Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 febrúar 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, flutti í dag ítarlegt ávarp á viðskiptaþingi. Þar sagði hann að sínu mati væri einsýnt að bæði stimpilgjöld og álagning vörugjalda yrði tekin til endurskoðunar þegar frekara svigrúm til skattalækkana myndi skapast. Ennfremur kom fram í máli hans að mikilvægt væri að jafna aðstöðu íslenskra og erlendra fyrirtækja og eðlilegt væri að fara vandlega ofan í saumana á tilhögun skattlagningar á arði og söluhagnaði erlendra fyrirtækja sem stofna dótturfélög hér á landi. Fram kom það mat hans að staða landsins væri sterk. Verið væri að ráðast um þessar mundir í einhverjar stærstu framkvæmdir í sögu þjóðarinnar á sama tíma og uppgangur ríkti á flestum öðrum sviðum efnahagslífsins. Kom fram hjá honum að hann ætti sér þann draum, að í framtíðinni yrði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Hér myndi starfa kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hefðu kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda. Í ræðunni sagði hann orðrétt: "Við stórlækkuðum skatta á fyrirtæki, þeir eru til sem voru andsnúnir því. Við stórlækkum nú skatta á einstaklinga og þeir eru svo sannarlega til sem eru andsnúnir því. Þeir verða því örugglega margir sem munu finna þessari framtíðarsýn allt til foráttu, en þeir um það".

Fór forsætisráðherrann ennfremur vel yfir málefni Símans. Sagði hann að veigamikil rök lægju til grundvallar þeirri ákvörðun að selja Símann í heilu lagi, langflest ríki Evrópu hefðu einkavætt fjarskiptafyrirtæki í eigu ríkisins og hvergi hefði grunnnet verið aðskilið þjónustu. Var ánægjulegt að heyra þessa yfirlýsingu hans og gott að hann talar skýrt og afdráttarlaust í þessum efnum. Það er af hinu góða, mjög svo. Kom fram í máli hans ennfremur að aðskilnaður grunnets myndi skapa aukna óvissu um söluna á fyrirtækinu og draga mjög úr verðmæti Símans. Þá þyrftu rekstraraðilar grunnnets sífellt að bregðast við og aðlagast aukinni vöruþróun og þjónustukröfum neytandans. Lagaumhverfið hér á landi, sem og annars staðar í Evrópu, gerði ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta og sagði Halldór að þeir sem bæri saman hið nýja raforkuumhverfi, sem samkvæmt evrópskri löggjöf gerði ráð fyrir einkasölu við dreifingu, við rekstur grunnneta í fjarskiptageiranum, horfðu algerlega fram hjá þessu veigamikla atriði. Nú þegar ætti grunnnet Símans í samkeppni við fjarskiptanet annarra fjarskiptafyrirtækja, þar á meðal nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Og fjarskipti og Fjarska. Spurði ráðherrann einfaldrar spurningar: hvort ríkið ætti að standa í samkeppni í rekstri fjarskiptaneta? Tæpast, sagði hann sem svar við því. Er ekki hægt annað en að lýsa ánægju með yfirlýsingar forsætisráðherra og því að söluferlið sé komið í þetta ferli og enginn vafi lengur á stöðu mála. Á sama tíma og forsætisráðherra flutti ræðu sína gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar hann harkalega. Fróðlegt var að sjá varaþingmanninn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur segja að önnur fyrirtæki í fjarskiptarekstri myndu aldrei sætta sig við það grunnnetið yrði selt með Símanum. Óhætt er að segja að meiri eymdarbragurinn sé á þessari stjórnarandstöðu sem sást í þessum umræðum í dag.

Mahmoud Abbas og Ariel SharonMahmoud Abbas forseti Palestínu, og Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, hittust í dag á leiðtogafundi í Sharm al Sheik í Egyptalandi. Með þeim sátu fundinn þeir Hosni Mubarak forseti Egyptalands, og Abdullah Jórdaníukonungur. Var þetta í fyrsta skiptið í rúm fjögur ár sem leiðtogar þessara tveggja landa hittast og ræða málin. Þáttaskil urðu í samskiptum þeirra eftir andlát Yasser Arafat fyrrum forseta Palestínu, í nóvember. Á fundinum lýstu Sharon og Abbas formlega yfir vopnahléi og hyggjast með því binda að fullu endi á átök seinustu fjögurra ára. Vopnahléið mun taka gildi nú þegar. Óhætt er því að segja að sögulegt skref hafi verið stigið í málefnum landanna. Gengur samkomulagið að mestu út á það sem Arafat hafnaði í samningum við Ísraelsmenn um vegvísinn margfræga fyrir nokkrum árum. Var það samkomulag sem Abbas hafði unnið að sem forsætisráðherra en Arafat neitaði að samþykkja. Leiddi það til þess að Abbas sagði af sér embætti forsætisráðherra.

