Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 febrúar 2005

Sigurður Kári KristjánssonHeitast í umræðunni
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, og 15 aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Það snýst um það að sjónvarpsstöðvar megi sýna beint frá íþróttaviðburðum án þess að því þurfi að fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku. Þetta gera þingmennirnir eftir að Samband ungra sjálfstæðismanna útbjó sérstaklega frumvarp um slíkar breytingar. Var það skrifað í tilefni af niðurstöðu útvarpsréttarnefndar í máli á hendur Íslenska sjónvarpsfélaginu. Nefndin hafði komist að þeirri stórundarlegu niðurstöðu að útsendingar á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með lýsingu á ensku væru ekki samrýmanleg útvarpslögum. Var því nauðsynlegt að við í stjórn SUS myndum bregðast við með nauðsynlegum hætti og fórum við því fram á við þingmenn flokksins að leggja slíkt frumvarp fram og við því hafa þeir nú orðið. Hafa allir þingmenn flokksins, utan ráðherra, lagt nafn sitt við frumvarpið og er Sigurður Kári fyrsti flutningsmaður þess. Er þetta mikið ánægjuefni og í raun mjög gleðilegt að þingmenn okkar bregðist svo vel við beiðni okkar og taki málið svo vel til greina og vinni að þessum nauðsynlegu breytingum. Gat ekki gengið að við það sæti að þessi úrskurður útvarpsréttarnefndar væri endanlegur.

Er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn okkar munum ekki sætta okkur við þá forræðishyggju sem þarna kom fram. Við í stjórn SUS fögnum mjög þessari niðurstöðu mála. Mikilvægt er að fara að huga að frekari uppstokkun útvarpslaga og sérstaklega taka málefni RÚV í gegn. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Það blasir við þegar tölur úr rekstrinum eru skoðaðar að rekstrarhallinn er ekki viðunandi og breytinga þörf á rekstrarfyrirkomulaginu. Ríkisútvarpið í þeirri mynd sem það er í, í dag er tímaskekkja. Mjög mikilvægt er að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og stokka þar allverulega upp. Til þess hefur skort þingmeirihluta að koma nauðsynlegum breytingum, eða ætti maður að segja lágmarksbreytingum á RÚV til nútímans í gegnum þingið. Til fjölda ára hefur verið karpað um það hvort yfir höfuð eigi að leggja þær fram. Björn Bjarnason og Tómas Ingi Olrich lögðu báðir fram í menntamálaráðherratíð sinni, frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Frumvarpið náði aldrei lengra en inn í þingflokkana, enda náðist ekki samstaða milli stjórnarflokkanna um málið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur verið öllu rólegri í tíðinni og lítið gerst í hennar ráðherratíð, sem er mjög miður. Í mínum huga er enginn vafi á því að á endanum mun ríkið hætta þeirri vitleysu að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði. Sá dagur mun renna upp, vonandi fyrr en seinna, að skattgreiðendur í þessu landi haldi ekki úti náttrisa í samkeppni við einkaframtakið í fjölmiðlum. Það á að vera hlutverk Sjálfstæðisflokksins og ráðherra og þingmanna flokksins að vinna að breytingum á rekstri RÚV. Einfalt mál í mínum huga. Annað er ekki viðunandi.

Anders Fogh RasmussenÞingkosningar verða í Danmörku á morgun. Stefndi lengst af í lítt spennandi kosningar og að hægriflokkarnir myndu auðveldlega halda meirihluta sínum og völdunum í kosningunum. Nýjustu kannanir hafa hinsvegar sýnt að það dregur saman með stjórn og stjórnarandstöðu. Skyndilega er það nú svo að þingkosningarnar verði jafnvel æsispennandi, þrátt fyrir allt. Kosningabaráttan hefur þrátt fyrir að vera snörp og mjög yfirgripsmikil, þótt litlaus og leiðinleg. Enda leit lengst út fyrir það að Anders Fogh Rasmussen þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af stöðu mála og þyrfti ekki að óttast tvísýnan slag. Í ljósi þess og kannana sem bentu til þess boðaði hann til kosninga nokkrum mánuðum fyrir lok kjörtímabilsins. Eftir þingrofið fyrir nokkrum vikum hafa kannanir sýnt að nokkur munur hefur verið á fylkingunum. Nú ráða stjórnarflokkarnir tæplega 100 sætum á þjóðþinginu, stjórnarandstaðan hefur um 80. Meirihlutinn er því rúm 20 sæti alls. Alls eru 179 þingmenn á danska þinginu í Kaupmannahöfn. 175 eru kjörnir í Danmörku, 2 í Færeyjum og 2 á Grænlandi.

