Seinustu vikurnar höfum við öll fylgst með lagalegum deilum um örlög bandarísku konunnar Terri Schiavo, sem verið hefur heilasködduð eftir hjartastopp fyrir 15 árum og ekki getað tjáð sig eða gert sig skiljanlega. Hafa eiginmaður hennar, Michael, og foreldrar hennar, Mary og Bob Schindler, háð harða baráttu um það seinasta áratuginn hvort rétt sé að halda henni áfram á lífi eða láta hana deyja. Foreldrarnir hafa viljað að hún fengi að lifa allt til loka og njóta umönnunar en eiginmaðurinn vill að hún fái að deyja, enda segir hann að ekkert sé fyrir hana hægt að gera. Með dómsúrskurði þann 18. mars var slanga í maga hennar, sem tryggði henni næringu og vökva í æð, fjarlægð. Með því var hún sett á líknandi meðferð. Reyndu foreldrarnir í 13 daga að hnekkja þeirri ákvörðun, en án árangurs.
Í dag lést svo Terri eftir þrettán daga dauðastríð. Var ljóst að barátta foreldranna væri töpuð í gær er áfrýjunardómstóll og hæstiréttur höfnuðu í þriðja sinn að taka málið til endurskoðunar eða til efnismeðferðar. Með því var lagalega hliðin lokuð og ljóst að ekkert gæti bjargað Terri. Reyndar er ljóst skv. áliti lækna að ljóst hafi verið á sunnudag að ekkert gæti bjargað, enda þá verið það lengi án næringar að skaðinn var skeður. Hefur barátta foreldranna og eiginmannsins verið mjög harðskeytt og ótrúlega hvöss skot gengið þeirra á milli seinustu 8 árin, eða frá því að foreldrarnir reyndu að hnekkja því að Michael væri lagalegur umsjónarmaður Terri. Ekki hefur bætt úr skák að mati foreldranna að Michael er í sambúð með annarri konu og á með henni tvö börn.
Hafa þau haldið fram að hann hafi viljað hana feiga til að halda áfram að lifa öðru lífi, en ekki skeytt neinu um sig eða Terri sjálfa. Michael hefur aftur á móti sagst hafa gert þetta fyrir Terri. Hefur hann haldið fram að áður en hún féll í dá árið 1990 að hún vildi ekki að vélar héldu sér á lífi. Hefur hann sagt að hún hefði ekki viljað lifa með þessm hætti en foreldrarnir töldu að ekki væri fullreynt að hún gæti náð einhverjum bata. Baráttan fyrir dómstólunum var beisk og hörð og reyndu margir málsmetandi menn að hjálpa foreldrunum, t.d. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Jeb Bush ríkisstjóri í Flórída. Fyrir nokkrum dögum sagði Bush að baráttunni væri lokið, ekkert væri hægt að gera og öll sund lokuð. Í dag dó svo Terri. Fannst mér óneitanlega harkalegt að foreldrunum og systkinum hennar var meinað af eiginmanninum að vera hjá henni þegar hún skildi við. Þetta er ótrúleg grimmd og lýsandi um persónu viðkomandi manns. En í grunninn tel ég líknardráp eiga rétt á sér ef ekkert er framundan nema dauðinn. En svo lengi sem lífsvon er tel ég það ekki réttlætanlegt. Þetta mál hefur verið mjög mikið í fréttum og sitt sýnist hverjum.
Tekist er á um grunn tilverunnar að margra mati. Lífið er annars aldrei einskis virði, en fyrst og fremst á að fara eftir vilja viðkomandi. Ef ekki liggur fyrir vilji þess sem um er að ræða verður auðvitað að fara eftir mati nánustu ættingja. Lagalega er réttur maka fremstur, og þess vegna auðvitað lauk þessu máli með þessum hætti. Maki er nánasti aðstandandi og hefur lagalega réttinn á að taka slíka ákvörðun. Best er ef foreldrar viðkomandi og nánustu ættingjar séu sammála í ákvarðanatöku í slíkri stöðu. Án þess er staðan erfið. Ég man ekki eftir slíkum átökum hér á landi, en eflaust er staða mála önnur hér og fólk hefur aðra hagsmuni. Það hefur ekki farið leynt að deilur um peninga leiddu í upphafi til deilanna milli foreldranna og Michaels, er kom að því að úthluta peningum til hans til að annast hana. Þau vildu hluta peninganna, með því jókst kergjan svo stig af stigi. Siðferðislega eru örlög fólks í dái átakamál. Í grunninn tel ég lífið svo mikils virði að berjast á fyrir því svo lengi sem lífsvon er. En án lífsvonar er lífið auðvitað farið í raun og rétt að viðkomandi einstaklingur kveðji með þeirri reisn sem viðkomandi á skilið, en veslist ekki upp í vélum endalaust. Það er mitt mat allavega.
