Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 mars 2005

Michael Howard og Tony Blair takast á í þingumræðuLaugardagspælingin
Kosningabaráttan fyrir komandi þingkosningar í Bretlandi er hafin af fullum krafti, þó enn hafi ekki enn formlega verið boðað til kosninganna. Bendir þó flest til þess að þær muni fara fram þann 5. maí nk. Fyrir tæpum mánuði kynnti Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, kosningastefnuskrá flokksins og helstu atriðin sem flokkurinn mun leggja áherslu á í komandi kosningum. Var það fyrsta afdráttarlausa merki þess að kosningarnar fari fram á þessu ári. Kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en í maíbyrjun 2006, en flest bendir til að Blair muni boða til kosninga mun fyrr. Við upphaf flokksþingsins blasti merkilegt pólitískt landslag við forsætisráðherranum eftir mikil átök um forystu hans, innan flokks sem utan mánuðina á undan. Er óhætt að fullyrða að hann hafi aldrei verið veikari á ferli sínum.

Breski Íhaldsflokkurinn hefur þegar kynnt helstu kosningamál sín og stefnuskrá og hefur hafið markvissa kosningabaráttu nú þegar. Michael Howard hefur verið leiðtogi flokksins frá því að forvera hans, Iain Duncan Smith, var steypt af stóli í vantraustskjöri innan flokksins í októberlok 2003. Howard var einn í kjöri til embættisins og skapaðist samstaða um hann. Howard er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á breska þinginu frá 1983. Howard varð ráðherra í ríkisstjórn eftir valdauppstokkunina eftir brotthvarf Margaret Thatcher árið 1990. Sat Howard í stjórn John Major allan forsætisráðherraferil hans. Hann var atvinnumálaráðherra 1990-1992, umhverfisráðherra 1992-1993 og innanríkisráðherra 1993-1997. Eftir ósigur flokksins í kosningunum 1997 gaf Howard kost á sér í leiðtogakjöri flokksins er Major ákvað að hætta sem leiðtogi hans. Hann tapaði fyrir William Hague í kjörinu og varð minna áberandi í forystunni. Hann varð svo eins og fyrr segir loks afgerandi leiðtogi hans árið 2003 eftir mikil ógæfuár þar á undan í sögu flokksins.

Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Seinustu vikur hefur bilið þó minnkað mjög og að óbreyttu stefnir í spennandi kosningar. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Aðeins Margaret Thatcher hefur tekist að leiða breskan stjórnmálaflokk í gegnum þrennar kosningar í röð og sigra þær allar. Það er því ljóst að Blair stefnir að því að jafna met Thatcher og sækist eftir að ná að komast nálægt meti hennar sem þaulsætnasta forsætisráðherra landsins í seinni tíma stjórnmálasögu. Blair stendur eins og fyrr segir á krossgötum á ferli sínum. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli Blair og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Er þar um að kenna að því er fjölmiðlar fullyrða svik þess fyrrnefnda á samkomulagi þeirra fyrir áratug um að hann drægi sig í hlé til að hleypa Brown í forsætisráðuneytið. Lengi hefur orðrómur verið á kreiki um að Brown hafi ekki gefið kost á sér í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins 1994 en stutt Blair, vegna þess að þeir hefðu samið um að Blair yrði leiðtogi flokksins en myndi víkja úr stólnum fyrir Brown þegar hann hefði setið í 7-8 ár.

