Seinustu vikur hefur umræða hafist að nýju um söluna á ríkisbönkunum fyrir þrem árum. Það er merkilegt að þetta sé enn umræðuefni er svo langt er frá liðið. Fyrir nokkru birtist greinaflokkur í Fréttablaðinu um málið og nú seinustu daga hefur verið tekist á um hvort að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafi verið vanhæfur í málinu vegna tengsla sinna við fyrirtækið Skinney-Þinganes á Hornafirði. Það fyrirtæki er eitt þeirra sem eiga fyrirtækið Hesteyri sem er stærsti hluthafinn í Keri sem var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma. Erfði Halldór hlut í Skinney-Þinganesi við fráfall foreldra sinna og bróðursonur hans er forstjóri þess og tvö systkini hans sitja í stjórn fyrirtækisins. Hefur stjórnarandstaðan látið hörð orð falla og talað um að forsætisráðherra hafi verið vanhæfur og átt að víkja sæti vegna þess á sínum tíma. Hafa mörg hvöss orð fallið og mikil læti verið seinustu dagana vegna þess. Í kjölfar umræðu um málið í síðustu viku hóf Ríkisendurskoðun rannsókn á hæfi forsætisráðherra í söluferli ríkisbankanna vegna þessara tengsla sem um ræðir. Var það rétt ákvörðun og til marks um að kerfið virkaði með þeim hætti að farið væri yfir þetta fljótt og örugglega.
Í gær boðaði Halldór svo til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Boðað var til fundarins með skömmum fyrirvara. Boð um hann barst til fjölmiðla laust fyrir hálffimm og hófst hann laust eftir fimm. Þar kynnti forsætisráðherra niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar það mat að forsætisráðherra hafi verið hæfur til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum. Halldór tók því af skarið og kynnti sjálfur niðurstöðuna. Eflaust er það vegna þess að málið skiptir pólitískan feril hans miklu og hefði honum varla verið sætt í forystusveit stjórnmála ef Ríkisendurskoðun hefði komist að annarri niðurstöðu. Þessi niðurstaða er afdráttarlaus, það er mat Ríkisendurskoðunar að Halldór hafi ekki verið vanhæfur. Er farið ítarlega yfir málið hvað varðar aðkomu Halldórs að því fyrir þrem árum í skýrslunni. Er hún athyglisverð lesning. Reyndar er mikilvægt að hún er afdráttarlaus og þar kemur fram afgerandi mat á því að hann hafi verið hæfur. Halldór sagði er hann svaraði spurningum fjölmiðlamanna eftir að hafa lesið niðurstöður skýrslunnar að hann hefði aldrei efast um hæfi sitt í málinu.
Fram kom þó það mat hans að honum hefði sárnað umfjöllun fjölmiðla um málið og hann ætlaðist til þess að fjölskylda hans yrði látin í friði vegna þessa máls. Eins og fram kemur í skýrslunni var forsætisráðherra í veikindaleyfi 14. október til 26. nóvember 2002. Hann greindist með krabbamein það haust og var frá vegna þess nokkrar vikur og því ekki beinn þátttakandi að ferlinu meðan á veikindaleyfinu stóð. Kemur reyndar fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þótt hann hefði ekki verið í veikindaleyfi hefði hann ekki verið vanhæfur til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Það er því ljóst að Ríkisendurskoðun telur Halldór ekki með nokkru móti geta talist vanhæfur til að fjalla um söluferlið. Er það mín skoðun persónulega eftir að hafa farið yfir þetta mál og kynnt mér skýrsluna að Halldór hafi ekki verið vanhæfur í málinu. Hinsvegar eru þessi tengsl óheppileg, einkum og sér í lagi fyrir Halldór sjálfan. Auðvitað vaknar spurning um vanhæfi í svona stöðu. En eftir stendur þó að ég tel að Halldór hafi ekki staðið óeðlilega að málum. Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Halldóri í stjórnmálum tel ég hann heiðarlegan og grandvaran stjórnmálamann sem vinni verk sín af heilindum.
