George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina í gær vegna Íraksmálsins og fór yfir stöðu mála. Skv. skoðanakönnunum hefur málið aldrei verið óvinsælla en nú og forsetinn er að mælast með minnsta persónufylgi sitt í skoðanakönnunum í langan tíma. Í ræðu sinni sagði forsetinn að þær fórnir sem færðar hefðu verið í stríðinu gegn hryðjuverkaöflum í heiminum væru þess virði. Kom fram að ekki stæði til að mati hans og stjórnar sinnar að Bandaríkin breyttu um stefnu í málinu. Eins og vel kom fram í nýjustu könnun CBS-sjónvarpsstöðvarinnar fara efasemdir bandarísks almennings um réttmæti stríðsins mjög vaxandi. Bush sagði að það væri skiljanlegt að málið reyndi á þolrif Bandaríkjamanna en það sem til þyrfti væri tími, en ekki breytingar á stefnu málsins. Tek ég undir mat forsetans. Bandaríkjamenn verða að leiða ferlið allt til enda, en ekki bara að hluta. Eins og fram hefur komið er að nást árangur í landinu í kjölfar kosninganna í janúar en þetta tekur allt sinn tíma. Eins og kom fram hjá Bush stendur bandaríski herinn frammi fyrir óvini sem hefði gert Írak að þungamiðju hryðjuverkastríðsins sem háð hefur verið. Demókratar voru lítt hrifnir með ræðuna og kom fram í máli helstu leiðtoga þeirra í þinginu að forsetinn vissi ekkert hvert hann væri að fara. Repúblikanar í þinginu tóku hinsvegar undir ræðu forsetans og sögðu stefnu stjórnarinnar hina einu réttu.
Ronald Reagan fyrrum forseti Bandaríkjanna, er merkilegasti Bandaríkjamaður sögunnar ef marka má niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar í Bandaríkjanna. Tæplega tvær og hálf milljón Bandaríkjamanna mun hafa tekið þátt í könnuninni sem America Online og Discovery Channel stóðu fyrir. Sex forsetar Bandaríkjanna voru á meðal tíu efstu í kjörinu. Þeirra á meðal var George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sem varð í sjötta sæti. Kannanir af svipuðum toga hafa verið haldnar í öðrum löndum. T.d. var Charles De Gaulle var valinn í Frakklandi, Konrad Adenauer í Þýskalandi og Sir Winston Churchill í Bretlandi. Ronald Reagan fæddist 6. febrúar 1911. Hann ávann sér frægð fyrst í stað sem leikari og var um tíma forseti SAG-leikarasamtakanna. Hann hætti leik í byrjun sjöunda áratugarins og hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann gaf kost á sér til ríkisstjórakjörs í Kaliforníu árið 1966 fyrir Repúblikanaflokkinn og náði kjöri. Sat hann á stóli ríkisstjóra í 8 ár, til ársins 1975. Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1980. Sat hann í embætti í tvö kjörtímabil, átta ár. Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gagn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Reagan tilkynnti í yfirlýsingu í nóvember 1994, að hann þjáðist af hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer. Hann lést 5. júní 2004.
Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Streetcar Named Desire sem er byggð á samnefndri sögu eftir Tennessee Williams, sem var ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann myndina. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu og einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.
Í ferð minni til Bandaríkjanna í október 2004 keypti ég bókina American Evita: Hillary Clinton's Path to Power. Þar er fjallað um feril Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmanns í New York og fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, bæði sem stjórnmálamanns og eiginkonu stjórnmálamanns. Ekki er síður beint sjónum að persónulegu hliðinni á manneskjunni. Þetta er mjög athyglisverð og vönduð bók. Reyndar er jafnvel erfitt fyrir áhugamenn um bandarísk stjórnmál að kortleggja Clinton-hjónin og persónur þeirra til fulls. Er í bókinni að finna mjög merkilegar lýsingar á þeirri krísu sem hjónaband þeirra gekk í gegnum vegna Lewinsky-málsins á tímabilinu 1998-1999, þegar almenn umræða um það var sem mest. Er mjög merkilegt reyndar að bera saman þessa bók og sjálfsævisögu Hillary, Living History. Báðar eru áhugaverðar en óneitanlega er meira krassandi í fyrrnefndu bókinni og fara þar yfir ýmsa hluti sem Hillary skautar allhressilega yfir, eins og t.d. framhjáhald hennar og eiginmannsins og stöðu tilvistar hjónabands þeirra í kjölfarið. Er merkilegt einnig að kynnast miklum skapköstum Hillary, sem eru allverulega til staðar. Semsagt; spennandi og áhugaverð bók um ævi tveggja stjórnmálamanna sem ætti að henta vel öllum alvöru stjórnmálaáhugamönnum.
Bresku grínteiknararnir hjá Guardian eru alveg magnaðir að sjá pólitísku stöðuna með hnitmiðuðum hætti. Hér lýsa þeir ástandinu við Persaflóann nokkuð vel. :)
Saga dagsins
1952 Ásgeir Ásgeirsson bankastjóri og fyrrv. forsætisráðherra, kjörinn forseti Íslands. Ásgeir hlaut 48% greiddra atkvæða í kosningunum og sigraði þar naumlega sr. Bjarna Jónsson dómkirkjuprest.
1974 Isabel Peron tekur við embætti forseta Argentínu, af eiginmanni sínum, Juan Peron, vegna veikinda hans. Hún tók formlega við embættinu við lát hans 1. júlí. Henni var komið frá völdum í valdaráni árið 1976 og var ríkisstjórn hennar sökuð þá um mikla óstjórn og glundroða í Argentínu.
1980 Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands - hún hlaut tæp 34% greiddra atkvæða og sigraði Guðlaug Þorvaldsson sáttasemjara, naumlega. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum forsetakosningum. Sögulegur áfangi í jafnréttisbaráttu.
1996 Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður, kjörinn forseti Íslands, með 41% greiddra atkvæða.
2003 Óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn deyr, í Old Saybrook í Connecticut, 96 ára að aldri. Á 60 ára leikferli sínum hlaut hún fjórum sinnum óskarsverðlaun og var ennfremur tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik. Árið 2001 var Katharine Hepburn kjörin besta leikkona tuttugustu aldarinnar af hinu virta bandaríska kvikmyndariti Empire.
Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.
Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.
Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)
<< Heim