Í könnun sem birtar voru í gær og í morgun munar aðeins um 10 sætum milli fylkinganna. Í könnun gærdagsins hjá Jyllandsposten hefur stjórnin þar 93 þingmenn á móti 82. Í könnun Gallups sem gerð var fyrir Berlingske Tidende og birt var í morgun er munurinn enn minni. Samkvæmt henni fær stjórnin þá aðeins 90 þingsæti en stjórnarandstaðan 85. Þrátt fyrir að svo myndi fara heldur stjórnin völdum. En þetta staðfestir hinsvegar að nær allt getur gerst í stöðunni. Fram kemur í athyglisverðri fréttaskýringu Berlingske Tidende. Ljóst er að fylkingarnar búast við öllu, jafnvel að staðan breytist enn frekar á lokasprettinum. Hægriblokkin var fljót að skipta um taktík í slagnum og varaði í dag landsmenn sterklega við vinstristjórn undir forystu Mogens Lykketoft leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Það eykur verulega á spennuna að á milli 500.000 - 700.000 kjósendur hafa enn ekki gert endanlega upp hug sinn fyrir kosningarnar. Óttast forsætisráðherrann mest skv. dönskum fréttum að margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telji Venstre svo öruggt um sigur, að þeir hyggist jafnvel greiða miðflokknum Radikale Venstre atkvæði sitt. Slíkt gæti þó leitt til vinstristjórnar. Ljóst er að staðan er æsispennandi og mjög merkileg kosninganótt framundan að óbreyttu.

Punktar dagsins
Sameinuðu þjóðirnar í New York

Í dag birtist á vef Heimdallar, pistill minn um utanríkismál. Vík ég þar sérstaklega að umsókn okkar í öryggisráðið og fjalla um mikilvægi þess að vinna að langtímastefnumörkun í utanríkismálum á vegum ráðuneytisins. Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið er um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur þetta vakið miklar deilur og er alveg ljóst að ekki er samstaða innan Sjálfstæðisflokksins um málið og þessa aðildarumsókn í heild sinni. Athygli vakti á dögunum er Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, tjáði eindregna andstöðu sína við aðildarumsóknina. Segir hann kostnað við hana getað farið yfir einn milljarð króna þegar allt er talið með. Vill hann að Davíð Oddsson utanríkisráðherra, dragi umsóknina til baka. Fer ég vel yfir þetta og fjalla um skoðanir mínar til málsins og fleiri þátta sem nauðsynlegt er að ræða hvað varðar utanríkismálin. Eins og vel hefur komið fram er ég algjörlega andvígur umsókn okkar í öryggisráðið.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kom í heimsókn hingað til Akureyrar í morgun. Fór hann víða um bæinn í dag, hélt t.d. í Strýtu, Norðlenska, háskólann og Fjórðungssjúkrahúsið. Í hádeginu sat hann hádegisverðarboð bæjarstjórnar Akureyrar á Fiðlaranum. Er ánægjulegt að forsætisráðherra sæki Eyfirðinga heim og kynni sér stöðu mála hér og fari í fyrirtæki og ræði við fólk. Í dag var birt skoðanakönnun Fréttablaðsins um traust almennings til stjórnmálamanna. Sú könnun hlýtur að vera nokkuð umhugsunarefni fyrir Halldór. Halldór nýtur langminnsts trausts um þessar mundir, hann hefur svo að auki aðeins stuðning 3,8% aðspurðra er spurt er um hverjum fólk treysti mest. Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nýtur mests trausts almennings. Næstur kemur Steingrímur J. Sigfússon formaður VG. Davíð hefur mjög sterka stöðu, sem vekur óneitanlega nokkra athygli í ljósi þess að hann hefur verið lítið áberandi seinustu vikur, en hann hefur verið í fríi erlendis. Staðfestir þessi könnun vel hversu Davíð hefur öfluga stöðu meðal kjósenda. Í dag birtist einnig könnun um fylgi formennsframbjóðendanna í Samfylkingunni. Ingibjörg hefur þar 60% en Össur 40%. Sýnir þetta allt aðra stöðu en könnun Fréttablaðsins. Stefnir í spennandi formannsslag ef þetta er raunin.

