Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 febrúar 2005

Howard DeanLaugardagspælingin
Um síðustu helgi var Howard Dean fyrrum ríkisstjóri í Vermont, kjörinn formaður Demókrataflokksins. Tekur hann við embættinu af Terry McAuliffe, sem verið hefur formaður flokksins og yfirstjórnandi hans allt frá árinu 2001. Dean hlýtur starfið umfram allt vegna hæfileika sinna sem öflugur skipuleggjandi og kröftugur fjáröflunarmaður. Í kosningabaráttu sinni fyrir embættinu hét hann því að byggja upp flokkinn frá grunni. Sérstaklega vinna að því að endurskipuleggja flokksstarfið í mismunandi ríkjum Bandaríkjanna, hefja almenna og markvissa sókn gegn Repúblikanaflokknum og útskýra betur afstöðu og stefnumál Demókrataflokksins en tekist hafi til þessa í kosningum. Dean er einna best þekktur fyrir að hafa verið einn af forsetaframbjóðendum flokksins í fyrra, en hann beið lægri hlut fyrir John Kerry í forkosningunum.

Dean starfaði sem heimilislæknir áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann varð ríkisstjóri í Vermont árið 1991 og sat í embætti í 12 ár, eða til 2003. Dean fór mikinn í upphafi kosningabaráttunnar á síðasta ári fyrir forsetakosningarnar og náði t.d. að hljóta stuðning Al Gore fyrrum varaforseta, í desember 2003. Dean varð fyrstur til að tilkynna framboð í maí 2002. Hann naut mikils fylgis í skoðanakönnunum en tókst ekki að vinna neinar forkosningar demókrata, ef undan er skilinn sigur hans í heimafylkinu Vermont. Dean vann vel í aðdraganda forkosninganna í fyrra og tókst að safna metupphæð til framboðs síns að hálfu flokksins. Hann var talinn ósigrandi lengst af, eða allt fram að fyrstu forkosningunum í Iowa í janúar 2004. Eftir óvæntan stórsigur Kerrys í Iowa tók kosningabarátta hans mikinn kipp og tók hann afgerandi forystu í kosningaslagnum innan flokksins.

Dean þótti fremja pólitískt sjálfsmorð er hann ávarpaði stuðningsmenn í fylkinu. Þar öskraði hann í upptalningu þau ríki sem framundan væru á dagskránni og lét sem óður maður væri og virtist hafa litla stjórn á sér. Ræðan leiddi til þess að fjöldi fólks hætti stuðningi við hann. Eftir tapið í Iowa fjaraði hratt og örugglega undan Dean. Hann hætti við forsetaframboðið þann 19. febrúar 2004, en tilkynnti ekki stuðning við neinn annan frambjóðanda. Eins og aðrir í flokknum lagði Dean sitt að mörkum til stuðnings Kerry í forsetaslagnum, sem hann tapaði að lokum fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Eftir tapið hóf Dean, sem hafði ekki lengur neinn vettvang til starfa innan flokksins eftir að hafa hætt sem ríkisstjóri fyrir forsetaframboð sitt, kosningabaráttu fyrir því að hljóta formannsembættið. Hann háði harða baráttu og mjög tvísýna um formannsstólinn lengst af, en tókst að lokum að tryggja sigur gegn kraftmiklum mótframbjóðendum. Hann var að lokum einn í kjöri og breið samstaða náðist um kjör hans í embættið og þá stefnu fyrir hönd flokksins sem hann boðaði.

Næg verkefni blasa við Dean í formannsembættinu næstu árin. Úrslit forseta- og þingkosninganna 2004 voru gríðarlegt áfall fyrir demókrata. Repúblikanar héldu meirihluta sínum, bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins og Bush vann forsetakjörið með nokkuð afgerandi hætti og hlaut rúmlega 3% meira fylgi en Kerry. Tom Daschle leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, missti þingsæti sitt og flokkurinn missti nokkur sæti í öldungadeildinni að auki. Sem fyrr varð flokkurinn undir í fulltrúadeildinni, sem repúblikanar hafa haft völdin í frá 1994. Demókrataflokkurinn er í algjörri pólitískri eyðimörk í Bandaríkjunum. Stefna forsetans fékk eindreginn meðbyr í kosningunum. Eftir þessar kosningar stóð Demókrataflokkurinn valdalaus og lamaður forystulega séð gegn öflugum forseta með meirihluta beggja þingdeilda að baki sér. Við blasir að demókratar þurfa að byggja sig upp frá grunni, forystulega sem hugsjónalega séð í starfi sínu fyrir þingkosningar 2006 og svo forsetakjör 2008. Það verður verkefni Dean að leiða þetta starf. Verður fróðlegt að sjá hvernig honum muni ganga í því verkefni.