Nú eru aðrir tímar. Abbas er orðinn forseti Palestínu og ræður för, bæði í palestínskum stjórnmálum eftir afgerandi kosningu í seinasta mánuði og hefur umboð almennings. Arafat er hinsvegar farinn til feðra sinna. Það er því komið að því að hin nýja forysta leiði málin til lykta með sínum brag, en án áhrifa Arafats og hans stjórnarhátta. Abbas sagðist í dag vænta þess að upp myndu nú renna nýir og breyttir tímar í samskiptum landanna og vonin væri til staðar. Greinilegt er að hann og Sharon geta talað saman og rætt ólík sjónarmið með samtvinnaðri hætti og hafa leitt málið að vissu leyti nú til lykta. Óvissa ríkir enn um viðbrögð herskárra hópa í Palestínu. Hafa þeir sagst ekki bundnir af samningum Abbas og stjórnar hans í Egyptalandi og fara eigin leiðir í því að berjast fyrir sjálfstæði sínu. En allavega er ljóst að friðarferlið er komið á sporið svo um munar. Hefur það ekki staðið sterkar að vígi í ein fimm ár, eða frá friðarviðræðunum í Camp David árið 2000. Þá reyndi Bill Clinton þáverandi forseti Bandaríkjanna, að leysa deiluna með fundahöldum milli Arafats og Ehud Barak þáverandi forsætisráðherra Ísraels. Mistókust þær vegna óbilgirni Arafats. Clinton hefur síðar margoft sagt að Arafat hafi sjálfur þar klúðrað tækifærinu að landa markvissu friðarsamkomulagi í valdatíð sinni. Eflaust er það rétt. En vonandi eru jákvæðir tímar framundan, í kjölfar þessa friðarsamkomulags.

Punktar dagsins
Anders Fogh Rasmussen kýs í morgun

Þingkosningar voru í Danmörku í dag. Eins og ég sagði hér í gær sýndu skoðanakannanir seinustu daga kosningabaráttunnar að saman hefði dregið með flokkunum og tvísýnna væri því en ella með niðurstöðurnar. Frambjóðendur og leiðtogar flokkanna fóru því með mun meiri krafti í baráttuna á lokasprettinum og lögðu allt í slaginn seinustu dagana til að ná til óákveðinna kjósenda sem gætu ráðið úrslitum um hvor valdablokkin myndi bera sigur úr býtum. Kosningabaráttan sem stóð í þrjár vikur þótti lengst af vera litlaus og leiðinleg. Kannanir um helgina breyttu því seinustu metrum slagsins og harkan varð meiri. Ennfremur þótti forsætisráðherrann Anders Fogh Rasmussen vera mun líflegra og kraftmeira leiðtogaefni en Mogens Lykketoft leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Brá hann meira að segja á það ráð að raka af sér fornfálegt geithafursskegg sem var hans aðalsmerki til að lífga upp á ímynd sína og reyna að virka nútímalegri. Þótti hann einnig hafa farið í algjöra yfirhalningu, t.d. var hann farinn að ganga í leðurjakka og kominn með stælleg gleraugu. Greinilega farið í algjört extreme makeover. Þessi umskipti virðast hafa breytt litlu um stöðu hans. Ef marka má útgönguspár sem birtar voru seinnipartinn, heldur stjórnin velli og rúmlega það. Jafnaðarmenn undir forystu Lykketoft tapa fylgi. Ég mun fjalla ítarlega um úrslitin í Danmörku á morgun.

