Hæstiréttur staðfesti í gær þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að ógilda úrskurð umhverfisráðherra, sem staðfesti í apríl 2003 þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að álver Alcoa í Reyðarfirði þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Í dómi sínum vísar rétturinn hinsvegar frá kröfum Hjörleifs Guttormssonar fyrrum iðnaðarráðherra, um að ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis álversins yrði ógilt. Samhliða því var hafnað kröfu Hjörleifs um að sú ákvörðun umhverfisráðherra yrði ógilt að vísa frá kæru Hjörleifs varðandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfsleyfið. Það er ekki hægt að segja annað en að þessi dómur sé nokkur vonbrigði, fyrir okkur sem höfum stutt ötullega uppbygginguna á Austfjörðum og tekið pólitískan slag um þau mál víða og skrifað um málið, til stuðnings Austfirðingum. Hinsvegar er þetta hvergi nærri eins slæmur úrskurður og kom frá Héraðsdómi Reykjavíkur í janúarmánuði. Dæmt er gegn Hjörleifi í nokkrum liðum og niðurstaðan hvergi nærri eins slæm og í fyrri úrskurði. Því ber að sjálfsögðu að fagna.
Þessi niðurstaða hefur engin teljanleg áhrif á dæmið. Framkvæmdir halda að sjálfsögðu áfram fyrir austan af krafti. Í þessum dómi er eins og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, hefur bent á svo réttilega ekki verið að fella úr gildi starfsleyfið sjálf. Ég sé því eins og ráðamenn og tengdir aðilar ekki annað í stöðunni en haldið verði áfram framkvæmdum. Hinsvegar muni nýtt umhverfismat þá auðvitað fara fram. Þessi niðurstaða kemur nær eingöngu til vegna þess að formskilyrði hafi ekki verið fullnægt. Í þessum dómi er ekkert fjallað um gildi leyfa sem stjórnvöld hafa veitt. Þau eru því auðvitað enn í fullu gildi. Þessi staða mála mun því ekki tefja þær framkvæmdir sem hafnar eru. Eins og fram kom á vefnum í vikunni fór ég austur á firði um sjómannadagshelgina. Var mjög ánægjulegt að kynna sér uppbygginguna sem þar á sér stað - á öllum sviðum. Þar ríkir nú bjartsýni í stað svartsýni og gleði í stað kvíða. Því er ekki hægt að lýsa með nógu öflugum orðum að fara austur núna.
Hvet ég alla sem þetta lesa til að fara austur í sumarfríinu og kynna sér þessi mál og þá uppbyggingu sem á sér stað. Það er mikið gleðiefni að fylgjast með henni.
Horfði í gærkvöldi á Rear Window, hið frábæra meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, frá árinu 1954. Hitch var meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Þessi mynd er skólabókardæmi um það. Í Rear Window segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í vinnuslysi, neyðist því til að vera heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast með mannlífinu hjá nágrönnunum. Uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Þær einu sem virðast trúa honum eru kærastan hans Lisa og sjúkranuddarinn Stella, en það er ekki nóg. Hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að því að hann hafi verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.
Hér gengur bókstaflega allt upp til að skapa ómótstæðilegt og klassískt meistaraverk sem er eitt af bestu verkum meistara Hitchcock. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum ferils síns í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina hreinlega uppi, hann er á skjánum allan tímann. Er hreint út sagt frábært að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann hér vonda kallinn, en hann var helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason. Þessa mynd verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá. Það verður upphafið að góðum kynnum að sjá þessa.
Í dag birtist ítarlegur pistill eftir mig á íhald.is. Í honum fjalla ég um mál málanna í kosningabaráttunni sem framundan er í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar: skipulagsmálin. Fjalla ég þar um góðar tillögur sjálfstæðismanna, úrræðaleysi R-listans í málunum og mikilvægi þess að stefna í aðrar áttir. Undir lok pistilsins fjalla ég um málefni flugvallar í Vatnsmýrinni. Undanfarin ár hefur R-listinn boðað að hann eigi að fara. Á sama tíma vinnur borgarstjóri að því ásamt samgönguráðherra að samgöngumiðstöð í borginni sem gerir ráð fyrir nýrri flugstöð samhliða því. Samkomulag þessa efnis var undirritað fyrr á þessu ári, er fól í sér að gera úttekt á vellinum sem grunn að því að ákveða örlög hans. Eftir sem áður er stefnt að samgöngumiðstöðinni á Vatnsmýrarsvæðinu. Stefnir svo meirihluti borgarstjórnar að alþjóðlegri samkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar: án þess að vita hvort þar verði flugvöllur eður ei. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessu ferli. Merkilegt er að meirihluti borgarstjórnar geti ekki bara talað hreint út. Vill hann flugvöll áfram í Reykjavík eða ekki? Bendi á þennan pistil - endilega lesið hann!
