Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 febrúar 2005

Bobby FischerHeitast í umræðunni
Mikið hefur verið rætt á opinberum vettvangi um þá ákvörðun meirihluta allsherjarnefndar í gær, þess efnis að taka ekki fyrir að þessu sinni umsókn Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák, um íslenskan ríkisborgararétt. Sitt sýnist hverjum um málið og stöðu Fischers og hvort veita skuli honum ríkisborgararétt hérlendis. Ekkert er óeðlilegt við það, enda ólíkar skoðanir uppi um hvort Fischer eigi að koma hingað og ennfremur um það hvort sveigja eigi reglur um veitingu ríkisborgararéttar fyrir hann. Eins og ég hef oft bent á stenst Fischer ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi umsækjandi um ríkisborgararétt að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer, og því er málið auðvitað komið í þetta margflókna ferli að þingnefnd tekur það fyrir áður en kæmi til beinnar umræðu í þinginu, ef þar væri umsókn og beiðni Fischers samþykkt. Ég er algjörlega andsnúinn því að skákmeistaranum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með þessum hætti.

Minnti ég í gær á það mat mitt að ég væri ekki almennt hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Mjög góð og gild rök þyrftu að vera fyrir hendi til að veita undanþágu. Það er eins og fram kom mitt mat að ómögulegt sé að afgreiða þetta mál sem einangraðan hlut, og án þess að skapa þá fordæmi í stöðunni. Er langbest að ítreka þessa skoðun. Verra er hinsvegar að verða vitni að því að þingmenn (og nefndarmenn í allsherjarnefnd) vita ekki um hvað málið snýst og tjá sig með stórundarlegum hætti um það. Gott dæmi um þetta sást í tíufréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar var mættur í viðtal Sigurjón Þórðarson alþingismaður Frjálslynda flokksins, sem á sæti í allsherjarnefnd. Þar kom hann fram með alveg stórmerkilegt sjónarhorn á þetta mál. Þar sagði hann að stjórnvöld hefðu látið undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar og ekki staðið við orð sín gagnvart skákmeistaranum. Orðrétt sagði hann: "Ég vil einnig minna á að það var einnig ákvörðun utanríkisráðherra þjóðarinnar að bjóða þessum manni í heimsókn, en síðan þegar hann ætlar að mæta til landsins, að þá er bara skellt dyrunum á hann." Ótrúlegt er að nefndarmaður í allsherjarnefnd (sem ætti að þekkja allan grunn málsins) láti slík orð frá sér fara. Fischer var veitt dvalarleyfi, það boð stendur. Japönsk stjórnvöld hafa ekki leyft honum að fara hingað á þeim grunni og því sótti skákmeistarinn um ríkisborgararétt. Einfalt mál. Það sem var veitt, og er enn í fullu gildi, nægir honum ekki í stöðunni. Boð um landvistarleyfi hér jafngildir þó auðvitað ekki ríkisborgararétti. Þetta ættu allir með sæmilega greind að skilja. Þetta tvennt er ekki sama málið. Merkileg komment hjá þingmanni.

Siv FriðleifsdóttirSiv Friðleifsdóttir alþingismaður, hefur lagt fram á þingi, ásamt Jónínu Bjartmarz, Þuríði Backman og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttir, frumvarp til laga um að banna alfarið reykingar innanhúss á samkomustöðum, líka á veitingahúsum og börum. Verði lögin samþykkt muni þau koma til framkvæmda þann 1. maí 2006. Lagasetning í þessa veru hefur verið lengi í farvatninu í heilbrigðisráðuneytinu. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, hefur lengi haft hug á að leggja slíkt frumvarp fram, en ekki haft til þess fullan stuðning í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna. Leggja því þessar fjórar þingkonur frumvarpið fram í sínu nafni og taka við keflinu af ráðherranum og vinna að þessu baráttumáli hans. Ljóst er að mikil andstaða er við frumvarpið innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Er reyndar andstaða líka innan Framsóknarflokksins við þetta frumvarp, sem er vart undarlegt, sé mið tekið af því að ráðherra leggur frumvarpið ekki fram.