Í gær ávarpaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ársfund Seðlabankans. Þar fór yfir efnahagsmálin og tengd málefni, t.d. varðandi gjaldmiðilinn og kom með mörg merkileg ummæli en talaði ekki hreint út að fullu. Í upphafi ræðunnar kom fram það mat hans að aðstæður séu einstakar í efnahagslífinu nú meðan stóriðjuframkvæmdir standa yfir. Þær eigi sér ekki fordæmi og ekki séu til töfraformúlur til að leysa þau vandamál sem upp kunni að koma, hvort sem litið sé til almennrar hagstjórnar eða þrengri þátta eins og vinnumarkaðar. Um þetta geta flestir verið sammála og því ekki sá punktur sem mest var fjallað. Sérstaklega athyglisvert var þó að heyra ummæli hans um gjaldmiðilinn. Sagði hann að við værum að gjalda þess að fjármagnsmarkaðurinn væri lítill. Sagði hann að tiltölulega litlar fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu gætu skapað sveiflur í gengi krónunnar. Sagði hann að þetta væri staða sem við yrðum að búa við á meðan við hefðum eigin gjaldmiðil.
Með þessu var Halldór auðvitað að opna mjög á umræðuna um Evruna og Evrópumálin ennfremur. Sagði hann þó að með þessu mati sínu væri hann ekki að segja að upptaka evru hérlendis myndi leysa öll vandamál. Sagði hann það þó eitt atriði sem kæmi vissulega til greina er sveiflur gengisins væru skoðaðar. Halldór segir eitt en botnar það ekki. Afhverju talar hann ekki hreint út? Þetta er óttalegt rósahjal sem ekkert skilur eftir sig nema spurningar og það sem meira er undrun. Undrun vegna þess að hér er um að ræða yfirmann Seðlabankans, forsætisráðherrann. Þessi maður getur því talað hreint út og sagt hug sinn. Það gerir hann ekki. Afhverju ætli svo sé? Er það ekki vegna þess að hann hefur ekki flokkinn að fullu á bakvið sig í málinu. Hann hefur ekki yfirgnæfandi stuðning innan eigin raða til Evróputalsins og hvað þá þess að boða Evruna sem gjaldmiðil. Þetta er umdeilt, og það mjög skiljanlega. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins í Evrópumálunum.
Karl Bretaprins og synir hans hafa seinustu dagana verið í skíðafríi í Klosters í Sviss. Í dag stilltu þeir sér upp til myndatöku. Greinilegt var að þungt var í prinsinum og hann ekki í góðu skapi. Náðu fjölmiðlar með víðdrægum hljóðnemum orðaskiptum prinsins við syni sína fyrir myndatökuna og á meðan henni stóð. Er hann kom gangandi að fjölmiðlaskaranum heyrðist hann muldra: "Ég þoli ekki þetta, þetta er gjörsamlega óþolandi rugl" "Bölvaðir durgarnir". Ekki hefur farið leynt að prinsinum er mjög illa við aðgangshörku fjölmiðla í fríi þeirra og almennt verið lítt hrifinn af fjölmiðlum. Ekki bætti úr skák er fréttamaðurinn Nicholas Witchell spurði hann um væntanlegt brúðkaup hans og Camillu í næstu viku. Sagði hann með vandlætingarsvip: "Já, það er gott að þú hefur heyrt af því". Í kjölfarið heyrðist hann muldra lágt við syni sína: "Ég þoli alls ekki þennan mann. Hann er alveg hræðilega leiðinlegur". Fara Karl og synirnir árlega til Klosters og leyfa eina myndatöku, og fá annars að vera í friði. Að þessu sinni tókst ljósmyndurum að taka myndir af prinsunum án þess að þeir yrðu þess var. Sagt er svo að prinsinum hafi gramist um þá aðgangshörku sem ljósmyndarar hafa að undanförnu sýnt Vilhjálmi og unnustu hans, Kate Middleton. Ekki batnaði er prinsinn labbaði í burt að hann muldraði: "Þá er þessum fjára loksins lokið".
