Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 júní 2005

Punktar dagsins
Kristín Ingólfsdóttir

Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, tók í dag við embætti rektors Háskóla Íslands. Hún er fyrsta konan til að gegna embætti rektors skólans í 94 ára sögu hans. Hún sigraði Ágúst Einarsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild skólans, í rektorskjöri í skólanum í mars. Tekur Kristín við rektorsembættinu af forvera sínum í embætti, Páli Skúlasyni. Sigur Kristínar í mars var mjög sögulegur, úrslitin mörkuðu þáttaskil í sögu skólans. Það var óneitanlega sögulegt að kona hafi verið kjörin til forystu í skólanum og taki nú við forystu hans. Tekur Kristín við embættinu af Páli Skúlasyni á vissum kaflaskiptum í sögu hans. Nýtt og merkilegt umhverfi blasir við skólanum núna og það verður verkefni hennar að vinna að þeim þáttaskilum sem framundan eru að vissu leyti. Í kosningabaráttu sinni bauð hún sig fram sem fagmann á sínu sviði í starfi innan skólans og öflugan þátttakanda í innri uppbyggingu náms þar. Kristín bauð sig ekki fram á forsendum kyns, þrátt fyrir að vera fyrsta konan sem býður sig fram í forystu hans með þessum hætti. Öll hennar kosningabarátta var á forsendum þess að hún væri hæf til þess að leiða skólann og hefði reynslu fram að færa. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar og forystu á vettvangi skólans á komandi árum.

Annie Hall

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Annie Hall, hina stórfenglegu kvikmynd meistara Woody Allen. Er þetta frábær mynd, hiklaust ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Hér er nóg af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og miklum skilningi og ógleymanlegum húmor. Fjallar um stormasamt ástarsamband grínista og söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og snjallar athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Woody Allen. Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir leik sinn og myndin var valin besta kvikmynd ársins og Allen hlaut leikstjóraóskarinn. Klassísk kvikmynd sem verður sífellt meira meistaraverk með hverju áhorfi. Frábær mynd sem ég horfi reglulega á. Ávallt viðeigandi - alltaf ljúf.

Cheers (Staupasteinn)

Skjár 1 hefur undanfarnar vikur rifjað upp fyrir okkur kynnin af hinum stórkostlegu gamanþáttum Cheers sem eru með skemmtilegustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi seinustu áratugina. Þættirnir gengu undir nafninu Staupasteinn, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, þegar þeir voru sýndir á miðvikudagskvöldum hjá Ríkissjónvarpinu hér í denn, sællar minningar. Cheers voru með langlífustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi, en þeir gengu sleitulaust í heil 11 ár, eða frá 1982-1993. Leikhópurinn samanstóð af t.d. Ted Danson, Shelley Long, Kirstie Alley (sem kom inn í þættina við brotthvarf Long 1987), Nicholas Colasanto (er fór á kostum sem Coach fyrstu þrjú árin, en hann lést snögglega 1985), Rhea Perlman, John Ratzenberger, Woody Harrelson, George Wendt og Kelsey Grammer. Grammer fór á kostum í hlutverki sálfræðingsins Frasier Crane frá 1984, en fór svo í eigin þátt 1993 og var með þá allt til 2004, eða í heil 11 ár. Grammer lék því Frasier samfleytt í tvo áratugi. Voru Cheers þættir sem ég hafði gaman af til fjölda ára og horfði á, enda alveg magnaður húmor í þeim. Það er sönn ánægja að horfa á þættina, nú frá byrjun og horfa á þátt eftir þátt í seríu eftir seríu, öll 11 árin. Skjár 1 á þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Grafarþögn

Seinustu vikurnar hef ég verið að rifja upp kynni mín af spennusögum Arnaldar Indriðasonar. Undanfarið hef ég lesið aftur Bettý og Mýrina. Seinustu dagana hef ég verið að lesa að nýju Grafarþögn, sem að mínu mati er ein af allra bestu bókum Arnaldar. Í sögunni er sögð sagan af því er mannabein finnast í grunni nýbyggingar í útjaðri Reykjavíkur og líkur benda til að glæpur hafi verið framinn. Beinin virðast vera nokkurra áratuga gömul og sérfræðingar eru fengnir til að grafa þau upp en samtímis hefur lögreglan leit að fólki sem gæti vitað eitthvað um málið. Beinafundurinn leiðir þau Erlend, Sigurð Óla og Elínborgu, nokkra áratugi aftur í tímann til sögu af konu einni og fjölskyldu hennar. Hér kemur við sögu fjölskylduharmleikur á fyrri hluta 20. aldar og leyndardómar fortíðarinnar verða grafnir upp með beinafundinum. Lengst af er beinafundurinn erfitt púsluspil en að lokum skýrist myndin og verður heildstæð frásögn af liðnum tíma og gömlu máli sem er enn í nútímanum skuggamynd í huga þeirra sem vita sannleikann. Hvet ég alla til að lesa bókina, sem það hafa ekki gert nú þegar. Svo má enginn gleyma að lesa hinar bækur Arnaldar.

Fjarar undan leiðtogum :)

Tekið er að fjara mjög undan bresku leiðtogunum Blair og Howard. Ljóst er auðvitað að báðir eru á útleið í breskum stjórnmálum á kjörtímabilinu og leiða ekki flokka sína í næstu kosningum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru fljótir að teikna pólitíska stöðu þeirra með hnyttnum hætti. :)

Saga dagsins
1936 Gone with the Wind eftir Margaret Mitchell, gefin út - varð ein vinsælasta skáldsaga aldarinnar og varð uppistaðan í einni bestu kvikmynd aldarinnar, sem bar sama nafn og gerð var á árinu 1939.
1968 Dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, kjörinn forseti Íslands, með 67,3% greiddra atkvæða - hann sigraði mótframbjóðanda sinn, dr. Gunnar Thoroddsen sendiherra, með miklum yfirburðum.
1984 Skáldkonan Lillian Hellman, deyr, 79 ára að aldri - Lillian var án vafa ein fremsta skáldkona Bandaríkjanna á 20. öld. Meðal bestu ritverka hennar eru ritin Little Foxes og Watch on the Rhine.
1992 Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands, tekur sæti í bresku lávarðadeildinni.
2002 Brasilía vinnur heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu, eftir afgerandi sigur á Þjóðverjum í S-Kóreu.

Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal prófessor (1886-1974) (Ást)