2004, og bendi á hann.

AlþingiAlþingi kom saman að nýju í dag eftir rúmlega mánaðarleyfi. Við upphaf þinghalds í dag var fyrirspurnartími ráðherra og var um margt rætt. Eins og venjulega var mikið rætt um Íraksmálið. Virðist svo vera að það sé eina málið sem stjórnarandstaðan getur náð samstöðu um að tala um og náð samhljómi í. Krafðist formaður Samfylkingarinnar í upphafi að trúnaði yrði aflétt af fundabókum utanríkismálanefndar í aðdraganda innrásarinnar í Írak fyrir tveim árum. Er þessi beiðni allundarleg í ljósi þess að trúnaði hefur þegar verið aflétt með leka í fjölmiðla. Eins og sást af forsíðufrétt Fréttablaðsins á föstudag komst blaðið yfir fundagerðarbækur þar. Annaðhvort hefur nefndarmaður eða starfsmaður þingsins lekið þessu eða þá að þeim hefur einfaldlega verið stolið. Mjög mikilvægt er að fá úr þessu skorið og leiða í ljós hvaðan lekinn kemur. Hefur svona nokkuð gerst áður, nægir að nefna að stefnuræðu forsætisráðherra var lekið, bæði 2003 og 2004 og birtist efni hennar í fjölmiðlum áður en hún var flutt opinberlega.

Verður reyndar merkilegt að fylgjast með Samfylkingunni þessa fyrstu þingdaga. Allt virðist þar krauma undir niðri af óánægju og biturð vegna formannsslagsins í flokknum, þar sem formaður og varaformaður flokksins munu berjast um formannsstólinn. Hefur það sést vel seinustu daga að öllu á að beita í slagnum, öll brögð virðast vera gild í því. Hef ég áður fjallað um það hvernig verkalýðsarmi flokksins á að beita í nafni Ingibjargar Sólrúnar og vinna í haginn fyrir hana gegn Össuri. Sérstaka athygli vöktu hvöss ummæli framkvæmdastjóra ASÍ í hádegisfréttum RÚV í gær í garð formanns flokksins, var ekki betur hægt að heyra en að hann væri að tala í nafni verkalýðshreyfingarinnar beint. Sagði hann t.d. að verkalýðshreyfingin myndi fylkja sér að baki nýjum formanni Samfylkingarinnar, hver sem hann yrði, en að stuðningur hennar við Ingibjörgu Sólrúnu væri ótvíræður. Eru þetta undarleg ummæli af embættismanni í hreyfingunni, sem ekki hefur verið kjörinn fulltrúi verkalýðsfélaga beint. Nú hafa sex aðilar í forystu verkalýðshreyfinga og allir fulltrúar í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að skoðanir framkvæmdastjórans séu ekki skoðanir verkalýðsmálaráðsins. Össur kom fram í fréttum í gær og sagði þar að stuðningsmenn Ingibjargar hefðu seinustu daga ráðist að sér með grófari og persónulegri hætti en andstæðingar hans í pólitík hefðu nokkru sinni gert. Er ljóst að mikil harka er hlaupin í þetta formannskjör og stefnir í harkalega baráttu um völd og áhrif milli valdatvíeykisins svokallaða hjá Samfylkingunni. Er barist um allt eða ekkert hjá báðum aðilum.

Sir Alfred Hitchcock (1899-1980)Hitch átti mest skilið að fá óskar
Skv. niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var meðal kvikmyndagerðarmanna, er breski kvikmyndaleikstjórinn Sir Alfred Hitchcock sá kvikmyndagerðarmaður sem helst átti skilið að hljóta Óskarsverðlaunin á ferli sínum. Hitchcock var 6 sinnum á sínum glæsilega leikstjóraferli tilnefndur til leikstjóraverðlaunanna hjá bandarísku kvikmyndaakademíunni á tímabilinu 1941-1961, en vann aldrei. Hann var tilnefndur fyrir Rebeccu, Suspicion, Lifeboat, Spellbound, Rear Window og Psycho. Næstir í kjörinu komu Martin Scorsese og Stanley Kubrick. Scorsese hefur fimm sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna en gæti mögulega unnið þau á þessu ári ef hann fær tilnefningu fyrir The Aviator, eins og flest bendir til. Á lista yfir karlleikara sem helst á skilið verðlaunin er efstur Samuel L. Jackson og í hópi leikkvenna varð Demi Moore efst. Kemur valið á Moore nokkuð óvænt, enda hefur hún aldrei hlotið tilnefningu til verðlaunanna, ólíkt Hitchcock og Jackson, og hún notið lítillar hylli hjá gagnrýnendum. Valið á Hitchcock kemur ekki á óvart. Hann hefur reyndar alla tíð verið minn uppáhaldsleikstjóri. Á ég flestar af kvikmyndum hans og hef notið þeirra mjög í gegnum árin.