Pólitíska stússið er að verða komið í sumarfrí hjá mér. Þó eru stöku sinnum pólitískir fundir og stúss sem þarf að sinna og væntanlega mun maður ræða pólitík í sumar þegar maður hittir félaga og vini á ferð um landið. Plönuð er vikuferð austur á firði í sumar og það verður gott að taka því rólega þar í nokkurn tíma. En seinustu dagana hef ég verið að lesa bækur, eins og venjulega myndi einhver segja. Hef verið að rifja upp kynni mín af Mýrinni. Það er alveg frábær bók, eitt af meistaraverkum Arnaldar Indriðasonar. Segir frá eldri manni sem finnst myrtur í íbúð sinni í Norðurmýri í Reykjavík. Þegar íbúð hans er rannsökuð kemur í ljós gömul ljósmynd í skrifborðsskúffu. Myndin leiðir lögregluna inn í liðna tíma í ævi hins látna - liðna tíma sem geyma gamla sögu, fjölskylduharmleik og glæp fyrir nokkrum áratugum. Þessi bók var það fyrsta sem ég las eftir Arnald fyrir nokkrum árum. Sökkti ég mér það í bókina að ég las hana upp til agna í einum rykk. Þessi bók er algjört meistaraverk. Hana verða allir að lesa, þeir lesendur mínir sem hafa ekki enn litið á hana: lesið hana. Þið hin: lesið hana aftur. Tær snilld. :)
Sumarið er loks komið hingað í Eyjafjörðinn. Sólin skín og tilveran er virkilega fögur á þessum degi. Hitinn er talsverður og margir úti að fá sér ís og sleikja sólina samhliða því. Það er vægast sagt kominn tími til að við fáum alvöru sumarblíðu. Vorið hefur verið frekar kalt og byrjun sumarsins verulega slæm. Hefur verið hálfgerður haustbragur á veðrinu seinustu vikur. Ekta gluggaveður eins og við segjum, smásól en kalt úti. En nú er sumar og sól. Spáð er um 20 stiga hita um helgina og því ástæða til að grilla og hafa það gott í góðra vina hópi og njóta góða veðursins hér fyrir norðan. Á þessum fallega degi er ekki hægt annað en að vera hress og bjartsýnn á framtíðina. Hafið það gott um helgina.
Saga dagsins
1940 Þjóðverjar hernema Noreg - Hákon konungur og öll konungsfjölskyldan var sett í stofufangelsi.
1967 Sex daga stríðinu í Miðausturlöndum lýkur formlega - Ísrael og Sýrland semja um vopnahlé.
1986 5000 króna seðill settur í umferð hérlendis - var prýddur með mynd af Ragnheiði Jónsdóttur.
2000 Hafez al-Assad forseti Sýrlands, deyr í Damaskus, 69 ára að aldri. Hann var forseti í tæpa þrjá áratugi, eða allt frá árinu 1971. Bashar al-Assad sonur hans tók við völdum í landinu við dauða hans.
2001 Konur fluttu í fyrsta skipti ávörp við sjómannadagshátíð í Reykjavík - sjávarútvegsráðherra og fulltrúum útgerðarmanna var ekki boðin þátttaka þá vegna lagasetningar á sjómenn skömmu áður
Saga morgundagsins
1928 Fyrsta áætlunarflugið milli Akureyrar og Reykjavíkur - flogið fyrst með sjóflugvélinni Súlunni, en hún tók fimm farþega. Var þá ekki annað hægt en að lenda á sjófletinum við bæinn. Flugvöllur reis við Akureyri loks árið 1952. Nú, 77 árum síðar, er flogið á milli Akureyrar og Reykjavíkur 7 sinnum á dag og sætaframboðið í flugferðunum er auðvitað allnokkuð ríflegra nú á okkar dögum en var 1928.
1935 Auður Auðuns lauk lögfræðiprófi fyrst íslenskra kvenna - Auður varð fyrst kvenna borgarstjóri í Reykjavík og ráðherra, einnig var Auður lengi borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.
1987 Margaret Thatcher leiðir breska Íhaldsflokkinn til þriðja kosningasigurs síns í þingkosningum í Bretlandi - hún var eini stjórnmálamaður Bretlands á 20. öld sem afrekaði að vinna þrjár kosningar í röð. Thatcher sat á valdastóli til nóvember 1990 og Íhaldsflokkurinn vann fjórðu kosningarnar 1992.
2001 Timothy McVeigh tekinn af lífi í alríkisfangelsinu í Terre Haute í Indiana - hann var dæmdur til dauða fyrir sprengjutilræðið við stjórnsýslubygginguna í Oklahoma í apríl 1995, þar sem margir fórust.
2004 Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, var jarðsunginn við tignarlega athöfn í dómkirkjunni í Washington. Um kvöldið var hann jarðsettur við sólsetur við forsetabókasafnið í Simi-dal í Kaliforníu.
Snjallyrðið
Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við.
Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymi, meðan lífs ég er.
Valdimar Hólm Hallstað skáld (Í fjarlægð)
<< Heim