Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 febrúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég til dæmis um endurkomu Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, í þjóðmálaumræðuna, eftir leyfi erlendis. Í þann aldarfjórðung sem Davíð hefur verið lykilmaður í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík, hefur aldrei gerst að hann hafi verið jafnlengi fjarverandi miðpunkt stjórnmálaumræðunnar. 5 vikur án Davíðs Oddssonar í þjóðmálaumræðunni hefur ekki verið algeng sjón hjá okkur sem tilheyrum minni kynslóð sem höfum alla tíð fylgst með Davíð í eldlínu umræðunnar og sem lykilmanni í stjórnmálaheiminum hérlendis. Mörg stór mál biðu Davíðs við komuna til landsins. Eitt þeirra er umsókn Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Tjáði Davíð sig um málið í vikunni og er ekki hægt annað en að lýsa yfir ánægju með þau ummæli hans, enda bendir flest til þess að málið sé farið út af sporinu. Meðal annarra mála sem sett hefur svip á vikuna eru málefni skákmeistarans Bobby Fischer sem var veitt dvalarleyfi í desember, sem nægði honum ekki í stöðunni og sótti því um íslenskan ríkisborgararétt. Mikil umræða varð um málið í allsherjarnefnd sem hafnaði erindi hans að svo stöddu í vikunni.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni Landsvirkjunar, en mikil þáttaskil eru framundan hjá fyrirtækinu. Á fimmtudag undirrituðu iðnaðarráðherra, bæjarstjórinn á Akureyri og borgarstjórinn í Reykjavík viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta sveitarfélaganna í fyrirtækinu. Enn á eftir að ganga frá formlegri lausn málsins, en það er komið í umrætt ferli. Mikil tímamót felast í undirritun viljayfirlýsingarinnar og ánægjulegt að sveitarfélögin víki úr eigendahópnum. Í framhaldinu er stefnt að sameiningu Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða. Stefnt er að einu öflugu fyrirtæki að hálfu ríkisins í dreifingu, sölu og framleiðslu á raforku. Í kjölfarið verður það gert að hlutafélagi, eigi síðar en 2008. Eins og við mátti búast eru ekki allir sáttir við þessa lausn mála. Bendi ég á skoðanir vinstri grænna á því og andstöðu þeirra jafnan við breytingar á orkufyrirtækjum, sem sást best hér er Norðurorka var hlutafélagavædd 2002.

- í þriðja lagi fjalla ég um 10 ára afmæli heimasíðu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Björn hefur verið brautryðjandi í vefskrifum íslenskra stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á netinu almennt. Á vef hans er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Það hefur alla tíð verið hvetjandi að fylgjast með störfum hans í gegnum vefinn og lesa skrif hans. Framlag Björns til netmála er mikils virði og forysta hans skipt mjög miklu máli. Netskrif almennt eru mjög áhugaverð. Það er mjög gagnlegt að fylgjast með skoðunum fólks og kynnast áherslum þess í hitamálum í samfélaginu og fara yfir umfjöllun þeirra um málefnin. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Þekki ég þetta vel, enda sjálfur þátttakandi í því að tjá mig á netinu.

Punktar dagsins
Hillary Rodham Clinton

Undanfarna daga hafa öldungadeildarþingmennirnir Hillary Rodham Clinton og John McCain verið á ferð í Bagdad, höfuðborg Íraks. Þar fara þau fyrir sendinefnd bandaríska þingsins til landsins. Hefur nefndin rætt við marga fulltrúa írakskra stjórnvalda: t.d. ráðherra bráðabirgðarstjórnar landsins, sem brátt mun víkja fyrir fulltrúum sigurvegara kosninganna, 30. janúar sl. Hillary hefur oft gagnrýnt harðlega stefnu Bandaríkjastjórnar í Írak og verið mjög áberandi í gagnrýni á því hvernig ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur haldið á stöðu mála í landinu. Að undanförnu þykir staða Hillary hafa styrkst til muna innan Demókrataflokksins. Ef marka má nýlegar skoðanakannanir nýtur hún mests stuðnings þeirra sem nefnd hafa verið til sögunnar sem forsetaefni flokksins árið 2008. Eins og staðan er núna stendur hún því afgerandi með pálmann í höndunum hvað varðar stöðuna fyrir næsta forsetakjör sem vænlegasta leiðtogaefni flokksins. En rúm þrjú ár eru þar til flokksþing demókrata fyrir næstu forsetakosningar verður haldið, það er heil eilífð í stjórnmálum. Næsta verkefni hennar verður kosningabarátta fyrir þingkosningarnar í New York á næsta ári. Sigur þar og endurkjör í öldungadeildina er nauðsynlegt skref fyrir Hillary, ætli hún að láta frekar að sér kveða.

