Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 apríl 2005

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Jóhannes Páll páfi II (1920-2005)Jóhannes Páll páfi II lést í Vatíkaninu í Róm í kvöld, 84 ára að aldri, eftir mikil og erfið veikindi. Seinustu vikur hefur heimsbyggðin öll fylgst með dauðastríði páfa, einbeittum styrk hans og ekki síður ákveðni í að reyna eftir fremsta megni að sinna störfum sínum þrátt fyrir hnignandi heilsu. Hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með páfanum reyna að gera sitt besta til að sinna verkum sínum. Sérstaklega varð ég snortinn að fylgjast með ákveðni hans á páskadag og miðvikudag, þegar ljóst var orðið hvert stefndi í veikindastríði hans: að reyna að ávarpa mannfjöldann og birtast almenningi við Péturstorgið. Gat hann ekki tjáð sig en nærvera hans var gríðarlega sterk og hafði áhrif á alla sem fylgdust með. Var hann ákveðinn í að heimsbyggðin gæti séð með eigin augum þjáningu sína og ákveðni í að reyna að gera sitt besta til að vera þjónn Guðs í störfum sínum. Allt til loka var páfi staðráðinn í að gera það sem honum var frekast unnt til að þjóna almenningi og reyna að sinna embættisskyldum sínum, þjóna trúnni og frelsaranum.

Jóhannes Páll páfi II sat á páfastóli í tæp 27 ár. Hann var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli páfa I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og Saint Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Upplifði hann ógnir seinni heimsstyrjaldarinnar á unglingsárum sínum en Pólland var hernumið af Þjóðverjum árið 1939. Á æskuárum sínum áður en hann ákvað að nema guðfræði og helga sig kristinni trú var hann kraftmikill íþróttamaður og stundaði einkum knattspyrnu og sund og vann til fjölda verðlauna á unglingsárum í sundi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Sem prestur og biskup þar varð Karol þátttakandi í starfsemi Vatikansins og tók sæti í æðsta ráði páfadæmisins.

Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli páfa VI og varð með því orðinn einn af forystumönnum Vatikansins og kaþólsku kirkjunnar. Var hann því orðinn kjörgengur við páfakjör. Reyndi fyrst á það í ágúst 1978 er Páll páfi lést og eftirmaður hans var kjörinn. Hlaut Albino Luciani kjör og tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi I. Hann lést eins og fyrr segir 33 dögum eftir vígslu sína. Fór páfakjör fram í október 1978 og þótti fyrirfram líklegast að baráttan um páfatignina myndi standa milli Giuseppe Siri og Giovanni Benelli. Gekk brösuglega fyrir þá að ná tilskyldum meirihluta. Í fyrstu umferð vantaði Benelli 9 atkvæði til að sigra í kjörinu. Varð þá úr að samstaða náðist milli vissra arma í trúarhreyfingunni um að Wojtyla gæfi kost á sér og náði hann kjöri sem málamiðlunarkostur. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti. Enginn vafi leikur á því að Jóhannes Páll páfi II hafi verið litríkasti og mest áberandi páfi í sögu kaþólsku kirkjunnar og hafi sett einna mest mark á sögu embættisins.

Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli var páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann hafi líkt og forverar hans verið andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann hafi lagst gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann hafi verið gamaldags fulltrúi og lagst gegn framþróun og verið andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi hafi á löngum ferli verið kraftmikill málsvari mannréttinda og stutt "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Á löngum ferli var hann áberandi talsmaður grunnmannréttinda: málfrelsis og andvígur stríðum, einræði og blóðsúthellingum. Litlu munaði að páfaferli hans lyki er hann varð fyrir skoti leyniskyttu þann 13. maí 1981, er hann kom inn á Péturstorgið. Það var tyrkneskur múslimi, Mehmet Ali Agca, sem skaut hann. Í 14 tíma lá páfi á skurðarborðinu á sjúkrahúsi í Róm og barðist fyrir lífi sínu. Náði hann heilsu aftur og vakti mikla athygli er hann fór til tilræðismanns síns í fangelsið og fyrirgaf honum.