Dr. Condoleezza Rice

Eins og ég sagði frá á laugardag er Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á faraldsfæti um Evrópu og Mið-austurlönd þessa dagana, í fyrstu opinberu heimsókn sinni eftir að hún tók við embætti. Hefur hún því farið víða og rætt við marga forystumenn í stjórnmálaheiminum á nokkrum dögum. Í dag kom hún til Parísar, þar flutti hún fyrsta meiriháttar ávarp sitt um utanríkisstefnu Bandaríkjanna, eftir embættistöku sína. Eins og vel hefur komið fram leggur ríkisstjórn Bandaríkjanna nú aukna áherslu á að bæta samskipti sín við Evrópu, eftir átök um Íraksmálið seinustu tvö til þrjú árin. Segja má því vissulega að nýr kafli sé hafinn í samskiptunum Bandaríkjanna og Frakklands. Það að Rice flytji svo mikilvæga ræðu á sínum ferli og að hálfu bandarískra stjórnvalda staðfestir það mjög glögglega. Rice var mjög ákveðin er hún flutti ræðu sína í stjórnvísindaháskólanum í París seinnipartinn. Hún sagði að byggja þyrfti brýr milli Bandaríkjanna og Evrópuþjóða til að takast á við komandi stórmál í heiminum og nefndi sérstaklega uppbygginguna í Írak og friðarferlið í Miðausturlöndum. Nota þyrfti það einstaka tækifæri sem nú gæfist til að koma á friði og byggja upp í þessum tveim stórmálum í utanríkismálunum. Mikilvægt væri að hennar mati að Bandaríkjamenn og Frakkar græfu stríðsöxina og horfðu samhentir fram á veginn. Þessi boðskapur fór vel í franska ráðamenn.

Málverk af Dame Iris Murdoch

6 ár eru í dag liðin frá andláti skáldkonunnar Iris Murdoch. Eftir fund í gærkvöldi í Borgum ákvað ég að horfa á myndina Iris, sem fjallar um ævi hennar. Iris var án vafa ein af fremstu skáldkonum 20. aldarinnar. Myndin er byggð á bók eiginmanns hennar, John Bayley, Iris: A Memoir and Elegy for Iris, þar sem sagði frá ævi hennar. Iris og John voru um margt ólík, hún frjálslynd og óhrædd við að feta eigin leiðir en hann óframfærinn og lifði nokkurnveginn í eigin heimi. En einhvernveginn smullu þau saman og varði hjónaband þeirra í rúm fjörutíu ár. Iris Murdoch fæddist í Dublin 15. júlí 1919. Hún var einkabarn foreldra sinna og var alin upp í London. Hún fór í Froebel skólann og síðar Somerville háskólann í Oxford. Hún kenndi heimspeki við skóla í Oxford. Hún gaf út fyrstu bók sína (kynningu á heimspeki Sartre) árið 1953 og fyrstu skáldsaga hennar var gefin út 1954, Under the Net. Hún sló í gegn og á eftir fylgdu The Flight from The Enchanter, The Sandcastle and The Bell og The Sacred and Profane Love Machine, sem vann Whitbread-verðlaunin árið 1974. 1978 hlaut hún Booker-verðlaunin fyrir 19. skáldsögu sína, The Sea. Síðasta skáldsaga hennar, Jackson's Dilemma, kom út árið 1995. Árið 1956 giftist hún John Bayley, enskukennara við New College í Oxford, og síðar Warton prófessor í enskum bókmenntum við sama skóla. Hún hlaut CBE-verðlaunin 1976 og var öðluð (Dame) árið 1987.

Í upphafi er sagan rakin frá því að Iris kynnist John á sjötta áratugnum allt til þess tíma er hún er orðin gömul kona, illa haldin af Alzheimer-sjúkdómnum og John verður að hugsa um hana og styðja hana í gegnum sjúkdóminn og þverrandi heilsu seinustu árin. Aðall myndarinnar er stórleikur allra aðalleikaranna. Óskarsverðlaunaleikkonan Judi Dench á stjörnuleik í hlutverki Iris á efri árum og verður hreinlega hún með undraverðum hætti, maður fær það á tilfinninguna að hún sé Iris en sé ekki að leika hana, svo mögnuð er hún. Þetta er eitt af hennar bestu hlutverkum, ekki nokkur spurning. Kate Winslet túlkar hana unga og fer ekki síður á kostum og saman ná þessar tvær leikkonur að smella saman í túlkun sinni á skáldkonunni. Einnig er Hugh Bonneville góður í hlutverki John Bayley á yngri árum. Senuþjófurinn er þó hiklaust Jim Broadbent sem er stórfenglegur í hlutverki John Bayley á efri árum og á stórleik í erfiðu og einkar krefjandi hlutverki. Hann hlaut verðskuldað óskarsverðlaunin 2001 sem besti leikarinn í aukahluverki fyrir magnaða túlkun sína. Í heildina finnst mér myndin vera nokkuð þurr enda vantar að mínum mati stóran hluta í ævi skáldkonunnar og nokkra fyllingu í frásögnina. Leikurinn bætir það þó upp og ég mæli hiklaust með þessari mynd ef menn vilja sjá fágaða og vandaða kvikmynd um magnað lífshlaup merkrar konu sem markaði stór spor í bókmenntasögu síðustu aldar.