Lagt er til að níunda grein laga um tóbaksvarnir orðist svo: Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, s.s. á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf. Sama á við um þjónustusvæði utan húss séu þau undir föstu eða færanlegu þaki og meira en að hálfu leyti umlukin veggjum eða sambærilegum mannvirkjum. Nú, eins og allir vita sem þekkja mig eitthvað, reyki ég ekki og get því vart sett mig í spor reykingafólks vegna þessa máls. Hinsvegar tel ég þetta frumvarp ganga einum of langt og skil því vel það sjónarmið heilbrigðisráðherra að leggja ekki fram þetta frumvarp sem stjórnarfrumvarp, enda ólíklegt að það yrði samþykkt á þingi. Það er hinsvegar rétt að þessir þingmenn leggi málið fram og fái um það umræðu og skoðanir þingmanna til málsins komi fram. Hinsvegar tel ég mjög ólíklegt að það verði samþykkt og er satt best að segja ekki hlynntur frelsisskerðingu með þessum hætti. Hinsvegar sem einstaklingur sem reyki ekki hef ég skilning á þessum skoðunum, en tel málið ganga of langt. Það er langbest að láta staðina sjálfa ákveða þetta.

Punktar dagsins
Anders Fogh Rasmussen

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur, gekk í morgun á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar, og kynnti henni nýskipaða ríkisstjórn sína. Stjórn Fogh hélt velli í dönsku þingkosningunum 8. febrúar sl. og hefur nú verið formlega endurmynduð eftir kosningarnar. Nokkrar breytingar og uppstokkun verða á stjórn landsins í kjölfar kosninganna. Bertil Haarder, sem setið hefur sem ráðherra málefna innflytjenda- og flóttamanna, verður mennta- og kirkjumálaráðherra í stað Tove Fergo sem féll í kosningunum. Rikke Hvilshøj tekur við málefnum innflytjenda og flóttamanna af Haarder. Þá verður Lars Barfoed fjölskyldu- og neytendamálaráðherra. Hann tekur við embætti af Henriette Kjær, sem varð að segja af sér ráðherraembættinu í kjölfar frétta af óreiðu í heimilisbókhaldi sínu og vangoldinna reikninga sem mikið var um fjallað. Ulla Tørnæs tekur við ráðuneyti þróunarmála. Connie Hedegaard umhverfisráðherra, verður jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda. Flemming Hansen sem sinnt hefur málefnum Norðurlandanna með samgöngumálunum verður áfram samgönguráðherra og tekur jafnframt að sér orkumálaráðuneytið. Það verða því ýmsar smávægilegar breytingar á stjórninni, en skipan helstu ráðherrastólanna verður óbreytt.

Karl Gústaf SvíakonungurSylvía Svíadrottning

Karl Gústaf XVI Svíakonungur og Silvía Svíadrottning, ferðuðust í dag um suðvesturströnd Taílands, á flóðasvæðunum þar sem mannskæðar náttúruhamfarir riðu yfir á öðrum degi jóla. Þar létust margir Norðurlandabúar, flestir þeirra sænskir ferðamenn í jólaleyfi. Náttúruhamfarirnar voru með ógnvænlegustu hamförum seinustu áratuga og létust rúmlega 200.000 manns lífið í þeim skelfilega atburði. Í ferð sinni hafa konungshjónin víða farið og kynnt sér stöðu mála. Er þetta framlag þeirra til að sýna samhug með þeim Svíum sem annaðhvort létust í hamförunum eða sluppu lifandi, og ennfremur minnast þeirra sem létust í hamförunum. Meðal þess sem þau hafa gert er að heimsækja miðstöð þar sem unnið er að því að smíða fiskibáta, en bátafloti Taílendinga varð mjög illa úti í hamförunum. Kynnti hann þar viljayfirlýsingu sem gerir ráð fyrir því að Svíar gefi Taílendingum 100 báta til veiða. Hafa sænsk fyrirtæki fjármagnað viðkomandi báta og gefið vilyrði fyrir fleirum. Hafa þau heimsótt ennfremur hjálparmiðstöðvar sem reistar voru til að aðstoða fólk og við þá vinnu sem fylgt hefur hamförunum.

The China Syndrome

Um áttaleytið í gærkvöldi fór ég á fund í Kaupangi. Fín kvöldstund og gott spjall við gott fólk um málin. Var fínasti fundur. Unnum á fullu í skipulagningu starfsins næstu vikurnar. Er margt spennandi framundan. Kom heim á ellefta tímanum. Horfði þá á kvikmyndina The China Syndrome. Vel gerð kvikmynd sem vann hug og hjörtu kvikmyndaaðdáenda árið 1979, og var ennfremur tilnefnd til sex óskarsverðlauna. Í henni er sagt frá tilraun yfirmanna kjarnorkuvers í Kaliforníu til að hylma yfir bilun í verinu en sjónvarpsfréttamenn komast brátt á snoðir um að eitthvað mikið sé að. Sérlega spennandi og vönduð dramatísk mynd í bland með stórkostlegum leik allra aðalleikaranna sem hittir beint og ákveðið í mark. Sérlega áhrifarík stórmynd sem er ekki einungis fagur velluboðskapur heldur raunsæ og ákveðin í allri túlkun og setur fram blákaldar staðreyndir um hörmungar sem myndu hljótast af (mögulega eða jafnvel) væntanlegu kjarnorkuslysi og af eyðileggingarmætti kjarnorkunnar og af vita vonlausu samsæri yfirmanna kjarnorkuversins að þegja málið í hel.

