Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 mars 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um yfirlýsingu samgönguráðherra um upphaf framkvæmda við Héðinsfjarðargöng og tilkynningu um tímaramma að verkefninu á borgarafundi á Siglufirði í gær. Var um mikinn gleðidag að ræða á Siglufirði í gær og var ánægjulegt að fara þangað og taka þátt í hátíðarhöldunum þar. Ég hef barist mjög fyrir því að þessi göng komi. Ég hef tekið eftir því að margir eru andsnúnir því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Ég er stoltur af því að hafa barist fyrir tilkomu þessara ganga og mun þegar tíminn líður horfa til þessarar baráttu með stolti. Ég hef næstum alla mína ævi búið í Eyjafirði. Ég skammast mín ekki fyrir að vinna að hag þessa svæðis og vera þekktur af því að vera baráttumaður fyrir því að heildin þar styrkist. Það er grunnur minnar tilveru að heildin hér verði sterk og að því mun ég alltaf vinna.

- í öðru lagi fjalla ég um nýtt frumvarp menntamálaráðherra til breytinga á útvarpslögum. Fer ég yfir afstöðu mína til þess og tengda þætti. Sem hægrisinnuðum einstakling í stjórnmálalitrófinu tel ég þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Menn eru að veita RÚV alltof mikið fríspil til að vera á markaðnum. Um er að ræða eina verstu árás á frjálsa fjölmiðla sem um getur á Íslandi. Þetta frumvarp er ekki í anda samþykkta SUS og gengur alltof langt í ranga átt. Ég get ekki stutt það nema að mjög litlu leyti. Í heildina er það afleitt. Þannig er það bara.

- í þriðja lagi fjalla ég um farsann varðandi mál skákmeistarans Bobby Fischer, sem illu heilli mun væntanlega brátt hljóta íslenskan ríkisborgararétt. Á föstudag tjáði ég mig í tveim pistlum, annarsvegar á vef SUS og hér á vef mínum, bæði um stöðu málsins fyrir og eftir ákvörðun allsherjarnefndar á föstudaginn. Ég er algjörlega andvígur áliti allsherjarnefndar og tel hreinlegt að lýsa því yfir og tala hreint út í þeim efnum. Taldi ég þingnefndina stíga óvarlegt skref og taka afstöðu algjörlega út í hött. Það er bara þannig. Fer ég yfir málið í nokkrum orðum í lok pistilsins.

Punktar dagsins
Siglufjörður

Eins og fram kom hér í gær var mikil gleði á Siglufirði í gær er samgönguráðherra hélt þar fund og lýsti því yfir hvernig tímarammi Héðinsfjarðarganga myndi verða. Var virkilega gaman að fara vestur, vera viðstaddur fundinn og heyra hljóðið í fólki þar og ræða málin. Var gríðarlegur fjöldi viðstaddur fundinn og bátahúsið á Siglufirði var sneisafullt. Hef ég sjaldan verið viðstaddur fund þar sem allir voru eins glaðir og sameinaðir um að hefja sig yfir pólitískt dægurþras og nöldur um hitamál samtímans og sameinast um að taka höndum saman og horfa til framtíðar. Þarna fluttu ávörp pólitískir forystumenn úr flestöllum flokkum og forystumenn sveitarfélaganna auk heimamanna sem báðu um orðið og vildu ávarpa samkomuna. Merkilegast af öllu fannst mér að Frjálslyndi flokkurinn og VG áttu engan fulltrúa á þessari merku stund í sögu Siglufjarðar og ekki síður Norðausturkjördæmis þegar samgönguleg tenging Siglufjarðar við Norðausturkjördæmi var staðfest með afgerandi hætti. Frjálslyndi flokkurinn er þó að mestu eyðimörk í þessu kjördæmi eins og flestir vita. Hitt vakti meiri athygli mína að Steingrímur J. Sigfússon kaus frekar að vera á mótmælafundi í Reykjavík en gleðifundi í kjördæmi sínu. Kostuleg forgangsröðun. Og ekki var Þuríður þarna, nema hún sé endanlega orðin að gufu í augum okkar hér.