Hitch, eins og hann var jafnan kallaður, var án nokkurs vafa meistari spennumyndanna. Árið 1922 fékk hann fyrsta leikstjórnarverkefni sitt upp í hendurnar, Number 13, en myndin var aldrei kláruð. Eftir það fékk hann vinnu hjá Gainsborough Pictures sem handritshöfundur og listrænn stjórnandi. Með því hófst magnaður leikstjóraferill hans sem stóð í 55 ár. Það var árið 1925 sem hann leikstýrði fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, The Pleasure Garden. Fyrstu stórmynd sinni leikstýrði hann árið 1927, The Lodger. Myndin þótti óvenjuleg og nýstárleg spennumynd og markaði viss þáttaskil í frásögn í spennumyndum. Alfred Hitchcock sló í gegn í kjölfarið. Á næstu árum gerði leikstjórinn hverja myndina á fætur annarri og markaði sér ógleymanlegan sess í kvikmyndasöguna. Hitchcock hlaut aldrei leikstjóraóskarinn á ferli sínum, sem hefur jafnan þótt einn mesti skandall kvikmyndaakademíunnar. Hann hlaut þó Irving G. Thalberg leikstjóraverðlaunin, fyrir ævistarf sitt til kvikmyndagerðar, á óskarsverðlaunahátíðinni 1967. Hann varð þekktur fyrir að birtast í kvikmyndum sínum í eigin persónu, oftast var það í upphafi þeirra "til að spilla ekki fyrir söguþræðinum" eins og hann sagði sjálfur. Ferill Hitchcocks er einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar. Meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Ég skrifaði ítarlegan pistil um feril hans í desember 2003, þar sem ég fór yfir ævi hans og leikstjóraferil, en hann leikstýrði rúmlega 70 kvikmyndum á sínum ferli.

Áhugavert efni
Hræringar í Framsókn - pistill Stefáns Fr. Stef.
Halldór Blöndal forseti Alþingis, á Morgunvaktinni
Um forsætisráðherrabókina - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Fara hagnaður og heiðarleiki saman? - pistill Sigþrúðar Ármann
Johnny Carson látinn - kveðjukynning Johnny Carson - 22. maí 1992
Rose Mary Woods, sem var einkaritari Richard Nixon í forsetatíð hans, látin

Saga dagsins
1855 Kirkjan að Hvanneyri á Siglufirði fauk af grunni sínum og lenti hún á hliðinni í kirkjugarðinum
1908 Konur voru kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur í fyrsta sinn - listi þeirra hlaut fjóra fulltrúa af 15
1965 Sir Winston Churchill fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lést, níræður að aldri. Churchill var einn eftirminnilegasti stjórnmálamaður Breta á 20. öld og var forsætisráðherra 1940-1945 og 1951-1955
1985 Jón Páll Sigmarsson, sigrar, fyrstur Íslendinga í keppninni Sterkasti maður alheims. Jón Páll vann keppnina alls fjórum sinnum á sínum glæsilega ferli. Jón Páll varð bráðkvaddur í janúar 1993
1989 Fjöldamorðinginn Ted Bundy, sem myrti a.m.k. 30 konur svo vitað væri með vissu en er talinn hafa myrt yfir 100 manns alls, var tekinn af lífi í rafmagnsstólnum í alríkisfangelsinu í Flórída-fylki

Snjallyrðið
Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.
Kristján frá Djúpalæk skáld (1916-1994) (Dans gleðinnar)