Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 júlí 2005

Menning á listasumri á Akureyri
Akureyri á fögrum sumardegi

Fagurt og gott veður var hér á Akureyri á laugardaginn og ánægjulegt að eiga þá góðan dag í bænum á listasumri og kynna sér þann mikla fjölda spennandi menningarviðburða sem eru í bænum. Fékk ég góða gesti hingað til mín um helgina, vini mína, þá Gunnar Ragnar Jónsson og Þórð Vilberg Guðmundsson. Gafst okkur tími til að líta í bæinn, líta á menninguna, ræða saman og eiga góða stund saman og fara yfir marga hluti. Ekki var veðrið á laugardaginn slæmt og því notalegt að fara í bæinn og líta á menninguna. Sumarið hér fyrir norðan hefur verið kalt og votviðrasamt að undanförnu og því var veðrið á laugardaginn gleðiefni. Hinsvegar stóð sú sæla skammt enda rigndi eins og hellt væri úr fötu á sunnudeginum og í gær. Í dag er veðrið hinsvegar mun skárra. Ef marka má veðurspána stefnir í gott veður um helgina og gott grillveður og stemmningin ætti þá að vera enn betri en hefur jafnan verið í sumar. En á laugardaginn var gott veður og við notuðum það svo sannarlega á menningarröltinu um miðbæinn. Það er okkur menningarunnendum hér á Akureyri ánægjuefni að geta sýnt gestum okkar þessa miklu breidd í menningarlífinu okkar og það sem er í gangi.

Eins og ég sagði frá í bloggfærslu minni 24. mars sl. er gott að vera menningaráhugamaður á Akureyri enda er menningarflóran hér gríðarlega fjölbreytt. Listasumarið er hafið nú enn eitt árið og blómstrar allt af áhugaverðum menningarviðburðum, eins og jafnan áður. Fyrst fórum við í Listasafnið á opnun nýrrar sýningar þar. Er það sýning að nafni Skrýmsl, er fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um ófreskjur og kynjaverur af öllum gerðum í íslenskri myndlist. Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur, valdi verkin og er óhætt að segja að sýningin sé fjölbreytt og áhugaverð. Það er gaman að líta á hana og hvet ég þá sem til bæjarins koma að gera sér ferð á safnið og líta á sýninguna. Á sýningunni eru verk eftir 23 listamenn, en þeir eru t.d. Alfreð Flóki, Ásgrímur Jónsson, Ásmundur Sveinsson, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Dunganon, Erró, Finnbogi Pétursson, Gabríela Friðriksdóttir, Gunnar Örn Gunnarsson, Hulda Hákon, Jón Gunnar Árnason, Kristín Gunnlaugsdóttir, Magnús Kjartansson, Magnús Tómasson, Margrét Jónsdóttir, Ólöf Nordal, Sigurjón Ólafsson, Valgerður Guðlaugsdóttir og Þorri Hringsson. Var ánægjulegt að fara á opnunina og ræða þar við vini og kunningja.

Eftir það litum við í Ketilhúsið, sem er rétt fyrir neðan Listasafnið í Listagilinu okkar á Akureyri. Þar var hægt að kynnast kínverskri list og menningu. Unnur Guðjónsdóttir sá um sýninguna og þar var hægt að falla inn í hugarheim Kínverja, menningarlíf þeirra og síðast en ekki síst kynnast kínverskum veigum. Var þar boðið upp á kínverskt hvítvín og rauðvín og bjór. Ég verð nú reyndar að viðurkenna alveg fúslega fyrir þér lesandi góður að ég hef smakkað betri borðvín á minni ævi en þau kínversku en það var áhugavert að fá smakk þarna. Bjórinn kínverski var allnokkuð sterkur, svo ekki sé nú meira sagt, en hann var á milli 7 og 8%. Þó hann væri sterkur virkaði hann þó frekar lítt spennandi. Það er því seint hægt að segja að kínversk vín séu betri, en áhugavert var að kynnast þeim. Þarna voru sýndar kínverskar myndir, kínverskur klæðnaður, kínverskar landslagsmyndir og kínversk tónlist ómaði um salinn. Unnur er þekkt fyrir ferðaklúbb sinn og miðlaði hún svo sannarlega kínverskri menningu og kínversku samfélagi til okkar sem litum í Ketilhúsið. Það var ánægjulegt að fara þar inn og líta á sýninguna.