Eins og allir vita eru nú liðin 8 ár síðan Blair tók við völdum og Brown er orðinn langeygður í biðinni eftir stólnum og hefur viljað seinasta árið að valdaskiptunum kæmi, sem hefði verið lofað samkvæmt þessu. Var málið farið að skaða flokkinn, og sömdu þeir frið fyrir aukaþing flokksins í febrúar til að halda andlitinu út í frá og auka sigurlíkur flokksins. Munu þeir orðið vart talast við nema í gegnum talsmenn sína og starfsmenn í ráðuneytum. Er þeim þó báðum ljóst að slíðri þeir ekki sverðin muni flokkurinn eiga minni líkur á endurkjöri í kosningunum. Þeir séu því sammála um það að stuðla að endurkjöri flokksins en flokkspólitískir andstæðingar nái ekki að notfæra sér sundrungu milli þeirra og jafnvel vinna því kosningarnar. Það er einmitt þetta sem breskir stjórnmálaspekúlantar spá að sé líklegasta ástæða þess að Verkamannaflokkurinn gæti tapað: óeiningin verði þeim fjötur um fót. Ef marka má kannanir er staðan tvísýn og gæti því orðið naumt á mununum. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningar eru handan við hornið að flestra mati. Kjördagurinn verður eins og fyrr segir sennilega 5. maí, dagsetning sem er vart valin af tilviljun (05-05-05).

Punktar dagsins
Davíð Smári

Enn einu sinni kom að úrslitastund í Idol-stjörnuleit í gærkvöldi. Þá voru þrír söngvarar eftir í keppninni: Hildur Vala, Davíð Smári og Heiða. Í gærkvöldi var þemað: Eighties, og því teknir nokkrir af ódauðlegustu smellum níunda áratugarins. Eighties-tímabilið í tónlist er ógleymanlegt og í huganum er það einna eftirminnilegast af seinustu áratugunum. Fötin eru vissulega út í hött frá þessu tímabili hreinlega en tónlistin lifir af krafti. Ógleymanleg lög, svo ekki sé nú meira sagt. Keppnin í gærkvöldi var óvenjujöfn og erfitt að láta einn fara, enda þau bestu í keppninni nú bara eftir þarna. Svo fór að Davíð Smári var sendur heim. Hann söng lögin Take on Me og Easy. Davíð fór illa að ráði sínu með vali á fyrra laginu en glansaði í hinu seinna. Hápunktur hans í keppninni er þó hiklaust flutningur hans á laginu Lítill drengur í Keflavíkurþemanu í byrjun febrúar. Davíð Smári stóð sig vel í keppninni og er að mörgu leyti stærsti sigurvegari hennar, enda hefði fáum órað fyrir í upphafi að hann næði svona langt. Í úrslitaþættinum í næstu viku munu því keppa þær Hildur Vala og Heiða. Eins og ég hef áður sagt ber Hildur Vala höfuð og herðar yfir allt í þessari keppni þetta árið og enginn vafi í mínum huga að hún er hinn eini sanni sigurvegari hennar. Í gærkvöldi fór hún á kostum með flutningi sínum á lögunum Heart of Glass og Careless Whisper.

Siv Friðleifsdóttir

Í gær birtist ítarlegur pistill minn á vef Heimdallar um þá umræðu sem verið hefur í kjölfar flokksþings Framsóknarflokksins, vegna stefnu hans og stöðu almennt í stjórnmálum. Ályktun flokksins um ESB varð hvorki fugl né fiskur, þrátt fyrir öfugmælavísu formanns hans að um tímamót væri að ræða. Ég fer yfir stöðu mála eftir flokksþingið og veika stöðu Framsóknar almennt. Merkilegt var að sjá svo í vikunni Siv Friðleifsdóttur fara í ræðustól á þingi og vega að Davíð Oddssyni utanríkisráðherra, vegna ummæla hans um stöðu mála eftir ályktun flokksins um ESB. Eitthvað var að heyra á Siv að óvissa væri á stöðu mála innan stjórnarsamstarfsins vegna ummæla Davíðs. Þau ummæli eru mjög óskiljanleg. Það væri nær að framsóknarmenn litu sér eilítið nær. Ef það var eitthvað sem gekk gegn stjórnarsáttmálanum og skapaði óvissu um stjórnarsamstarfið voru það vinnubrögð framsóknarmanna og framsetning þeirra fyrir flokksþingið í drögum þess. Stefna þessarar stjórnar er skýr í Evrópumálum og nægir þeim sem eru í vafa að líta á stjórnarsáttmálann sem samið var um að myndi gilda til næstu þingkosninga árið 2007. Það hefur ekkert gerst innan Framsóknarflokksins sem breytir stöðu mála! En já, þið lesið endilega pistilinn.

Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar

Eins og ég sagði frá fyrr í vikunni var mjög fróðlegt að sjá er ungt fólk var spurt í Íslandi í dag um ráðherra og þekkingu þeirra á stjórnmálamönnum. Í gærkvöldi var sýnt viðbót af þessu og spurt um þá ráðherra sem ekki var fjallað um þá. Niðurstöðurnar voru enn frekar sláandi að þessu sinni. Þekktu nær allir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, en margir vissu hvorki í hvaða flokki hann væri né hvaða embætti hann gegndi. Sumir héldu meira að segja að hann væri óbreyttur þingmaður. Nokkrir þekktu Geir H. Haarde fjármálaráðherra, en nokkrir töldu hann vera í Framsóknarflokknum. Nokkrir héldu að Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, væru olíuforstjórar. Ekki glæsilegur stimpill það á þeim blessuðum, hehe :) Kom mér nokkuð á óvart hversu fáir þekktu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Einn nefndi hana Guðrúnu Katrínu og hefur eitthvað ruglast á henni og fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars, Forsetafrúnni, með stóru F-i. Frekar sláandi þekkingarleysi hjá unga fólkinu á stjórnmálamönnum almennt. Alveg kostulegt, hvet alla til að horfa á þessa klippu. En óneitanlega vekur þetta margar spurningar um hversu vel ungt fólk í dag er inní stjórnmálunum. Greinilegt að unga kynslóðin í dag horfir ekki á fréttir eða fréttatengt efni, en staldrar þess meira á PoppTíví og fleiri slíkum afþreyingarbásum á markaðnum. Frekar döpur staða mála að mínu mati.

Akureyrarkirkja

Alla tíð hefur Akureyrarkirkja skipan stóran sess í mínu hjarta. Og eflaust okkar allra Akureyringa, sérstaklega okkar sem búum á Brekkunni og niðrá Eyri. Kirkjan okkar er nefnilega fallegasta táknmynd bæjarins okkar. Það er reyndar svo merkilegt að á sínum tíma munaði litlu að þröngsýni sumra bæjarbúa kæmi í veg fyrir að hún risi á þessum stað. Kirkjan stendur á glæsilegum stalli og gnæfir yfir miðbæinn. Að mínu mati er Akureyrarkirkja fallegasta kirkja landsins og ein glæsilegasta og tignarmesta bygging landsins. Byggingarstíll Guðjóns Samúelssonar var alla tíð glæsilegur og kristallast það vel í kirkjunni okkar hér á Akureyri. Nýlega sá ég þessa fallegu mynd sem tekin var frostnóttina um síðustu helgi er hrímþokan lá yfir bænum. Birti hana hér, skemmtileg sýn á kirkjuna okkar. Glæsilegt, í einu orði sagt.

Saga dagsins
1865 Möðruvallakirkja í Hörgárdal í Eyjafirði brann. Arngrímur lærði Gíslason listmálari, gerði mynd af brunanum og er sú sögulega mynd talin vera fyrsta teiknaða atburðamyndin, er gerð er af Íslendingi
1936 Bette Davis hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Dangerous - Davis var ein af svipmestu leikkonum síns tíma og lék í mörgum ógleymanlegum myndum - hlaut verðlaunin aftur 2 árum síðar
1953 Josef Stalin leiðtogi Sovétríkjanna, deyr af völdum heilablóðfalls. Hann var þá 73 ára að aldri og hafði ríkt í Sovétríkjunum sem leiðtogi flokksins frá 1922 og landsins allt frá dauða Lenin árið 1924
1974 Yom Kippur-stríðinu lýkur með brottflutningi ísraelshers frá Vesturbakkanum við Súez-skurð
1997 Þýska flutningaskipið Vikartindur strandaði í vonskuveðri í Háfsfjöru, austan við Þjórsárós. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði 19 manna áhöfn skipsins. Varðskipsmaður fórst við björgunaraðgerðir

Snjallyrðið
Whatever you do may be insignificant, but it is very important that you do it.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)