Auðun Georg Ólafsson tekur formlega við starfi fréttastjóra Ríkisútvarpsins á morgun. Hefur ráðning hans verið umdeild og allt logað í illdeilum innan veggja Ríkisútvarpsins að Efstaleiti frá því tilkynnt var um ráðningu hans í starfið. Á fjölmennum starfsmannafundi starfsmanna Ríkisútvarpsins í dag var samþykkt vantraust á útvarpsstjóra vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar í stöðu fréttastjóra Útvarpsins. 178 samþykktu tillöguna, 12 sögðu nei og einn skilaði auðu. Tillagan var því samþykkt með 93,2% atkvæða. Er þetta sögulegt, enda aldrei gerst fyrr að starfsmenn RÚV lýsi yfir vantrausti á útvarpsstjóra. Ljóst er því að allt logar stafna á milli hjá stofnuninni og mikill órói er þar vegna ráðningarferlisins og ákvörðunar útvarpsstjórans. Er vandséð hvernig muni geta gróið um heilt milli starfsmannanna og útvarpsstjóra að óbreyttu. Greinilegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli starfsmanna og yfirstjórnar Ríkisútvarpsins. Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins og hvernig samskipti starfsmanna og fréttastjórans nýja verði á næstunni.
Tilkynnt var í gær að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji myndi fara af markaði og form þess verði stokkað upp. Munu meirihlutaeigendur nú gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð sem miðast við 12,1 krónu á hlut. Að viðbættri 30% arðgreiðslu, sem stjórn hefur gert tillögu um og liggur fyrir aðalfundi, samsvarar tilboðið því um 12,4 krónum á hlut. Samhliða þessu seldi KEA formlega stóran hlut sinn í fyrirtækinu. Í kjölfar kaupa Fjárfestingafélagsins Fjarðar ehf. á 7,33% eignarhlut í Samherja hf. hafa helstu eigendur: þeir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Fjárfestingarfélagið Fjörður ehf., Bliki ehf., Tryggingamiðstöðin hf., F-15 sf., Finnbogi A. Baldvinsson og fjárhagslega tengdir aðilar, sem samtals eiga 55,4% hlutafjár í félaginu, gert með sér samkomulag um stjórnun og rekstur fyrirtækisins í kjölfar þessa. Eru þetta mikil tíðindi skiljanlega og merkilegt að sjá hvernig fyrirtækið breytist við að fara af markaði. Samherji fór á markað árið 1996 og hefur verið mjög öflugt í þau 20 ár sem fyrirtækið hefur verið undir stjórn Akureyringa.
Í kvöld heldur fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fund á Fiðlaranum og fjallar þar um stóriðjumálin. Hefur mikil umræða verið um að næsta stóriðja eigi að rísa hér á Norðurlandi og oftast þá talað um svæði við Húsavík og Dysnes í Eyjafirði í þeim efnum. Enginn vafi leikur á því að gert hefur verið ráð fyrir því að næsta álver verði reist á Norðurlandi, enginn hefur reynt að bera á móti því að svo sé, gert er ráð fyrir slíku t.d. í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Er gott að ráðherra haldi fund og fari yfir stöðu mála og fólk getur heyrt skoðanir hennar á málum og fengið meiri yfirsýn yfir stöðuna. Þessi fundur verður vonandi gagnlegur og góður.
Saga dagsins
1863 Vilhelmína Lever kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri og varð með því fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi - konur hlutu almennan kjörrétt með formlegum hætti loks árið 1915
1909 Björn Jónsson tók við embætti ráðherra af Hannesi Hafstein - Björn sat á ráðherrastóli í tvö ár
1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist um 205 sentimetrar, sem er með eindæmum í þéttbýli hérlendis
1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins - hann tók við formennsku af Ólafi Jóhannessyni. Steingrímur var dómsmála- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, var forsætisráðherra 1983-1987 og svo aftur 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Steingrímur lét af formennsku flokksins árið 1994 og varð seðlabankastjóri og gegndi þeim störfum allt til 1998. Ævisaga hans kom út í þrem bindum 1998-2000
1981 Leikarinn Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull - De Niro hlaut óskarinn 6 árum áður fyrir glæsilega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather, Part II. De Niro er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað allmikinn fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið hrós kvikmyndaunnenda
Snjallyrðið
I have no regrets. I wouldn't have lived my life the way I did if I was going to worry about what people were going to say.
Ingrid Bergman leikkona (1915-1982)
<< Heim