Punktar dagsins
Sveitarfélög

Tveir mánuðir eru til áætlaðra kosninga um sameiningu sveitarfélaga, 23. apríl nk. Við blasir að ekki hefur enn náðst samkomulag um verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er því vissulega allt í lausu lofti í þessum málum. Nefnd sem fjallað hefur um málið hefur fundað mjög stíft að undanförnu. Eins og vel hefur komið fram, allavega að hálfu okkar hér á Akureyri, teljum við sameiningarkosningarnar í uppnámi ef þessi mál liggja ekki fyrir og endanleg niðurstaða komin í málið sem hentar bæði aðilum ríkis og sveitarfélaga. Í mínum huga er ómögulegt að fara í slíka kosningu og sérstaklega að leggja til að sameining verði samþykkt séu þessir hlutar ósamdir og allt í óvissu tengt þeim. Þetta er stór hluti málsins og nær útilokað að fólk sjái hag í sameiningu ef þetta stóra mál stendur í sama farvegi og það er í núna.

Ef ekki kemur botn í málið fljótlega er ljóst að dagsetningin 23. apríl er vonlaus sem kjördagur um sameiningu. Verður samkomulag að liggja fyrir í næstu viku ef landa á þessu máli inn á planið með þessa dagsetningu. Heyrst hefur einnig að fari svo að samkomulag náist ekki að kosningu verði frestað til haustsins og kjördagur þá snemma í október. Sú dagsetning er reyndar alveg á mörkunum að mínu mati, enda eru sveitarstjórnarkosningar undir lok maí 2006 og það verður að liggja fyrir vel tímanlega hvernig sveitarfélög líta út fyrir þær kosningar, varðandi skipan á framboðslista og kosningamál almennt fyrir flokkana. Það væri því best fyrir alla aðila að lausn komist í málið í næstu viku og því verði lent með farsælum hætti, svo huga megi að þessum málum. Ef ekki semst bráðlega er mitt mat að vænlegast væri að salta málið framyfir sveitarstjórnarkosningar.

Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Skondið atvik átti sér stað á Alþingi í vikunni, er Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sneri aftur í þingið eftir rúmlega mánaðarleyfi erlendis. Kom hann til baka reffilegur, nýklipptur og vel greiddur og til í slaginn. Svaraði Davíð spurningum þingmanna og var greinilegt að stjórnarandstæðingar voru sérlega ánægðir með að fá Davíð aftur til að svara spurningum og taka forystuna á forystusviði stjórnmálanna á nýjan leik. Tæpt hálft ár er nú liðið frá því að hann lét af embætti forsætisráðherra, eftir rúmlega 13 ára samfellda setu. Mátti varla á milli sjá hvort hann væri utanríkisráðherra eða forsætisráðherra. Bæði þingmenn og hann sjálfur virtust hafa gleymt breytingunum sem átt hafa sér stað. Þingmenn vinstri grænna ávörpuðu hann sem hæstvirtan forsætisráðherra og Davíð sjálfur settist af gömlum vana í forsætisráðherrastólinn í þinginu. Svosem ekki undarlegt að maður sem setið hefur á sama stað í 13 ár ruglist á sætum. En þetta var allt mjög skondið og skemmtilegt. Það er greinilegt að í huga margra er Davíð enn forsætisráðherra landsmanna. Ekki undarlegt, miðað við yfirburðastöðu hans í íslenskum stjórnmálum.