Hér fara þau öll á kostum óskarsverðlaunaleikarnir: Jack Lemmon, Jane Fonda og Michael Douglas. Lemmon er stórfenglegur í hlutverki hins samviskusama og úrræðagóða yfirmanns í kjarnorkuverinu. Stjörnuleikur hjá einum af bestu leikurum seinustu aldar. Glansar í erfiðu hlutverki. Ekki er Fonda síðri í hlutverki hinnar gallhörðu og einstaklega úrræðagóðu sjónvarpsfréttakonu, og vinnur hún sífellt betur á með hverri þraut. Eitt af bestu hlutverkum hennar. Douglas er sterkur í hlutverki hins traustlynda og vinnufúsa sjónvarpsupptökumanns. Það er semsagt úrvalsleikur sem ekki síst einkennir og mótar þessa úrvalsmynd. Þau eru öll mjög sannfærandi og gera það að verkum að myndin er sífellt spennandi og vel úr garði gerð. Lokamínúturnar eru mjög spennandi og eru með áhrifaríkustu lokamínútum í kvikmynd. Myndin fékk aukið vægi þegar alvöru kjarnorkuslys átti sér stað tæpri viku eftir frumsýningu myndarinnar, á Þriggja mílna eyju, og orsakaði að myndin setti sýningarmet yfir frumsýningavikuna, sem hélst allt þar til stjörnustríðsmyndin The Empire Strikes Back var frumsýnd, árið eftir. Sterk og öflug mynd, fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Búrfellsvirkjun

Eins og fram kom hér á vefnum í gær hafa iðnaðarráðherra, bæjarstjórinn á Akureyri og borgarstjóri undirritað viljayfirlýsingu um að ríkið leysi til sín eignarhluti Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og í kjölfarið að fyrirtækið verði stokkað upp. Er gert ráð fyrir að það verði að hlutafélagi eigi síðar en árið 2008. Mjög ánægjuleg þróun sem ber að gleðjast með. Um er að ræða nauðsynlega uppstokkun hjá fyrirtækinu og ánægjulegt að sveitarfélögin víki úr fyrirtækinu. En það eru ekki allir ánægðir. Eins og við má búast er þingflokkur VG mjög ósáttur við stöðuna og telur hana ekki til framdráttar. Eru þetta sömu raddir og komu þegar að Norðurorka var gerð að hlutafélagi árið 2002 og í fleiri sambærilegum tilfellum. Þingflokkurinn mótmælir öllum áformum um frekari markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustu á sviði orkuframleiðslu og orkudreifingar. Sami gamli kommatónninn á þessum bænum. Er þetta ekkert nýtt, en óneitanlega skondið. Ekki hægt að segja annað. Aftur til fortíðar, ætti að vera kosningaslagorð VG fyrir næstu kosningar.

Saga dagsins
1875 Eldgos hófst í Sveinagjá á Mývatnsöræfum - varð undanfari Öskjugoss rúmum mánuði síðar
1884 Mikið og öflugt snjóflóð féll á fjórtán íbúðarhús á Seyðisfirði - 24 íbúar bæjarins létu þá lífið
1929 Óskarsverðlaunin afhent formlega í fyrsta skipti - eru veitt árlega. Stærsta kvikmyndahátíðin
1959 Vitaskipið Hermóður fékk á sig brotsjó undan Reykjanesi og fórst með allri áhöfn, 12 manns
1979 Snjókoma í Sahara eyðimörkinni - í fyrsta skipti sem það gerðist á öldinni svo að vitað væri af

Snjallyrðið
Er vetrarnóttin hjúpar hauður
í húmsins dökka töfralín
og báran smá í hálfum hljóðum
við hamra þylur kvæðin sín.

Á vængjum draumasálir svífa
frá sorg er dagsins gleði fól
um óravegi ævintýra
fyrir austan mána og vestan sól.

Þótt örlög skilji okkar leiðir,
í örmum drauma hjörtun seiðir
ástin heit, sem fjötra allra brýtur,
aftur tendrast von, sem löngum kól.
Loftur Guðmundsson (Fyrir austan mána)