Selma Björnsdóttir

Tilkynnt var í dag að Selma Björnsdóttir myndi verða fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Keppnin í ár verður sú fimmtugasta í röðinni og að þessu sinni verður hún haldin í Kiev í Úkraínu. Söngkonan Ruslana sigraði keppnina í fyrra með laginu Wild Dances. Selma er öllu vön þegar Eurovision viðkemur eins og við vitum öll. Hún var fulltrúi Íslands í keppninni í Jerúsalem í Ísrael í maí 1999. Með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck, náði hún að lenda í öðru sæti. Lengi vel stigatalningarinnar var hún í fyrsta sæti og þótti mörgum súrt í broti að hún vann ekki keppnina þá. Eins og flestum er kunnugt náðu Íslendingar ekki að tryggja sér öruggt sæti úrslitakvöldið og því þarf Selma að fara í undankeppni til að komast á úrslitakvöldið. Það er því mikilvægasta baráttan framundan að tryggja sér farmiða á aðalkvöldið. Hefur komið fram að Þorvaldur semur einnig lagið í ár með Selmu og má því eiga von á góðu og fjörugu lagi. Við sem fylgdumst með keppninni fyrir sex árum, er Selma var hársbreidd frá sigri með frábært lag, vitum að hún á eftir að gera sitt besta að þessu sinni.

Saltkjöt og baunir - túkall !!!!

Eins og flestir ættu að vita er sprengidagurinn í dag. Þá er aldeilis við hæfi að borða saltkjöt, rófur, kartöflur og allt tilheyrandi eins og hægt er í sig að láta. Ekki má svo gleyma hinni rammíslensku og mettandi baunasúpu. Það er mikil átveisla þessa dagana, eins og hvert ár á þessum árstíma. Eins og ég sagði í gær er þetta allt í góðu, þetta er jú bara einu sinni á ári sem þessi matarveisla stendur. :)

Saga dagsins
1925 Halaveðrið - togararnir Leifur heppni og Robertson fórust í miklu norðan- og norðaustanveðri á Halamiðum og með þeim 68 manns. Í sama veðri fórst vélbátur með sex mönnum og fimm urðu úti
1980 Ríkisstjórn undir forsæti dr. Gunnars Thoroddsens tekur við völdum - myndun stjórnarinnar var umdeild, enda var Gunnar varaformaður Sjálfstæðisflokksins og flokksstofnanir lögðust gegn myndun hennar með ákveðnum hætti. Nokkrir þingmanna flokksins urðu ráðherrar auk Gunnars. Stjórnin var oft nálægt falli, en henni tókst að halda velli í rúm þrjú ár og sat allt til alþingiskosninga. Gunnar hætti formlega þátttöku í stjórnmálum við þingkosningar 1983. Hann lést úr krabbameini haustið 1983
1994 Martti Ahtisaari sendiherra Finnlands hjá SÞ, kjörinn forseti Finnlands - hann sigraði Elisabeth Rehn varnarmálaráðherra, naumlega í forsetakjörinu. Ahtisaari sat á forsetastóli í Finnlandi til 2000
1998 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur og skáld, lést, 95 ára að aldri - Halldór fæddist 23. apríl 1902 í Reykjavík. Hann gaf út fyrstu skáldsögu sína, Barn náttúrunnar, árið 1919. Hann dvaldist langdvölum erlendis, en átti fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945. Halldór hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1955, en hlaut margar aðrar viðurkenningar og verðlaun á löngum ferli. Eftir hann liggur mikill fjöldi skáldverka og rita af ýmsu tagi. Að Gljúfrasteini er nú safn til minningar um nóbelsskáldið
1999 Breska skáldkonan Dame Iris Murdoch lést á hjúkrunarheimili í Oxford, 79 ára að aldri - hún var ein fremsta skáldkona Breta á 20. öld. Eftir lát hennar skrifaði eiginmaður hennar, John Bayley, bók um ævi hennar og erfiða baráttu hennar við Alzheimer-sjúkdóminn seinustu árin. Fjallað var um ævi hennar í kvikmyndinni Iris árið 2001. Fór Dame Judi Dench alveg á kostum í hlutverki skáldkonunnar

Snjallyrðið
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheimaspil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Leiðsla)