Siv Friðleifsdóttir

Hlustaði á Talstöðina á mánudaginn. Þar var Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og fyrrum ráðherra, í viðtali hjá Sigríði Dögg Auðunsdóttur og Sigurjóni M. Egilssyni í fréttahádegisþættinum. Var þar talað um stöðuna innan Framsóknarflokksins. Hún hefur síðastliðið hálft ár átt undir högg að sækja innan flokksins: missti ráðherrastól sinn og hefur þurft að horfa upp á innbyrðis átök í kjördæmi sínu, einkum í Kópavogi, sem beindust að stöðu hennar og nýs leiðtoga flokksins í bænum. Hún talaði af krafti og ekkert hik var á henni í þessu viðtali. Hef sjaldan heyrt Siv einbeittari. Hún ætlar að halda áfram af krafti í pólitík og sagðist ekkert myndu gefa eftir í átökum, ef til þeirra myndi koma um stöðu sína. Sjaldan hefur Siv verið eins ákveðin. Verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni hjá Framsókn, sem virðist mjög eldfim og geta reyndar stefnt í margar áttir. Flokksþing Framsóknarflokksins verður um næstu helgi og spurningin sem helst er uppi er hvort um átakaþing verði að ræða þar. Það eru margar átakalínur í flokknum, hvort þær komi fram nú eða síðar verður að sjá til.

Útvarp

Talandi um Talstöðina. Þessi nýja talmálsstöð hefur farið ágætlega af stað. Þó er greinilegt á efnistökum og stjórnendum innanborðs að nokkur vinstrislagsíða er á stöðinni. Ef frá er talinn Ingvi Hrafn Jónsson virðist vinstribragurinn vera nær algjör. Fyrrum borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins og núverandi formaður ungra vinstri grænna eru báðir á morgnana þarna með þætti og svona mætti lengi telja. Svo virðist Róbert Marshall hafa hætt við að fara á sjóinn og er með þátt þarna og virðist risinn aftur í fjölmiðlabransann eftir afglöp sín í starfi nýlega á Stöð 2. Skondið að fylgjast með endurkomu hans í þennan bransa. Svo virðist vera sem hann sé hæfari til að stjórna útvarpsþætti en sinna fréttamennsku. Mikill húmor í þessu öllu. En hvað með það. Það er alveg ágætt að hafa ekta talmálsstöð í gangi og vonandi endist þetta eitthvað betur hjá Baugsmiðlunum með talmálsstöðina nú en áður, þegar reynt var með Útvarp Sögu. Reyndar heyrum við hér úti á landi ekki talmálsstöðvarnar tvær nema í gegnum netið enn sem komið er. En spurning hvort það stendur eitthvað til bóta.

Saga dagsins
1960 Efnahagsráðstafanir viðreisnarstjórnarinnar voru samþykktar á Alþingi - þær fólust m.a. í 30% gengislækkun og auknu frelsi í útflutningi og innflutningi, m.a. á bílum. Afnám haftanna varð eitt merkasta verk viðreisnarstjórnarinnar, sem sat við völd allan sjöunda áratuginn og allt þar til 1971
1976 Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta vegna flotaíhlutanar þeirra innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar - þetta var í fyrsta skipti sem til stjórnmálaslita kom milli tveggja aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO). Samband komst aftur á eftir rúma þrjá mánuði, er sættir náðust
1992 Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin árið 1991 - hlaut ekki verðlaunin, en tilnefningin markaði mikil þáttaskil. Myndin skartaði Gísla Halldórssyni og Sigríði Hagalín í aðalhlutverkum, og fóru þau alveg á kostum
1997 Deng Xiaoping einn valdamesti leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína til fjölda ára, lést í Peking, 92 ára að aldri - Xiaoping var einn valdamesti leiðtogi hinnar vægðarlausu einræðisstjórnar
2000 Knattspyrnuhöllin í Reykjanesbæ vígð formlega - markaði þáttaskil fyrir íslenska knattspyrnu

Snjallyrðið
Ef ég sé fjöll í fjarlægð blána,
þá finn ég alltaf sömu þrána.
Á ljóðsins vængjum á loft ég fer,
og leita og skyggnist eftir þér.

Ég heyrði í svefni söng þinn hljóma.
Ég sá þig reika milli blóma.
Í bjarmadýrð þú birtist mér,
með brúðarkrans á höfði þér.

Þá lést þú sól á lönd mín skína
og lyftir undir vængi mína.
Svo hvarfst þú bak við fjarlæg fjöll
sem feykti blærinn hvítri mjöll.

En síðan reyni ég söngva þína
að seiða í hörpustrengi mína.
Í hljómum þeim á hjartað skjól
og heima bak við mána og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Brúður söngvarans)