Greinilegt er að stjórnarandstöðunni hugnaðist ekki niðurstaðan. Það mátti skilja á þeim fulltrúum hennar sem hafa tjáð sig að Ríkisendurskoðun sé aðeins marktæk sé niðurstaðan þeim í hag. Að mínu mati er Ríkisendurskoðun marktæk stofnun sem skiptir miklu máli í stjórnkerfinu. Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og stendur að mínu mati fyrir trúverðugleika og hlutlægni. Hún skiptir sköpum. Það er merkilegt að hlusta á suma stjórnmálamenn í andstöðuhópnum sem tala með þeim hætti að Ríkisendurskoðun gangi erinda tiltekinna manna og ekkert sé að marka verk hennar og skýrslu t.d. í dag sem fyrr er lýst. Ég tel þessa niðurstöðu ríkisendurskoðanda fullnægjandi, enda er hlutverk hans með þeim hætti að honum á að treysta. Merkilegt er að sjá t.d. nýkjörinn formann Samfylkingarinnar og þingmenn stjórnarandstöðunnar sem talað hafa um niðurstöðuna. Þar er talað um Ríkisendurskoðun með hreint ótrúlegum hætti. Það virðist ekkert að marka hana að þeirra mati því niðurstaðan varð þeim ekki hliðholl. Reyndar virðist klofningur vera innan Samfylkingarinnar um þetta mál, enda sagði einn þingmaður flokksins í spjallþætti á Stöð 2 í gærkvöldi að Ríkisendurskoðun nyti trausts hans. Um það eru ekki allir Samfylkingarmenn sammála.
Eins og fram kemur réttilega í skýrslunni var meginhlutverk ráðherranefndar um einkavæðingu sem Halldór átti sæti í að hafa yfirstjórn með einkavæðingarferlinu. Þeirra var ekki að taka ákvarðanirnar um afgreiðslu einstakra mála, stjórnsýsluákvarðana í málinu. Það er því ljóst að ríkisendurskoðandi segir í niðurstöðum sínum að heimildin til að selja hlutbréf í bönkunum hafi verið í höndum Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Segja má því að forsætisráðherra standi mun sterkari eftir er þessi skýrsla liggi fyrir. Allavega var mikilvægt að yfir þessi mál yrði farið og mat Ríkisendurskoðunar kæmi fram í ljósi frétta seinustu daga og vikna. Hvað stjórnarandstaðan gerir nú er þetta liggur fyrir er svo næsta umhugsunarefni. Það verður að ráðast á næstu dögum og vikum hvert framhald málsins, ef framhald verði þ.e.a.s. eftir afgerandi niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, stofnunar sem vinnur í umboði þingsins. Hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir Ríkisendurskoðun og hlutverki hennar og tek því niðurstöðunni með þeim hætti.
Í gær var birt opinberlega myndband þar sem Saddam Hussein fyrrum forseti Íraks, er yfirheyrður. Ekki var neitt hljóð á myndunum en greinilegt að þar á Saddam orðaskipti við fulltrúa dómsyfirvalda í Írak sem spyr hann spurninga. Samkvæmt upplýsingum sem gefnar voru upp var hann er upptakan var gerð spurður spurninga um fjöldamorð á íbúum smábæjarins Dujail árið 1982, en það var skömmu eftir að Saddam hafði þar verið sýnt banatilræði. Saddam er mjög einbeittur að sjá á myndunum. Hann baðar út höndum og brýnir raustina og spyr til baka af miklum krafti. Hann er á myndbandinu í dökkum jakkafötum og fráhnepptri hvítri skyrtu án bindis. Er þetta í fyrsta skipti sem einræðisherrann fyrrverandi sést opinberlega frá því að breska dagblaðið The Sun birti myndir af honum nýlega þar sem hann var á brókinni einni fata. Er ekki vitað hvernig blaðið fékk þær umdeildu myndir, en ljóst að leki þær komi frá liðsmanni í bandaríska hernum sem vinnur í fangabúðunum þar sem Saddam dvelst. Sú myndbirting leiddi til mikilla deilna um réttindi stríðsfanga og talin hafa verið neyðarleg fyrir Saddam og leitt til reiði meðal araba.