JFK

Eitt áleitnasta hitamál bandarískrar stjórnmálasögu á 20. öld er óneitanlega morðið á John Fitzgerald Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas, föstudaginn 22. nóvember 1963. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Að margra mati er sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið.

Um þetta mikla hitamál var fjallað í kvikmyndinni JFK árið 1991. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á Kennedy forseta. Hann ákvað því að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Er fátt meira viðeigandi fyrir stjórnmálaáhugamenn en að kynna sér þetta umdeilda sjónarhorn á morðið á einum kraftmesta stjórnmálamanni Bandaríkjanna á 20. öld, sem hvarf af sjónarsviðinu með vofeiflegum hætti fyrir rúmum fjórum áratugum.

Jón Ársæll Þórðarson og Steinunn Truesdale

Áður en ég horfði á JFK leit ég á vandaða sjónvarpsdagskrá kvöldsins. Var þar margt mjög gott í boði. Horfði fyrst á þátt Jóns Ársæls Þórðarsonar, Sjálfstætt fólk. Alltaf áhugaverðir og vandaðir þættir, einkum eru þeir svo sterkir því þeir fara svo nærri viðmælandanum. Við kynnumst flestum hliðum þess sem rætt er við og þess lífs sem viðkomandi lifir. Í gærkvöldi var sýnt frá ferð Jóns Ársæls til Írak. Steinunn Truesdale er eini Íslendingurinn í her Bandaríkjamanna í Írak. Sýnt var frá aðstæðum hennar í herfylkingu í Al Asad, Steinunn hefur verið í Írak frá því síðasta sumar og hefur verið heiðruð fyrir frammistöðu sína með Purpurahjartanu. Hefur hún verið í landgönguliðinu í fjögur ár. Var viðtalið við hana mjög áhugavert og mjög fræðandi að kynnast aðstæðum þarna og heyra lýsingar hennar á stöðu mála. Eftir þáttinn horfði ég á upptöku af heimildarmynd um Ragnar Jónsson atvinnurekanda og menningarfrömuð, sem kenndur var við Smára, (föður Jóns Óttars Ragnarssonar) sem sýnt var fyrr um kvöldið. Leit ég svo á spennumyndaflokkinn 24 eftir það. Frábærir þættir sem alltaf hitta beint í mark.

Bollur!!!!

Eins og flestir ættu að vita er bolludagurinn í dag. Þá er við hæfi að fá sér nokkrar vænur bollur með sultu, rjóma og vænum skammti af súkkulaði ofan á. Ég hef fengið mér alltof margar bollur í dag og um helgina og vona að þið hafið skellt í ykkur vænum slatta í dag af þessu mikla hnossgæti. Eflaust er í margra huga syndsamlegt að borða margar bollur, en það ætti að vera í góðu lagi. Þetta er jú bara einu sinni á ári. :)

Saga dagsins
1945 Leiðtogar bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni: Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna, Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, og Josef Stalin leiðtogi Sovétríkjanna, hittast til að vinna að lokabaráttu stríðsins á leiðtogafundi við Svartahaf. Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja
1962 Bandaríska öldungadeildin samþykkir formlega tillögu John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, um að setja viðskiptabann á Kúbu, þrem árum eftir valdatöku Fidel Castro - bannið er enn í gildi
1971 Konur fá kosningarétt í Sviss - eitt síðasta landið í Evrópu til að veita konum almennan kjörrétt
1992 Maastricht-samkomulagið verður að veruleika - Evrópusambandið (EU) var formlega stofnað
1999 Hussein Jórdaníukonungur, lést í Amman úr krabbameini, 63 ára að aldri - hann hafði þá ríkt í Jórdaníu í tæp 47 ár, eða allt frá árinu 1952. Sonur hans, Abdullah, tók við krúnunni við fráfall hans

Snjallyrðið
Á hverjum degi mér verður hugsað til þín,
sem unnir sólinni björtu og brostir svo skær.
Mér var við gröf þína sagt að tíminn læknaði sár mín,
en það er ekki svo, minning þín er mér enn svo kær.

Eitt er þó víst, að þú hefðir ei viljað að ég þjáðist,
en það er nú svo, það er ekki hægt að gleyma.
Hjartað mitt er heilt í gegn og tært, lengi það þjáðist,
langur tími er liðinn, það er þó ekki hægt að gleyma.
Stefán Friðrik Stefánsson (Hjartalag)