Sveinbjörg Hallgrímsdóttir

Að því loknu héldum við í galleríið Svartfugl og hvítspói að Brekkugötu 3a. Þekki ég vel Brekkugötuna og andrúmsloftið þar, enda bjuggu Hanna Stefánsdóttir amma mín, og Anton Kristjánsson eiginmaður hennar og stjúpafi minn, í Brekkugötu 9 til fjölda ára, og Anton afi var þar í mörg ár með raftækjaverslun á neðstu hæðinni, en þau bjuggu á annarri hæðinni. Það eru því margar minningar tengdar Brekkugötunni í bernsku minni og reyndar fannst mér ánægjulegast að sjá það út um gluggann á galleríinu að garðurinn í Brekkugötunni heldur sér og hugsað er um hann. Amma og vinkona hennar sem einnig bjó í húsinu ræktuðu þar glæsilegan garð, og þó 16 ár séu nú liðin síðan amma flutti í Víðilundinn, eftir andlát Antons afa, er garðurinn enn glæsilegur. En já það var ánægjulegt að líta í galleríið. Þar var sýning Sveinbjargar Hallgrímsdóttur á tréristum sínum. Lengi hef ég dáðst að list Sveinbjargar. Í verkum hennar er næm og notaleg tilfinning ríkjandi og ennfremur skín í gegnum verkin fagur og tær tónn sem er allsráðandi. Það er virkilega ánægjulegt að líta á þessi verk sem eru á sýningu hennar í galleríinu sem hún á sjálf.

Sveinbjörg var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2004 og vann af krafti það ár sem hún var bæjarlistamaður. Á sýningunni á laugardag afhenti hún bæjarstjóra verk sitt, Blær. Verður það til sýnis á bæjarskrifstofu Akureyrarbæjar í Ráðhúsinu og er gjöf hennar til bæjarins. Það verk er stórfenglegt, í einu orði sagt. Var mjög ánægjulegt að fara í galleríið og ræða við Sveinbjörgu og móður hennar, sem sjálf er listakona. Fórum við yfir marga merkilega hluti. Þekki ég vel Elínu Margréti, systur Sveinbjargar, enda höfum við verið lengi saman í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri og tekið saman þátt í starfi jafnréttis- og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar. En það er svo sannarlega við hæfi að hvetja alla listunnendur til að líta í galleríið Svartfugl og hvítspóa og kynna sér verk Sveinbjargar og listaverk hennar. Það er mikil upplifun, þægileg upplifun að fara þangað og kynna sér notaleg verk hennar. Ennfremur er gleðiefni að sjá hversu vel henni gengur í listsköpun sinni og hefur fengið mikla athygli, verðskuldaða athygli, erlendis frá fyrir verk sín.

Deiglan

Á sjötta tímanum á laugardag fórum við í Deigluna. Þar voru tónleikar Kristjáns Péturs Sigurðssonar er bar hið skondna heiti: "tónfræði fyrir að(fram)komna". Kristján Pétur hefur sérstakan stíl og framkomu, sem jafnan er gaman af. Þessir tónleikar voru virkilega góðir og áhugaverðir. Tók hann þar fjölda góðra laga, einkum eftir meistara Tom Waits. Var mild og notaleg stemmning allsráðandi yfir tónleikunum. Sérstaklega þótti mér mikið til lokalaganna koma og tilfinninganæms flutnings Kristjáns Péturs á þeim. Mjög gaman af þessum tónleikum og gaman að hlusta á sönginn og slappa af yfir notalegum tónum. Eftir þetta héldum í galleríið til Jónasar Viðars hinumegin við götuna og litum á verk hans og gestasýninguna "Undir Hannesi". Eftir þetta listarölt héldum við á Bautann, norðlenskasta matsölustað heimsins og fengum okkur góðan mat. Þetta var því ánægjulegur dagur í bænum og gaman að kynna sér alvöru menningarbrag norðan heiða.

Saga dagsins
1080 Ísleifur Gissurarson, fyrsti biskupinn yfir Íslandi, lést - Ísleifur hafði verið biskup í tæp 24 ár.
1851 Þjóðfundurinn var settur í Lærða skólanum í Reykjavík (nú MR) - fundurinn stóð tæpan mánuð.
1954 BBC býður í fyrsta skipti upp á kvöldfréttatíma í bresku sjónvarpi - þáttaskil í fréttamennsku.
1983 George Bush þáv. varaforseti Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands. Bush sat
á stóli forseta Bandaríkjanna í eitt kjörtímabil, 1989-1993. Elsti sonur hans George varð forseti 2001.
1993 Jóhanna Sigurðardóttir segir af sér varaformennsku í Alþýðuflokknum - þetta varð upphaf að harðvítugum valdaátökum sem enduðu með klofningi flokksins og afsögn Jóhönnu af ráðherrastóli.

Snjallyrðið
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og loga.

Þú þenur út seglin og byrðingin ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi um foldina fer,
þá finn ég að þrótturinn eflist í mér.
ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig máttur, sem þokuna leysir.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Stormur)