Jóhannesar Páls páfa II verður að mínu mati, nú við leiðarlok, helst minnst í sögunni fyrir forystu hans í friðarmálefnum, baráttuna gegn kommúnismanum og fyrir það að vera kraftmikill talsmaður gegn stríðshörmungum. Hann ferðaðist víða á löngum ferli og heimsótti 129 lönd á þeim 27 árum sem hann ríkti í embættinu. Hann flutti fleiri hundruð ræður í embætti og mörg þúsund blessunarorð. Helgast það auðvitað af langri setu hans. Ferðalögin helgast af því að hann er fyrsti nútímapáfinn, ef segja má sem svo. Hann notaði embættið með öðrum hætti en forverar hans og var mun virkari út í frá. Hann flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar. Í byrjun júnímánaðar 1989 kom Jóhannes Páll páfi II í opinbera heimsókn til Íslands og dvaldi hér dagana 3. og 4. júní. Hélt hann hátíðlega stund á Þingvöllum og messaði við Kristskirkju í Landakoti. Var ég staddur í Reykjavík á þeim sögulega degi og varð vitni að því er hann predikaði í útimessunni. Þessi stund mun aldrei gleymast mér. Talaði páfi stutt til Íslendinga á íslensku, en Gunnar Eyjólfsson leikari, hafði kennt páfa íslensku í aðdraganda Íslandsferðarinnar. Var páfi alla tíð þekktur fyrir tungumálakunnáttu sína. Jafnan flutti hann blessunarorð á Péturstorginu á um 60 tungumálum. Sjálfur gat hann reiprennandi talað 13 tungumál.

Nú, þegar páfi hefur kvatt þennan heim og er kominn á annað tilverustig tekur við staðlað sorgarferli skv. fornum hefðum og venjum kaþólsku kirkjunnar. Í kjölfarið tekur við það verkefni að velja eftirmann Jóhannesar Páls páfa II. Við blasir að næsta páfakjör, sem framundan er, verði sögulegt. Um verður að ræða fyrsta páfakjörið sem fer fram í kastljósi fjölmiðla í nútímaumhverfi fjölmiðla. Skiljanlega geta fjölmiðlar þó ekki fylgst með í algjöru návígi, enda eru fundir æðstaráðsins sem velur páfa með öllu lokaðir öðrum en þeim sem eiga þar kjörrétt. Siðareglur við kjör páfa eru mjög skýrar og eru öllum vel þekktar. Við andlát páfa á sjúkrabeði í kvöld var skírnarnafn hans kallað þrisvar: Karol, Karol, Karol! Þar sem hann sýndi þá engin svipbrigði var hann formlega úrskurðaður látinn. Í kjölfar þess gerist sú táknræna stund að bronsdyrum Vatíkansins er lokað sem merki um það að páfi hafi kvatt þennan heim. Hurðin verður svo ekki opnuð að nýju fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Nú, við andlát páfa, tekur sérlegur aðstoðarmaður páfa við daglegum skyldum hann fram yfir vígslu nýs páfa. Að honum og fleiri forystumönnum páfagarðs viðstöddum var hvítri andlitsslæðu sem hylur andlit páfa fjarlægð og beðið var fyrir sálu hans.

Tilkynnt var formlega um lát Jóhannesar Páls páfa II í kjölfarið. Hringur páfa, svonefndur hringur fiskimannsins, sem páfi hlaut við kjör sitt, er færður á fyrsta fund kardínálanna þar sem hringurinn er brotinn. Nú, er páfi hefur skilið við hefur söfnuður kardinálanna, sem sinnir málefnum kirkjunnar ekkert vald lengur. Þá verður skrifstofa utanríkis- og innanríkismála Vatíkansins með öllu umboðslaus og ekki er því hægt að sinna diplómatískum málefnum fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Sama hversu stór mál koma til eða atburðir verða er engin undantekning á því. Öllum heimsóknum til Páfagarðs, óformlegum sem formlegum, er frestað og engin ákvarðanataka má eiga sér stað nema minniháttar tengd daglegum athöfnum. Nú tekur eins og fyrr segir við staðlaður sorgartími kaþólskra um allan heim. Kaþólskir syrgja nú fallinn trúarleiðtoga sinn. Kaþólikkar flykkjast í kirkju til að biðja fyrir sálu páfa og helga sig sorg, eins og þeim er skylt. Næstu daga verður lík Jóhannesar Páls páfa II klætt rauðum klæðum og með gylltum mítur á höfði, er það til marks um virðingu fyrir honum og til að biðja fyrir sálu hans. Lík páfans verður fyrir formlega útför fært í þrefalda kistu og mun pyngja með öllum þeim myntum og orðum páfadóms hans seinustu 27 ár verða lögð við fætur hans.

