Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 janúar 2005

Hvíta húsiðHeitast í umræðunni
George Walker Bush mun í dag sverja embættiseið sem forseti Bandaríkjanna, öðru sinni. Með því verður hann nítjándi forseti landsins sem sver embættiseiðinn öðru sinni og mun ef hann situr allt til loka kjörtímabilsins, 20. janúar 2009 verða sá 11. sem situr í embætti heil tvö tímabil, 8 ár samtals. Bush var kjörinn forseti í fyrra skiptið 7. nóvember 2000. Deilt var um sigur Bush í 36 daga, munaði litlu á honum og mótframbjóðandanum Al Gore í Flórída-fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur í upphafi en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra. Munaði nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni. Að lokum fór svo að hæstiréttur staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi því ósigur sinn eftir lagaflækjurnar, hlaut Bush 271 kjörmann en Gore 267. Annað var upp á teningnum í forsetakosningunum 2. nóvember 2004. Þá sigraði Bush með afgerandi hætti og hlaut 286 kjörmenn á móti 252 sem John Kerry hlaut. Sigraði Bush með þriggja prósentustiga mun þá, hlaut afgerandi umboð.

Mikið verður um dýrðir í Washington í dag við embættistökuna. Reiknað er með því að athöfnin muni í heildina kosta 40 milljónir dollara, eða 2,5 milljarða íslenskra króna. Athöfnin sem slík er í rauninni mjög einföld og tekur aðeins nokkrar mínútur, sem er skondið miðað við allan tilkostnaðinn. Í upphafi mun Dennis Hastert forseti fulltrúadeildarinnar, stjórna innsetningu varaforseta og mun Dick Cheney taka við embætti öðru sinni. Er þetta aðeins í fjórða skiptið sem þingforseti stjórnar þessu verki, en áður var það forseti Hæstaréttar sem setti bæði forseta og varaforseta inn í embætti. Að því loknu mun forsetinn stíga fram á svalir þinghússins, leggja aðra hendi sína á biblíu sem eiginkona hans, Laura Welch Bush, heldur á og heldur annarri hendi uppi meðan William Rehnquist forseti Hæstaréttar, les embættiseiðinn sem Bush endurtekur. Tekur þetta ferli aðeins um tæpa mínútu, en að því loknu flytur forsetinn ræðu. Allt frá stofnun Bandaríkjanna hefur embættiseiðurinn verið eins og athöfnin svipuð að uppbyggingu. Vafi lék lengi á því hvort Rehnquist myndi stjórna athöfninni, en hann gekkst undir aðgerð vegna krabbameins í skjaldkirtli í október. Hafa margar sögur borist af heilsufari hans og er almennt talið að hann muni víkja úr réttinum á þessu ári. Mun þá forsetinn væntanlega skipa sinn fyrsta dómara við réttinn. Innsetningarathöfn forseta Bandaríkjanna er tilkomumikil stund. Í ferð minni til Washington í haust fórum við í þinghúsið. Sérstaklega ánægjulegt var að standa á svölunum þar sem athöfnin fer fram. Þar er heillandi útsýni yfir til Washington Monument, Lincoln Memorial og yfir miðborg Washington. Var þá undirbúningur fyrir athöfnina þegar hafinn, þó kosningarnar væru ekki einu sinni yfirstaðnar.

Ítarleg umfjöllun um embættistöku George Walker Bush
Bush-fjölskyldan ein af valdamestu stjórnmálaættum sögunnar
Powell kveður utanríkisráðuneytið - dagskrá embættistöku Bush forseta

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraEins og vel hefur komið fram í fréttum er greinilegur titringur innan Framsóknarflokksins vegna Íraksmálsins. Umfram allt tengjast þessi átök á bakvið tjöldin nú ekki því máli beint í raun heldur valdaátökum um forystu flokksins sem eru ekki að byrja á þessum tímapunkti. Það er ekkert nýtt að átök séu milli Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, og Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra. Eins og öllum er kunnugt sem fylgst hafa með stjórnmálum varð Guðni á sínum tíma fúll með að fá ekki ráðherrastól strax árið 1995, eftir góðan árangur í sínum fyrstu kosningum sem leiðtogi flokksins í Suðurlandskjördæmi. Reyndar munaði þá litlu að Guðni myndi verða 1. þingmaður Suðurlandskjördæmis og næði þeim sess af Þorsteini Pálssyni þáverandi ráðherra. Síðan þá hefur Guðni verið rísandi stjarna innan flokksins, varð ráðherra eftir þingkosningar vorið 1999. Er einn nánasti samstarfsmaður Halldórs, varaformaðurinn Finnur Ingólfsson, hætti afskiptum af stjórnmálum í árslok 1999 greip Guðni tækifærið í tómarúminu sem hann skildi eftir sig og gaf kost á sér til varaformennsku á næsta flokksþingi.