Göran Persson

Ef marka má skoðanakannanir í Svíþjóð hafa vinsældir forsætisráðherrans Göran Persson, Jafnaðarmannaflokksins og ríkisstjórnarinnar dalað nokkuð undanfarna mánuði. Ef t.d. er farið yfir tölur um persónuvinsældir forsætisráðherrans er ljóst að þær hafa minnkað um tæpan helming á seinustu tveim árum, eða frá sambærilegri könnun 2003. Fredrik Reinfeldt leiðtogi hægriflokksins Moderata, nýtur nú meiri persónufylgis en forsætisráðherrann. Þetta eru mikil tímamót, enda hefur það ekki gerst í næstum 14 ár að leiðtogi hægrimanna sé vinsælli en leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. Í upphafi forsætisráðherraferils hægrimannsins Carl Bildt 1991-1994, var hann vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Við blasir að ein helsta ástæða þessa séu viðbrögð Perssons og stjórnarinnar við hamförunum í Asíu, en stjórnin var sökuð um að bregðast seint og illa við. Þrátt fyrir hnignandi gengi Persson er ólíklegt að hann hrökklist frá völdum fyrir þingkosningar á næsta ári. Ein helsta ástæða þess er að það vantar afgerandi eftirmann hans. Allt frá morðinu á krónprinsessu flokksins, Önnu Lindh, fyrir einu og hálfu ári, hefur vantað leiðtogaefni til framtíðar. Margir telja sig sjá þá vonarstjörnu sem vantar í Margot Wallström varaforseta ESB og fyrrum ráðherra. Hún hefur hinsvegar nú lýst því yfir að hún stefni ekki að þingframboði heima fyrir á næsta ári.

Bill Clinton og George H. W. Bush

George H. W. Bush og Bill Clinton fyrrum forsetar Bandaríkjanna, hafa undanfarna daga verið á ferð um hamfarasvæðin í Asíu, þar sem hinar skelfilegu náttúruhamfarir riðu yfir á öðrum degi jóla. Hafa þeir kynnt sér stöðu mála og björgunarstarfið sem hefur verið á þessum svæðum seinustu vikurnar og rætt við þjóðarleiðtoga í löndunum sem um ræðir. Þeir hafa farið um Taíland, Indónesíu og Sri Lanka og voru t.d. í gær í Aceh-héraði þar sem einna mesta eyðileggingin varð. Forsetarnir fyrrverandi voru valdir, af Rauða krossinum og alþjóðlegum hjálparsamtökum í samráði við George W. Bush forseta Bandaríkjanna, til að fara fyrir fjársöfnun til aðstoðar fórnarlömbum náttúruhamfaranna og eru þeir talsmenn átaksins á heimsvísu. Hafa þeir unnið vel að þessu verkefni og verið ötulir í störfum sínum, eins og sést hefur af framgöngu þeirra allt frá upphafi. Ferð þeirra um flóðasvæðin er mikilvægur þáttur í starfinu sem framundan er og uppbyggingunni sem blasir við á þessum svæðum. Eyðileggingin er algjör á flestum stöðum og ljóst að mikið verk er framundan.

All the King´s Men

Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina All the King´s Men. Í henni er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélag og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Að lokum verður hann andstæða alls þess sem hann stóð fyrir í stjórnmálum.

Virkilega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki. Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki Sadie, fjölmiðlafulltrúa og hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark. Mjög sterk mynd sem lýsir með stórbrotnum hætti hvernig fólk getur farið út af sporinu með því að falla í freistni. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, allavega einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálaáhugamenn.

Saga dagsins
1816 Óperan Rakarinn frá Sevilla, Il Barbiere di Siviglia, eftir Gioacchino Rossini, frumsýnd í Róm
1882 Kaupfélag Þingeyinga, fyrsta kaupfélag landsmanna, stofnað formlega að Þverá í Laxárdal. KÞ var alla tíð mjög áhrifamikið bæði í samvinnuhreyfingunni og bændahreyfingunni. Varð gjaldþrota 1999
1902 Samband íslenskra samvinnufélaga, SÍS, var stofnað að Ystafelli í Köldukinn. Það varð eitt af umfangsmestu fyrirtækjum landsins á 20. öld og ráðandi í atvinnulífi landsmanna til fjölda ára. Við lok níunda áratugarins tók að halla undan fæti og stefndi í gjaldþrot. Niðurstaðan varð sú að helsti lánardrottinn SÍS, Landsbanki Íslands, tók yfir allar eignir fyrirtækisins upp í skuldirnar til bankans. Með því mátti heita að starfsemi SÍS væri lokið. Það starfar þó enn í dag að litlu leyti hér á Akureyri
1911 Fiskifélag Íslands var formlega stofnað til að styðja og efla almennar framfarir í sjávarútveginum
1962 John Glenn varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að fara út í geiminn - hann varð heimsfrægur í kjölfarið. Glenn varð síðar öldungadeildarþingmaður demókrata í Ohio, og sat í þinginu 1974-1999

Snjallyrðið
Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Kveðja)