Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um ráðstefnu stjórnarskrárnefndar um helgina. Ráðstefnunni var ætlað að leggja grunn að upplýstri umræðu um stjórnarskrána og umbætur á henni og kalla eftir hugmyndum að breytingum. Fer ég yfir stöðu mála og kynni erindi SUS sem lagt var fram á ráðstefnunni og ennfremur mínar skoðanir á þessu ferli og þeim breytingum sem ég tel að eiga verði sér stað á stjórnarskránni. Hvet ég fólk til að fara yfir erindi SUS og mat okkar á þessi mál. Hvað mig persónulega snertir hef ég jafnan verið þeirrar skoðunar að breyta verði embætti forseta Íslands og rammanum utan um það, eigi það að vera til áfram. Að mínu mati er rétt eftir það sem gekk á í samskiptum forseta og Alþingis á síðasta ári að breyta mörgum köflum stjórnarskrárinnar, einkum stjórnarskrárþáttum tengdum embætti forseta Íslands. Það getur ekki gengið að ég tel lengur að sá skuggi sé yfir störfum Alþingis Íslendinga að einn maður geti með geðþóttavaldi stöðvað af mál sem meirihluti lýðræðislega kjörins þings til fjögurra ára, samþykkir með réttmætum hætti. Það er skoðun mín nú sem ávallt fyrr að forseti eigi ekki að hafa það vald sem 26. greinin gefur í skyn að hann hafi.
- í öðru lagi fjalla ég um stöðuna í ESB í stjórnarskrárferlinu. Nú hafa Bretar ákveðið að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá ESB, eftir að Frakkar og Hollendingar höfðu fellt hana í slíkum kosningum. Mikil stjórnmálakrísa blasir við ESB nú í aðdraganda leiðtogafundar ESB í næstu viku. Blasir við að Frakkar hafi hjálpað Blair og stjórn hans, enda hefði tap í slíkri kosningu á næsta ári getað orðið pólitískur banabiti hans. Lengi vel hefur Blair sagt að Bretland myndi veikjast verulega innan ESB ef þjóðin hafnaði tillögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er þó ljóst að hann þarf ekkert að hugsa meira um þetta mál. Kosningunni hefur verið frestað. Frakkar og Hollendingar hafa bjargað honum úr erfiðri og vandræðalegri stöðu, enda hefði staða hans veikst til muna ef hann hefði tapað kosningu, enda veiktist þingmeirihluti hans mjög í þingkosningunum fyrir rúmum mánuði. Það er því hætt við að breska stjórnin og forystumenn hennar horfi bjartsýn fram á veginn án þess að þurfa að hafa pólitískar áhyggjur af þessu máli.
- í þriðja lagi fjalla ég um óráðsíuna í Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig fyrirtækinu hefur verið beitt í sukk og áhættufjárfestingar í hin ólíklegustu gæluverkefni seinustu ár undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, innan R-listans. Alfreð hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug. Fer ég yfir verk hans á ýmsum sviðum og spyr vinstrimenn í borginni hvort þeir ætli sér að kjósa Alfreð til valda aftur ef sameiginlegt framboð verður við lýði og tryggja með því áhrif hans í sukkinu áfram. Hann situr í umboði allra þeirra sem styðja hina flokkana þarna inni - gleymum því ekki!
Á sunnudögum í sumar mun ég skrifa um eina kvikmynd sem tekur með einum hætti eða öðrum á pólitísku efni. Það er við hæfi á sunnudegi að nota tækifærið og skrifa um eina mynd tengda pólitík með ítarlegum hætti. Ef þið viljið sjá skrif um einhverja mynd eða koma með komment á þessi skrif sendið mér þá tölvupóst.
Í kvikmyndinni Nixon fjallar óskarsverðlaunaleikstjórinn Oliver Stone um feril Richard Nixon 37. forseta Bandaríkjanna. Jafnvel þótt hann hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Með þessari hispurslausu mynd reynir Stone að varpa ljósi á þennan einstaka mann sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér. Sjónarhorn Stone er hreinskilið og persónulegt en snýst að sjálfsögðu að miklu leyti um aðdragandann að falli Nixons úr valdastóli, hið dularfulla innbrot í Watergate-bygginguna í júnímánuði 1972, til þess tíma er hann neyddist til að segja af sér embætti í ágúst 1974, fyrstur bandarískra forseta.
En Stone skyggnist einnig dýpra inn í líf hans. Hann fer inn í karakterinn, við sjáum hvernig hann mótast úr smástrák í litlum bæ og til þess manns sem síðar varð valdamesti maður heims. Æska hans var blandin gleði en einnig sárum trega. Hann var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum. Nixon bar þess merki alla tíð að vera beiskur en eitilharður baráttumaður, hann lét ekki undan nema hann nauðsynlega þyrfti til. Við fylgjumst með honum í myndinni allt frá því er hann óx úr grasi og sjáum hvernig hann fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna, varð þingmannsefni 33 ára, öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972.
Meginpartur myndarinnar er hneykslismálið sem kaldhæðnislega hófst helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu.
Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir Anthony Hopkins túlkar Nixon af stakri snilld í þessari mynd. Þó hann sé hvergi nærri alveg eins og Nixon í öllum töktum eða fasi verður hann samt Nixon með merkilegum hætti. Mörgum þótti skotið hátt yfir markið þegar hinn breski leikari með sinn ekta breska hreim var valinn til að leika hinn hrjúfa forseta með áberandi suðurríkjaframburð sinn. En Hopkins er enginn venjulegur leikari og túlkar forsetann með mikilli snilld. Frábær leikur hjá ótrúlegum leikara. Joan Allen fer á kostum í lágstemmdri rullu en stórbrotinni engu að síður er hún túlkar Pat Nixon. Hún var alltaf hinn þögli félagi forsetans, hún var við hlið hans í blíðu og stríðu allt til loka. Þau leika hjónin með miklum bravúr. Þau passa vel saman og fúnkera þannig. Þó hjónaband þeirra hafi oft verið stormasamt var það alltaf ástríkt.
Það sést vel á myndinni að hún er verulega gloppótt sögulega séð. Sumum hlutum er sleppt í frásögninni af ævi Nixons eða hreinlega skáldað í eyðurnar. Því ber að taka sagnfræði Stone með mikilli varúð. Þrátt fyrir þennan stóra galla er myndin góð. Henni tekst umfram allt að lýsa persónu Nixons. Hún var margbrotin, svo vægt sé til orða tekið. Segja má að hann hafi verið hið minnsta þrjár persónur, eða svo segja þeir sem stóðu honum næst: sá blíði, sá íhuguli og sá veruleikafirrti. Sá þriðji hafi eyðilagt feril hans, sá annar hafi íhugað um framtíðina þegar ferillinn var orðinn það skaddaður að honum varð ekki bjargað og sá fyrsti hafi tekið stjórnina við að gera upp ferilinn við lokin. Undir lokin hafði Nixon tekist að endurheimta orðspor sitt, var orðinn fyrirlesari og virtur álitsgjafi á málunum. Forysta hans í utanríkismálum verður það sem hans verður minnst fyrir utan við Watergate og sá vettvangur var honum gjöfull undir lokin.
Öllu er þessu lýst vel í myndinni að mínu mati. Hún tekur vel á meginpunktum ævi Nixons. Stone er oft óvæginn, tekur Nixon og karakter hans og kafar algjörlega inn í rótina. Það er bæði honum og arfleifð hans mikilvægt. Þó skotið sé mjög glaðlega og oft glannalega er þessi mynd nauðsynleg viðbót í umfjöllun um ævi Nixons. Fjöldi stórleikara fer með hlutverk í myndinni og má þar nefna James Woods, Ed Harris, Bob Hoskins, J.T. Walsh, Mary Steenburgen og Paul Sorvino. Öll skila þau sínu vel og eftir stendur hin besta mynd. Allavega ómissandi mynd fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálasögu 20. aldarinnar og því hver var aðdragandinn að afsögn Nixons af forsetastóli og ekki síður hvernig hann varð stjórnmálamaður í fremstu röð en glutraði því frá sér með eigin afglöpum.
Er merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans og Watergate. En þessi mynd er mikilvægur þáttur í ævi þessa manns og hana verða allir að sjá. Umfram allt vegna þess að þetta er sýn pólitísks andstæðings Nixons á hann. Það sést umfram allt að hún er eftirminnileg þrátt fyrir að vera sagnfræðilega fjarri því rétt að öllu leyti. En þrátt fyrir það er hún ómissandi, allavega fyrir þá sem hafa áhuga á sögunni og ekki síður forsetatíð þessa eina forseta Bandaríkjanna sem hefur sagt af sér þessu valdamesta embætti heims.
Saga dagsins
1935 Huey Long öldungadeildarþingmaður, flytur lengstu ræðu í sögu þingsins - hún stóð í 15 tíma.
1987 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, flytur eftirminnilega ræðu við Berlínarmúrinn og skorar á Mikhail Gorbatsjov að stuðla að falli múrsins - hann féll 9. nóvember 1989 og hafði þá staðið í 28 ár.
1991 Boris Yeltsin kjörinn forseti Rússlands - var umdeildur þjóðarleiðtogi en náði þó að ávinna sér virðingu vestrænna þjóðarleiðtoga. Yeltsin sagði svo af sér 31. desember 1999 til að tryggja vænlega stöðu valins eftirmanns síns, Vladimir Putin, sem tók við forsetaembætti og var kjörinn í mars 2000.
1994 Nicole Brown Simpson og Ron Goldman voru myrt með hrottalegum hætti við heimili hennar í Los Angeles. Fyrrum eiginmaður Nicole, O.J. Simpson, var sakaður um morðin og réttað yfir honum í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva - var umdeilt er hann var sýknaður af ákærunum í október 1995.
2003 Óskarsverðlaunaleikarinn Gregory Peck deyr á heimili sínu í Los Angeles, 87 ára að aldri - Peck var einn besti leikari sinnar kynslóðar og átti glæsilegan feril og túlkaði fjölda svipmikilla karaktera.
Snjallyrðið
The long and winding road
that leads to your door,
will never disappear.
I've seen that road before
It always leads me here.
Leads me to your door.
The wild and windy night
that the rain washed away.
Has left a pool of tears,
crying for the day.
Why leave me standing here
let me know the way.
Many times I've been alone
and many times I've cried.
Any way you'll never know
the many ways I've tried.
But still they lead me back
to the long winding road.
You left me standing here
a long long time ago.
Sir Paul McCartney tónlistarmaður (1942) (The Long and Winding Road)
<< Heim