Ekki má gleyma því að Halldór studdi Jónínu Bjartmarz í varaformannskjörinu á þeim tíma. Guðni vann Jónínu og Ólaf Örn Haraldsson, sem varð forystumaður flokksins í RVK við brotthvarf Finns, með afgerandi hætti. Innsti kjarni Halldórsmanna studdi hana en Guðni hafði yfirgnæfandi stuðning af landsbyggðinni. Reyndar varð síðar vík milli vina þegar Jónína fékk ekki ráðherrastól eftir kosningarnar 2003 og einn nánasti samstarfsmaður Halldórs, Árni Magnússon varð félagsmálaráðherra í stað Páls Péturssonar. Leiddi það til deilna enda taldi Jónína sig eiga rétt á stólnum, enda leiðtogi í Reykjavíkurkjördæmi suður og hafði setið á þingi í þrjú ár, en hún tók við þingmennsku af Finni, en Árni komst inn á lokatölum að morgni 11. maí 2003 og felldi reyndar hið margfræga forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar eins og frægt varð. Árni var þá nýr í landsmálum og aldrei setið á þingi áður. Síðan þá hefur Árni verið krónprins flokksins og leiða má líkum að því að merkileg ummæli Guðna nú hafi einmitt verið sett fram til að verja stöðu sína og hindra að Árni færi í framboð gegn sér. Kostulegt er allavega að fylgjast með stöðu mála og segja má að það sé sögulegt að formaður flokks og forsætisráðherra gefi út frá sér sérstaka fréttatilkynningu til að verjast ummælum sem koma frá varaformanni viðkomandi flokks og samstarfsmanni á þingi í tæp 20 ár. Þetta segir pólitískum áhugamönnum auðvitað bara eitt um stöðu mála.

Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964)Á ljóðsins vængjum - Davíð Stefánsson
Á morgun eru 110 ár liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hans verður minnst með ýmsum hætti af hálfu menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, Héraðsskjalasafnsins og Karlakórs Akureyrar-Geysis. Á morgun opnar kl. 17:00 sýning á verkum, bréfum og munum úr fórum Davíðs á Amtsbókasafninu, en Davíð var lengi bókavörður þar. Bygging safnsins sem vígð var á sjöunda áratugnum var helguð minningu Davíðs. Á sýningunni verða t.d. sýnd bréf sem fóru milli Davíðs og Önnu Z. Osterman, sendikennara frá Svíþjóð, sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings áður. Sá bréfapakki var lokaður og innsiglaður til ársins 2000. Þarna verða einnig sýndir óopnaðir bréfapakkar frá Davíð, m.a. pakkar sem að óbreyttu má ekki opna fyrr en eftir tvær aldir. Sýningin er á vegum Héraðsskjalasafnsins á Akureyri og Amtsbókasafnsins.

Hátíðartónleikar verða í Glerárkirkju annað kvöld kl. 20.30. Á þeim mun Karlakór Akureyrar - Geysir flytja allar helstu söngperlur Davíðs. Einsöngvarar á tónleikunum verða m.a. Óskar Pétursson, Alda Ingibergsdóttir og Hulda Garðarsdóttir. Auk þeirra munu kórfélagar syngja einsöng, einnig munu dúett og kvartett koma fram. Kórinn mun síðar á þessu ári gefa út geisladisk í tilefni af afmæli skáldsins. Á tónleikunum verður frumflutt lag við ljóð Davíðs, Fögur er hlíðin, en lagið er eftir kórfélagann Jónas Jóhannsson. Á laugardag verður haldið málþing um Davíð í Ketilhúsinu í Listagili. Fjallað verður um Davíð frá mörgum sjónarhornum, verk hans, einstök ljóð, tónlistina við ljóðin og síðast en ekki síst persónuna á bakvið nafnið, skáldið sjálft. Við hæfi er að við Akureyringar og landsmenn allir heiðrum minningu Davíðs á þessum degi og nú um helgina. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Að mínu mati hefur engu íslensku skáldi tekist betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð var einstakur.

Saga dagsins
1936 George V. Englandskonungur, lést, sjötugur að aldri - sonur hans, Edward VIII tók við embætti. Hann sagði af sér í desember 1936, vegna ástarsambands síns við bandaríska tvífráskilda konu, Wallis Warfield Simpson, en hann varð að velja á milli konungdæmisins og hennar. Edward varð hertogi af Windsor við valdaafsalið, en bróðir hans, George VI. tók þá við krúnunni. Wallis og Edward kvæntust sumarið 1937. Hertogahjónin töluðu ekki við meðlimi konungsfjölskyldunnar til fjölda ára og bjuggu í Frakklandi í útlegð til dánardags. Edward lést árið 1972 en Wallis árið 1986. Þau hvíla bæði í Windsor
1937 Franklin D. Roosevelt sver embættiseið sem forseti Bandaríkjanna, öðru sinni. Það var í fyrsta skipti sem embættistaka forseta landsins fór fram 20. janúar. Áður hafði hún alltaf farið fram 4. mars. Forsetakjör í Bandaríkjunum fer alltaf fram fyrsta þriðjudag í nóvembermánuði á fjögurra ára fresti
1957 Vilhjálmur Einarsson kjörinn íþróttamaður ársins 1956 - þetta var í fyrsta skipti sem samtök íþróttafréttamanna völdu íþróttamann ársins. Vilhjálmur vann titilinn sex fyrstu árin sem hann var veittur. Sonur hans, Einar Vilhjálmsson spjótkastari, vann sama titilinn þrisvar sinnum á sínum ferli
1993 Óskarsverðlaunaleikkonan Audrey Hepburn lést úr krabbameini, 63 ára að aldri - hún hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Roman Holiday árið 1954 og var ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar
1996 Yasser Arafat kjörinn fyrsti forseti heimastjórnar Palestínu - hann sat í embætti allt til dauðadags, en hann lést í París 11. nóv. 2004. Eftirmaður hans sem forseti varð Mahmoud Abbas

Snjallyrðið
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Stjörnurnar)