Selma Björnsdóttir

If I Had Your Love, framlag Íslands í Eurovision-söngvakeppninni, sem haldin verður í Kiev í Úkraínu þann 19. maí var frumflutt í spjallþætti Gísla Marteins í gærkvöldi. Lagið er gríðarlega gott, sterk melódía og litrík. Er ég ekki í vafa um að það eigi eftir að ná langt og reyndar hittir það alveg dúndur beint í mark að mínu mati. Selma flytur lagið af miklu öryggi og reyndar er þetta eitt af allra bestu lögum okkar í keppninni til þessa. Keppnin í ár verður sú fimmtugasta í röðinni. Selma er öllu vön þegar Eurovision viðkemur eins og við vitum öll. Hún var fulltrúi Íslands í keppninni í Jerúsalem í Ísrael í maí 1999. Með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck, náði hún að lenda í öðru sæti. Lengi vel stigatalningarinnar var hún í fyrsta sæti og þótti mörgum súrt í broti að hún vann ekki keppnina þá. Eins og flestum er kunnugt náðu Íslendingar ekki að tryggja sér öruggt sæti úrslitakvöldið og því þarf Selma að fara í undankeppni til að komast á úrslitakvöldið. Það er því mikilvægasta baráttan framundan að tryggja sér farmiða á aðalkvöldið. Þorvaldur Bjarni samdi lagið ásamt Vigni í Írafár og er um að ræða magnaða smíð. Við sem fylgdumst með keppninni fyrir sex árum, er Selma var hársbreidd frá sigri með frábært lag, vitum að hún á eftir að gera sitt besta að þessu sinni. Líst allavega vel á þetta allt.

The Beatles

Á föstudagskvöld fór ég á tónleika leikhúskórsins hér á Akureyri í Ketilhúsinu. Með þeim tónleikum og öðrum í gærkvöldi fagnaði kórinn 10 ára starfsafmæli sínu. Á efnisskránni voru Bítlalög útsett af Roar Kvam tónlistarstjóra, fyrir 11 manna hljómsveit, einsöngvara og kór. Aðaleinsöngvari á tónleikunum var Pálmi Gunnarsson söngvari, og einnig sungu einsöng þeir Ingimar Guðmundsson, Sigurður Hörður Ingimarsson og Jóhann Möller. Meðal laga á efnisskrá voru: In My Life, Sgt. Peppers Lonely Harts Club Band, Girl, Because, Penny Lane, With a Little Help From my Friend, Eleanor Rigby, Michelle, Let it Be, All my loving, Strawberry Fields Forever, Good day sunshine, The Long and winding road, Yesterday, Hey Jude og mörg fleiri. Semsagt algjört creme de la creme úr tónlistarsögu Bítlanna. Frábærir tónleikar. Ég þakka leikhúskórnum kærlega fyrir góða skemmtun.

Akureyrarkirkja

Mikill gleðidagur er í minni fjölskyldu í dag. Nú, í dag, fermast í Akureyrarkirkju systkinabörn mín þrjú: Andrea Björk Hauksdóttir, Berglind Eva Hauksdóttir og Samúel Þór Jóhannesson. Andrea og Berglind eru tvíburadætur Hönnu systur minnar og Samúel er sonur Sigurlínar systur minnar. Þau eru öll í 8. bekk Oddeyrarskóla og skemmtilegt að þau fermist öll sama daginn. Þetta er því ánægjulegur og góður dagur hjá okkur í fjölskyldunni. Ég vil óska þeim til hamingju með daginn hér. Þetta verður góður dagur hjá okkur og heldur betur fjölmenn veisla framundan.

Saga dagsins
1939 Þýsk sendinefnd kom til Reykjavíkur, tæpu hálfu ári fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Fóru þeir fram á að fá að koma upp flugbækistöð hérlendis. Beiðninni var hafnað af stjórnvöldum
1948 Breski leikarinn Ronald Colman hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Anthony John í kvikmyninni A Double Life - var einn af virtustu leikurum Bretlands á 20. öld. Colman lést 1958, úr lungnasýkingu
1952 Bandaríski leikarinn Humphrey Bogart hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Charlie Allnut í kvikmyndinni The African Queen. Bogart var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og hlaut vinsældir fyrir kraftmikla og litríka túlkun á sterkum og hnarreistum karakterum. Hann lést í janúar 1957 úr krabbameini. Bogart var valinn besti leikari 20. aldarinnar við aldamótin
1991 Ásgeir Hannes Eiríksson flutti stystu þingræðuna í sögu Alþingis Íslendinga. Við umræðu um álversbyggingu á Keilisnesi tók Ásgeir Hannes til máls og sagði 4 orð: Virðulegi forseti. Álverið rísi!
2003 Sprengjum Bandamanna rignir yfir stjórnsýslubyggingar Íraka og helstu höfuðstöðvar Saddam Hussein í höfuðborginni Bagdad - fljótt dró úr mætti Baath-stjórnarinnar og ljóst varð allt frá upphafi að auðvelt yrði að fella hana. Árásirnar lömuðu forystu landsins og landhernaður hófst í kjölfar þess

Snjallyrðið
In the sweetness of friendship let there be laughter, and sharing of pleasures. For in the dew of little things the heart finds its morning and is refreshed.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)