Réttarhöld munu væntanlega hefjast yfir Saddam innan tveggja mánaða. Er hann sakaður um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu. Lögmenn Saddams hafa nú krafist þess að réttarhöldin yfir honum verði ekki í Írak, heldur öðru landi sem tengist honum ekki. Hefur þá helst verið rætt um Svíþjóð, Haag eða Vín. Sænsk yfirvöld hafa þegar boðist til að leyfa Saddam að afplána dóm sinn í Svíþjóð. Biljana Plavsic fyrrum forseti Bosníu-Serba afplánar nú ellefu ára fangelsisdóm sinn í Svíþjóð, en hún var dæmd fyrir stríðsglæpi í stríðinu í Júgóslavíu á tíunda áratugnum. Saddam er hvergi banginn og algjörlega ófeiminn við að sýna skap sitt og forna stjórnsemistakta. Hann kemur mjög svipað fyrir og 1. júlí 2004 er hann kom í fyrsta skipti fyrir dómara. Hann telur sig enn vera þann sem valdið hafi og ráði lögum og lofum. Það er varla undrunarefni. Í 24 ár var Saddam Hussein meðhöndlaður sem Guð í Írak og hafði slíka stöðu að orð hans voru aldrei véfengd. Það hljóta að vera viðbrigði fyrir slíkan mann að vera kominn í stöðu hins grunaða og þurfa loks að svara til saka fyrir þá glæpi sem hann fyrirskipaði og stóð fyrir.
Þegar talað er um refsingu til handa Hussein kemur vart nema tvennt til greina: dauðadómur eða lífstíðarfangelsi. Ég hef jafnan verið mjög andsnúinn dauðarefsingu og talið ekkert réttlæta beitingu hennar nema um væri að ræða fjöldamorðingja eða einræðisherra sem hafa kúgað og svívirt þjóð og misnotað hana. Saddam Hussein ætti að passa vel í þessum flokki, enginn deilir um eðli viðurstyggilegra glæpaverka hans og stjórnarinnar sem hann leiddi. Það er því ómögulegt að útiloka dauðarefsingu til handa Saddam, algjörlega útilokað. Hinsvegar tel ég hana ekki æskilega, það væri mun nær að láta þennan fyrrum einræðisherra sitja í fangaklefa til dauðadags.
Bandaríska poppgoðið Michael Jackson var í gærkvöldi sýknaður af öllum þeim tíu ákæruatriðum sem á hann höfðu verið bornar um kynferðislega misnotkun og áreitni við 13 ára strák. Hefði Jackson verið sakfelldur fyrir öll tíu ákæruatriðin hefði hann átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi. Það tók kviðdóminn viku að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Hann starfaði til föstudags en kom svo að nýju saman í dag. Eftir stutta vinnu í dag lá niðurstaðan fyrir. Réttarhöldin voru mjög langvinn, stóðu vel á fjórða mánuð og mörg vitni höfðu verið kölluð fyrir réttinn. Réttarhöldin yfir Jackson sem er einn af vinsælustu poppsöngvurum seinustu áratuga í Bandaríkjunum voru harðskeytt og beitt. Ljóst var að niðurstaðan hefði úrslitaáhrif á framtíð Jacksons. Hefði hann tapað málinu hefði tónlistarferli hans nær örugglega verið lokið og heilsa hans hefði án vafa beðið hnekki af langri fangavist. Jackson hefur látið mjög á sjá seinustu ár og er aðeins orðinn skugginn af tónlistarmanninum sem sigraði heiminn með plötunum Thriller og Bad á níunda áratugnum. En nú er þetta mál að baki og fróðlegt að sjá hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir þennan umdeilda söngvara.
Í gærkvöldi horfði ég á spænsku óskarsverðlaunamyndina Todo sobre mi madre (All about my mother), sem er ein besta mynd leikstjórans Pedro Almodóvar. Myndir hans (t.d. Women on the Verge of a Nervous Breakdown og High heels) hafa fyrir margt löngu öðlast sess í evrópskri kvikmyndamenningu. Í þessari mynd segir frá hjúkrunarkonunni Manuelu sem verður fyrir því mikla áfalli að missa 18 ára son sinn í hræðilegu bílslysi. Þegar hún er að fara í gegnum eigur hans verður henni ljóst að hans æðsta ósk í lifanda lífi var að fá að kynnast föður sínum sem Manuela hafði yfirgefið áður en hann fæddist. Þetta verður til þess að Manuela ákveður að leggja land undir fót og freista þess að hafa uppi á barnsföður sínum. Sú leit á eftir að snúast upp í merkilega lífsreynslu fyrir Manuelu. Stórfengleg mynd - ekta spánskt portrett sem lýsir þjóðarsálinni og lífsmynstrinu og ennfremur örlögum venjulegra manneskja sem lenda í mikilli sálarkreppu og eiga í virkilegum erfiðleikum og eiga erfitt með að halda áfram en finna réttu leiðina og kynnast lífinu með nýjum hætti útfrá nýjum forsendum. Að mínu mati er Todo sobre mi madre besta mynd Almodóvars. Þetta er heilsteypt og manneskjuleg mynd - mynd með tilfinningu.