Áður en lík páfa var flutt úr einkaherbergi hans fékk hann staðlaða syndafyrirgefningu og mun lík hans verða til sýnis í hátíðarsal í Vatíkaninu. Útför Jóhannesar Páls II páfa mun væntanlega fara fram fyrir næstu helgi, líklega á miðvikudag. Að athöfn á Péturstorginu og í St. Péturskirkju lokinni mun kista Jóhannesar Páls páfa II væntanlega verða grafin í grafhvelfingu kirkjunnar. Þar eru páfar sögunnar flestir grafnir. Eftir greftrun hans mun taka við svokallað tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála ber að koma saman 15 dögum eftir formlegan dánardag páfa og alls ekki síðar en 18 dögum. Allir kardínálar, nema þeir sem hafa náð áttræðu, geta tekið þátt í kjöri nýs páfa. Ef marka má fréttir erlendra vefmiðla eru um 130 kardinálar sem standast kjörskilyrðin að þessu sinni. Eru kardinálar nú að flykkjast til Rómar og voru margir þegar farnir að leggja leið sína þangað í gær er ljóst varð að páfinn lá banaleguna. Tekur nú æðsta verkefni starfs þeirra við, að velja sér nýjan trúarleiðtoga, í fyrsta skipti í tæpa þrjá áratugi.

Kardinálarnir eru skiljanlega bundnir trúnaði. Mega þeir ekki ræða kosninguna eða neina þætti þess sem gerist nú við fjölmiðla eða aðra en lærða menn. Þar til þeir hafa náð niðurstöðu og páfi verið kjörinn eru þeir læstir inni og þá fyrst má ræða um heppilega kandidata við aðra kardínála innbyrðis og hefja einhvers konar kosningabaráttu. Er kjörfundur er formlega hafinn má honum ekki ljúka eða kardinálar að yfirgefa hann fyrr en niðurstaða er komin, eins og fyrr segir. Fyrir þarf að liggja bæði stór og gild ástæða fyrir brotthvarfi kardinála frá þeirri stundu. Þrjár aðferðir eru til að velja nýjan páfa. Í fyrsta lagi er sú aðferð sem algengust er: að velja páfa með beinni kosningu. Frambjóðandi verður þá að hljóta 2/3 allra atkvæða til að vera kjörinn, í öðru lagi er hægt að kjósa páfa með upphrópun. Þá eru allir kardínálarnir sammála um hver skuli taka við sem páfi og kalla nafn hans upphátt. Að lokum er hægt að velja páfa með málamiðlun. Atkvæðagreiðslan fer fram í Sixtínsku kapellunni. Eftir að samstaða hefur náðst eru atkvæðaseðlarnir brenndir. Reykur leggur þá upp yfir Péturstorgið til marks um niðurstöðuna - páfi hafi verið kjörinn.

Söguleg tíðindi hafa átt sér stað. Páfi til tæplega þriggja áratuga er fallinn frá. Arfleifð hans og verk, forysta í trúarlegum málefnum og friðarbarátta hans verður lengi í minnum höfð. Einn merkasti maður 20. aldarinnar, leiðtogi eins stærsta trúarhóps mannkyns hefur kvatt þennan heim. Við minnumst nú þessa merka manns og lútum höfði og hugsum til persónulegs styrks, einbeitni hans og staðfestu í því verkefni seinustu árin að þjóna Guði og söfnuði sínum til hinstu stundar, þrátt fyrir hnignandi heilsu. Merkismaður er fallinn í valinn. Megi almáttugur Guð blessa þennan dygga þjón sinn. Minning hans mun lengi lifa, í huga okkar sem lifðum það að fylgjast með verkum hans og ekki síður fyrir komandi kynslóðir í sögubókum framtíðarinnar. Jóhannes Páll páfi II var eitt af stórmennum mannkynssögunnar.

Saga dagsins
1725 Eldgos hófst í nágrenni eldfjallsins Heklu í Haukadal og fylgdu því mjög snarpir jarðskjálftar
1928 Jóhanna Magnúsdóttir hlaut lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna - starfrækti lyfjaverslun í 33 ár
1974 Leikarinn Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Harry Stoner í Save the Tiger - hann hlaut óskarinn áður fyrir túlkun sína á óbreyttum Pulver í Mister Roberts árið 1954. Lemmon var einn af bestu leikurunum í kvikmyndasögu 20. aldarinnar og varð rómaður fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Hann lést úr krabbameini í júní 2001
1982 Argentína ræðst inn í Falklandseyjar, breskt yfirráðasvæði við S-Atlantshaf - leiddi þessi innrás Argentínumanna til hernaðar Breta gegn þeim. Lauk þeim átökum með fullnaðarsigri breska hersins
2005 Jóhannes Páll páfi II lést í Vatíkaninu í Róm, 84 ára að aldri, eftir mikil veikindi - Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar

Snjallyrðið
When you wonder about the mystery of yourself, look to Christ, who gives you the meaning of life. When you wonder what it means to be a mature person, look to Christ, who is the fulfillness of humanity. And when you wonder about your role in the future of the world look to Christ.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)