Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 mars 2005

DiddúMenningarlíf á Akureyri - góðir tónleikar
Menningarlífið hér norðan heiða er engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda. Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list.

Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður í vetur og litið á leikritið Ólíver í Leikhúsinu. Hefur sú sýning gengið vonum framar, verið sýnd margoft fyrir fullu húsi og hlotið góða gagnrýni hjá leiklistarspekingum dagblaðanna. Nú um páskana verða seinustu sýningar á verkinu, vegna þess að listamenn hafa bæði lofað sér í önnur verkefni og brátt þarf að taka til sýninga annað leikverk, sem lofar ekki síður góðu. Fór ég á sýninguna um jólin og varð heillaður af henni eins og allir aðrir. Nú nýlega hafa svo verið spennandi sýningar á listasafninu. Nú þessa dagana eru þar sýnd verk Errós (Guðmundar Guðmundssonar listmálara).

Jóhann FriðgeirÍ gærkvöldi fór ég á sannkallaðan stórviðburð í menningarlífi okkar hér fyrir norðan. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er algjör perla í menningarlífi okkar hér fyrir norðan. Tónleikar hljómsveitarinnar eru sannkallaður hvalreki fyrir okkur sem njótum menningar og lista. Í gærkvöldi hélt sveitin tónleika þar sem fram komu með henni þau Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópransöngkona og Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór. Voru þetta alveg frábærir tónleikar og einstaklega gaman að fara á þá og hlusta á glæsilega tónlist og heillandi. Á efnisskránni voru mörg stórfengleg tónverk. Nægir þar að nefna tónlist úr Leðurblökunni eftir Johann Strauss og Kátu ekkjunni eftir F. Lehar. Tóku Diddú og Jóhann Friðgeir ítalskar aríur og söngperlur.

Ennfremur var á efnisskránni hin sívinsælu hljómsveitarverk Keisaravalsinn, Tritsch tratsch polka og Radetzky mars eftir Johann Strauss. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson. Sinfóníuhljómsveitin okkar er alveg rómuð og hefur hróður hennar farið víða í kjölfar þeirra tónleika sem hún hefur haldið. Þeirra eftirminnilegastir eru án nokkurs vafa tónleikarnir sem haldnir voru í Íþróttahöllinni í októbermánuði 1998 til minningar um Jóhann Konráðsson söngvara á Akureyri. Einsöngvarar á þeim tónleikum voru Kristján Jóhannsson, sonur Jóhanns, Diddú og Jóna Fanney Svavarsdóttir, bróðurdóttir Kristjáns. Þeir tónleikar voru alveg einstaklega góðir og eru að margra mati, hiklaust mínu, bestu sinfóníutónleikar með söng sem haldnir hafa verið hér fyrir norðan.

Var það mjög vel skipulagður menningarviðburður og verða lengi í minnum hafðir. Man ég að Kiddi hafði á orði þegar hann kom á þá tónleika að þetta væri sinfóníuhljómsveit á toppmælikvarða og var hann reyndar undrandi á því hversu góð hún væri. Á tónleikunum í gærkvöldi var sveitin skipuð yfir 50 hljóðfæraleikurum. Flestir koma þeir héðan að norðan. Svæðið sem tónlistarmenn í sinfóníusveitinni koma frá er mjög víðfeðmt. Er um að ræða fólk frá öllu Norðurlandi og meira segja koma einhverjir að austan að mér skilst. Allavega ég hef oft farið á tónleika með sveitinni og jafnan hrifist nokkuð af. Engin undantekning var á í gær. Þetta voru stórglæsilegir tónleikar, Diddú og Jóhann voru í toppformi og góð stemmning á tónleikunum. Ég þakka kærlega fyrir mig og hlakka til næstu tónleika.

Saga dagsins
1948 Breski leikarinn Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir hreint stórfenglega túlkun á prinsinum Hamlet - Olivier var einn fremsti leikari og leikstjóri Breta á 20. öld og fór á kostum í dramatískum myndum og skapaði einnig ógleymanlega karaktera á hvíta tjaldinu á löngum ferli. Hann lést 1989
1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið formlega í notkun - húsið var helgað minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara, en borgin eignaðist flest listverk hans
1987 Albert Guðmundsson segir af sér ráðherraembætti - var það vegna ásakana um að hann hefði ekki talið fram til skatts sérstakar greiðslur, sem fyrirtæki í eigu hans hafði fengið frá fyrirtækinu Hafskip hf. á meðan hann var fjármálaráðherra á árunum 1983-1985. Varð skipafyrirtækið gjaldþrota í árslok 1985 og Útvegsbankinn tapaði þar stórfé en Albert hafði verið formaður stjórnar Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans árin 1980-1983. Albert gekk í kjölfarið úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði með stuðningsmönnum sínum Borgaraflokkinn, sem hlaut 7 þingmenn í kosningunum 1987. Albert sat á þingi fyrir flokkinn til ársins 1989 og varð sendiherra í Frakklandi. Hann lést í apríl 1994
1989 Eitt af verstu olíuslysum í sögu Bandaríkjanna á 20. öld á sér stað þegar að olíuflutningaskipið Exxon Valdez strandar við Alaska - síðar kom það í ljós að skipstjórinn hafði verið drukkinn. Leiddi til málaferla og deilna. Varð slysið álitshnekkir fyrir Exxon sem neyddist til að borga metfé í skaðabætur
2002 Leikkonan Halle Berry hlaut óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Leticiu Musgrove í Monster´s Ball - Berry varð fyrsta þeldökka aðalleikkonan í sögu akademíunnar til að hljóta þessi leikverðlaun

Snjallyrðið
A loving heart is the beginning of all knowledge.
Thomas Carlyle heimspekingur (1795-1881)