Í gær hittu forystumenn sveitarfélaganna hér fyrir norðan, Akureyrar, Húsavíkur og Skagafjarðar, fulltrúa Alcoa og iðnaðarráðuneytisins í Reykjavík. Þar var rætt um næstu skref í stóriðjumálum hér fyrir norðan. Er mjög ánægjulegt að sveitarfélögin hafa náð grunni til að ræða málin saman á og að málið hafi þokast áfram - rétta leið. Það er allavega mjög gott að umræður séu komnar af stað í þessum efnum með viðkomandi aðilum. Í gær bárust svo þær fréttir að A-Húnvetningar hafi nú áhuga á stóriðju, sem vekur athygli. Það er svosem varla furða að flestallar byggðir hafi áhuga á stóriðju í sitt hérað. Í gær var svo haldin ráðstefna um áliðnað á Nordica-hóteli í Reykjavík. Athygli vöktu þar mótmæli svokallaðra náttúruvina, velþekktra vinstrigrænna öllu heldur. Mótmælin fólust að mestu í þögulli mótmælastöðu við hótelið en ennfremur gerðu viðkomandi sér lítið fyrir og fóru að fánastöngum við hótelið þar sem þjóðfánar voru við hún og drógu þá niður í hálfa stöng. Ekki er hægt að segja að þessi verknaður kommanna hafi verið þeim til sóma, enda bar hann vitni um barnaskap á miklu stigi.
Saga gærdagsins
1870 Gránufélagið stofnað á Akureyri, til að efla innlenda verslun - það sameinaðist KEA árið 1912.
1922 Gengisskráning íslensku krónunnar hófst - íslenska krónan hafði áður fylgt dönsku krónunni.
1941 Sigurður Jónsson kaupmaður, gaf ríkinu Bessastaði á Álftanesi - varð með því forsetabústaður.
1971 Viðreisnarstjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, féll eftir rúmlega tólf ára valdasetu.
1973 Undirritað samkomulag um frið í Víetnam, eftir mjög blóðuga styrjöld í landinu í tæpan áratug.
Saga dagsins
1940 Þjóðverjar hernema París - sókn nasista í seinna stríðinu var ekki stöðvuð að fullu fyrr en í Sovétríkjunum árið 1942. Eftir það misstu þeir hvert vígið eftir annað, þar til veldi þeirra féll 1945.
1949 Þyrlu flogið á Íslandi í fyrsta skipti - hún var aðallega notuð til björgunarstarfa og strandgæslu.
1975 Norræna kom til Seyðisfjarðar í fyrsta skipti - ferjusamgöngur milli Íslands og Færeyja hefjast.
1982 Samið um vopnahlé í Falklandseyjastríði Breta og Argentínumanna - 800 manns létust á þeim mánuðum sem átökin stóðu en Bretar unnu stóran sigur í samningunum um vopnahlé og náðu sínu fram undir forystu Margaret Thatcher sem hikaði hvergi á meðan átökunum stóð og sannaði afl sitt.
1998 Sjálfstæðisflokkurinn tekur sæti í meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar - Kristján Þór Júlíusson tekur við embætti bæjarstjóra. Kristján var áður bæjarstjóri á Dalvík og Ísafirði. Í kosningum í maí 1998 hafði flokkurinn unnið sinn stærsta sigur þar, hlotið rúm 40% atkvæða og fimm bæjarfulltrúa.
Snjallyrðið
Í daganna rás hef ég draumanna notið
um dáðríkast mark sem ég aldrei fæ hlotið.
Þeir yljuðu mér þó ef stóð ég í ströngu.
og stríðið mér léttu á ævinnar göngu.
Og eins er í vetrarins myrkasta veldi
að vorþráin sterk fer um hjarta mitt eldi.
Ég angan þess finn þó að úti sé myrkur,
þess yndi í fjarska er huganum styrkur.
Þótt ár hafi liðið og týnzt út í tómið,
þá tær vakir minning um fegursta blómið.
Því ennþá í ljóma þá vitjar mín vorið.
Það vekur og gleður og léttir mér sporið.
Helgi Seljan fyrrum alþingismaður (1934) (Vordraumur)
<< Heim